laugardagur, 10. janúar 2009

Tveir slúðurmolar eða ein óspennandi frétt?

Vefmiðillinn AMX hefur skrifað um málefnastarfið í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda landsfundar og spurði um daginn í liðnum Fuglahvísl hvort sjálfstæðismenn væru of uppteknir við Evrópuvinnu til að móta stefnu.

Tveimur dögur síðar birtist nýtt Fuglahvísl um að sjálfstæðismenn væru farnir að ranka við sér því auglýstir hefðu verið opnir fundir á vegum málefnanefnda flokksins í næstu gviku og ýjað að því að menn væru að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að henda upp þessum fundum.

Það hefði nú ekki þurft mikið effort af hálfu AMX, sem titlar sig fremsta fréttaskýringarvef landsins til að komast að þessir fundir voru á döfinni. Eitt símtal, eða einn tölvupóstur, hefði sennilega dugað til að fá upplýsingar um að þessir fundir voru í undirbúningi, eins og vaninn er fyrir landsfund.

Ályktanir málefnanefnda hafa verið í vinnslu á vettvangi nefndanna undanfarnar vikur og mánuði, þær verða ræddar í nefndum á landsfundinum og svo endanlega afgreiddar af landsfundinum öllum, eins og vaninn er í aðdraganda landsfundar. Þá er rétt að halda því til haga að landsfundinum var flýtt um níu mánuði einmitt til þess að skerpa línurnar í því uppbyggingarstarfi sem er framundan.

Svona símtal eða tölvupóstur frá AMX hefði að vísu haft þann galla að þá hefði ekki verið hægt að birta tvær slúðurfréttir, aðra um að það væri ekkert málefnastarf og hina um að menn væru greinilega að ranka við sér. Í staðinn hefði í mesta lagi verið hægt að birta eina frétt um að framundan væru opnir fundir í málefnanefndum flokksins, sem hefði auðvitað ekki verið jafnkrassandi. Ef út í það er farið er hægt að birta svona slúður um flest alla viðburði - fyrst með því að gefa í skyn að eitthvað sé ekki að fara að gerast en þegar það gerist þá sé viðkomandi að rumska eða sjá að sér.

Svona vinnubrögð virðast reyndar vera orðin viðurkennd á fjölmiðlum. T.d. heldur Eyjan úti dálki sem heitir Orðið á götunni og birtir nafnlausar fréttir og slúður um hitt og þetta og bæði DV og dv.is birta Sandkorn í gríð og erg. Mannlíf hefur úti dálk sem heitir Orðrómurinn.

Það þarf engan snilling til að átta sig á hverjir uppfæra þessa dálka - það gera vitaskuld starfsmenn viðkomandi síðu. Eini munurinn þarna á virðist vera sá að þegar nafnlausu fréttirnar eru skrifaðar geta menn fríað sig ábyrgð og beitt allt öðrum vinnubrögðum en annars og birt dylgjur og slúður án þess að það sé í nafni neins eða þurfa að kanna grundvöll þess sérstaklega mikið.

Einkunnarorð þessara dálka gæti verið - Let them deny it!

Engin ummæli: