þriðjudagur, 29. júlí 2008

Pópúlismi í talsmanninum

Hugmyndir Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, um að afnema verðtryggingu hér á landi eru pópúlismi. Gísli ætti að vita að verðtrygging er samningsatriði, þ.e. fólk hefur val um að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán og það sem meira er að rannsóknir hafa sýnt að verðtryggð lánakjör skila neytendum oft betri kjörum.

Allir lánasamningar verða að taka mið af verðbólguþróun. Verðtryggð lán hafa lægri og yfirleitt fasta vexti því verðtryggingin veitir lántakanum tryggingu fyrir verðbólguhækkunum. Óverðtryggð lán hafa aftur á móti hærri og breytilega vexti til þess að koma til móts verðbólguna.

Það sem meira er þá hafa rannsóknir fræðimanna á þessu sviði sýnt að verðtryggð lán bera lægri raunvexti heldur en óverðtryggð lán. Hagur neytenda af því að afnema verðtryggingu, sem væri væntanlega gert með því að banna hana með lögum, er því alls ekki augljós. Þessu þarf Gísli að velta fyrir sér sem hagsmunaaðili neytenda. Hann gæti líka glöggvað sig á málinu með því að lesa greinar sem hafa verið skrifaðar um þessi mál á Deigluna (hér og hér). Svo tók Vefritið sig til fyrir nokkru síðan og birti stórgóðan greinaflokk um verðtryggingu.

Össur gagnrýnir eigin aðferðir
Össur Skarphéðinsson skrifar um stöðu mála í borginni og líkir stöðu Ólafs F. Magnússonar við það þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Hann segir að
á sínum tíma hafi það verið „í andstöðu við lýðræðislega tilfinningu þjóðarinnar þegar Halldór Ásgrímsson var með hrossakaupum leiddur til æðstu valda í ríkisstjórninni. Hann var forystumaður dvínandi flokks, og naut í könnunum ekki nema fylgi örlítils hluta þjóðarinnar.“

Er þetta ekki skrifað af sama manni og var formaður Samfylkingarinnar árið 2003 og bauð Halldóri Ásgrímssyni að gerast forsætisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins að loknum kosningum?

sunnudagur, 27. júlí 2008

Orðskrípið matvælaöryggi

Ég hef aldrei almennilega skilið hugtakið matvælaöryggi sem forysta bændasamtakanna talar sífellt um og forseti Íslands reyndar líka. Matvælaöryggi virðist ganga út á háa tolla og mikinn stuðning við innlenda framleiðslu. Tollar og innlendur stuðningur þýðir hins vegar hærra verð á matvælum og landbúnaðarafurðum hér heima og það má velta því fyrir sér hvernig hátt verð tryggi meira öryggi? Væri það ekki frekar með lágu verði sem slíkt öryggi yrði tryggt? Auðvitað er þetta bara fyrirsláttur hjá þeim sem vilja helst engar breytingar gera.

Svo má spyrja sig að því hvort svona öryggissjónarmið eigi við á fleiri sviðum. Hvað með t.d. samgönguöryggi? Ættum við ekki samkvæmt þessum rökum að framleiða bifreiðar og eldsneyti hér heima til að vera alveg örugg ef eitthvað kæmi upp á? Við erum í dag algerlega háð útlendingum á þessu sviði varðandi innflutning á bílum og eldsneyti. Að vísu eru engar forsendur fyrir því að slík framleiðsla stæði undir sér hér á landi en það hlyti að vera hægt að brúa það bil með tollum og innlendum stuðningi.

Það er löngu orðið tímabært að stokka upp styrkjakerfið í landbúnaði. Ef það næst lending í Doha-viðræðunum, eins og einhverjar vísbendingar eru um núna, þá er það gott mál. Þrátt fyrir að það sé augljóst að gera eigi breytingar á þessu kerfi og mörgum þætti eðlilegast að við Íslendingar gerðum slíkt einhliða, þá er trúlega besta leiðin til að ná sátt um svona breytingar að gera þær á heimsvísu þannig að öll lönd taki á sig ákveðnar byrðar og uppskeri líka á móti í lægra matvælaverði.

laugardagur, 26. júlí 2008

Samsæriskenningar Merrill Lynch

Allir virðast vera með sín eigin svör og kenningar um hvað eigi að gera til að bjarga atvinnulífinu, efnahagsmálunum og bönkunum. Richard Thomas, talsmaður fjárfestingabankans Merrill Lynch, telur að íslensk stjórnvöld séu að vinna eftir einhvers konar samsærisplani um að bankarnir fari í þrot til þess að unnt verði að þjóðnýta þá - aðeins nokkrum árum eftir að bankarnir voru einkavæddir!

Thomas þessi telur að íslensk stjórnvöld hafi ekkert gert fyrir bankana og dregur þessar vafasömu ályktanir af því. Það er auðvitað ekki rétt að ekkert hafi verið gert, því nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. En talsmenn Merrill Lynch eru að hugsa á allt öðrum nótum og í öðrum stærðum. Í vor lagði þetta fyrirtæki til að ríkið myndi "bjarga" málunum með því að kaupa skuldabréf bankanna á eftirmarkaði næstu þrjú árin, en sú aðgerð var verðlögð á nærri því 3000 milljarða króna.

Aðrir setja eðlilega spurningamerki við þann pilsfaldakapítalisma að ríkið (= íslenskir skattgreiðendur) eigi að bjarga einkafyrirtækjum, sem undanfarin ár hafa tekið áhættu í sínum rekstri og skilað miklum hagnaði.

Enn aðrir telja slík viðhorf aftur á móti vera til marks um öfgahægrikreddur og ofurtrú á markaðinn. Það er vandlifað!

Þrátt fyrir þetta verður ríkisstjórnin að vega og meta hvað er í boði og gera það sem hægt er. Slíkar aðgerðir verður alltaf hægt að gagnrýna fyrir að vera of mikið inngrip eða að ganga of skammt. En það er í öllu falli út í bláinn að halda því fram eins og greinandi Merrill Lynch gerir að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt og sé í þokkabót með einhvers konar plott í gangi um að þjóðnýta bankana.

Á vegum stjórnvalda hefur margt verið gert á stuttum tíma til að styrkja stöðuna. Samningar voru gerðir við norræna seðlabanka um lánalínur upp á um 175 milljarða. Þá kynnti ríkisstjórnin aðgerðir á lána-, gjaldeyris- og fasteignamarkaði í júní sem höfðu meðal annars þann tilgang að tryggja að fasteignamarkaðurinn myndi ekki fara í frost. Nú hefur komið fram af hálfu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að þessar aðgerðir samhliða niðurfellingu stimpilgjalda af lánum út af kaupum á fyrstu íbúð hafi haft jákvæð áhrif og markaðurinn tekið eitthvað við sér. Það má heldur ekki gleyma því að skattar á fyrirtæki hafa lækkað úr 18% í 15%. En auðvitað er róðurinn þungur hér á landi eins og annarrs staðar. Íslenskum fyrirtækjum er þó vel treystandi til að sigla í gegnum þetta tímabil og gera réttar ráðstafanir í sínum rekstri.

sunnudagur, 20. júlí 2008

Flensa um mitt sumar

Ég hlýt að vera að gjalda fyrir einhverjar gamlar syndir núna. Um mitt sumar, í frábæru veðri og algerri sumarblíðu tókst mér að fá flensu. Hvernig er þetta hægt? Ég hélt að veikindi gerðu bara vart við sig um miðjan vetur í skammdeginu þegar maður getur legið heima og horfa á DVD á meðan aðrir festast í sköflum og slappi. En ekki um mitt sumar...

Eftir að hafa legið í bælinu í þrjá daga (og er enn frekar slappur) fór ég út áðan út á Eiðistorg til að kaupa í kvöldmatinn. Ákvað að klæða mig vel, fór í frakka og var með húfu, til að mér yrði örugglega ekki kalt. Þetta var hrikalegt. Ég sá ekkert nema fólk í stuttum sumarbuxum og söndulum með peysurnar yfir axlirnar á leið í ríkið til að kaupa sér vínflösku fyrir kvöldið. Allir svo hamingjusamir. Ég ímyndaði mér að þetta fólk hlyti að vera á leiðinni að grilla með vinum sínum, sennilega á einhverri strönd.

Ég var svo mikið út úr kú miðað við hina að öryggisvörðurinn við vínbúðina var farinn að gefa mér hornauga. Órakaður maður í svörtum frakka og með dökka húfu ofan í augu á heitasta degi sumarins - ég skildi hann vel.

laugardagur, 19. júlí 2008

Gamlar skoðanir eru ekki endilega slæmar

Þetta Eyjublogg verður þriðja stoppið á frekar stuttri bloggævi Ég var fyrst á Blogspot og svo á Moggablogginu en nú er ég kominn hingað.

Stundum hef ég velt því fyrir mér hvað verði um allt þetta flóð af ritmáli sem sett er á Netið. Væntanlega er þetta allt saman til í einhverjum gagnagrunnum og risatölvum en fæstir hugsa um að flokka eða halda upp á eigin skrif. Fólk skiptir um bloggsíður reglulega og margt af því sem skrifað hefur verið hverfur yfir einhvers konar rafræna móðu.

Einstaka menn halda þó nákvæmar skrár yfir það sem þeir hafa sagt á prenti eða vefnum langt aftur. Dagbækur, greinar og ræður Björns Bjarnasonar eru aðgengilegar á vefnum aftur til 1995 og Jónas Kristjánsson, ritstjóri, hefur sett inn allt það sem hann hefur skrifað, þ.e. leiðara, gagnrýni, pistla og fleira, allt aftur til ársins 1973. Jónas bloggar af mikilli elju í dag og lýsti því t.d. yfir um daginn að hann teldi það heilbrigt að skipta um skoðun á nokkurra ára fresti. Því er stundum lýst sem mikilli höfuðsynd hér á landi í umræðum og skrifum að hafa skipt um skoðun. En það gerist auðvitað stundum. Kannski væri réttara að lýsa þessu þannig að með tímanum fái önnur sjónarmið meira vægi, þó gömlu sjónarmiðin séu ekki endilega röng.

Ég fann á vefnum hjá Jónasi leiðara sem hann skrifaði í DV um þær mundir sem Ísland var að velta fyrir sér EES-samningnum, í október 1991:

„Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.“

Í desember sama ár skrifar hann:

„Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag. Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.“

Aftur á móti skrifar Jónas fyrir nokkrum dögum, í júlí 2008, að aðild að Evrópusambandinu sé stóri draumurinn.

„Þá verðum við komin með lága vexti, traustan gjaldmiðil og nánast enga verðbólgu.“

Ég er sammála báðum. Þetta eru annars vegar hugmyndir um að við Íslendingar verðum að gæta þess að hverfa ekki inn í evrópska stjórnkerfið og hins vegar krafa um aðgang að stærra myntsvæði. Þetta þarf ekki að útiloka hvort annað. Við gætum farið fram á samstarf við ESB um gjaldmiðilinn, sem gæti t.d. falist í að tengja gengi krónunnar við evruna, ef menn vilja gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi peningamála.

Sumir halda því fram að svona samkomulag gæti aldrei orðið og að engum detti í hug að reyna að byggja á EES-samningnum. Atli Harðarson vísar á bloggsíðu sinni í athyglisverða könnun frá Bretlandi þar sem einmitt hið gagnstæða kemur fram, þ.e. að meirihluti Breta hafi áhuga á Evrópusambandi sem byggðist fyrst og fremst á viðskiptum og samvinnu. Það er einmitt grundvallarhugsunin í EES.

föstudagur, 18. júlí 2008

ESB-lýðræðið og gjaldmiðillinn

Írska þjóðin virðist standa í þeirri trú að hún hafi hafnað Lissabon-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði, þar sem 53% sögðu nei og 47% já. Það er eins og Írar átti sig ekki alveg á því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur innan ESB ganga fyrir sig. Þær eiga bara að fara á ákveðinn hátt, eins og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti og forseti ráðherraráðsins næsta hálfa árið, hefur nú boðað. Hann tilkynnti nýlega að írska þjóðin muni kjósa aftur um sáttmálann, enda fór fyrri atkvæðagreiðslan ekki eins og ætlast var til.

Þetta þarf kannski ekki að koma alveg á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið. Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í kosningu árið 2005. ESB-forystan ákvað þá að setja stjórnarskrána í nýjan búning og kalla hana Lissabon-sáttmálann. Írar felldu sáttmálann en það á greinilega að koma honum í gegn sama hvað tautar og raular. Þetta er hið lýðræðislega Evrópusamband.

Það er mikil umræða hér heima um Evrópu og aðild Íslands. Hún byggir þó nánast eingöngu á óskum um breytingar í gjaldmiðlamálum og tengist þeirri stöðu sem er uppi í efnahagsmálunum. Nú nýlega hafa komið fram raunhæfar og skynsamar lausnir um gjaldmiðilinn, sem t.d. Björn Bjarnason, Þórlindur Kjartansson og Stefán Már Stefánsson, prófessor, hafa talað fyrir. Með þeim er bætt við nýjum valkosti ef farið verður út í að gera breytingar á gjaldmiðlamálum hér á landi. Þær ganga út á aukið samstarf við Evrópusambandið með því að tengja gengi krónunnar við gengi evru, með aðild að ERM II-myntkerfinu.

Þessar tillögur hafa víða fengið heldur harkaleg viðbrögð, t.d. hefur verið talað um villuljós og reyksprengjur. Mér sýnist þó að viðbrögðin einkennist af þeim grundvallarmisskilningi að verið sé að tala um einhliða upptöku evru. Það er ekki rétt með farið heldur er verið að tala um tengingu krónunnar við gengi evrunnar. Á þessu er talsverður munur. Tenging við evruna og samningur um stuðning evrópska Seðlabankans felur í sér að við höldum krónunni sem gjaldmiðli. Því er engin einhliða upptaka eða aukaaðild að evrunni í spilunum. Þetta væri markviss lausn. Hún er ólík því að breyta um gjaldmiðil með fullri aðild að ESB. Spurningin um aðild yrði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti vel endað þannig að aðild yrði felld. Þá yrðum við aftur á byrjunarreit nema að nokkur ár væru liðin.