þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Örvæntingafull leit að blóraböggli

Það er rétt sem bent hefur verið á að almenningur mun verða fyrir ákveðinni kjaraskerðingu vegna þess hve há verðbólgan er um þessar mundir. Þetta tók forsætisráðherra raunar fram í ræðu sinni 17. júní og á eldhúsdagsumræðunum í vor og ætti ekki að vera neinar nýjar fréttir. Það þýðir að kaupmáttur launa dregst tímabundið saman, sem er auðvitað ekki gott en breytir því ekki að síðustu 10-12 ár hefur kaupmáttaraukning launa hér á landi verið með því mesta í veröldinni.

Þetta breytir því ekki heldur að við munum vinna okkur út úr þessu ástandi. Ýmis merki benda nú þegar til þess að sá viðsnúningur sé að hefjast, vöruskiptajöfnuður við útlönd er orðinn jákvæður og uppgjör bankanna voru afar jákvæð í ljósi erfiðra aðstæðna. Það hafa erlendir fjölmiðlar eins og Financial Times pikkað upp. Öll jákvæð umfjöllun á borð við þessa styrkir okkur út á við.

Ytri aðstæður í efnahagslífinu hafa verið erfiðar að undanförnu, með miklum olíuverðs- og hrávöruhækkunum sem fara beint inn í verðlagið hér heima ásamt því að lánamarkaðir hafa verið nánast frosnir. Maður fær samt stundum á tilfinninguna að þeir sem tjái sig um þessi mál hér heima líti nánast algerlega framhjá þessum staðreyndum og vilji heldur að ráðamenn landsins undanfarin 10-15 ár stígi fram og afsaki allt það sem þeir hafa gert.

Það er bara ekkert tilefni til þess!

Auðvitað má benda á eitt og annað sem hefði mátt vera betur útfært eða tímasett en heilt yfir er enginn vafi á því að íslensk stjórnvöld hafa verið að leika réttu leikina undanfarin ár og kjörtímabil. Lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki, hagfelld umhverfi fyrir fyrirtæki og atvinnulíf og traust öryggisnet í samfélaginu hefur skilað okkur meiri lífsgæðum en flestar aðrar þjóðir búa við. Kaupmátturinn sem mikið er rætt um jókst um 60-70% frá 1995-2006. Að greiða upp skuldir ríkissjóðs og búa við eitt öflugasta og best fjármagnaðasta lífeyrissjóðakerfi í heimi er heldur ekki neitt sem menn þurfa að afsaka eða skammast sín fyrir.

En krafa um afsökunarbeiðnir og skrif um mistök eru auðvitað áhugaverðari kenningar en skrif um óhagstæðar ytri aðstæður og góðan árangur undanfarinna ára....

Engin ummæli: