Það kvað við kunnuglegan tón í eldhúsdagsumræðum Alþingis um að nú yrði að fara að bjarga fjölskyldunum og heimilunum í landinu. Sá mikli fjöldi sem mætti og mótmælti á Austurvelli á meðan sýndi vel að almenningur er ekki þeirrar skoðunar að hinar marglofuðu aðgerðir Alþingis hafi skilað nægilegum árangri. Engu að síður hefur það verið óumdeilt meðal allra flokka allt frá því að hrunið varð að aðgerðir til að létta á skuldavanda ættu að vera forgangsverkefni.
550 manns á 18 mánuðum
Fram kom á dögunum að alls hafi um 550 manns lokið nauðasamningi til greiðsluaðlögunar frá því að farið var að bjóða upp á úrræðið 1. apríl í fyrra. Þetta jafngildir því að einn skuldari á dag að meðaltali hafi fengið nauðasamning frá því að fyrst var boðið upp á þetta úrræði. Með sama áframhaldi verða um 1000 manns búnir að fá aðstoð í byrjun árs 2012.
Öllum er ljóst - ráðherrar, fjármálastofnanir og aðrir andmæla því ekki lengur - að þetta er ekki í samræmi við það sem að var stefnt. En hvers vegna er þessi mikla fyrirstaða í kerfinu og af hverju þessi hægagangur?
Flækjustig í kerfinu
Þar að baki eru nokkrar ástæður sem má í stuttu máli útskýra þannig að greiðsluaðlögunarferlið er flókið og hefur verið alltof seinvirkt. Burtséð frá gagnasöfnun og því að móta tillögu um samning og fá hann afgreiddan er ýmiss konar flækjustig í ferlinu. Til að byrja með þarf að meta hvort sá sem sækir um eigi rétt á úrræðinu. Við það mat kveða lög um greiðsluaðlögun á um að horfa eigi til þess hvort skuldari hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar hann stofnaði til skulda og hvort hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til hennar var stofnað. Ef þessi skilyrði eiga við á viðkomandi ekki rétt á greiðsluaðlögun og er hafnað.
Mikil orka fer í að meta þetta í hverju og einu tilfelli, safna þarf gögnum um greiðslusögu í hverju og einu láni viðkomandi skuldara og meta hvernig mánaðarleg greiðslubyrði þróaðist. Einhverjir "falla" á þessu prófi, en aðrir sleppa í gegn og fá heimild til greiðsluaðlögunar. Aðalatriðið er að þetta tekur mikinn tíma.
Fáliðað framan af
Möguleikar kerfisins á að afgreiða hinn mikla fjölda greiðsluaðlögunarmála hafa verið takmarkaðir. Til að byrja með þurfti að sækja um til héraðsdómstóla en í Reykjavík og á Reykjanesi, fjölmennustu svæðunum, var lengst af aðeins einn aðstoðarmaður dómara með þennan málaflokk á sinni könnu og hafði það verkefni að yfirfara þessi mál. Eðlilega myndaðist löng biðröð og afgreiðslufrestur lengdist. Þegar ný lög um umboðsmann skuldara tóku gildi í ágúst á þessu ári var biðin eftir niðurstöðu héraðsdóms að jafnaði 5-6 mánuðir.
Hafa þarf í huga að engin sérstök réttaráhrif fylgja því að beiðnin er lögð fram heldur er það fyrst þegar úrskurðurinn gengur að fólk kemst í skjól. Einnig má ekki gleyma því að það hefur allajafna tekið fólk þónokkurn tíma að fullklára umsókn áður en hún fór inn til dómstólsins þannig að tíminn frá því að greiðsluerfiðleikar hefjast og þar til niðurstaða fæst er í mörgum tilfellum 9-12 mánuðir. Sem úrræði fyrir þann stóra fjölda sem er í erfiðleikum er augljóslega óásættanlegt að biðtíminn sé svona langur.
Embætti umboðsmanns skuldara hefur nú tekið yfir þetta hlutverk og er þar unnið hörðum höndum að því að stytta biðtímann en listinn er langur. Samkvæmt nýlegri frétt frá embættinu er 8 vikna bið eftir viðtali og mörg hundruð mál bíða hjá embættinu.
Of miklar væntingar
Vandinn sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er sá að trekk í trekk hafa fólki verið gefnar miklar væntingar um að skuldavandinn yrði leystur. Þessar væntingar hafa brugðist, að miklu leyti vegna hægagangs í kerfinu en að sumu leyti vegna þess að þær voru óraunhæfar. Illa hefur t.d. gengið að koma málefnum ábyrgðarmanna skuldara í skjól og hafa dómstólar slegið á putta Alþingis og talið lagaákvæði þess efnis ganga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Eins og staðan er núna eru allar líkur á því að ábyrgðarmenn þurfi að sitja eftir með sárt ennið þar sem skuldari í greiðsluaðlögun getur ekki og má ekki greiða viðkomandi skuld að öllu leyti.
Sú staða dregur úr mörgum að leita úrræða í sínum eigin málum.
Þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að taka skuldavanda heimilanna föstum tökum er ýmsum spurningum ósvarað. Ef þetta á að vera víðtækt og skilvirkt úrræði fyrir stóran fjölda, hvers vegna eru matskennd ákvæði um að hafna þeim sem tóku of mikla áhættu eða höguðu fjármálum sínum með ámælisverðum hætti? Hve hratt er yfirhöfuð hægt að vinna þessi mál og hve lengi er hægt að fresta nauðungarsölum fasteigna? Hve langt má ganga gagnvart eignarrétti fjármálastofnana og hve miklar afskriftir má ætla að fjármálastofnanir þoli að taka á sig? Þetta eru lykilspurningar upp á framhaldið.
*Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 11. október
þriðjudagur, 12. október 2010
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)