laugardagur, 29. ágúst 2009

Framboð og breytingar

Það eru að verða þónokkrar breytingar á mínum högum þessa dagana.

Ég er að hætta í starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa verið í því starfi í tvö ár. Ég færi mig um set yfir í lögmennskuna og mun starfa á JS-lögmönnum sem fór af stað fyrr á árinu.

Ég hef einnig ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í Heimdalli en aðalfundur félagsins verður á miðvikudaginn næsta. Með mér býður sig fram öflugur hópur í stjórn félagsins.

Mig langar til þess að Heimdallur tali skýrri röddu fyrir hugsjónum frelsis og framtaks, sérstaklega á þessum tímum þegar meirihlutinn af fyrirtækjum landsins eru í ríkisgjörgæslu, svartsýni er farin að skjóta rótum og það þarf á köflum mikinn vilja til þess að sjá von í stöðunni.

Félag eins og Heimdallur á að minna nú sem aldrei fyrr á gildi þess að frjálst framtak og athafnasemi einstaklinganna er okkar leið út úr vandanum. Það má ekki gerast að vonbrigðin og reiðin yfir ástandinu verði viljanum til þess að vinna sig út úr því yfirsterkari.