þriðjudagur, 27. janúar 2009

Þingvallarstjórnin komin í sögubækurnar

Ríkisstjórnarsamstarfinu er lokið og minnihlutastjórn VG og Samfylkingar er í smíðum.

Það hefur margt breyst frá því dagana og vikurnar eftir kosningarnar í maí 2007 þegar stjórnin var mynduð. Hún fór af stað með gríðarlegan meðbyr, í fyrstu könnunum naut hún stuðnings 83% aðspurðra sem var langtum meiri stuðningur en samanlagt fylgi flokkanna sagði til um.

Bjartar vonir
Þessi stuðningur kom ekki á óvart í fyrstu. Þreyta var komin í samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir tólf ár og margir vonuðu að hin nýja stjórn myndi boða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum og setja á dagskrá mál sem ekki hafði verið áhugi á að hreyfa við, s.s. að gera breytingar í landbúnaðarkerfinu, leyfa einkaframtakinu að njóta sín í opinbera geiranum og fá þannig betri þjónustu og nýtingu almannafjár auk þess sem báðir flokkar eru markaðssinnaðir og styðja frjáls viðskipia. Stjórninni fylgdu því bjartar vonir og háar væntingar. Ég var á meðal þeirra sem trúði því að þessi ríkisstjórn ætti mikla framtíð fyrir sér.

Því miður náði hún ekki að rísa undir þessum miklu væntingum. Framan af kláruðust ýmis jákvæð mál en eftir á að hyggja er ekki ýkja margt komið svo langt á veg að það standi eftir sem grundvallarbreyting. Helst kannski að kerfisbreytingar hafi orðið í heilbrigðiskerfinu.

Hinn mikli þingmeirihluti að baki stjórninni gerði það að verkum að þingmenn beggja flokka upplifðu ekki jafnmikla skuldbindingu gagnvart stjórnarsamstarfinu og áður. Það var í sjálfu sér saklaust en olli því að ákveðið los tók að myndast á samstarfið. Sögulega voru flokkarnir andstæðingar og í ofanálag bættist að Samfylkingin forðaðist það eins og heitan eldinn að fá „Framsóknarveikina", þ.e. lagði mikla áherslu á að aðgreina sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Bakki og hvalur
Afgreiðsla ýmissa mála var því ekki nógu sannfærandi, umhverfisráðherra kynnti t.d. í sumar að framkvæmdir við Bakka yrðu settar í sameiginlegt umhverfismat með þeim afleiðingum að undirbúningurinn tæki mun lengri tíma en ella, sem var samstarfsflokknum alls ekki að skapi. Á móti kynnti sjávarútvegsráðherra að gefinn hefði verið út kvóti til hvalveiða án þess að samhljómur væri fyrir því meðal Samfylkingarinnar sem gaf frá sér yfirlýsingu um að flokkurinn styddi ekki málið. Hvorugt þessara mála skipti neinu höfuðmáli en á móti kom að út á við tók heildarsvipurinn á ríkisstjórninni að versna, sem leit út eins og samkoma 12 ráðherra.

Hún naut samt sem áður nokkuð afgerandi stuðnings meðal þjóðarinnar. Stór ástæða fyrir því held ég að hafi verið að þjóðin skynjaði að traust samband var milli forystumanna stjórnarinnar, Geirs og Ingibjargar, og fólk fann að vilji þeirra beggja stóð til þess að halda samstarfinu gangandi og leysa þau mál sem upp kæmu.

Lánsfjárkreppan gerir vart við sig
Frá og með haustinu 2007 tók hin alþjóðlega lánsfjárkreppa að gera vart við sig. Til að byrja með var þetta tiltölulega fjarlægt vandamál en smám saman tókum við að finna fyrir því hér heima fyrir og fljótlega varð þetta helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Frá upphafi ársins 2008 var aðalviðfangsefni stjórnvalda að reyna að byggja upp varnir við lausafjárskorti fjármálafyrirtækja en eftir því sem að leið á árið og fram á haustið kom í ljós að sú viðleitni var í reynd til lítils – stærð og umfang íslenska bankakerfisins var slíkt að möguleikar stjórnvalda á að verja það ef á reyndi voru nánast vonlausir. Mistökin höfðu fyrir löngu orðið – bankarnir höfðu stækkað og stækkað meðan þjóðin var í góðærisvímu og taldi vöxtinn allan af hinu góða.

Í október rúlluðu bankarnir svo hver á fætur öðrum og eftir stóðu stjórnvöld með það verkefni í höndunum að hefja endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins á nýjan leik. Eðli stjórnarsamstarfsins hafði því breyst og snerist um uppbyggingu í kjölfar kerfishruns. Stjórnarsáttmálinn frá maí 2007 var í reynd orðinn marklaus og hugsa þurfti hlutina upp á nýtt.

ESB-krafa rann út í sandinn
Strax fór að bera á ólíkum áherslum flokkanna – Samfylkingin vildi setja Evrópusambandsaðild Íslands á dagskrá með afgerandi hætti og í desember kvað formaður flokksins upp úr með það að ef Sjálfstæðisflokkurinn breytti ekki um stefnu í þessum málaflokki væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt, enda væru þá við stjórnvölinn tveir flokkar með gerólíkar skoðanir á því hver framtíðin í peningastjórn landsins ætti að vera. Innan Sjálfstæðisflokks voru aðrar áherslur en formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað samt sem áður að flýta landsfundi flokksins fram í janúar til þess að unnt væri að útkljá Evrópumálin innan flokksins.

Þróunin yfir jól og áramót var þannig að stemningin fyrir Evrópusambandsumræðunni minnkaði verulega og framan af í janúar var heldur rólegt um að litast í pólitíkinni – fókusinn hafði færst annað í bili. Deilt var um Ísrael og Gaza og hvort stjórnvöld ættu að álykta um ástandið.

Of þungbær dvöl á stjórnarheimilinu
Þetta reyndist aftur á móti vera lognið á undan storminum. Á þriðjudaginn byrjuðu mótmæli fyrir utan þinghúsið sem stóðu fram eftir kvöldi og nánast sleitulaust alla vikuna. Það má segja margt um þessi mótmæli og ótrúlegt framferði ákveðinna einstaklinga þar inn á milli en eitthvað var við aðgerðirnar sem gerði það að verkum að mikils óróa tók að gæta í pólitíkinni. Ofan á þetta bættist að Samfylkingin fékk tvær slæmar kannanir í röð, þar sem flokkurinn var með 17-19% fylgi og fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík ályktaði um stjórnarslit með þingmenn og varaformann flokksins í hópi stuðningsmanna tillögunnar. Það lá orðið í loftinu að það var lítið eftir af þessu samstarfi og bara spurningin hvernig því myndi ljúka. Það var orðið Samfylkingunni einfaldlega of pólitískt þungbært að halda þetta út.

Vakt í frystihúsi?
Lokaútspilið var reyndar nokkuð óvænt – að fá bara nýjan forsætisráðherra yfir ríkisstjórninni. Þetta kallar Samfylkingin reyndar núna „verkstjóra ríkisstjórnarinnar", rétt eins og ríkisstjórnin sé hópur fólks í vaktavinnu í frystihúsi. Verkleysi – en ekki ESB-aðild eða breytingar í Seðlabankanum – var skyndilega orðið helsta áhyggjuefnið varðandi ríkisstjórnina og þá virtist engu skipta að í desember lágu fyrir tillögur milli flokkanna um breytingar á ríkisstjórn, Seðlabankanum og ýmsu fleiru. Frá þessu var hins vegar fallið, m.a. vegna fjarveru formanns Samfylkingarinnar. Auðvitað hefði margt mátt gerast hraðar – það er alveg rétt. En allir sem hafa fylgst með aðdraganda stjórnarslitanna sjá að þetta var engin raunveruleg úrslitaástæða. Samstarfið var einfaldlega fyrir nokkru síðan komið á síðustu bensíndropana og það var spurningin um hvernig því lyki. Samfylkingin vildi leita á nýjar slóðir og ekki vera í óvinsælli ríkisstjórn. Er ekki bara allt í lagi fyrir hana að viðurkenna það?

Vinstristjórn fær að spreyta sig
Framundan hjá Sjálfstæðisflokknum er því að fara í stjórnarandstöðu, fram að kosningum hið minnsta. Það gefur flokknum tækifæri til að fara yfir sínar málefnaáherslur fram að kosningum og landsmenn fá að sama skapi að sjá hvernig vinstristjórn tekur á málum.

Miðað við fyrstu fréttir verður það fróðlegt samstarf - kyrrsetning eigna auðmanna er ein helsta krafa Vinstrigrænna ásamt því að semja upp á nýtt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Engin ummæli: