föstudagur, 1. ágúst 2008

Meðalhóf og deildar meiningar

Með úrskurði um að framkvæmdir í tengslum við álver á Bakka fari í heildarumhverfismat fer umhverfisráðherra gegn niðurstöðu og mati Skipulagsstofnunar og umsögnum fleiri aðila. Til að mynda eru öll sveitarfélögin á svæðinu þeirrar skoðunar að heildarmat sé óþarft og sama segir Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og iðnaðarráðuneytið. Umhverfisstofnun telur aftur á móti – einn umsagnaraðila – að fara eigi fram heildstætt umhverfismat.

Þessi úrskurður sýnir enn og aftur að skoðanir eru skiptar innan Samfylkingarinnar um umhverfismálin og t.d. er nálgun iðnaðarráðuneytisins önnur en umhverfisráðuneytisins í þessu máli. Samfylkingin telur sig eiga mikið undir því að halda og ná í atkvæði úr hópum umhverfisverndarsinna og vill berjast við VG um þann hóp. Svona úrskurður eru þó engir stórsigrar út frá þeim mælikvarða - þetta þýðir að umhverfismatsferlið tekur lengri tíma en ella en er alls ekki neitt úrslitaatriði fyrir framkvæmdina sjálfa.

Meðalhófið er aðalatriðið í þessu máli. Ráðuneytið hafnar í raun þeirri leið sem Skipulagsstofnun, sveitarfélögin og aðrir hagsmunaaðilar í málinu voru ásátt um að fara, þ.e. að Skipulagsstofnun haldi utan um umhverfismat fyrir alla þætti þeirra framkvæmda sem eru á döfinni í tengslum við álver á Bakka og öðlist þannig nauðsynlega heildarsýn á málið. Fram kemur af hálfu Skipulagsstofnunar að fullur vilji til samstarfs sé fyrir hendi hjá öllum aðilum málsins. Þetta myndi þýða að formlega yrði ekki farið í heildarmat á framkvæmdunum en stofnunin myndi ná nægilegri yfirsýn á alla þætti málsins.

Ráðuneytið ákveður engu að síður að taka undir mat Umhverfisstofnunar um að réttara sé að setja þetta í heildarmat, m.a. með þeim rökum að það séu ekki lagaheimildir fyrir þeirri leið sem Skipulagsstofnun ætli að fara.

Þau rök sem ráðherra hefur fært fram í fjölmiðlum um að meðalhófsreglan sé virt því málið sé svo skammt á veg komið verða að skoðast í því ljósi að meðalhófsreglan byggir á því að stjórnvöld noti alltaf vægasta úrræði sem völ er á. Ef Skipulagsstofnun treystir sér til að öðlast heildarsýn á þetta mál í samstarfi við alla aðila þá er það óneitanlega vægara úrræði.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki er ég lögfræðingur en get ekki verið sammála þér um meðalhófsregluna. Allir hagsmunaaðilar sem þú ræðir um í þessu máli eru hagsmunaaðilar sem hafa hagsmuni af því að koma málinu í gegn. Það eru aðrir hagsmunir sem snúa að umhverfinu, Umhverfissamtök og slíkir aðilar eru að sjálfsögðu einnig hagsmunaaðilar að þessari framkvæmd. Mér sýnist Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun vera að gæta þeirra hagsmuna og með skýrri vísan í lög.

Í breytingum á Lögum um umhverfismat frá 2005 var þessum ákvæðum breytt. Í 2. málsgrein 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er sagt skýrt og skorinort "Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega"
Í greinargerð með breytingarfrumvarpinu segir að "Með þessu verða umhverfisáhrif framkvæmdanna metin saman sem á að gefa skýrara mynd af því hver heildarumhverfisáhrif eru af framkvæmdunum."

ÞAð kemur meðalhófi ekkert við að beita skýru lagaákvæði. Það þarf raunar miklu frekar í þessu tilfelli að færa sérstök rök fyrir því hvers vegna EKKI eigi að beyta þessu ákvæði. Í tilfelli Helguvíkur þótti rétt að beita meðalhófsreglu að því að málið var komið mun lengra á þeim tíma.

Af hverju á ekki að beita þessu skýra ákvæði í lögum umhverfismat. Það á augljósklega við í þessu tilfelli. Árni bloggari þarf að koma með þau rök. Efnahhagsleg rök duga þar ekki til - við brjótum ekki lög vegna efnahagsástands.