Ég hlýt að vera að gjalda fyrir einhverjar gamlar syndir núna. Um mitt sumar, í frábæru veðri og algerri sumarblíðu tókst mér að fá flensu. Hvernig er þetta hægt? Ég hélt að veikindi gerðu bara vart við sig um miðjan vetur í skammdeginu þegar maður getur legið heima og horfa á DVD á meðan aðrir festast í sköflum og slappi. En ekki um mitt sumar...
Eftir að hafa legið í bælinu í þrjá daga (og er enn frekar slappur) fór ég út áðan út á Eiðistorg til að kaupa í kvöldmatinn. Ákvað að klæða mig vel, fór í frakka og var með húfu, til að mér yrði örugglega ekki kalt. Þetta var hrikalegt. Ég sá ekkert nema fólk í stuttum sumarbuxum og söndulum með peysurnar yfir axlirnar á leið í ríkið til að kaupa sér vínflösku fyrir kvöldið. Allir svo hamingjusamir. Ég ímyndaði mér að þetta fólk hlyti að vera á leiðinni að grilla með vinum sínum, sennilega á einhverri strönd.
Ég var svo mikið út úr kú miðað við hina að öryggisvörðurinn við vínbúðina var farinn að gefa mér hornauga. Órakaður maður í svörtum frakka og með dökka húfu ofan í augu á heitasta degi sumarins - ég skildi hann vel.
sunnudagur, 20. júlí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli