mánudagur, 18. ágúst 2008

Hjátrúin er sterk

Ég tel mig verða að horfa á landsleikinn við Egypta í nótt. Ég náði ekki að horfa á fyrsta leikinn gegn Rússum, sem við unnum. Ég náði ekki heldur leiknum við Þjóðverjana sem vannst einnig og í kjölfarið taldi ég mér trú um að í því fælist ákveðin heppni fyrir landsliðið að ég horfði ekki á leikina.

Þessi stefna mín beið mikið skipbrot í leiknum gegn S-Kóreumönnum, sem ég horfði að sjálfsögðu ekki á og taldi okkar menn nokkuð vísa með sigur. Hið ótrúlega gerðist aftur á móti að við töpuðum. Nú var ég orðinn hálfringlaður og endaði með því að horfa á lokakaflann gegn Dönum - sem endaði með jafntefli!

Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að möguleikar Ísland aukist töluvert ef ég horfi á leikinn við Egypta. Mun að sama skapi að sjálfsögðu taka á mig tapið ef illa fer.

laugardagur, 16. ágúst 2008

Nýr meirihluti og atburðir síðustu daga og mánaða

Nýi meirihlutinn í borginni hefur eðlilega verið mál málanna síðustu daga. Staðan í borginni þetta síðasta ár hefur verið erfið og kjósendur eru fyrir löngu orðnir langþreyttir og pirraðir á þessu brölti. Það er ekki einasta tíð meirihlutaskipti sem standa upp úr heldur líka hitt að sífelld upphlaup hafa einkennt borgarstjórnina og það hefur verið sjaldgæft að sjá borgarstjórnina koma sameinaða fram um ákveðin mál.

REI-málið var upphafið að þessari atburðarrás. Þar voru gerð mistök með ónægum undirbúningi og ónægri sátt um jafnstórt og umdeilt mál. Við tók fjögurra flokka meirihluti undir forystu Dags B. Eggertssonar. Það er ekki auðvelt að sameina fjórar mismunandi skoðanir og sá meirihluti einkenndist af því. Flokkarnir fjórir gerðu ekki málefnasamning í þá 100 daga sem þau störfuðu saman og í sjálfu sér kom ekki mikið frá þeim á þessum tíma.

Í janúar sl. tók svo við meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks. Sá meirihluti galt fyrir það frá byrjun hve skammur aðdragandi var að myndun hans. Tilkoma hans hafði ekki legið í loftinu eða verið það sem fólk átti von á. Borgarfulltrúi með lítið fylgi í síðustu kosningum og enn minna í nýlegum könnunum fékk stól borgarstjóra og það var ljóst frá byrjun að það var á brattann að sækja. Atburðirnir í febrúar, þegar þáverandi oddviti sjálfstæðismanna fékk á sig mikla gagnrýni fyrir ummæli sín um ráðgjöf borgarlögmanns auðvelduðu ekki róðurinn. Ennfremur kom fljótlega á daginn að stjórnunarstíll borgarstjóra var með þeim hætti að erfitt var að ná málamiðlunum eða leiða tiltölulega einföld mál til lykta. Í könnun eftir könnun á þessum 7 mánuðum sem meirihlutinn starfaði var stuðningur við borgarstjóra og framboð hans á bilinu 1-3%, sem er auðvitað langt frá því að vera nægilegt fyrir leiðtoga borgarinnar. Þessi staða var auðvitað líka farin að hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Þetta gerði það ekki síst að verkum að kastljós og fókus fjölmiðla beindist fyrst og fremst að persónum og leikendum en ekki þeim mörgu ágætu málum sem unnið hafði verið að, s.s. 16 milljarða afgangi í rekstri borgarinnar og uppbyggingu í öldrunar- og leikskólamálum svo eitthvað sé nefnt.

Eftir að Hanna Birna tók við sem oddviti í borgarstjórnarflokknum má því segja að hún hafi staðið frammi fyrir tveimur erfiðum kostum. Annars vegar að halda áfram í erfiðu samstarfi eða þá að mynda nýjan meirihluta í enn eitt skiptið á kjörtímabilinu. Það verður einnig að taka með inn í myndina að aðrir samstarfskostir í borginni virðast ekki hafa verið í boði, fyrir utan þann kost að Tjarnarkvartettinn kynni að taka saman aftur þótt fulltrúi Framsóknarflokksins hafi ekki haft hug á því þegar á hólminn var komið.

Það er því hvorki blekking né fyrirsláttur þegar talað er um að þessi kostur í samstarfinu hafi verið sá eini sem kom til greina. Við bætist að fyrstu 16 mánuði kjörtímabilsins hafði samstarf þessara tveggja flokka verið farsælt og svo ætti að geta orðið á ný það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Borgin þarf á stöðugleika og festu að halda út kjörtímabilið og Hanna Birna er vel til þess fallin að tryggja það.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Klækir kvartettsins

Viðbrögð Samfylkingarinnar við tíðindum dagsins í borginni voru að mörgu leyti endurvinnsla á því sem sagt var í janúar. Dagur B. talaði um klækjastjórnmál og sakaði Óskar Bergsson um að hafa rofið samstöðu minnihlutans.

Sjálfur er Dagur og Samfylkingin ekki allskostar óklækjótt ef marka má fréttir af gangi mála í dag þar sem sú hugmynd virðist hafa kviknað að láta Ólaf F. segja af sér embætti og ganga úr borgarstjórn til að koma Margréti Sverrisdóttur að og mynda nýjan meirihluta Tjarnarkvartettsins. Oddviti minnihlutans hefur varla verið alsaklaus af því bralli að senda Árna Þór Sigurðsson út á örkina til að hræra í Ólafi F. og tala hann inn á þessa hugmynd. Álit Tjarnarkvartettsins á Ólafi virðist sveiflast nokkuð til og frá því það leið ekki langur tími frá því að þau gerðu honum þetta tilboð þar til að Mörður Árnason var mættur í Ísland í dag og kallaði Ólaf „veikasta hlekkinn“.

Fjölmiðlar munu væntanlega inna Dag eftir svörum um aðkomu hans að þessu máli og hvernig þetta samræmist gagnrýni hans á klækjastjórnmál.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Af risalántökum

Árni M. Mathiesen og Edda Rós Karlsdóttir skiptast á því að túlka orð hvors annars í nýlegum viðtölum. Edda Rós taldi Árna hafa með ummælum sínum slegið af hugsanlega lántöku til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann út af borðinu og taldi það slæm skilaboð en Árni tók fyrir það en taldi að túlkun Eddu Rósar á hans ummælum hafi sent út óæskileg skilaboð.

Aðalatriðið varðandi þetta umrædda lán er að þeir sérfræðingar sem eru að kanna þau lánakjör sem íslenska ríkinu stæði til boða telja að þau séu ekki nægjanlega hagstæð. Þetta verður auðvitað að virða enda gengur ekki að hugsa þetta lán þannig að það verði að taka sama hvað tautar og raular.

Þar sem lánið er upp á 500 milljarða króna verður einfaldlega að horfa í lánakjörin. Óhagstæð kjör, þó þau séu bara upp á nokkra punkta, geta kostað mikið. Eins og fram kom í frétt sjónvarpsins á dögunum þá telja t.d. forstjórar Glitnis og Kaupþings mikilvægt að fara varlega í slíka lántöku. Þetta eru ábyrg ummæli af hálfu forstjóra bankanna og jákvæð því það hefur stundum verið skrýtið að hlusta á hina og þessa starfsmenn fjármálafyrirtækjanna fá að tjá sig undir því yfirskini að vera óháðir sérfræðingar um að taka verði stórt lán. Kemur það einhverjum á óvart að bönkum eða fjármálafyrirtækjum lítist vel á að ríkið taki stórt lán og hafi kannski minni áhyggjur af kjörunum?

Gjaldeyrisvaraforðinn hefur nú þegar verið nærri fjórfaldaður á stuttum tíma. Það skiptir máli. En menn hljóta að sjá, sérstaklega þegar bankarnir eru að skila tugmilljarða hagnaði, að hagsmunirnir af því að taka risalán á óhagstæðum kjörum til þess að styrkja forðann enn frekar eru ekki svo miklir að þeir réttlæti að almenningur borgi mismuninn.

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Örvæntingafull leit að blóraböggli

Það er rétt sem bent hefur verið á að almenningur mun verða fyrir ákveðinni kjaraskerðingu vegna þess hve há verðbólgan er um þessar mundir. Þetta tók forsætisráðherra raunar fram í ræðu sinni 17. júní og á eldhúsdagsumræðunum í vor og ætti ekki að vera neinar nýjar fréttir. Það þýðir að kaupmáttur launa dregst tímabundið saman, sem er auðvitað ekki gott en breytir því ekki að síðustu 10-12 ár hefur kaupmáttaraukning launa hér á landi verið með því mesta í veröldinni.

Þetta breytir því ekki heldur að við munum vinna okkur út úr þessu ástandi. Ýmis merki benda nú þegar til þess að sá viðsnúningur sé að hefjast, vöruskiptajöfnuður við útlönd er orðinn jákvæður og uppgjör bankanna voru afar jákvæð í ljósi erfiðra aðstæðna. Það hafa erlendir fjölmiðlar eins og Financial Times pikkað upp. Öll jákvæð umfjöllun á borð við þessa styrkir okkur út á við.

Ytri aðstæður í efnahagslífinu hafa verið erfiðar að undanförnu, með miklum olíuverðs- og hrávöruhækkunum sem fara beint inn í verðlagið hér heima ásamt því að lánamarkaðir hafa verið nánast frosnir. Maður fær samt stundum á tilfinninguna að þeir sem tjái sig um þessi mál hér heima líti nánast algerlega framhjá þessum staðreyndum og vilji heldur að ráðamenn landsins undanfarin 10-15 ár stígi fram og afsaki allt það sem þeir hafa gert.

Það er bara ekkert tilefni til þess!

Auðvitað má benda á eitt og annað sem hefði mátt vera betur útfært eða tímasett en heilt yfir er enginn vafi á því að íslensk stjórnvöld hafa verið að leika réttu leikina undanfarin ár og kjörtímabil. Lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki, hagfelld umhverfi fyrir fyrirtæki og atvinnulíf og traust öryggisnet í samfélaginu hefur skilað okkur meiri lífsgæðum en flestar aðrar þjóðir búa við. Kaupmátturinn sem mikið er rætt um jókst um 60-70% frá 1995-2006. Að greiða upp skuldir ríkissjóðs og búa við eitt öflugasta og best fjármagnaðasta lífeyrissjóðakerfi í heimi er heldur ekki neitt sem menn þurfa að afsaka eða skammast sín fyrir.

En krafa um afsökunarbeiðnir og skrif um mistök eru auðvitað áhugaverðari kenningar en skrif um óhagstæðar ytri aðstæður og góðan árangur undanfarinna ára....

föstudagur, 1. ágúst 2008

Samhengi hlutanna

Egill Helgason segir að ég fagni því að almenningi blæði út og Jónína Ben segir í athugasemdum á síðunni hans að það skipti mig engu máli þótt bankarnir séu að gera almenning eignalausan. Þetta þykja mér nokkuð mikil viðbrögð við færslu sem bar þann hógværa titil „Ekki alsvart“ og gekk út á að að vöruskiptajöfnuður við útlönd væri orðinn jákvæður og að bankarnir hefðu skilað hagnaði.

Það er auðvitað rétt að verðbólgan er okkur erfið um þessar mundir, hún hækkar allar skuldir og þyngir róðurinn. En menn verða að setja hlutina í samhengi - við göngum nú í gegnum erfitt skeið eftir 12 ára tímabil nær samfelldrar kaupmáttaraukningar og hagvaxtar. Þetta eru tímabundnir erfiðleikar sem koma að miklum hluta til vegna aðstæðna úti í heimi, s.s mikilla hækkana á olíu- og hrávöruverði og erfiða aðstæðna á fjármála- og lánamörkuðum.

Hvað bankana varðar þá er aðalatriðið einfaldlega að uppgjör sem þessi sýna að staða þeirra er góð og þeir virðast ætla að sigla í gegnum þetta tímabil. Tal um að ríkið þurfi að bjarga bönkunum virkar undarlega á mann þegar afkoman er jafngóð og raun ber vitni. Bankarnir sýna jákvæða afkomu og hafa ekki þurft að fara út í umfangsmiklar afskriftir eins og sum fjármálafyrirtæki úti í heimi vegna undirmálslánanna. Það er mikilvægt því það yrði töluvert högg ef einhver þeirra færi á hliðina.

Ekki alsvart

Hálfsársuppgjör stóru bankanna hafa nú litið dagsins ljós og nemur hagnaðurinn samtals um 80 milljörðum króna. Þetta ætti að auðvelda bönkunum að endurfjármagna sig og sigla í gegnum þetta tímabil.

Þá komu fréttir um það í gær að nú sé viðskiptajöfnuður við útlönd orðinn jákvæður, sem hefur ekki gerst lengi. Að vísu náðist jákvæður jöfnuður í nóvember í fyrra en þar áður gerðist þetta árið 2004. Þetta styrkir gengið og gæti dregið úr verðbólgu.

Hægt og bítandi er hagkerfið að fara í gegnum viðsnúning og ná nýju jafnvægi.

Meðalhóf og deildar meiningar

Með úrskurði um að framkvæmdir í tengslum við álver á Bakka fari í heildarumhverfismat fer umhverfisráðherra gegn niðurstöðu og mati Skipulagsstofnunar og umsögnum fleiri aðila. Til að mynda eru öll sveitarfélögin á svæðinu þeirrar skoðunar að heildarmat sé óþarft og sama segir Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og iðnaðarráðuneytið. Umhverfisstofnun telur aftur á móti – einn umsagnaraðila – að fara eigi fram heildstætt umhverfismat.

Þessi úrskurður sýnir enn og aftur að skoðanir eru skiptar innan Samfylkingarinnar um umhverfismálin og t.d. er nálgun iðnaðarráðuneytisins önnur en umhverfisráðuneytisins í þessu máli. Samfylkingin telur sig eiga mikið undir því að halda og ná í atkvæði úr hópum umhverfisverndarsinna og vill berjast við VG um þann hóp. Svona úrskurður eru þó engir stórsigrar út frá þeim mælikvarða - þetta þýðir að umhverfismatsferlið tekur lengri tíma en ella en er alls ekki neitt úrslitaatriði fyrir framkvæmdina sjálfa.

Meðalhófið er aðalatriðið í þessu máli. Ráðuneytið hafnar í raun þeirri leið sem Skipulagsstofnun, sveitarfélögin og aðrir hagsmunaaðilar í málinu voru ásátt um að fara, þ.e. að Skipulagsstofnun haldi utan um umhverfismat fyrir alla þætti þeirra framkvæmda sem eru á döfinni í tengslum við álver á Bakka og öðlist þannig nauðsynlega heildarsýn á málið. Fram kemur af hálfu Skipulagsstofnunar að fullur vilji til samstarfs sé fyrir hendi hjá öllum aðilum málsins. Þetta myndi þýða að formlega yrði ekki farið í heildarmat á framkvæmdunum en stofnunin myndi ná nægilegri yfirsýn á alla þætti málsins.

Ráðuneytið ákveður engu að síður að taka undir mat Umhverfisstofnunar um að réttara sé að setja þetta í heildarmat, m.a. með þeim rökum að það séu ekki lagaheimildir fyrir þeirri leið sem Skipulagsstofnun ætli að fara.

Þau rök sem ráðherra hefur fært fram í fjölmiðlum um að meðalhófsreglan sé virt því málið sé svo skammt á veg komið verða að skoðast í því ljósi að meðalhófsreglan byggir á því að stjórnvöld noti alltaf vægasta úrræði sem völ er á. Ef Skipulagsstofnun treystir sér til að öðlast heildarsýn á þetta mál í samstarfi við alla aðila þá er það óneitanlega vægara úrræði.