miðvikudagur, 2. september 2009

Frelsishugsjónin á erindi við ungt fólk í dag

Mikil áskorun bíður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á komandi vetri. Ekki er nóg með að félagið þurfi að standa áfram fyrir kröftugu innra starfi heldur bíður þess líka það verkefni að ná til ungs fólks og sannfæra það um gildi sjálfstæðisstefnunnar.

Skoðanakannanir hafa bent til þess undanfarið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst traust hjá hluta yngstu kjósenda sinna í kjölfar þeirra efnahagslegu hamfara sem gengið hafa yfir þjóðina. Þessa stöðu þarf að taka alvarlega og flokkurinn verður að gera sig að skýrum valkosti fyrir ungt fólk.

Heimdallur á að láta í sér heyra þegar flokkurinn er kominn út af sporinu og halda gildum ungra sjálfstæðismanna hátt á lofti.

Nú þegar stór hluti atvinnulífsins er fallinn í hendur ríkisins og aðstæður eru almennt erfiðar er nauðsynlegt að rödd frelsis og frjáls framtaks heyrist með skýrum hætti. Það er mikið á sig leggjandi til að ríkjandi ástand festi sig ekki í sessi til frambúðar.

Samstaða ungs fólks
Sjálfstæðismenn geta auðvitað ekki hlaupist undan ábyrgð af störfum sínum í ríkisstjórn um langa hríð. En við stöndum enn fyrir það markmið og þá meginhugsjón að frelsið eigi að vera leiðarljósið í samfélaginu. Nú sem aldrei fyrr er ástæða til að hampa sköpunarkraftinum sem býr í hverjum einasta manni og þeim dugnaði og krafti sem drífur samfélagið áfram. Það er með samheldni sem við komumst á lappirnar og með því að ungt fólk sameinist um að leysa kraft og frumkvæði einstaklingsins úr læðingi.

Kröftugt aðhald og eftirfylgni
Verkefni Heimdallar á komandi vetri er að standa vörð um þessi gildi. Það gerum við með því að veita ríkjandi öflum í þjóðfélaginu aðhald. Það býst enginn við að stjórnmálamenn muni leysa þann vanda sem steðjar að Íslandi, en þeir verða að búa hverjum og einum umhverfi til að leggja sitt af mörkum og því verður Heimdallur að fylgja eftir.

Því miður hefur skort á að sitjandi ríkisstjórn bjóði upp á þær lausnir og von sem beðið er eftir. Það er meðal annars vegna þess að flokkarnir sem standa að stjórninni aðhyllast lausnir sem byggja á því að stjórnvöld hafi svörin frekar en einstaklingarnir. Gegn slíkri hugusn verðum við að berjast með ráðum og dáð.

Sterkur hópur
Ég býð mig fram til að gegna starfi formanns Heimdallar á næsta starfsári. Með mér er öflugur hópur sem gefur kost á sér í stjórn og hefur víðtæka reynslu af félagsstörfum. Við erum staðráðin í því að gera starf félagsins öflugt og gera flokkinn að álitlegum kosti á þeim kosningavetri sem nú fer í hönd.

Kosið verður í Valhöll milli klukkan 20 og 22 í kvöld og ég hvet alla félagsmenn til að mæta og taka þátt í kosningunni og veita nýrri stjórn og forystu skýrt umboð.

þriðjudagur, 1. september 2009

Fleygt út af Facebook

"Account Disabled

Your account has been disabled. If you have any questions or concerns, you can visit our FAQ page here."

Þessi skilaboð birtust seint í gærkvöldi þegar ég ætlaði að skrá mig inn á Facebook.

Aðgangurinn minn þar hefur greinilega verið eyðilagður, ég kemst ekki með neinu móti inn á síðuna mína og þegar vinir mínir slá mér upp þá kemur engin síða. Á síðunni hjá kærustunni minni er hún ekki lengur skráð í sambandi við mig osfrv. Það er eins og ég hafi gufað upp af Facebook!

Áður en þetta gerist fæ ég engar viðvaranir eða skilaboð um að slíkt kunni að vera í vændum, heldur er aðgangurinn minn einfaldlega eyðilagður.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig á þessu stendur. Mér skilst þó að það þurfi ekki meira til en að einhverjir örfáir taki sig til og smelli á hnapp á viðkomandi síðu sem heitir "report" til þess að manni sé hent út og síðunni eytt. Það er ekkert útskýrt hvaða reglur maður á að hafa brotið eða hver hafi metið það sem svo að slíkt brot hafi átt sér stað, heldur er manni einfaldlega sparkað út. Ég hef heyrt um nokkur svipuð dæmi hjá fólki þar sem aðganginum var skyndilega eytt og það eina sem var í boði var að senda tölvupóst á staðlað netfang hjá Facebook sem er svarað seint og síðar meir.

Maður hefur vanið sig á að nota Facebook mikið, þarna fara fram samskipti við vini og kunningja sem maður hefur safnað yfir langan tíma, þarna er yfirlit um viðburði sem eru framundan, þarna eru allskonar myndir og minningar og þarna skiptist maður á skilaboðum og athugasemdum við fólk. Í ofanálag þá er ég sjálfur í miðri kosningabaráttu þessa dagana og nota síðuna því töluvert mikið núna þannig að það er með ólíkindum að lenda í þessu á nákvæmlega á þessum tímapunkti.

Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, þetta ósanngjarna og óréttláta kerfi hjá Facebook, þar sem notendum er hent út án nokkurs fyrirvara og aðganginum eytt, eða að einhverjir nýti sér þennan galla í kerfinu og geri sér það að leik að senda inn kærur til þess að láta henda fólki út. Ég tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta hefur gerst eða hver hafi staðið á bak við það en ég ætla þó að reyna að komast að því.

Ég verð því lítt sýnilegur á Facebook næstu dagana - enda svo sem í nógu að snúast í kosningabaráttunni fyrir Heimdall!