miðvikudagur, 2. september 2009

Frelsishugsjónin á erindi við ungt fólk í dag

Mikil áskorun bíður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á komandi vetri. Ekki er nóg með að félagið þurfi að standa áfram fyrir kröftugu innra starfi heldur bíður þess líka það verkefni að ná til ungs fólks og sannfæra það um gildi sjálfstæðisstefnunnar.

Skoðanakannanir hafa bent til þess undanfarið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst traust hjá hluta yngstu kjósenda sinna í kjölfar þeirra efnahagslegu hamfara sem gengið hafa yfir þjóðina. Þessa stöðu þarf að taka alvarlega og flokkurinn verður að gera sig að skýrum valkosti fyrir ungt fólk.

Heimdallur á að láta í sér heyra þegar flokkurinn er kominn út af sporinu og halda gildum ungra sjálfstæðismanna hátt á lofti.

Nú þegar stór hluti atvinnulífsins er fallinn í hendur ríkisins og aðstæður eru almennt erfiðar er nauðsynlegt að rödd frelsis og frjáls framtaks heyrist með skýrum hætti. Það er mikið á sig leggjandi til að ríkjandi ástand festi sig ekki í sessi til frambúðar.

Samstaða ungs fólks
Sjálfstæðismenn geta auðvitað ekki hlaupist undan ábyrgð af störfum sínum í ríkisstjórn um langa hríð. En við stöndum enn fyrir það markmið og þá meginhugsjón að frelsið eigi að vera leiðarljósið í samfélaginu. Nú sem aldrei fyrr er ástæða til að hampa sköpunarkraftinum sem býr í hverjum einasta manni og þeim dugnaði og krafti sem drífur samfélagið áfram. Það er með samheldni sem við komumst á lappirnar og með því að ungt fólk sameinist um að leysa kraft og frumkvæði einstaklingsins úr læðingi.

Kröftugt aðhald og eftirfylgni
Verkefni Heimdallar á komandi vetri er að standa vörð um þessi gildi. Það gerum við með því að veita ríkjandi öflum í þjóðfélaginu aðhald. Það býst enginn við að stjórnmálamenn muni leysa þann vanda sem steðjar að Íslandi, en þeir verða að búa hverjum og einum umhverfi til að leggja sitt af mörkum og því verður Heimdallur að fylgja eftir.

Því miður hefur skort á að sitjandi ríkisstjórn bjóði upp á þær lausnir og von sem beðið er eftir. Það er meðal annars vegna þess að flokkarnir sem standa að stjórninni aðhyllast lausnir sem byggja á því að stjórnvöld hafi svörin frekar en einstaklingarnir. Gegn slíkri hugusn verðum við að berjast með ráðum og dáð.

Sterkur hópur
Ég býð mig fram til að gegna starfi formanns Heimdallar á næsta starfsári. Með mér er öflugur hópur sem gefur kost á sér í stjórn og hefur víðtæka reynslu af félagsstörfum. Við erum staðráðin í því að gera starf félagsins öflugt og gera flokkinn að álitlegum kosti á þeim kosningavetri sem nú fer í hönd.

Kosið verður í Valhöll milli klukkan 20 og 22 í kvöld og ég hvet alla félagsmenn til að mæta og taka þátt í kosningunni og veita nýrri stjórn og forystu skýrt umboð.

þriðjudagur, 1. september 2009

Fleygt út af Facebook

"Account Disabled

Your account has been disabled. If you have any questions or concerns, you can visit our FAQ page here."

Þessi skilaboð birtust seint í gærkvöldi þegar ég ætlaði að skrá mig inn á Facebook.

Aðgangurinn minn þar hefur greinilega verið eyðilagður, ég kemst ekki með neinu móti inn á síðuna mína og þegar vinir mínir slá mér upp þá kemur engin síða. Á síðunni hjá kærustunni minni er hún ekki lengur skráð í sambandi við mig osfrv. Það er eins og ég hafi gufað upp af Facebook!

Áður en þetta gerist fæ ég engar viðvaranir eða skilaboð um að slíkt kunni að vera í vændum, heldur er aðgangurinn minn einfaldlega eyðilagður.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig á þessu stendur. Mér skilst þó að það þurfi ekki meira til en að einhverjir örfáir taki sig til og smelli á hnapp á viðkomandi síðu sem heitir "report" til þess að manni sé hent út og síðunni eytt. Það er ekkert útskýrt hvaða reglur maður á að hafa brotið eða hver hafi metið það sem svo að slíkt brot hafi átt sér stað, heldur er manni einfaldlega sparkað út. Ég hef heyrt um nokkur svipuð dæmi hjá fólki þar sem aðganginum var skyndilega eytt og það eina sem var í boði var að senda tölvupóst á staðlað netfang hjá Facebook sem er svarað seint og síðar meir.

Maður hefur vanið sig á að nota Facebook mikið, þarna fara fram samskipti við vini og kunningja sem maður hefur safnað yfir langan tíma, þarna er yfirlit um viðburði sem eru framundan, þarna eru allskonar myndir og minningar og þarna skiptist maður á skilaboðum og athugasemdum við fólk. Í ofanálag þá er ég sjálfur í miðri kosningabaráttu þessa dagana og nota síðuna því töluvert mikið núna þannig að það er með ólíkindum að lenda í þessu á nákvæmlega á þessum tímapunkti.

Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, þetta ósanngjarna og óréttláta kerfi hjá Facebook, þar sem notendum er hent út án nokkurs fyrirvara og aðganginum eytt, eða að einhverjir nýti sér þennan galla í kerfinu og geri sér það að leik að senda inn kærur til þess að láta henda fólki út. Ég tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta hefur gerst eða hver hafi staðið á bak við það en ég ætla þó að reyna að komast að því.

Ég verð því lítt sýnilegur á Facebook næstu dagana - enda svo sem í nógu að snúast í kosningabaráttunni fyrir Heimdall!

laugardagur, 29. ágúst 2009

Framboð og breytingar

Það eru að verða þónokkrar breytingar á mínum högum þessa dagana.

Ég er að hætta í starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa verið í því starfi í tvö ár. Ég færi mig um set yfir í lögmennskuna og mun starfa á JS-lögmönnum sem fór af stað fyrr á árinu.

Ég hef einnig ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í Heimdalli en aðalfundur félagsins verður á miðvikudaginn næsta. Með mér býður sig fram öflugur hópur í stjórn félagsins.

Mig langar til þess að Heimdallur tali skýrri röddu fyrir hugsjónum frelsis og framtaks, sérstaklega á þessum tímum þegar meirihlutinn af fyrirtækjum landsins eru í ríkisgjörgæslu, svartsýni er farin að skjóta rótum og það þarf á köflum mikinn vilja til þess að sjá von í stöðunni.

Félag eins og Heimdallur á að minna nú sem aldrei fyrr á gildi þess að frjálst framtak og athafnasemi einstaklinganna er okkar leið út úr vandanum. Það má ekki gerast að vonbrigðin og reiðin yfir ástandinu verði viljanum til þess að vinna sig út úr því yfirsterkari.

mánudagur, 13. júlí 2009

Sænski fundarstjórinn tekur völdin

Það er skemmtileg tilviljun að á þessu fallega sunnudagskvöldi virðist vel valinn hópur Evrópusinnaðra álitsgjafa hafa ákveðið að skrifa í einum kór að nú megi ekkert út af bregða á síðustu metrunum í Evrópuslagnum og það megi alls ekki fallast á tillögur um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

En af hverju liggur svona mikið á núna?

Rök ríkisstjórnarinnar í málinu eru einföld: Umsókn um aðild VERÐUR AÐ HAFA BORIST fyrir 14. júlí og það má ekkert standa í vegi fyrir því!

Ef það gengur ekki, er nefnilega ekki hægt að taka umsóknina fyrir á fundi utanríkisráðherra ESB síðar í mánuðinum.

Og af hverju er þetta svona mikilvægt?

Jú, svo að Svíar, sem leiða starf ESB um þessar mundir, geti unnið í okkar málum.

Sömu Svíarnir og krefjast þess að við staðfestum Icesave-samkomulagið í óbreyttri mynd.

Engu að síður er lagt ofurkapp á að umsókn Íslands verði í höndum Svía.

Það má eiginlega segja að þessi sænski fundarstjóri hafi tekið öll völd í íslensku samfélagi í dag.

Nauðhyggjan er vörn ríkisstjórnarinnar í flestum málum núna.

Það verður að staðfesta ESB-umsókn núna strax. Annars verður engin endurreisn.

Við verðum að samþykkja Icesave í óbreyttri mynd. Annars verður Ísland Kúba norðursins.

Þetta er auðvitað ekkert annað en ákveðin stjórnunarlist, að stilla þeim sem hafa aðrar hugmyndir upp við vegg og segja að ef ykkar leið verður ofan á þá fer allt í bál og brand.

Annars má rifja upp orð sem féllu í janúar um ESB-aðild og þó ýmislegt hafi breyst í landslagi stjórnmálamanna þá eiga þau ágætlega við í dag:

"Það ríkir neyðarástand í fjármálum Íslands. Evrópusambandið hefur enga skyndilausn á þessu. Það tekur okkur mörg ár að uppfylla skilyrði um upptöku evrunnar. Að manni læðist jafnvel sá grunur að Evrópusambandið sé jafnvel notað til að leiða umræðuna á Íslandi frá einhverju öðru. Að viss öfl kjósi að beina athyglinni að ESB til að fólkið fari ekki að hugsa um eitthvað sem er hættulegra fyrir ríkjandi valdhafa í stjórnmálum og fjármálalífi. Þetta finnst mér ég greina hjá stjórnmálaflokkum, í sumum fjölmiðlum og hjá áhrifamönnum í viðskiptalífinu."

Það er alveg ljóst að aðalgulrótin í hugum fólks varðandi Evrópusambandið er ennþá evran og vonin um að geta skipt út krónunni sem fyrst. Við erum hins vegar svo langt frá því að uppfylla Maastricht-skilyrðin að við ættum frekar að vera að tala um áratugi en ár þar til að við fáum evruna. Evrópusambandið mun ekkert gefa eftir hvað þetta varðar, enda verður það sama yfir okkur að ganga og aðrar þjóðir Evrópusambandsins. Lettar hafa t.d. verið látnir hanga í þessum skilyrðum í mörg ár, allt frá inngöngu 2004 og Seðlabanki Lettlands telur raunhæft að árið 2013 nái þjóðin að uppfylla skilyrðin fyrir því að fá evru.

Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að Evrópusambandið fer ekkert þótt sænski fundarstjórinn taki ekki fyrir umsókn Íslands í lok mánaðarins.

föstudagur, 10. júlí 2009

Flokkslínan og forystulínan

Vinstri grænir láta beygja sig í duftið í ESB-málinu, hver á fætur öðrum og flokksforystan virðist beita þingmenn þrýstingi ef þeir ætla ekki að dansa með línu forystunnar í málinu en svo skemmtilega vill til að flokkslínan og forystulínan eru ekki þær sömu. Flokkslínan er sú að berjast eigi gegn ESB en forystulínan er að það sé bannað að halda á lofti flokkslínunni í bili.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, hefur sagt frá því í fjölmiðlum og á þingi dag að hann hafi gjarnan viljað fá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og hefði helst viljað vera á slíku máli sem flutningsmaður. Honum hafi hins vegar verið stillt upp við vegg í málinu og sagt við hann að ef hann færi á slíka tillögu jafngilti það stjórnarslitum!

Hann hafi því ákveðið að vera ekki á málinu og er raunar farinn í heyskap og mun ekki taka frekari þátt í umræðum á þingi um málið í bili.

Þetta eru falleg skilaboð flokksforystunnar til ungs fólks í stjórnmálum: Þið megið gjarnan koma í flokksstarfið og berjast með okkur í þeim hugsjónamálum sem við eigum sameiginleg… en þið verðið bara að vera klár á því að við munum þurfa að gefa allt slíkt eftir þegar við komumst til valda og þá verður mjög illa séð ef menn ætla að berjast fyrir sinni sannfæringu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði fyrir einu og hálfu ári á þingi í umræðum á þingi:

„Því skulum við ekki heldur gleyma, hv. þingmenn, að við erum ekki hér sjálfra okkar vegna, í okkar eigin umboði. Við erum fulltrúar kjósenda okkar og verkfæri þeirra á þessum stað. Þaðan sprettur valdið. Það kemur ekki innan úr brjóstum okkar sjálfra, ekki innan úr brjóstum ríkisstjórnar og ráðherra, ekki innan úr brjóstum forseta Alþingis eða meiri hlutans hverju sinni, heldur frá þjóðinni.“

Þessu fögru orð virðast hafa misst gildi sitt í dag og kominn er á agi í herbúðunum, það jafnvel þótt Vinstri grænir hafi sérstaklega samið um það að fá að vera á móti Evrópusambandsaðild í stjórnarsáttmálanum!

Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur að sama skapi þurft að snúa frá sannfæringu sinni í málinu. Um síðustu áramót skrifaði hann t.d. í athugasemd á þessari bloggsíðu eftirfarandi setningar:

„Það er bjargföst skoðun mín að Í RAUN hafi enginn stjórnmálaflokkur óskorað umboð til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið, þótt færa megi rök fyrir því að einfaldur meirihluti á Alþingi geti tekið slíka ákvörðun. Hún væri væntanlega lögleg en meiri spurning hvort það væri siðlegt. Þess vegna er það líka mín skoðun að það færi vel á því að spyrja þjóðina þeirrar almennu grundvallarspurningar hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki (þá yrði alltaf sá fyrirvari að viðunandi samningar næðust). Svari þjóðin þeirri grundvallarspurningu neitandi þarf ekki að eyða tíma og fjármunum í frekari viðræður eða athuganir á því máli, en svari þjóðin þeirri spurningu játandi, myndi íslensk stjórnvöld hefja viðræður við ESB um aðild og láta reyna á íslenska hagsmuni þannig. Síðan yrði samningsniðurstaða borin að nýju undir þjóðina og þá gæti hún sagt sitt álit. Með þessum hætti á þjóðin ekki bara síðasta orðið, hún ræður því líka hvort fyrsta skrefið verður tekið. Sumum finnst þetta óþarflega flókið og tímafrekt, en eigum við ekki alltaf að hafa tíma fyrir lýðræði? Myndi svona fyrirkomulag ekki bara styrkja lýðræðið? Ég tel svo vera.“

Í dag mælti Árni Þór fyrir áliti utanríkismálanefndar og sagði að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla væri óþörf þar sem meirihluti þjóðarinnar vildi fara í aðildarviðræður samkvæmt skoðanakönnun. Hann hefur því breytt um skoðun í málinu eftir að hann komst til valda, eitthvað sem er farin að verða ansi algengur merkimiði á þingmönnum Vinstri grænna um þessar mundir.

Og séu menn að horfa til skoðanakannanna hefur komið fram í nýlegri könnun að 76% þjóðarinnar vill að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vek annars athygli á Deiglupistli sem ég birti í dag um þetta mál.

þriðjudagur, 9. júní 2009

Spámenn Alþingis

Í ljósi alls þess sem gerst hefur með Tryggingarsjóð innistæðueigenda og þá risavöxnu ábyrgð sem hann hefur nú tekist á hendur er fróðlegt að kynna sér hvernig umræður um þessi lög voru á þingi þegar þau voru sett árið 1999. Látið hefur verið að því liggja að við höfum innleitt þessa reglugerð hugsunarlaust. Engu að síður urðu nokkrar umræður um málið á sínum tíma og maður veltir því t.d. fyrir sér hvort einhverjum þingmanni hafi dottið í hug á þeim tíma að að það gæti orðið allsherjarhrun sem sjóðurinn þyrfti að taka ábyrgð á?

Merkilegt nokk þá var slík atburðarrás rædd við setningu laganna og raunar voru ýmsar hugmyndir settar fram um hver hámarksábyrgð sjóðsins ætti að vera.

Guðmundur Árni Stefánsson þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar spurði t.d. hvernig yrði tekið á því „ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.“

Þáverandi viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson varð til svara og segir m.a. í svari sínu: „...ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.“

Stundum gerist það sem enginn á von á.

Fleiri tjáðu sig um málið. Jóhanna Sigurðardóttir – þá óbreyttur þingmaður, nú forsætisráðherra – tók til máls í umræðum og sagði m.a.:

„Það er auðvitað margt núna í bankakerfinu sem veldur ákveðnum áhyggjum og sem kallar á það að við höfum hér öflugan tryggingarsjóð sem getur staðið undir því að mæta skakkaföllum í bankakerfinu. Að vísu er það svo ef hér verður eitthvað mikið bankahrun líkt og varð í Noregi fyrir um tíu árum þegar norski ríkissjóðurinn þurfti að koma til móts við það mikla bankahrun sem þar varð með 50 milljörðum kr., þá er þetta hvergi nærri nóg sem við erum hér að leggja til. Auðvitað vonar maður að svo fari ekki hér.“

Jóhanna, ásamt Ögmundi Jónassyni og Margréti Frímannsdóttur mælti raunar fyrir ákveðinni breytingartillögu við frumvarpið.

Hún gekk út á að þetta hámark – 20 þús. evrur, sem þá var reiknað sem 1,7 milljón krónur – myndi ekki eiga við um einstaklinga og innistæður þeirra heldur yrðu þær bættar að fullu. Kröfur lögaðila og kröfur einstaklinga vegna tryggðra verðbréfa myndu hins væru hins vegar tryggðar að fullu upp að 20 þús. evrum en umfram það bættar hlutfallslega.

Eða eins og Jóhanna orðaði það sjálf:

„Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.“

Ef þessi breytingartillaga hefði verið samþykkt hefðum við legið laglega í því með ekkert hámark á innistæðum. Þá hefði íslenska ríkið varla getað staðið á því að takmarka endurgreiðslurnar við 20 þúsund evrur, þar sem við hefðum ekki haft neitt slíkt hámark í lögunum sjálf.

Þetta gat auðvitað enginn séð fyrir á sínum tíma og flutningsmönnum tillögunnar gekk það auðvitað ekki til að auðvelda útrásarfyrirtækjum að laða að fjármagn sem íslenska þjóðin þyrfti svo að bæta með himinháum greiðslum. En svona verða lagaákvæði oft til og ýmis konar réttindi eru veitt sem síðar geta snúist upp í andhverfu sína.

fimmtudagur, 4. júní 2009

Styrkur og séra Styrkur

Ýmsir hafa dundað sér við það síðustu daga að reikna vexti og verðbætur á endurgreiðslu Sjálfstæðisflokksins til annars vegar FL Group og hins vegar Landsbankans. Andri Ólafsson fréttamaður á Stöð 2 ákvað t.d. í kvöldfréttum í gær að skella á þessa upphæð 8% verðbólgu og 6% vöxtum, reiknaði mismuninn og kynnti sem mikið hneyksli að hann yrði ekki greiddur.

Egill Helgason tekur í sama streng á vef sínum.

Það þarf mikinn vilja til þess að snúa svona út úr málinu en hann þarf svo sem ekki að koma á óvart. Hér er um að ræða einhliða ákvörðun um endurgreiðslu á styrk, sem hvorugt félagið gerir kröfu um að fá greidda til baka. Að líkja þessu við endurgreiðslu á láni, t.d. húsnæðisláni, er auðvitað algerlega óréttmætt. Vextir og verðbætur eru til þess að tryggja verðgildi þeirrar fjárhæðar sem er lánuð en þar sem engin fjárhæð var lánuð í þessu tilfelli og engin krafa er gerð um endurgreiðslu er varla um það að ræða að tryggja verðgildi fjárhæðarinnar.

Endurgreiðsla þessara styrkja byggir einfaldlega á því mati að rangt hafi verið að taka við styrkjunum á sínum tíma og til að sýna fram á að þessi ákvörðun hafi verið röng er ákveðið að endurgreiða styrkina. Það er erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að greiða út slíka fjárhæð og slík greiðsla væri líka erfið fyrir aðra flokka en með því er sýnt í verki að menn telja að það hafi verið rangt að taka við þessum fjármunum.

Á sama tíma og fjölmiðlar landsins velta þessu fyrir sér virðist það vekja afar litla athygli að Samfylkingin þáði styrki upp á 25 milljónir króna frá félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2006, 16 milljónir frá félögum tengdum Björgólfsfegðum og 10 milljónir frá Kaupþingi. Það fjölmiðlafár sem varð við sambærilegar fréttir af styrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins virkar broslegt við hliðina á þeirri þægindameðferð sem þetta mál fær hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum landsins.

Ég man eftir nokkrum ummælum úr fréttaflutningi frá þeim tíma og væri fróðlegt að vita hvort væru í gildi núna:

 • Hvað finnst Gunnari Helga Kristinssyni stjórnmálafræðiprófessor um þetta mál? Þegar málið stóð sem hæst þá var hann daglegur umsagnaraðili í fréttum Rúv og gaf svör um hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið nógu langt með einhverjum tilteknum aðgerðum til að sýna iðrun og betrumbót í málinu
 • Telur Svanur Kristjánsson annar stjórnmálafræðiprófessor mikilvægt að fram fari húsleit á skrifstofum Samfylkingarinnar? Hann kom fram á Speglinum á sínum tíma og taldi augljóst að gera ætti húsleit í Valhöll í ljósi málsins
 • Finnst Svandísi Svavarsdóttur fréttir af styrkjunum kveikja tengingar um tengsl við REI-málið og vekji spurningar hvort mútugreiðslur hafi farið fram? Vill hún t.d. tengja styrkgreiðslurnar við mikinn og einlægan áhuga núverandi utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra á því að sameining REI og GGE færi fram á sínum tíma og linnulausum árásum hans á þá sem voru andvígir sameiningu félaganna? Svandís steig fram með afar afdráttarlausum hætti í fjölmiðlum á sínum tíma og skaut í allar áttir en maður veltir því fyrir sér hvort það sama eigi ekki við þegar samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eigi í hlut?

Það blasir við að fjölmiðlar taka með afar ólíkum hætti á málum sem eru um margt sambærileg hjá þessum tveimur flokkum. Í öðru tilfellinu voru heilu fréttatímarnir lagðir undir málið og greinilega mikið á sig lagt til að ná í álitsgjafa og fræðimenn sem vildu gagnrýna málið. Í hinu tilfellinu er nánast ekkert um málið fjallað, enginn fræðimaður er dreginn í viðtal til að rifja upp stóru orðin og yfirlýsingarnar heldur er nánast látið nægja að endurbirta kurteisislega fréttatilkynningu og útskýringar Samfylkingarinnar um málið!

Eitt verður þó ekki af Samfylkingunni tekið – þar kunna menn greinilega til verka í almannatengslunum og fjölmiðlarnir dansa með!

föstudagur, 15. maí 2009

Tvöföld atkvæðagreiðsla er augljós kostur

Greinargerðin með ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar, klofningurinn innan ríkisstjórnarinnar og málatilbúnaðurinn allur í kringum Evrópumálið er ekki sannfærandi. Ríkisstjórnin virðist ekki geta komið sér saman um texta eða tillögugerð og sýnir því stjórnarandstöðunni textann sem trúnaðarmál til þess að athuga hvort stjórnarandstaðan vilji koma í textavinnu með þeim!

Ekki svo að skilja að þessi texti hefði ekki gott af því að vera endurskrifaður. Fyrsta setningin er til að mynda athyglisverð:

Tillaga um aðildarumsókn til ESB er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir.

Við sem sagt sækjum ekki um aðild að ESB af neinni sérstakri ástæðu annarri? Ekki af því að aðild myndi færa okkur eitthvað sem við viljum?

Neðar segir svo:

Stjórnvöld áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.

Hvað þýðir þetta?

Munu ráðherrar og ríkisstjórnin þá skrifa undir samninginn út í Brussel en koma svo heim og berjast gegn honum? Verður skrifað undir aðildarsamning með þeim fyrirvara að þeim sem skrifi undir kunni að finnast samningurinn alveg glataður?

Þetta er nú ekki beint sannfærandi og ég efast um að kommisarnir í Brussel hafi mikið umburðarlyndi fyrir því að viðsemjendurnir muni eftir 18 mánaða samningaferli fara heim og tala gegn samningnum. Fjölmiðlar hljóta að spyrja ESB-sérfræðinga þjóðarinnar út í þetta atriði.

Í greinargerðinni eru svo talin upp einhvers konar drög að samningsmarkmiðum. Þar segir m.a.:
 • Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
 • Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis
Nú liggur fyrir að þetta verður ekki í boði. Forræði yfir fiskveiðiauðlindinni fer til Brussel og við munum þurfa að fella niður tolla á landbúnaðarvörur (það er raunar mikilvægur þáttur fyrir marga sem styðja ESB-aðild). Er Samfylkingin með þessu að segja að þeir muni ekki styðja samninginn ef við gefum eftir á þessum sviðum?

Þetta er allt saman í hálfgerðu skötulíki og umboðið sem þingið er að veita er rýrt í roðinu. Miklu sterkara væri að leita til þjóðarinnar með þetta mál og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að ESB eða ekki. Umboð frá þjóðinni er sterkara heldur en umboð sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar skrifa sjálfir og gæta þess vitaskuld þar af leiðandi að hafa umboðið nógu opið og teygjanlegt til að það segi ekki neitt í raun. Þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram í lok sumars, t.d. í ágúst og ef þjóðin veitir þetta umboð þá væri hægt að hefja viðræður í september. Sumarþingið gæti þá farið í að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna og septemberþinginu gæti verið varið í að undirbúa viðræðurnar, markmið og annað í þeim dúr.

Þetta væri lýðræðisleg og opin leið, gegnsærri og skýrari en trúnaðarfundir um moðsuðutexta sem er opinn í alla enda og enginn skilur almennilega.

Einhverjir halda því eflaust fram að tvöföld atkvæðagreiðsla sé til að tefja fyrir málinu. Svo er þó ekki, þar sem atkvæðagreiðslan gæti farið fram í lok sumars. Því er ennfremur haldið fram að slík atkvæðagreiðsla myndi ekki snúast um neitt en hvernig er hægt að halda því fram? Þetta snýst um mjög stóra grundvallarspurningu, þ.e. hvort við viljum sækja um aðild. Það er mikill misskilningur þegar ríkisstjórnin setur málið þannig fram að umsókn sé góður kostur til þess eins að fá málið út úr heiminum. Umsókn þjóðar að ESB er umsókn, vilji til þess að fara í viðræður með það í huga að ganga inn.

Loks verður því örugglega haldið fram líka að þessi leið fríi þingmenn frá því að taka afstöðu í málinu. Það er ekki rétt. Þingmenn munu beita sér í atkvæðagreiðslunni og hafa til þess nóg svigrúm og fjölmiðlar munu eflaust sækja svör frá þeim sem halda sig til hlés. Munurinn er bara sá að þjóðin getur beitt sér líka.

Spurningin liggur skýrt fyrir og allir hafa möguleika á að taka þátt og beita sér, ekki bara formenn flokkanna á lokuðum trúnaðarfundum.

miðvikudagur, 6. maí 2009

Úrræðafrumskógur og hófleg hús

Það lengist stöðugt á milli fólks í umræðunni um úrræðin. Fréttatímar síðustu daga hafa gengið þannig fyrir sig að fyrst hefur verið viðtal við skuldara sem er alveg aðframkominn af greiðslubyrði og skuldum og hugleiðir eða er byrjaður að stunda eitthvað sem fjölmiðlar leyfa fólki að kalla greiðsluverkfall en heitir auðvitað að hætta að borga af lánunum sínum.

Á móti kemur svo viðskiptaráðherra eða aðrar fulltrúar stjórnvalda og segja að fólk verði bara að kynna sér það sem í boði sé.

Þetta er sem sagt alveg í sitt hvora áttina, annars vegar tala menn um að hætta að borga og hins vegar að fólk geti bara kynnt sér úrræðin.

En hver eru þessi úrræði? Stjórnvöld hafa allt frá því í október verið að títra út alls konar smáaðgerðum. Þegar þetta er allt tekið saman verður til myndarlegt skjal, fullt af bullet-points sem eru svo vinsæll mælikvarði á árangur í stjórnsýslunni. Vandinn er hins vegar að heildarmyndin er orðin flókin og þokukennd fyrir fólkið sem þarf á þessum úrræðum að halda.

Þar að auki er ekkert hlaupið að því að njóta þessara úrræða. Lögin um greiðsluaðlögun samningskrafna, sem tóku gildi 1. apríl og lögin um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sem taka gildi 15. maí, gera t.d. bæði ráð fyrir því að fólk byrji á því að fara niður í héraðsdóm, skila miklu magni af gögnum og upplýsingum og sæki um greiðsluaðlögun sem dómari tekur svo afstöðu til hvort sé samþykkt.

Jafnvel þótt fólk leggi fram umbeðnar upplýsingar er ekki víst að úrræðið fáist því í lögunum eru fleiri skilyrði sett. Til dæmis verður húsnæðið sem fólk býr í og sækir um greiðsluaðlögun út af, að vera "hóflegt", samkvæmt því sem segir í lögunum. Þetta er útskýrt þannig að dómari verði að leggja mat á hvort húsnæði þess sem biður um greiðsluaðlögun teljist hóflegt og horfi þá til "stærðar húsnæðisins, tegundar þess, íbúðarforms og staðsetningar og fyrrgreind atriði metin út frá tekjum skuldara og heimilisaðstæðum hans hverju sinni."

Þá getur dómari hafnað því að samþykkja greiðsluaðlögun skv. lögunum ef "skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað."

Maður spyr á móti: Tóku ekki langflestir Íslendingar fjárhagslega áhættu með því að taka lán sem námu heildarverði fasteignanna? Hvað ætli margir Íslendingar búi í húsi sem var of stórt miðað við kaupgetu þess á sínum tíma? Ætlum við að senda þetta fólk allt saman frekar í greiðslustöðvun og gjaldþrot?

Það er líka athyglisvert að sjá þá aðstoð sem fólki er boðið upp á að nýta sér til að sækja um greiðsluaðlögunina. Lögin krefjast þess að umtalsverðu magni af skjölum og gögnum sé skilað með umsókninni og það eru margir sem þurfa á aðstoð að halda við það. Ráðgjafarstofa heimilanna býður fólki slíka aðstoð en þar er m.a. boðið upp á endurgjaldslausa aðstoð við gerð beiðni um greiðsluaðlögun.

Á vegum lögmannsstofunnar LEX er rekið félagið Greiðsluaðlögun ehf. sem tekur einnig að sér að aðstoða fólk við að sækja um greiðsluaðlögun en sú þjónusta kostar á bilinu 50-180 þús. krónur.

Úrræðin eru því flókin, dreifð og óaðgengileg. Það er ekki eðlilegt að fólk þurfi að leggja út í kostnað til þess að uppfylla skilyrðin laga sem eiga einmitt að hjálpa þeim úr greiðsluvandræðum. Það verður að bjóða upp á eitthvað betra en að eini kosturinn sé sá að senda fólk niður í hérðaðsdóm og útdeila þeim tilsjónarmanni, að því gefnu að fólkið búi í hóflegu húsi og hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu...!

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Lausnin í þingstörfunum

Minnihlutastjórnin var mynduð til þess, að eigin sögn, að sinna brýnum málum í þágu heimila og fyrirtækja. Það var skynsamleg markmiðssetning á sínum tíma vegna þess að fyrir lá að stjórnin myndi starfa í stuttan tíma og myndi í þokkabót þurfa að reiða sig á Framsóknarflokkinn til að verja sig vantrausti.

Þess vegna var óvænt að sjá í stjórnarsáttmálanum að settar voru á dagskrá viðamiklar breytingar á kosningalöggjöf og stjórnarskránni. Það var óvænt vegna þess að þetta var ekki í samræmi við yfirlýst hlutverk ríkisstjórnarinnar né þau viðfangsefni sem voru uppi á þessum tíma. Bæði kosningalögin og stjórnarskráin eru grundvallarskjöl í okkar samfélagi sem tengjast ekkert sérstaklega hruni bankanna og efnahagsþrengingunum og það virkaði ekki sannfærandi að ætla sér að gera á þeim viðamiklar breytingar á örfáum vikum.

Það kom líka á daginn. Tillögur stjórnarinnar að þessu leyti voru unnar í flýti og illa undirbúnar. Þær fóru líka gegn öllum þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í þessum málum hingað til. Stjórnarskránni var t.d. breytt 1991, 1995 og 1999 eftir viðamikinn undirbúning og í samstöðu allra flokka. Það var ekki unnt að ná slíkri samstöðu og nægilega vönduðum undirbúningi á svo stuttum tíma á þessu þingi og það kann aldrei góðri lukku að stýra að ætla að keyra yfir minnihlutann í svona málum.

Í stað þess að sætta sig við þessa stöðu og einbeita sér að þeim miklu verkefnum sem efnahagslífið krefst að stjórnmálamenn leysi, hefur ríkisstjórnin ákveðið að þverskallast við í þessu máli. Formenn bæði Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir að það skipti þá engu máli þótt minnihlutinn sé mótfallinn þessari breytingu, hún muni bara samt fara í gegn. Jóhanna Sigurðardóttir hefði nú tæplega tekið slíkum skilaboðum þegjandi og hljóðalaust þegar hún sat í stjórnarandstöðu en það hefur sýnt sig að menn eru fljótir að breytast þegar þeir komast í valdastólana.

Staðan á þinginu þessa dagana er því þannig að stjórnarskrármálið er í ágreiningi og situr í reynd fast. Þetta hefur þær alvarlegu afleiðingar að brýn mál fást ekki rædd á þingi, sem er alvarlegt sökum þess að margir bíða eftir þeim úrræðum sem Alþingi mun samþykkja. Dæmi um slík mál eru samningur um álver í Helguvík og frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

Ríkisstjórnin fer með dagskrárvaldið á Alþingi og ákveður hvaða mál eru sett á dagskrá og hefur ákveðið að setja þessi þýðingarmiklu mál aftar á dagskránna. Þetta er leið ríkisstjórnarinnar til þess að reyna að þvinga stjórnarskrárbreytingarnar í gegn - þ.e. með því að setja brýnni mál fyrir aftan stjórnarskrármálið og reyna svo að halda því fram að minnihlutinn tefji fyrir því að hin brýnni mál séu rædd.

Af þeim sökum eru tillögur Þorgerðar Katrínar í gær og Sigurðar Kára í dag um breytingar á dagskrá þingsins, í þá veru að mikilvæg mál varðandi efnahagslífið og atvinnumálin verði sett í forgang á dagskránni, leið til lausnar. Tillögurnar felast í því að stjórnarskrárumræðunni verði frestað um sinn enda liggi fyrir að ágreiningur séu um það mál og í staðinn afgreiði þingið þau mál sem beðið er eftir.

Viðbrögð talsmanna ríkisstjórnarinnar við þessum tillögum hafa valdið vonbrigðum. Forseti þingsins tók tillögunni sem mógðun við forseta og vantraust á hann og ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar hafa hver á fætur öðrum komið upp og gagnrýnt þessa leið. Tillaga Þorgerðar var felld í gær og fyrstu viðbrögð við tillögu Sigurðar Kára voru neikvæð.

Það er miður vegna þess að þingið þarf að ljúka þeim málum sem beðið er eftir.

föstudagur, 3. apríl 2009

Hvað sögðu ráðherrarnir 2007?

Því er haldið fram að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt um langt árabil. Þetta er ekki rétt. Stjórnarskráin er þannig að þegar samþykktar hafa verið breytingar á henni skal boða til kosninga og staðfesti nýtt þing breytingarnar telst stjórnarskránni hafa verið breytt. Í þessu felst að kosningar verða að fara fram til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá.

Í þremur af síðustu fimm kosningum sem haldnar hafa verið var stjórnarskránni breytt í kjölfarið, þ.e. 1991, 1995 og 1999 en ekki 2003 og 2007. Þeas. í þremur af fimm tilfellum hefur þingið nýtt tækifærið og breytt stjórnarskránni. Þetta kalla menn að hafa ekki breytt stjórnarskránni um langt árabil. Til samanburðar má nefna að stjórnarskránni var síðast breytt í Danmörku árið 1953. Samt hafa Danir það nú ágætt!

Í dag hófust á ný umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnarskránna. Eins og allir gátu séð fyrir spila stjórnarliðarnir út því spili að stjórnarandstaðan sé að beita málþófi. Aðalatriði málsins er hins vegar að ríkisstjórnin kýs að rjúfa friðinn um stjórnarskránna og keyra í gegn breytingar gegn vilja 26 þingmanna af 63. Jóhanna Sigurðardóttir staðfesti það beinlínis í dag á þingi að hún myndi verða fyrsti forsætisráðherrann í 50 ár til þess að standa fyrir breytingum á stjórnarskrá án þess að allir flokkar væru sáttir við þær breytingar.

Alþingi tók nokkuð stífa stjórnarskrárumræðu árið 2007 þegar kynnt var frumvarp um breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrár. Þá voru nokkrir af núverandi ráðherrum í stjórnarandstöðu og beittu sér í málinu. Það er athyglisvert að rifja upp ummæli þeirra úr umræðunni þá þegar þeir halda því nú fram hver af öðrum að krafa um lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni sé ekkert annað en málþóf og tafir.

Rifjum upp ummælin:

Ögmundur Jónasson
„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Össur Skarphéðinsson
„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Kolbrún Halldórsdóttir
„Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.“

Steingrímur J. Sigfússon
„En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

Aðrir ráðherrar voru ýmist ekki á þingi árið 2007 (Gylfi, Ragna og Katrín) eða tjáðu sig ekki um málið (Jóhanna, Kristján og Ásta Ragnheiður).

Sinnaskipti ríkisstjórnarinnar frá því sem áður var eru sem sagt alger.

miðvikudagur, 25. mars 2009

Jóhanna er með svarið

Vinnubrögð og aðdragandi frumvarps ríkisstjórnarinnar um persónukjör hefur fengið á sig mikla gagnrýni að undanförnu. Ég nefni helstu atriðin í gagnrýninni:
 • Ríkisstjórnin var mynduð til að vinna að brýnum og nauðsynlegum málum í þágu heimila og fyrirtækja, ekki tilraunastarfsemi með kosningalögin
 • Töluvert af þingmönnum innan stjórnarflokkanna höfðu miklar efasemdir um þetta frumvarp og tímasetningu þess, m.a. þar sem menn höfðu eytt miklu púðri í prófkjörsbaráttu
 • Undirbúningur að vinnslu frumvarpsins hófst í febrúarbyrjun, þegar innan við þrír mánuðir voru til kosninga
 • Útlit var fyrir að frumvarpið hefði verið samþykkt sem lög 3-4 vikum fyrir kjördaginn sjálfan þegar flokkarnir voru allir búnir með sín prófkjör
 • Í tilmælum og viðmiðunum ÖSE og Evrópuráðsins um framkvæmd kosninga og eðlileg vinnubrögð í aðdraganda þeirra eru breytingar á kosningalögum eitt af því sem varað er stórlega við
 • Evrópuráðið talar raunar um að góð viðmiðunarregla sé að hreyfa ekki við kosningalögum ári fyrir kjördag
 • Þessar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að krukka í leikreglunum rétt fyrir kosningar eru ein af ástæðum þess að ÖSE (sem er venjulega að fylgjast með framkvæmd kosninga í löndum sem þverbrjóta allar reglur lýðræðisins) hefur ákveðið að senda hóp eftirlitsmanna til að fylgjast með kosningunum hérna heima og framkvæmd þeirra

Engin af þessum ástæðum virtist hins vegar vega neitt sérstaklega þungt í huga forsætisráðherra þegar hún flutti þau tíðindi í gær að frumvarpið yrði ekki að lögum.

Hver var þá ástæðan?

Jú, Sjálfstæðisflokkurinn - hann eyðilagði þetta mál!

laugardagur, 21. mars 2009

Það sem vantaði hjá Steingrími

Setningarræða Steingríms J. Sigfússonar á landsfundi VG í gær var fyrst og fremst mikið afturlit til fortíðar. Fyrir þá sem voru búnir að gleyma því þá rifjaði Steingrímur það upp og minnstist á Sjálfstæðisflokkinn alls 22 sinnum upp í ræðu sinni.

Í ræðuna vantaði aftur á móti svörin við þeim spurningum sem brenna á um þessar mundir og þarf að svara. Á dögunum skaut Steingrímur sér undan því í þinginu að svara hvernig ríkisstjórnin ætlaði að mæta kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í ríkisfjármálum og hann bauð ekki upp á nein slík svör í ræðu sinni á flokksþinginu. Hvaða leiðir ætlar hann sem fjármálaráðherra og einn harðasti gagnrýnandi niðurskurðar í ríkisfjármálunum að fara til að ná þeim niðurskurði sem vitað er að er framundan næstu árin? Ríkissjóður verður ekki hallalaus af sjálfu sér - framundan eru erfiðar ákvarðanir um niðurskurð og það er varla nema sanngjarnt að kjósendur fái einhverja innsýn í það hvernig verðandi fjármálaráðherra ætlar að gera það.

Ríkisfjármálin voru ekki það eina sem vantaði. Eftir að hafa hlustað á ræðuna er maður engu nær um hvaða framtíðarsýn á gjaldmiðil og peningamálastefnu Steingrímur hefur. Steingrímur hefur reyndar talað fyrir ákveðinni lausn í þeim efnum, upptöku norsku krónunnar en nú virðist sem sú hugmynd hafi verið slegin út af borðinu í bili og því væri fróðlegt að heyra framhaldið að hans mati. Og hvernig ætlar Steingrímur og VG að skapa þau störf sem þarf svo nauðsynlega á að halda?

Þeir kaflar ræðunnar sem sneru að framtíðinni voru raunar áberandi innantómir. Þar var talað um hvers kyns nýsköpun þar sem hugvitið er virkjað, þar sem innlendur virðisauki er hafður í öndvegi, þar sem vatn, loft, víðerni, mannvit og hugkvæmni eru undirstaðan, það á að vera okkar boðskapur og að það þyrfti að fara með stækkunarglerið á alla möguleika.

Það skal að vísu ekki tekið frá Steingrími að inn á milli voru útfærðar og nákvæmar tillögur, eins og sú að bændur auki kornrækt, að við förum aftur að framleiða okkar eigin áburð, að við förum aftur að þjónusta og helst smíða okkar fiskiskip og flota.

Aðalatriði ræðunnar var að þar var stillt upp valkostum - VG eða Sjálfstæðisflokkurinn. Sá síðarnefndi þarf ekki að kvíða þeirri uppstillingu. Innan Sjálfstæðisflokksins er sú skoðun uppi að leiðin út úr kreppunni sé í gegnum einstaklingana og framtak þeirra og með því að vinda ofan af ríkisrekstrinum og ríkisvæðingunni sem fyrst og það er sú lausn verður ofan á endanum.

þriðjudagur, 17. mars 2009

Fjármálareglur og fjölmiðlar

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í gær reglur um að þingmenn skuli skrá fjárhagslega hagsmuni sína. Allir flokkar stóðu að því að samþykkja þessar reglur.

Þetta er ákveðið skref sem þingið stígur. Reglur sem þessar hafa ekki verið í gildi hér á landi áður og með þeim auk laganna frá 2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda hafa mjög róttækar breytingar verið gerðar hvað varðar regluverk um fjármál og stjórnmál. Við höfum í raun farið úr þeirri stöðu að hafa sama og engar reglur yfir í að hafa nokkuð strangar reglur um þessi mál, samanborið við önnur lönd.

Gegnsæi skiptir meira máli en upphæðir
Svona reglur eru ekki óumdeildar og það er alltaf ákveðin hætta á að þær skapi falskt öryggi auk þess alltaf má finna leiðir til þess að fara í kringum svona reglur, ef menn eru á annað borð á þeim buxunum. Engu að síður er eðlilegt að svona reglur séu til staðar því leynd og ógagnsæi varðandi fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna býður upp á hættu á spillingu. Lykilatriði í þessu eru að upplýsingar liggi fyrir en aftur á móti finnst mér ekki ástæða til þess að setja í reglur hve mikið megi styrkja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn að því gefnu að unnt sé að upplýsa um slík framlög. Ef einhver vill styrkja stjórnmálaflokk eða mann um milljón krónur þá er það ekki rangt í sjálfu sér, en það er eðlileg krafa að upplýsingar liggi fyrir um slík framlög, sérstaklega framlög frá fyrirtækjum og félögum.

Villandi umfjöllun fjölmiðla
Umfjöllun fjölmiðla um aðdraganda þessarar reglusetningar forsætisnefndar hefur verið býsna villandi. Reglurnar hafa verið unnar í góðri samvinnu allra flokka og sátt var um að hafa þetta sem reglur frá forsætisnefnd en ekki sérstök lög. Á þessu er sá munur að reglurnar binda ekki þingmenn eins og lög. Það er eðlileg nálgun og þekkist á öðrum Norðurlöndunum. Um er að ræða viðkvæmar og persónulegar upplýsingar og ekki óeðlilegt að kerfið sé opið, þ.e. að þingmenn geti skráð þar upplýsingar en séu ekki skyldaðir til þess eða hafi gerst brotlegir við lög ef þeir gera það ekki.

Reglurnar voru eins og áður sagði samþykktar í þessari mynd í gær. Engu að síður sló Fréttablaðið því upp á forsíðu sinni í gærmorgun sem sérstakri stórfrétt að sjálfstæðismenn væru á móti skylduskráningu. Staðreyndin er aftur á móti sú að sjálfstæðismenn, eins og aðrar flokkar á þingi, höfðu unnið að því að móta og setja þessar reglur á vegum nefndarinnar, eins og þær voru samþykktar í gær og varla hægt að tala um að afstaða sjálfstæðismanna hafi verið öðruvísi en annarra flokka. Vefmiðillinn Pressan bætti aftur á móti um betur í gær þegar hann endursagði frétt Fréttablaðsins frá því um morguninn þannig að sjálfstæðismenn væru á móti reglunum í heild sinni. Ekki var nú sannleiksgildi þeirrar fréttar meira en svo að á svipuðum tíma og fréttin birtist þá var forsætisnefnd að samþykkja reglurnar, eins og Pressan reyndar greindi frá í frétt stuttu síðar.

Þannig stóðu í gær og standa raunar enn þessar tvær fréttir, þ.e. annars vegar um að sjálfstæðismenn séu á móti reglunum og hins vegar að allir flokkar í forsætisnefnd hafi samþykkt þær. Ekki ýkja vönduð blaðamennska þar.

Sambærilegar reglur fyrir önnur svið þjóðfélagsins?
Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins gerir þessar reglur að umfjöllunarefni í leiðara dagsins og gagnrýnir að ekki séu sett lög um þetta efni. Það er ekki útilokað að sú leið verði farin en á móti kemur að nú hefur þetta fyrsta skref verið stigið og ágætt að fá ákveðna reynslu á þær áður en lengra er haldið.

Þegar ég las leiðara Jóns, velti ég því samt fyrir mér hvort krafan um gagnsæi eigi að vera bundin við pólitíkina. Ættu þeir sem eru í forsvari fyrir önnur mikilvæg svið þjóðfélagsins, t.d. fjölmiðla, ekki að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja öll spil á borðið? Upplýsa um eignir, hlutabréf, skuldir, gjafir og þar fram eftir götunum? Það væri amk. í ágætu samræmi við þann málflutning sem Jón Kaldal viðhefur í leiðaranum.

mánudagur, 16. mars 2009

Villandi fyrirsagnir og fréttamat

Forsíða Fréttablaðsins í morgun er lögð undir það hve mótfallnir sjálfstæðismenn eigi að vera reglum um skráningu á fjárhagslegum tengslum þingmanna. Fyrirsögnin og fréttauppslátturinn gengur út á að sjálfstæðismenn séu sér á báti hvað þetta varðar þar sem þeir vilji einir að reglurnar séu valkvæðar, þ.e. að þingmenn hafi val um það hvort þeir undirgangist þessar reglur og skrái sín tengsl.

Blaðamaðurinn nefnir það aftur á móti ekki í frétt sinni að drögin að reglunum eins og þau liggja fyrir gera ráð fyrir að reglurnar séu valkvæðar. Þannig er málið lagt upp. Það væri raunar ekki einsdæmi, því dæmi eru um slíkt á Norðurlöndunum. En aðalatriðið varðandi þessa frétt og fréttamatið er hvernig hægt er að mála þá mynd að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum þegar flokkurinn studdi þau drög að reglum sem fyrir lágu!

Þannig leggur þessi ágæta vefsíða, Eyjan, út af fréttinni og endursegir frétt Fréttablaðsins með því að orða fyrirsögnina svona: "Reglur um fjárhagslega hagsmuni þingmanna ræddar í dag - sjálfstæðismenn einir á móti"!

Spuninn þróast sem sagt og í fyrstu endursögn er ekki einu sinni verið að deila um valkvæði reglnanna heldur eru sjálfstæðismenn hreinlega á móti þeim í heild sinni.

Það er orðið ansi erfitt að vera með og styðja mál - þegar það að styðja fyrirliggjandi drög gerir það að verkum að menn verða á móti!

*Uppfært: Ég sé að Eyjan hefur breytt fyrirsögn sinni. Þá er það ofsagt hjá mér að Fréttablaðsgreinin haldi því fram að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum - þar er því aftur á móti haldið fram að þingflokkurinn sé á móti því að skylda sé að skrá eignir. Aðalatriðið er þetta: drögin að reglunum ganga út á valkvæðni og ekki hafa komið fram breytingar í forsætisnefnd þingsins hvað það varðar. Af þeim sökum er það býsna langsótt að saka menn um að vera á móti hinu og þessu - þegar það eina sem fram hefur komið er að þingflokkurinn styðji fyrirliggjandi drög í málinu.

föstudagur, 13. mars 2009

Orðalag Valgerðar

Valgerður Bjarnadóttir lét vinna skoðanakönnun um afstöðu fólks til stjórnlagaþings og hefur kynnt niðurstöðurnar fyrir fjölmiðlum. Í fréttum hefur komið fram að mikill stuðningur sé við að halda stjórnlagaþingið - þrír fjórðu taka vel í þessa hugmynd. Orðalag spurningarinnar er hins vegar áhugavert - þar er ekki bara spurt um stjórnlagaþing eitt og sér heldur er spurningin orðuð á eftirfarandi hátt:

„Ert þú fylgjandi stjórnlagaþingi til þess að þjóðin geti sett sér nýja stjórnarskrá?

Athyglisvert hvernig seinni hluti spurningarinnar er orðaður, þ.e. hvort fólk vilji að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá. Í þessu felst að þeir sem svöruðu spurningunni tóku ekki einasta afstöðu til stjórnlagaþingsins heldur líka þess hvort þjóðin eigi að setja sér stjórnarskrá.

Svona orðalag er villandi og til þess að knýja fram ákveðna niðurstöðu. Miklu eðlilegra hefði verið að spyrja um afstöðu fólks til stjórnlagaþings án frekari aukaskýringa eða meininga.

Þetta er ekki ósvipað og hugmyndir LÍÚ um hvernig eigi að framkvæma skoðanakannanir um Evrópusambandsaðild meðal Íslendinga. Að þeirra mati á spurningin að vera orðuð þannig að Íslendingar séu spurðir um hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið og þar með missa forræði yfir auðlindum sínum. Þá heyrist reyndar venjulega hljóð úr horni...

fimmtudagur, 12. mars 2009

Bandaríska stjórnarskráin

Bandaríska stjórnarskráin er eitt merkilegasta plagg stjórnmálasögunnar. Það var ritað af miklum stjórnspekingum á sínum tíma og hefur að mestu leytið staðist tímans tönn og verið grundvöllur að sterkri og rótgróinni lýðræðishefð í Bandaríkjunum.

Eitt af því sem höfundar stjórnarskrárinnar lögðu áherslu á var að unnt væri að breyta henni til þess að hún myndi þróast í takt við tímann. Að sama skapi lögðu þeir áherslu á að það mætti ekki vera of auðvelt að breyta henni, breytingar krefðust aukins meirihluta á þingi auk þess sem þær þyrfti að staðfesta af fylkjunum sjálfum.

Hægt er að breyta stjórnarskránni á tvo vegu; annars vegar með því að tveir þriðju þingmanna í báðum deildum bandaríska þingsins samþykki breytingar, hins vegar með því að tveir þriðju af þingum fylkjanna í Bandaríkjunum kalli saman eins konar stjórnlagaráðstefnu til að ræða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni en þessi heimild hefur hins vegar aldrei verið nýtt.

Breytingar á stjórnarskránni sem samþykktur eru verður svo að staðfesta á löggjafarþingum fylkjanna og þurfa þrír fjórðu fylkjanna að staðfesta breytingarnar til þess að þær geti tekið fullt gildi.

Hérna heima eru grundvallarbreytingar á stjórnarskránni aftur á móti drifnar í gegn á nokkrum vikum af knöppum meirihluta á þingi!

miðvikudagur, 11. mars 2009

Staksteinar dagsins

Hún er frekar sérkennileg röksemdafærslan í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Þar segir annars vegar að ríkisstjórnin vanvirði þingið með því að moka inn í það of mörgum, stórum og flóknum málum, sem útilokað sé að geti fengið almennilega þinglega meðferð. Og hins vegar að stjórnarandstaðan geri sig að fíflum með því að halda uppi málþófi. Staksteinahöfundur Moggans er því að gagnrýna viðbrögðin við því sem honum finnst sjálfum gagnrýnivert!

Nú eru þessi stóru flóknu mál sem stjórnarandstaðan „mokar inn“ ekki nein hefðbundin lagafrumvörp heldur snúast þau um stjórnarskránna og býsna róttækar breytingar á þeim grundvallarreglum sem stjórnarskráin hefur að geyma.

Það getur ekki talist eðlilegt að þannig breyting sé unnin í hraði og á handahlaupum og fái ekki þinglega meðferð. Ríkisstjórnin fór gegn þeirri hefð sem myndast hefur við stjórnarskrárbreytingar undanfarin ár (þær hafa verið þónokkrar, andstætt því sem margir halda fram) að leita eftir samráði allra flokka við undirbúning og mótun tillagna um breytingar. Reynt hefur verið að vinna málin saman og í sátt. Nú kveður við nýjan tón og það eru stjórnarflokkarnir sem vinna tillögurnar án atbeina stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eru 26 talsins, fá að sjá þessar breytingar þegar þær eru fullmótaðar og eru þannig látnir standa frammi fyrir orðnum hlut í þinginu.

Og þá er spurning hvað stjórnarandstaðan á að gera. Miðað við upplegg Morgunblaðsins ætti stjórnarandstaðan helst ekkert að gera, þar sem allir tilburðir til mótmæla gætu fengið þann stimpil á sig að teljast vera málþóf. Þetta er ekki eðlileg og rétt leið sem ríkisstjórnin fer og það er ekkert skrýtið að menn bregðist við þessu með einhverjum hætti, mótmæli og láti það ekki yfir sig ganga að svona grundvallarmál sé keyrt í gegnum þingið á nokkrum dögum, rétt eins og um væri að ræða smávægilega reglugerðarbreytingu sem engu máli skipti.

Í slíkri stöðu hefur stjórnarandstaðan ekki mörg tromp á hendi, önnur en þau að nýta rétt sinn til að ræða mál ítarlega í þinginu og reyna að vekja þannig athygli á hroðvirknislegum vinnubrögðum.

mánudagur, 9. mars 2009

413 vs. 135

Merkilegt að sjá hvernig hinir flokkarnir á þingi brugðust við tilboði Þorgerðar Katrínar um að láta mál sem varða fjölskyldur og atvinnulíf fá forgang á dagskrá þingsins í dag. Hver stjórnarliðinn á fætur öðrum steig í pontu til þess að snúa út úr þessu og halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri með málþóf sem er orðin algengasta afsökunin á stjórnarheimilinu til að breiða yfir vandræðaganginn hjá ríkisstjórn sem telur það tvö af brýnustu málunum um þessar mundir vera að breyta kosningalögum og verja einum og hálfum milljarði í stjórnlagaþing.

Annars var ræðan hjá Siv Friðleifsdóttur athyglisverðust. Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn eins og VG í stjórnarandstöðu. Til fróðleiks má benda á að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa á þessum þingvetri talað í samanlagt færri mínútur en þingmenn VG. Þingflokkurinn sjálfstæðismanna telur aftur á móti 26 þingmenn (25 reyndar lengst af) en í þingflokki VG eru níu þingmenn. 

Ef þetta er reiknað yfir í meðalmínútufjölda á þingmann þá hafa þingmenn VG talað að meðaltali í 413 mínútur á meðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað að meðaltali í 135 mínútur!

laugardagur, 7. mars 2009

Ný störf og nýir skattar

Það er gott mál að ríkisstjórnin sé farin að spá í atvinnumálum og aðhaldi í ríkisrekstri og hefur vonandi sett tilraunastarfsemi sína með kosningalöggjöf og fleira til hliðar í bili.

Vel gert hjá Steingrími að lækka dagpeninga opinberra starfsmanna í ferðalögum og alveg spurning hvort það megi ekki ganga lengra í því.

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðarpakka sem á að tryggja 4000 ársverk. Það hljómar vel og ýmsir punktarnir þarna eru góðir, t.d. aukin störf fyrir iðnaðarmenn við að sinna ýmsum viðhaldsverkefnum. Það er eðlilegt að gera þegar atvinnuleysi er mikið. Þá er það líka góð hugmynd að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna framleiðslu kvikmynda hér á landi úr 14% í 20% til þess að laða hingað til lands erlenda kvikmyndaframleiðslu, sem mun vonandi skapa störf.

Annað í þessu er þynnra og lítur frekar út fyrir að hafa verið bætt við á blaðið til þess að koma störfunum yfir fjögur þúsund. T.d. er reiknað með 1000 ársverkum í kjölfar þess að skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja verði bætt og annað á þessum lista felur ekki beint í sér mikla atvinnusköpun, eins og að fjölga listamannamönnum á ríkislaunum. Það mun skapa 33 ársverk! Að skikka fyrirtæki til að vinna fjórðungs alls afla heima við orkar tvímælis, fyrirtækin hljóta að geta metið það hvernig þessu verði best hagað.

Svo sá ég að Steinunn Valdís Óskarsdóttir er að tala fyrir því að tekið verði upp margþrepa skattkerfi. Hún tók þó fram að það eigi alls ekki að vera eins og gamli hátekjuskatturinn því hann hafi verið farinn að leggjast á fólk með millitekjur og í frétt Morgunblaðsins um þetta kemur fram að Steinunn hafi vísað til fólks sem hafi unnið mjög mikið og haft þokkalegar tekjur á meðan það var að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Þessar fullyrðingar stangast á, því margþrepa skattkerfi mun einmitt bitna á þannig fólki. Því hærri sem launin eru því mun hærri verður skattprósentan. Það dregur úr hvata til vinnu og býr alls konar óheppilega þröskulda, t.d. að það verði hagstæðara að vera með 399 þúsund krónur í laun en 401 þúsund ef skattprósentan hækkar við 400 þúsund króna markið. Skattkerfið í dag er alls ekki fullkomið en einn þessi helsti kostur er að það er einfalt og laust við óþarfa flækjustig og það er þess virði að halda því þannig.

miðvikudagur, 4. mars 2009

Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu

Tveir af foringjum ríkisstjórnarinnar, þeir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, tjá sig varla þessa dagana öðruvísi en að með fylgi heillangur pistill um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu mála á þeim bænum. Þetta gera þeir auðvitað fyrst og fremst til þess að draga athyglina frá vandræðunum á stjórnarheimilinu, þar sem flokkarnir ná ekki saman um þýðingarmikil mál og Framsóknarmenn eru á einungis fjórum vikum orðnir dauðþreyttir á þvermóðskunni í VG og klækjunum í Samfylkingunni.

Liðsmenn stjórnarinnar á þingi virðast aftur á móti hafa talið sér trú um að vandræðin megi öll útskýra með því að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo ákaflega ómálefnalegur í stjórnarandstöðu. Það hefur verið nánast hægt að treysta á það undanfarnar daga og vikur að um leið og eitthvert ágreiningsmálið kemur upp á stjórnarheimilinu fara stjórnarliðar að tjá sig um Sjálfstæðisflokkinn.

Þar eru einkum talin til þrjú mál; kosning forseta Alþingis, framlagning frumvarpa um séreignasparnað og greiðsluaðlögun og loks Seðlabankafrumvarpið. Ekkert þessara mála stenst skoðun sem einhvers konar dæmi um ómálefnalegheit af hálfu sjálfstæðismanna.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu í alls heilar 14 mínútur þegar kosning forseta alþingis fór fram en kjör nýs forseta þingsins taldi ný ríkisstjórn vera sitt mesta forgangsmál á þingi. Frumvarpið um breytingar á Seðlabankanum tók alls 17 breytingum í meðförum þingsins, en var þó ekki nema 12 greinar að lengd og forsætisráðherra kynnti málið þannig í upphafi að það væri afar faglega unnið og vandað. Stjórnin samþykkti það svo í gerbreyttri mynd. Þingið varði alls rúmum þremur vikum í að fara yfir málið sem er nú orðið að lögum með miklum breytingum. Og hvað varðar það sem Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa kallað deilur um höfundarrétt á frumvörpum þá má spyrja á móti hvort eitthvað sé óeðlilegt við það að menn sem eru með fullunnin hagsmunamál fyrir fjölskyldurnar í landinu í höndunum leggi þau fram á þingi? Ríkisstjórnin tók sér fjórar vikur í kjölfarið í að lúra á þessum málum þótt þau lægju fyrir í þinginu, klár til afgreiðslu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar að sjálfsögðu greitt fyrir þeim málum sem tengjast efnahagsuppbyggingu og atvinnumálum.

Á sama tíma og þessi þula hljómar frá talsmönnum stjórnarinnar eru ágætis hlutir að gerast innan Sjálfstæðisflokksins. Endurreisnarnefndin undir forystu Vilhjálms Egilssonar hefur vakið athygli fyrir að gera opinskátt upp við fortíðina. Flokkurinn mun nýta tímann fram að landsfundi í lok mars til þess að fara í naflaskoðun, gera upp við fortíðina og móta tillögur til framtíðar. Það á hann líka að gera. Sjálfstæðisflokkurinn verður auðvitað að horfast í augu við að hann ber ábyrgð á því sem hér gerðist þótt honum sé fráleitt einum um að kenna, íslenskt fjármálalíf bjó við regluverk sem var alþjóðlegt og ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að bankarnir sjálfir höfðu tekið gríðarlega áhættu í sínum rekstri, komu sér í viðkvæma stöðu og fóru þannig nánast berskjaldaðir inn í hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu.

Minnihlutastjórnin mun ekki geta lifað á því til lengdar að benda bara á Sjálfstæðisflokkinn til að fela vandræðaganginn í sínum röðum. Stjórnin þarf að svara fyrir það hvers vegna Evrópumálin (og þar með talin leiðin að nýjum gjaldmiðli) þokast ekkert áfram (ekki einu sinni hænuskrefið sem Árni Páll Árnason boðaði að yrði tekið með því að heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá hefur litið dagsins ljós). Sömuleiðis þarf að móta einhverja sýn á það hvernig eigi að takast á við atvinnuleysið þegar 16 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá en ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst verið í því hlutverki að skjóta niður hugmyndir og lausnir í atvinnumálum fram til þessa.

Það skýtur því skökku við að heyra Steingrím og Össur og félaga, sem eiga samtals mörg þúsund ræðutíma að baki í þinginu sem stjórnarandstæðingar, og lögðust þar gegn hinu ýmsu málum ásaka núverandi stjórnarandstöðu um að vera að standa í vegi fyrir brýnum málum.

mánudagur, 2. mars 2009

Persónukjör og peningar

Birti þessa grein á Deiglunni í dag og læt hana flakka hingað líka:

---

Eitt þeirra mála sem ný ríkisstjórn hyggst leggja áherslu á er að breyta kosningalögum til þess að innleiða reglur um persónukjör.

Því hefur verið lýst ágætlega af hálfu bæði stjórnmálamanna og fræðimanna út á hvað slík breyting myndi ganga, þ.e. að stjórnmálaflokkar hefðu kost á að bjóða fram það sem kallast óraðaður listi frambjóðenda. Kjósendur þeirra flokka sem bjóða fram slíkan lista hefðu því í hendi sér að ráða uppröðun á listanum í kjörklefanum og hin hefðbundnu prófkjör flokkanna færu þá fram inn í kjörklefanum en væru ekki haldin sérstaklega af hálfu viðkomandi flokks áður en kosningarnar sjálfar fara fram.

Krukkað í reglunum í miðjum klíðum
Við þessa hugmynd er ýmislegt að athuga. Hún er fyrir það fyrsta afar seint fram komin en kosið verður til Alþingis 25. apríl nk. og því væri verið að breyta reglunum í miðjum leik. Það er raunar meðal einkenna ólýðræðislegra kosninga og stjórnarfars að breyta kosningareglum eftir að blásið hefur verið til kosninga. Eðlilegra væri að gefa svona breytingum lengri tíma og undirbúa þær þá betur. Reyndar hafa fjórir af fimm flokkum nú þegar gefið út að þeir hyggjast halda prófkjör, forval eða uppstillingu (Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn) og því má velta fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að leggja ofurkapp á að koma slíku ákvæði inn núna.

Fjármál frambjóðenda
Annar flötur á hugmyndinni um persónukjör eru lög frá 2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Í þessum lögum er kveðið á um reglur varðandi styrki til stjórnmálaflokka og frambjóðendur, upplýsingaskyldu, bókhaldsskyldu og hámarkskostnað fyrir þá sem taka þátt í prófkjörum innan flokkanna. Með setningu laganna, sem allir flokkar stóðu að á sínum tíma, voru í fyrsta sinn settar reglur um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, en fram að þeim tíma höfðu nánast engar reglur gilt um þetta efni hér á landi. Lögin hafa verið gagnrýnd nokkuð harkalega hér á Deiglunni, þótt ekki verði farið nákvæmlega út í þá sálma að sinni.

Reglurnar setja frambjóðendum í prófkjörum talsverðar hömlur miðað við það sem áður var, hámarkskostnaður við prófkjör er til að mynda um það bil 8 milljónir í Reykjavík (hámarkskostnaður er reiknaður þannig að ákveðin krónutala er fyrir hvern íbúa á svokölluðu „kjörsvæði“ að viðbættri einni milljón króna) og líkt og stjórnmálaflokkarnir mega frambjóðendur ekki þiggja meira en 300 þúsund krónur í einstök framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Með þessu eru töluverðar hömlur settar á kostnað við prófkjörin en að sama skapi er unnt að verja í þau þónokkru fé enda gegna prófkjörin mikilvægu hlutverki innan flokkanna varðandi nýliðun og breytingar.

Hvað mætti eyða miklu í persónukjör?
Hugmyndir um persónukjör passa ekki vel inn í lögin um fjármál flokkanna enda var ekki gert ráð fyrir þeim möguleika þegar lögin voru samin. Engu að síður mætti ætla að frambjóðendur á óröðuðum lista hefðu áhuga á að koma sér og sínum stefnumálum, áherslum og fyrri afrekum á framfæri við kjósendur með einhverjum hætti enda væri það hluti af eðlilegri nýliðun og endurnýjun innan flokkanna.

Þá vakna upp spurningar um hvernig fara ætti með kostnað sem farið yrði út í af hálfu frambjóðenda á óröðuðum lista til að kynna sig. Hvaða reglur gilda um slíkt? Ætli ríkisstjórnin með stuðningi Framsóknarflokksins að gera frumvarp um breytingar á kosningalögunum að lögum fyrir þinglok þyrfti í leiðinni að velta upp breytingum á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Miðað við ummæli og yfirlýsingar stjórnarliða og fræðimanna fram til þessa hefur þetta atriði þó ekki fengið mikla athygli og ólíklegt verður að teljast að frumvarp þess efnis sé í undirbúningi.

Framlag til flokksins sjálfs?
Vilji menn aftur á móti ekki gera sérstaka breytingu á lögunum um fjármál stjórnmálaflokka væri hugsanlega hægt að fella persónukjörið undir lögin með því að líta svo á að það fé sem frambjóðendur á óröðuðum lista verja til að kynna sjálfan sig jafngildi framlagi til viðkomandi flokks og kosningabaráttu hans og megi þar af leiðandi ekki vera yfir 300 þúsund krónum. Þetta gæti stuðst við d-lið 2. gr. laganna þar sem framlög eru m.a. skilgreind sem „framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru“. Þannig yrði einfaldlega litið á þann kostnað sem hver frambjóðandi legði út fyrir sem stuðning við viðkomandi flokk og slíkt flokkað sem framlag til flokksins.

Margar milljónir í prófkjör, 300 þúsund í persónukjör
Þessi niðurstaða býður aftur á móti upp á ákveðið misræmi milli þeirra sem fara í prófkjör annars vegar og frambjóðenda í persónukjöri hins vegar. Frambjóðendur í prófkjörum gætu auglýst sjálfa sig fyrir allt að 8 milljónir í stærstu prófkjörunum, en þeir sem eru á óröðuðum lista flokka gætu aðeins varið 300 þúsund krónum til að koma sér á framfæri. Þetta hefði áhrif á nýliðun innan flokka sem yrði gerð torveldari á þennan hátt því nýir og síður þekktir frambjóðendur hefðu minni möguleika á að vekja athygli á sér þar sem hámarkskostnaðurinn til að kynna sig er 300 þúsund krónur. Þeir sem fyrir eru á fleti, t.d. sitjandi þingmenn, ættu væntanlega meiri möguleika á að halda sinni stöðu, enda í flestum tilfellum þekktari og betur kynntir.

Niðurstaðan er því sú að með góðum vilja má koma persónukjörinu undir ákvæðin um lögin um flokkana og prófkjörin en þau voru ekki hugsuð út frá þessum kosti og myndu í þokkabót búa til ýmis konar misræmi og ósamræmi.

Annar möguleiki við að koma persónukjörinu undir lögin um fjármál flokkanna án þess að gera sérstaka breytingu væri að ætla sér að lögjafna ákvæðum um kostnað við prófkjörsbaráttu yfir á persónukjörið. Á það ber hins vegar að líta að þetta er afar ólík barátta, þ.e. persónukjör annars vegar og prófkjör hins vegar og býsna langt seilst að heimfæra þau ákvæði upp á persónukjörið.

Betri undirbúningur
Að þessu öllu sögðu er ljóst að nokkur vafi leikur á því hvernig sé rétt að fara með persónukjörið gagnvart þeim kostnaði sem lagt verður út í af hálfu frambjóðenda. Svörin við því eru ekki alveg augljós, þótt eflaust mætti heimfæra ákvæði laganna upp á persónukjörið. Eðlilegra væri aftur á móti að aðlaga lögin um fjármál flokkana að hinu nýja frumvarpi. Þá vaknar aftur á móti upp sú spurning hvort tíminn sé nægur til að vinna í slíkum breytingum á síðustu stundu í þinginu, hvort mikilvægari mál ættu ekki að fá forgang og hvort það liggi yfirhöfuð mikið á að keyra svona breytingar í gegn í ljósi þess að allar líkur séu á að það væri lítið sem ekkert notað.

föstudagur, 27. febrúar 2009

Svartir svanir

Ég er að lesa merkilega bók sem heitir The Black Swan eftir Nassim Nicholas Taleb og hefur fengið mikla athygli. Taleb hefur unnið í fjármálaheiminum en hefur menntun í bókmenntum og tölfræði og myndi líklegast flokkast sem heimspekingur.

Í stuttu máli lýsir Taleb því í bókinni hvernig þær aðferðir og leiðir sem fólk hefur við að mynda sér skoðun og safna að sér þekkingu séu afar gloppóttar þar sem við gerum nánast aldrei ráð fyrir hinu óþekkta og óvænta, sem komi fyrir vikið alltaf jafnmikið á óvart. Titill bókarinnar skýrir þetta ágætlega og vísar í að flestir trúðu því að allir svanir væru hvítir, alveg þar til að fyrsti svarti svanurinn flaug framhjá og gerbreytti þar með hugmyndum okkar um svani.

Sama telur Taleb að eigi við um marga af þeim stórviðburðum sem orðið hafa undanfarin ár og áratugi, þeir hafa allir komið okkur í fullkomlega opna skjöldu og gerbreytt öllum okkar forsendum og þekkingu. Engu að síður freisti fólk þess aftur og aftur að reyna að útskýra heiminn með alhæfingum og kenningum, búa til orsakasamhengi og skýra og skilja það sem er að gerast þannig að úr verður mikil félagsvísinda- og samfélagskenningasmíð. Það sé allt gott og blessað fyrir utan að hvergi sé gert ráð fyrir hinu óþekkta og menn beinlínis telja sig ekki þurfa að reikna með því.

Skrif hans hafa vakið töluverða athygli enda fer hann gegn miklu af því sem telja má til almennra sanninda og viðtekinnar speki hverju sinni. Hann var meðal þeirra sem spáði fyrir um það fyrir nokkrum árum að hið alþjóðlega fjármálakerfi myndi fara á hliðina.

Þessi skrif eru athyglisverð í tengslum við atburði líðandi stundar. Heimsbyggðin er nú lent í mikilli niðursveiflu og kreppu eftir mörg góð ár á undan, þar sem lánsfé var nægt og markaðsbúskapurinn blómstraði. Þetta uppgangsskeið hefur auðvitað smitað út frá sér og skapað ákveðið andrúmsloft og sannfæringu hjá mörgum um að fundin hefði verið upp einhvers konar eilífðarvél – kerfi sem gæti gengið áfram og áfram og myndi aldrei bila. En þá gerðist hið óvænta og ófyrirséða, þ.e. að vantraust tók að grafa um sig í kerfinu, lánamarkaðir að lokast og alþjóðavætt fjármálakerfi heimsins tók að sogast inn í kreppu.

Eftir á er vitaskuld auðvelt að búa til allskonar skýringar og kenningar um ástæður þess að svo fór sem fór og það merkilega er að nú byggja menn sig upp gagnvart framtíðinni með því að horfa í fortíðina. Þannig eru nú að rísa múrar milli þjóða og eftirlitsapparöt að skjóta upp kollinum til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti tekið stundað áhættusamar fjárfestingar og spilað djarft í sínum rekstri. Allt eru þetta auðvitað eðlileg viðbrögð upp að vissu marki en spurningin er bara sú hvort að þetta sé ekki einskonar leiðrétting aftur á bak, þ.e. settur er upp viðbúnaður og stofnanir sem hefði verið ákaflega gagnlegt að hafa fyrir tveimur til þremur árum áður en allt fór á hliðina en munu kannski bjarga litlu sem engu núna þegar skaðinn er skeður.

Evrópusambandið er ekki undanskilið að þessu leyti og kynnti á dögunum skýrslu nefndar á vegum Jacques Delarosier. Hún gengur í stuttu máli út á að búa til ýmis konar stofnanir og viðbúnað til þess að sporna við því að samskonar ástand myndist og gerðist fyrir nokkrum misserum, þ.e. þar sem saman fór mikil áhættusækni fjármálafyrirtækja og veikt eftirlit. Þannig verður meðal annars sett á laggirnar eitthvað sem nefnist European Systemic Risk Council, sem útleggst á íslensku sem Evrópskt kerfisáhætturáð og á að fylgjast með því og láta þar til greinda aðila vita telji ráðið að áhættan sé farin að verða of mikil.

Angi af þessum hugmyndum teygði sig hingað heim um daginn og inn í íslenska pólitík þar sem viðskiptanefnd Alþingis tók þessa skýrslu til umfjöllunar. Mikið fár varð yfir því að nokkrir nefndarmanna vildu renna nánar yfir þetta plagg, sem ljóst er að mun móta þær reglubreytingar sem framundan eru í Evrópu og var einn nefndarmanna, Höskuldur Þórhallsson úr Framsóknarflokknum, tekinn sérstaklega út fyrir og því slegið upp sem stórmáli að hann hafi viljað taka nokkra daga í að yfirfara efni þessarar skýrslu. Höskuldur sat undir ýmis konar ásökunum og spurningum í einkaviðtali í Kastljósi um kvöldið og þetta virtist valda gríðarlegum titringi á stjórnarheimilinu.

Höskuldur stóð það stormvirði ágætlega af sér en var aftur á móti lentur í þeirri stöðu að verða að réttlæta öll lætin sem höfðu orðið út af þessari skýrslu. Hann virðist hafa litið svo á að þar sem hann hafi tekið á sig pólitískt högg fyrir þá ákvörðun að vilja fara yfir efni skýrslunnar í nokkra daga hafi hann orðið að vinna einhverjar tillögur og hugmyndir upp úr henni. Út úr því kom sú hugmynd hans að peningastefnunefnd Seðlabankans eigi að fá þá skyldu samkvæmt lögunum að tilkynna um það opinberlega ef hún telji að fjármálaleg áhætta sé farin að verða of mikil.

Þessi tillaga, sem var samþykkt á þingi, kemur inn sem fullkominn bútasaumur ofan í Seðlabankafrumvarpið sem hafði þó tekið einum 16 eða 17 breytingum fyrir. Peningastefnunefndin á nú að vera í þeirri stöðu að gefa einhvers konar almennar viðvaranir ef áhættan á mörkuðum er orðin of mikil. Við þetta er margt að athuga og kannski fyrst og fremst það að samkvæmt öllu öðru sem fram kemur í frumvarpinu um hlutverk þessarar nefndar hefur hún enga möguleika eða forsendur til að afla sér nægilegra upplýsinga um stöðuna á fjármálamörkuðum til að geta gefið út svona viðvaranir. Að því ógleymdu hvaða áhrif það hefði ef opinber tilkynning myndi birtast um að of mikil áhætta væri komin í fjármálakerfið – hér færi allt í panikk! Hin hliðin á peningnum er svo að ef svona yfirlýsing kemur ekki frá peningastefnunefndinni má væntanlega álykta sem svo að allt sé í lagi.

Þetta er allt hið furðulegasta mál og ágætis dæmi um hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni. Út í Evrópu er sett í gang nefnd til að móta tillögur um breytingar á reglum. Tillögurnar miða flestar við að setja upp viðbúnað sem hefði verið ákaflega gott að hafa fyrir nokkru síðan en veitir enga sérstaka tryggingu fyrir því að næsta óvænta og ófyrirséða atburðarrás muni ekki valda vandræðum og skaða. Þessar hugmyndir og tillögur evrópsku nefndarinnar smitast svo út um heiminn og enda hér heima þar sem þingmaður lendir í þeirri stöðu að neyðast til að vinna einhverjar tillögur upp úr skýrslunni og bæta inn í á síðustu stundu.

mánudagur, 23. febrúar 2009

Hrun íslenska lýðveldisins?

Íslenska lýðveldið er ekki hrunið. Og það á ekki að tala þannig.

Við eigum vissulega í efnahagslegum erfiðleikum og það eiga margir um sárt að binda í kjölfar hruns bankanna en við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum á nokkrum árum. Trúlega verður staðan á næsta ári strax orðin mun skárri.

Það virðist hins vegar henta ákveðnum aðilum og þeirra málflutningi að tala á þann hátt að íslenska lýðveldið sé hrunið og stjórnarskráin okkar svo meingölluð að hana þurfi að endurskrifa frá grunni.

Lýðveldið, sjálfstæði þjóðarinnar og mannréttindi stjórnarskrárinnar eru einmitt okkar vörn og skjöldur á þessum erfiðu tímum. Þegar sú staða kemur upp að stjórnvöld taka ákvarðanir með miklum hraða og trekk í trekk er vélað um gríðarlega hagsmuni þjóðarinnar á næturfundum á þingi, lagafrumvörp t.d. lögð fram að kvöldi og samþykkt að nóttu osfrv. er plagg eins og stjórnarskráin sérstaklega mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að því verður ekki breytt svo auðveldlega.

Fullyrðingar um að íslensk stjórnskipan og íslenska stjórnarskráin séu ónýt eru notaðar til þess að rökstyðja hugmyndir um stjórnlagaþing. Ég er efins um þá aðferð. Bæði finnst mér ekki tilefni til þess að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni og þær breytingar sem á henni þarf að gera er eðlilegra að Alþingi geri.

Margir þeir sem tala fyrir breytingum á stjórnarskránni nefna að efla þurfi Alþingi og hlutverk þess gagnvart framkvæmdarvaldinu en það væri nokkuð undarleg byrjun við að efla þingið að taka frá því eitt mikilvægasta hlutverk sitt, þ.e. stjórnarskrárvaldið.

Í greinargerð með frumvarpinu um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram segir að Alþingi hafi ekki getað gert þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar hafi verið. Þetta er umdeilanlegt því stjórnarskránni var breytt árið 1991 (breytingar á ákvæðum um Alþingi), 1995 (mannréttindakaflinn endurskoðaður) og 1999 (kjördæmaskipan breytt) - alls þrisvar á síðustu 18 árum. Þetta eru t.d. mun tíðari breytingar en í Danmörku þar sem stjórnarskránni var síðast breytt 1953 (tek fram að það er fullmikil hægagangur fyrir minn smekk!). En það er beinlínis æskilegt að það sé erfitt að breyta stjórnarskránni, það er hluti af tilgangi hennar. Stjórnarskráin er skjalið sem geymir grundvallarreglur þjóðarinnar og á að vera yfir það hafið að taka grundvallarbreytingum eftir því hvernig vindar blása hverju sinni.

Í greinargerðinni með frumvarpi Framsóknarmanna um stjórnlagaþing er talað um að ýmis fordæmi séu fyrir því að endurskrifa stjórnarskrá þjóða frá grunni og er til dæmis vísað í reynslu A-Evrópuþjóða sem endurskrifuðu stjórnarskrár sínar eftir hrun kommúnismans.

Hvernig menn fá það út að aðstæður okkar núna séu sambærilegar við aðstæður þessara þjóða er óskiljanlegt og gerir eiginlega lítið úr þeim hörmunugum sem þær upplifðu. Þjóðir A-Evrópu voru að losna undan áratugalangri kúgun og ofbeldi og þjóðfélagsskipan sem hafði verið neytt upp á þær og í reynd aldrei verið í höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þessara þjóða að móta sína eigin stjórnarskrá. Það höfum við hins vegar gert og þar að auki gert á henni ýmsar breytingar og betrumbætur. Þingið hefur það í hendi sér að gera slíkar breytingar og það væri til þess fallið að veikja þingið og áhrif þess að þetta mikilvægasta hlutverk þess væri frá því tekið.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Byggðastofnun á sterum?

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um lánaviðmið sem sett verði bönkunum nýju. „Ríkisstjórnin mun setja nýju bönkunum útlánamarkmið vegna ársins 2009 til að örva hagkerfið.

Þetta ákvæði hefur ekki vakið mikla athygli, enda lætur það ekki mikið yfir sér. Jóhanna og Steingrímur töluðu um það á þingi á dögunum að þetta yrði kynnt nánar fljótlega og bentu á að þetta væri hluti af því sem væri að gerast annars staðar í heiminum.

Það er rétt hjá þeim. En það er ekki endilega víst að þetta sé þróun sem er öllum að skapi. Víða í Evrópu hefur ríkisvaldið þurft að stíga inn í rekstur banka og veita til þeirra fé til að bjarga frá gjaldþroti. Eigið fé bankanna er því víða í reynd ríkisfé.

Þetta skapar auðvitað ráðríkum stjórnmálamönnum mikil sóknarfæri. Þetta er almannafé og þeir eru fulltrúar almennings. Það þýðir að kröfur eru farnar að koma fram um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, þ.e. þann sem er pólitískt réttur hverju sinni.

The Economist skrifar leiðara um þetta í síðustu viku og bendir á að í Evrópu séu þegar farnar að koma fram kröfur um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, t.d. til að tryggja að störfum sé haldið í heimalandinu og að lánað sé til ákveðinna fyrirtækja osfrv. Þetta er komið fram í Þýskalandi og í Frakklandi.

Þetta er auðvitað alger góssentíð fyrir stjórnmálamenn. Þeir geta sem eigendur bankanna birt þeim sínar áherslur og óskir um hvert fjármagnið eigi að fara, í hvaða gæluverkefni sé rétt að lána „björgunarféð sem var sett inn í bankana. Það verður gæfulegt, eða hitt þó heldur, ef menn munu fara með bankana sem pólitíska styrkjasjóði eða ofvaxnar Byggðastofnanir, lánandi vildarvinum í kjördæmunum. Það á að setja nærri 400 milljarða króna inn í þessar stofnanir.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Seðlabankinn og framtíðin

Það er ævintýralegt hvernig púðrinu er eytt í að ræða og rífast um allt annað en það sem skiptir máli. Nú er það Davíð Oddsson og framtíð hans sem allt snýst um. Þetta er fráleitt ástand – persóna eins manns á hvorki að valda því að menn verji óbreytt ástand né sjái brottrekstur hans sem svarið við vanda þjóðarinnar. Og það er auðvitað alveg út í hött að sjá hvernig fjölmiðlarnir magna þetta upp. Fréttamenn Stöðvar 2 eyddu heilum degi í að elta Davíð og bíl hans. Frábært framlag inn í brýna þjóðfélagsumræðu!

Fyrir liggur að gera þarf breytingar á starfsemi Seðlabankans og þær hljóta að snúa að framkvæmd peningamálastefnunnar. Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki bitið á stórum hluta lánamarkaðarins undanfarin ár. Bankinn hefur beitt stýrivöxtunum en aðeins náð til mjög afmarkaðs hluta markaðarins.

Seðlabankastjóri, hvort sem hann er Davíð Oddsson eða einhver annar og hvort sem hann starfar með peningastefnuráði eða bankaráði, mun standa frammi fyrir sömu vandamálunum.

Undanfarin ár myndaðist hér ákveðinn vítahringur sem við náðum illa að brjótast úr. Þensla varð til þess að bankinn hækkaði stýrivexti sem olli því aftur að hið háa vaxtastig varð álitlegur fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta. Erlenda fjármagnið jók á þensluna en bankinn átti erfitt með að breyta um kúrs. Það var illmögulegt fyrir bankanna að lækka vexti í miðri þenslu en að sama skapi voru vaxtahækkanir skammgóður vermir því enn meira fjármagn streymdi inn í landið í kjölfarið.

Þetta var þó ekki orsök þess að bankakerfið hér heima fór á hliðina en þetta olli miklu ójafnvægi í okkar þjóðarbúskap. Aðalorsök bankahrunsins var sú gríðarlega áhætta og lánakeyrða útrás sem bankarnir höfðu tekið sem kom svo á daginn að þeir réðu ekki við þegar lánamarkaðir snöggkólnuðu og lánalínur voru dregnar til baka. Stuðningur Seðlabankans við bankana og hlutverk hans sem lánveitandi til þrautavara er svo önnur saga - þar er bankinn ýmist gagnrýndur fyrir að hafa ekki veitt nægilega aðstoð og jafnframt að sú aðstoð sem þó var veitt í formi lána og neyðarlána hafi tapast í afskriftum.

En svona rifrildi - þ.e. hvort bankinn hafi lánað of lítið eða of mikið, hvenær hefði átt að fara að lækka vexti aftur og hve hár gjaldeyrisvaraforðinn hefði þurft að vera eru allt saman atriði sem lítið státar að rífast um núna. Við göngum í gegnum mestu kreppu í heila öld og niðurstaðan er ljós. Það er engu að síður ekkert nema eðlilegt að gerðar séu breytingar á því kerfi sem var til staðar þegar þessar hamfarir gengu yfir. Þær breytingar verða hins vegar að skapa varanlega undirstöðu en ekki vera eingöngu til þess að friðþægja óánægjuröddum í skamman tíma.

Hvernig tökum við t.d. á því eftir nokkur ár ef hlutabréfaverð fer að hækka, fjármálafyrirtækin að eflast og fasteignaverð að stíga upp á við, svo dæmi sé tekið? Á þá að byggja á sömu bjargráðunum, þ.e stýrivöxtum Seðlabankans og íslensku krónunni en treysta á að einföld mannabreyting í forystunni muni leysa málið?

Ég hef ekki, frekar en aðrir, töfralausnina fyrir peningamálastefnu okkar til framtíðar. Við blasir að núverandi ástand gengur ekki upp. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils eða upptaka evru með inngöngu í ESB eru þeir valkostir sem helst koma til greina. Ný ríkisstjórn virðist ekki hafa áhuga á að kanna þá möguleika nánar; Samfylkingin setti umsókn um ESB-aðild á ís til vors amk. og það virðist helst vera í prívatsamtölum Steingríms Joð og Kristínar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs sem einhliða upptaka annars gjaldmiðils er til umræðu. Aðrir í ríkisstjórninni minnast varla á þetta. Í staðinn fer orkan í eltingarleik við Davíð Oddsson, bréfaskriftir og einhverja leiki í fjölmiðlum.

Þetta er ekki gæfulegt ástand!

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Langreyðastjórnin

Það verður fróðlegt að sjá hvað stendur eftir hjá nýju ríkisstjórninni þegar og ef þeim tekst að ljúka sínu helsta stefnumáli og eiginlegum grundvelli ríkisstjórnarsamstarfsins, þ.e. að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum.

Öllum er ljóst að framundan eru mikilvæg verkefni og eitt þeirra eru atvinnumálin. Stjórnin virkar einkar ósamstíga þar. Steingrímur J. hefur lýst því yfir að hann ætli að endurskoða reglugerð sjávarútvegsráðherra um veiðar á hrefnu og langreyði í atvinnuskyni en fyrir liggur að ekki er þingmeirihluti til þess. Þingflokkar sjálfstæðismanna, frjálslyndra og framsóknarmanna eru allir fylgjandi þessum veiðum sem er klár meirihluti, allt í allt 36 þingmenn auk Guðbjarts Hannessonar í Samfylkingunni, sem kemur þessi væntanlega upp í 37 þingmenn.

Yfirlýsing umhverfisráðherra um að endurnýja ekki viljayfirlýsingu stjórnvalda um álver á Bakka styðst heldur ekki þingmeirihluta. Hluti Samfylkingarinnar er á móti þessu, þ. á m. iðnaðarráðherrann sjálfur auk þess sem þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins styðja líka framkvæmdir á Bakka. Á það hefur verið bent að þetta mál sé ekki áríðandi á næstu vikum vegna þess að Alcoa sé í vandræðum með fjármögnun verkefnisins og það kann að vera rétt en aftur á móti mun þetta mál koma inn á borð nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum og þá þarf að taka varanlega ákvörðun um hvort framlengja eigi samstarfið við Alcoa. Núgildandi viljayfirlýsing rennur út í haust og fyrir þann tíma þarf að vera búið að taka ákvörðun um þetta.

Undanfarin ár hafa mál eins og álver og hvalveiðar ekki verið ofarlega á dagskrá í umræðunni vegna þess að við höfum ekki verið í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega á fleiri störfum að halda. Þegar atvinnuleysi er 1-2% þá þarf ekki að hafa stórar áhyggjur af því að skapa ný störf. Hagkerfið sér um það sjálft. Þegar yfir 13 þúsund manns eru komin á atvinnuleysisskrá hlýtur myndin að breytast - í það minnsta þannig að atvinnutækifæri eins og hvalveiðar og álver séu ekki slegin sjálfkrafa út af borðinu.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Hvað varð um Evrópuskilyrðin?

Þann 13. desember sagði formaður Samfylkingarinnar í viðtali í Vikulokunum að ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki breyta um stefnu í Evrópumálum væri stjórnarsamstarfi flokkanna sjálfhætt. Samfylkingin vildi m.ö.o ekki tilheyra ríkisstjórn sem myndi ekki setja stefnuna á ESB-aðild.

Í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar segir eftirfarandi um ESB:

"Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Með öðrum orðum: hvað varð um Evrópuskilyrðin?

Tengist þessi augljósa eftirgjöf Samfylkingarinnar eitthvað þeirri staðreynd að ESB-aðild er ekki lengur vinsæl í könnunum?

Pawel Bartoszek skrifar góðan pistil um þennan flótta Samfylkingarinnar á Deiglunni um daginn sem heitir "Listin að fokka upp eigin málstað" og lýsir ágætlega hvernig stundarhagsmunir og taugaveiklun ollu því að Samfylkingin henti því tækifæri út um gluggann að þoka Íslandi inn í Evrópusambandið. Lokaorðin eru svona:

"Á nokkrum dögum í janúar fór Samfylkingin svo á taugum og sleit því samstarfi sem líklegast var til að leiða ESB-umsókn Íslands til lykta. Út frá sjónarhóli Evrópusambandssinna er staðan nú þessi: Í stað þess að hafa ríkisstjórn Samfylkingarinnar og evrópuhneigðs Sjálfstæðisflokks sjáum við fram á stjórn höfuðlausra krata og hins þjóðlega kommaflokks. Það sem meira er, við sjáum fram á kosningar með líklegri framrás hinna ESB-tortryggnu vinstri grænna og Sjálfstæðisflokki sem er mun minna opinn gagnvart ESB en ella hefði verið. Ekkert af þessu er ESB-aðild Íslands til framdráttar."

laugardagur, 31. janúar 2009

Ákvarðanirnar bíða

Nýja minnihlutastjórnin hefur tekið sér meira en viku til að koma sér saman um stjórnarsáttmála til þriggja mánaða.

Þetta þýðir að í rúmlega viku hefur orka pólitíkusanna og athygli fjölmiðlannna beinst að hráskinnaleik stjórnmálanna. Hver færi hvaða ráðuneyti, hvað stjórnlagaþing kosti, hver verður rekinn, hvort verður kosið í lok apríl eða byrjun maí osfrv.

Ekkert af þessu skiptir neinu máli varðandi það sem er framundan né hjálpar til við að koma okkur sem fyrst út úr þeim vandræðum og kreppu sem við erum í.

Viðfangsefnunum má skipta niður í nokkra flokka.

Gengið, verðbólgan og vextir

Í fyrsta lagi er gengi krónunnar, verðbólga og háir stýrivextir. Öll þessi atriði stuðla að því að ástandið í efnahagsmálum núna er og hefur verið algerlega óviðunandi. Hins vegar eru jákvæð merki í spilunum hvað þetta varðar; vöruskiptahallinn er orðinn hagstæður og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast, (þótt það sé hæfilega mikið að marka á meðan gjaldeyrishöftin eru til staðar). Að öllum líkindum mun verðbólgan fyrir febrúar verða mun lægri og stýrivextir lækka svo í kjölfarið. Þessi mál munu því þróast til betri vegar á næstu mánuðum og það mun létta töluvert á afborgunum verðtryggðra lána fyrir einstaklinga og fjölskyldur og vaxtalækkunin í kjölfarið verður mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Bankakerfið í gang á ný

Í öðru lagi þarf að koma bankakerfinu á lappirnar á ný. Matsfyrirtækið Oliver Wyman er að yfirfara eignasafn bankanna áður en eigið fé verður sett inn í bankanna. Til stóð að þeirri vinnu yrði lokið í febrúar en samkvæmt nýjum fréttum mun því ekki ljúka fyrr en í apríl. Það eru slæmar fréttar því núverandi ástand bankanna er engan veginn nógu góð. Samofið því verkefni að koma bönkunum á lappirnar og stofna efnahagreikning þeirra er svo að marka stefnu til framtíðar um rekstrarform bankanna, þ.e. hvort koma eigi þeim í einkaeigu og hvort sameina eigi amk. tvo af bönkunum. Inn í þetta spilar svo hvernig aðkoma erlendu kröfuhafanna verður að eignarhaldi bankanna.

Gjaldmiðill og peningamálastefna

Þriðja stóra atriðið sem þarf að leysa til lengri tíma litið er framtíðarskipan gjaldmiðlamála og peningamálastefnu. Þar kemur einkum tvennt til greina; aðild að ESB eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils, líklegast dollars sökum þess hve pólitískt viðkvæm einhliða upptöku evru væri. Báðar þessar leiðir hafa aftur á móti innbyggðan vanda. Það er alls óvíst að einhliða upptaka dollars þætti trúverðug af okkar hálfu núna – við skulum ekki vanmeta hve lítil tiltrúin á „íslenskum efnahagslausnum“ er. Þar að auki stæðist slík lausn tæplega sem varanleg framtíð í gjaldmiðlamálum. ESB-aðild hefur aftur á móti þann praktíska ágalla, fyrir utan hve pólitískt umdeild aðild er, að ferlið við að taka upp evru er afar tímafrekt – sennilega fjögur til sex ár, allt eftir því hvernig okkur gengur að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Af þessu eiga stjórnmálaflokkarnir og stjórnvöld að hafa áhyggjur og leggja höfuðið í bleyti. Kjördagur, stjórnlagaþing og ofsóknaræði í garð bankamanna er ekki það sem mestu skiptir í dag.
Minn óskalisti lítur svona út:
 • Höldum okkur við IMF-prógrammið, því það er besti möguleikinn til að styrkja krónuna, lækka verðbólgu og ná niður vöxtum næstu misserin
 • Komum bönkunum í einkaeigu því ákvarðanatökufælni gengur ekki sem framtíðarástand í íslensku hagkerfi – svo þarf að meta hvort það verði ekki hagstæðara að sameina allavega tvo af nýju bönkunum þremur
 • Sækjum um aðild að Evrópusambandinu og förum í aðildarviðræður og kanna kosti þess að taka einhliða upp dollar
Lágir stýrivextir og fúnkerandi bankakerfi mun gera það að verkum að atvinnulífið hefur forsendur til að fara að rétta úr kútnum á ný og atvinnuleysi gæti farið að ganga niður. Nýr gjaldmiðill verður svo ávísun á aukinn stöðugleika hér á landi.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Stjórnlaust FME

Krafan um afhausanir og uppsagnir í FME og Seðlabankanum hefur verið þung síðustu vikurnar og mánuðina. Björgvin Sigurðsson ákvað að verða við þessum kröfum gagnvart forstjóra Fjármálaeftirlitsins og stjórn stofnunarinnar áður en hann sagði af sér sjálfur.

Þetta leit vel út í sjónvarpinu - loksins var einhver að axla ábyrgð og í sjálfu sér var það jákvætt. En útfærslan á þessu er fráleit - FME er nánast lamað næstu vikurnar þar sem engin stjórn er til staðar í stofnuninn. Samkvæmt lögum FME skal bera meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Það er ábyrgðarhluti að ganga ekki betur frá málum gagnvart þessari stofnun, sem færa má rök fyrir að sé sú mikilvægasta í landinu núna, en svo að hún sé skilin eftir stjórnlaus.

En þetta lúkkar auðvitað vel...

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Þingvallarstjórnin komin í sögubækurnar

Ríkisstjórnarsamstarfinu er lokið og minnihlutastjórn VG og Samfylkingar er í smíðum.

Það hefur margt breyst frá því dagana og vikurnar eftir kosningarnar í maí 2007 þegar stjórnin var mynduð. Hún fór af stað með gríðarlegan meðbyr, í fyrstu könnunum naut hún stuðnings 83% aðspurðra sem var langtum meiri stuðningur en samanlagt fylgi flokkanna sagði til um.

Bjartar vonir
Þessi stuðningur kom ekki á óvart í fyrstu. Þreyta var komin í samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir tólf ár og margir vonuðu að hin nýja stjórn myndi boða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum og setja á dagskrá mál sem ekki hafði verið áhugi á að hreyfa við, s.s. að gera breytingar í landbúnaðarkerfinu, leyfa einkaframtakinu að njóta sín í opinbera geiranum og fá þannig betri þjónustu og nýtingu almannafjár auk þess sem báðir flokkar eru markaðssinnaðir og styðja frjáls viðskipia. Stjórninni fylgdu því bjartar vonir og háar væntingar. Ég var á meðal þeirra sem trúði því að þessi ríkisstjórn ætti mikla framtíð fyrir sér.

Því miður náði hún ekki að rísa undir þessum miklu væntingum. Framan af kláruðust ýmis jákvæð mál en eftir á að hyggja er ekki ýkja margt komið svo langt á veg að það standi eftir sem grundvallarbreyting. Helst kannski að kerfisbreytingar hafi orðið í heilbrigðiskerfinu.

Hinn mikli þingmeirihluti að baki stjórninni gerði það að verkum að þingmenn beggja flokka upplifðu ekki jafnmikla skuldbindingu gagnvart stjórnarsamstarfinu og áður. Það var í sjálfu sér saklaust en olli því að ákveðið los tók að myndast á samstarfið. Sögulega voru flokkarnir andstæðingar og í ofanálag bættist að Samfylkingin forðaðist það eins og heitan eldinn að fá „Framsóknarveikina", þ.e. lagði mikla áherslu á að aðgreina sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Bakki og hvalur
Afgreiðsla ýmissa mála var því ekki nógu sannfærandi, umhverfisráðherra kynnti t.d. í sumar að framkvæmdir við Bakka yrðu settar í sameiginlegt umhverfismat með þeim afleiðingum að undirbúningurinn tæki mun lengri tíma en ella, sem var samstarfsflokknum alls ekki að skapi. Á móti kynnti sjávarútvegsráðherra að gefinn hefði verið út kvóti til hvalveiða án þess að samhljómur væri fyrir því meðal Samfylkingarinnar sem gaf frá sér yfirlýsingu um að flokkurinn styddi ekki málið. Hvorugt þessara mála skipti neinu höfuðmáli en á móti kom að út á við tók heildarsvipurinn á ríkisstjórninni að versna, sem leit út eins og samkoma 12 ráðherra.

Hún naut samt sem áður nokkuð afgerandi stuðnings meðal þjóðarinnar. Stór ástæða fyrir því held ég að hafi verið að þjóðin skynjaði að traust samband var milli forystumanna stjórnarinnar, Geirs og Ingibjargar, og fólk fann að vilji þeirra beggja stóð til þess að halda samstarfinu gangandi og leysa þau mál sem upp kæmu.

Lánsfjárkreppan gerir vart við sig
Frá og með haustinu 2007 tók hin alþjóðlega lánsfjárkreppa að gera vart við sig. Til að byrja með var þetta tiltölulega fjarlægt vandamál en smám saman tókum við að finna fyrir því hér heima fyrir og fljótlega varð þetta helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Frá upphafi ársins 2008 var aðalviðfangsefni stjórnvalda að reyna að byggja upp varnir við lausafjárskorti fjármálafyrirtækja en eftir því sem að leið á árið og fram á haustið kom í ljós að sú viðleitni var í reynd til lítils – stærð og umfang íslenska bankakerfisins var slíkt að möguleikar stjórnvalda á að verja það ef á reyndi voru nánast vonlausir. Mistökin höfðu fyrir löngu orðið – bankarnir höfðu stækkað og stækkað meðan þjóðin var í góðærisvímu og taldi vöxtinn allan af hinu góða.

Í október rúlluðu bankarnir svo hver á fætur öðrum og eftir stóðu stjórnvöld með það verkefni í höndunum að hefja endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins á nýjan leik. Eðli stjórnarsamstarfsins hafði því breyst og snerist um uppbyggingu í kjölfar kerfishruns. Stjórnarsáttmálinn frá maí 2007 var í reynd orðinn marklaus og hugsa þurfti hlutina upp á nýtt.

ESB-krafa rann út í sandinn
Strax fór að bera á ólíkum áherslum flokkanna – Samfylkingin vildi setja Evrópusambandsaðild Íslands á dagskrá með afgerandi hætti og í desember kvað formaður flokksins upp úr með það að ef Sjálfstæðisflokkurinn breytti ekki um stefnu í þessum málaflokki væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt, enda væru þá við stjórnvölinn tveir flokkar með gerólíkar skoðanir á því hver framtíðin í peningastjórn landsins ætti að vera. Innan Sjálfstæðisflokks voru aðrar áherslur en formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað samt sem áður að flýta landsfundi flokksins fram í janúar til þess að unnt væri að útkljá Evrópumálin innan flokksins.

Þróunin yfir jól og áramót var þannig að stemningin fyrir Evrópusambandsumræðunni minnkaði verulega og framan af í janúar var heldur rólegt um að litast í pólitíkinni – fókusinn hafði færst annað í bili. Deilt var um Ísrael og Gaza og hvort stjórnvöld ættu að álykta um ástandið.

Of þungbær dvöl á stjórnarheimilinu
Þetta reyndist aftur á móti vera lognið á undan storminum. Á þriðjudaginn byrjuðu mótmæli fyrir utan þinghúsið sem stóðu fram eftir kvöldi og nánast sleitulaust alla vikuna. Það má segja margt um þessi mótmæli og ótrúlegt framferði ákveðinna einstaklinga þar inn á milli en eitthvað var við aðgerðirnar sem gerði það að verkum að mikils óróa tók að gæta í pólitíkinni. Ofan á þetta bættist að Samfylkingin fékk tvær slæmar kannanir í röð, þar sem flokkurinn var með 17-19% fylgi og fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík ályktaði um stjórnarslit með þingmenn og varaformann flokksins í hópi stuðningsmanna tillögunnar. Það lá orðið í loftinu að það var lítið eftir af þessu samstarfi og bara spurningin hvernig því myndi ljúka. Það var orðið Samfylkingunni einfaldlega of pólitískt þungbært að halda þetta út.

Vakt í frystihúsi?
Lokaútspilið var reyndar nokkuð óvænt – að fá bara nýjan forsætisráðherra yfir ríkisstjórninni. Þetta kallar Samfylkingin reyndar núna „verkstjóra ríkisstjórnarinnar", rétt eins og ríkisstjórnin sé hópur fólks í vaktavinnu í frystihúsi. Verkleysi – en ekki ESB-aðild eða breytingar í Seðlabankanum – var skyndilega orðið helsta áhyggjuefnið varðandi ríkisstjórnina og þá virtist engu skipta að í desember lágu fyrir tillögur milli flokkanna um breytingar á ríkisstjórn, Seðlabankanum og ýmsu fleiru. Frá þessu var hins vegar fallið, m.a. vegna fjarveru formanns Samfylkingarinnar. Auðvitað hefði margt mátt gerast hraðar – það er alveg rétt. En allir sem hafa fylgst með aðdraganda stjórnarslitanna sjá að þetta var engin raunveruleg úrslitaástæða. Samstarfið var einfaldlega fyrir nokkru síðan komið á síðustu bensíndropana og það var spurningin um hvernig því lyki. Samfylkingin vildi leita á nýjar slóðir og ekki vera í óvinsælli ríkisstjórn. Er ekki bara allt í lagi fyrir hana að viðurkenna það?

Vinstristjórn fær að spreyta sig
Framundan hjá Sjálfstæðisflokknum er því að fara í stjórnarandstöðu, fram að kosningum hið minnsta. Það gefur flokknum tækifæri til að fara yfir sínar málefnaáherslur fram að kosningum og landsmenn fá að sama skapi að sjá hvernig vinstristjórn tekur á málum.

Miðað við fyrstu fréttir verður það fróðlegt samstarf - kyrrsetning eigna auðmanna er ein helsta krafa Vinstrigrænna ásamt því að semja upp á nýtt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.