mánudagur, 5. janúar 2009

ESB, kosningar og þjóðaratkvæði

Ég er ekki viss um að þetta sé rétt mat hjá Agli og Guðmundi Magnússyni, að ESB-umræðan núna sé eingöngu til að dreifa umræðunni á dreif og beina henni frá öðrum vandamálum. Það hlýtur að vera hægt að gera bæði, að fara í umræður um Evrópusambandið og halda fókus á þeim vandamálum sem eru í gangi hérna heima fyrir.

ESB-umsókn og hugsanleg ESB-aðild eru stór mál. Þetta væri stærsta einstaka ákvörðun sem íslenska þjóðin hefur tekið. Við værum að ganga að fullu inn í alþjóðlegt stjórnkerfi þar sem yrðum til næstu áratuga og jafnvel alda. Það er stór ákvörðun fyrir þjóð sem varði nánast allri 19. öldinni og helmingnum af þeirri 20. í að berjast fyrir og tryggja sjálfstæði sitt frá erlendu valdi en til þess standa sterk rök núna að við amk. sjáum hvað ESB-aðild myndi nákvæmlega þýða.

Í ljósi þess hve stórt og þýðingarmikið þetta mál er, þarf að hugsa um málsmeðferðina líka. Ríkisstjórnin þyrfti að hafa skýrt umboð til þess að sækja um aðild og fara í viðræður. Það umboð kom ekki úr kosningunum vorið 2007 heldur kom einmitt hið gagnstæða út úr þeim kosningum og stjórnarsáttmálanum – að við yrðum áfram utan ESB.

Ríkisstjórnin gæti auðvitað líka sótt umboð sitt í almennar kosningar, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur talað um og það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta fari saman, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild og almennar þingkosningar.

Vandinn við þá hugmynd er hins vegar sá að breyta þarf stjórnarskránni til þess að við gætum orðið aðilar að Evrópusambandinu og aðferðarfræðin við að breyta stjórnarskránni hérna á Íslandi er sú að eftir að stjórnarskrárbreyting er samþykkt á þingi er það rofið, boðað til kosninga og svo þarf nýkjörið þing að samþykkja breytinguna aftur til þess að hún öðlist gildi.

Að loknum viðræðum við ESB þyrfti því að boða til kosninga til þess að við hefðum heimild skv. stjórnarskrá til þess að fullgilda samninginn og aðildina. Viðræðurnar við ESB myndu líklega ekki taka meira en eitt ár, miðað við t.d. það sem Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hefur sagt og byggir á reynslu af viðræðum sambandsins við aðrar þjóðir. Líklegast liði því ekki meira en eitt til eitt og hálft ár milli kosninga, samkvæmt þessari hugmynd. Egill Helgason heldur því fram að þessar viðræður myndu taka „allnokkur ár“ en það væri þá einsdæmi og engin ástæða til að ætla að þjóð sem hefur nú þegar tekið upp mikið af regluverkinu í gegnum EES-samninginn þyrfti að standa í viðræðum í mörg ár til þess að komast að niðurstöðu um aðildarsamning.

Þingkosningar í vor og þingkosningar aftur að ári myndi þýða að sú ríkisstjórn sem tæki við sæti í um það bil eitt ár og svo færu fram kosningar aftur. Þetta væri ekki til þess fallið að skapa stöðugleikann sem við þarf núna.

Ingibjörg Sólrún virðist hafa áttað sig á þessu og kastar fram annarri hugmynd í Fréttablaðinu í morgun, þ.e. að breyta stjórnarskránni bara í vor til þess að það þyrfti ekki að kjósa aftur að ári.

Í þessu myndi felast að viðamiklar breytingar á stjórnarskrá landsins yrðu unnar nokkurn veginn frá grunni á um þremur mánuðum – á sama tíma og stjórnkerfið og stjórnsýslan er á fullu við að vinna úr efnahagsvandnaum. Ekki nóg með það, þá myndi þessi vinna koma inn í kosningabaráttu flokkanna sem þyrfti að há núna með vorinu ef hugmynd Ingibjargar um kosningar í vor gengur eftir (vorið 2007 var þing t.d. rofið um miðjan mars og kosningabaráttan var á fullu í um tvo mánuði eftir það).

Stjórnarskrárbreytingar hafa allajafna verði unnar í samvinnu allra flokka og svo þyrfti líka að vera með svona stóra breytingu á stjórnarskrá. Það er held ég borin von að ná þessu í gegn á svona stuttum tíma svo einhver bragur og sómi sé að.

Sú leið að fara í tvöfalda atkvæðagreiðslu hefði aftur á móti þann kost að nóg væri að setja sérstök lög um að slík atkvæðagreiðsla færi fram og það ætti að vera unnt að undirbúa slíka atkvæðagreiðslu ágætlega nú á vorþingi – hún gæti t.d. farið fram í maí og ef umsóknin yrði samþykkt gætu menn tekið sumarið og fram á haust í að undirbúa samninganefnd fyrir okkar hönd, setja niður helstu markmið og fara svo í viðræður með haustinu. Ef hún yrði aftur á móti felld, væri málið úr sögunni.

Umræðan um að setja umsóknina í þjóðaratkvæði er nokkuð sérstök. Morgunblaðið sagði t.d. í leiðara um daginn að hætta væri „á að stuðningsmenn aðildar fari þá að lofa of miklu og andstæðingarnir að mála skrattann á vegginn.“ Það kann að vera en er þessi hætta ekki fyrir hendi alltaf þegar gengið er til kosninga?

Morgunblaðið hefur barist fyrir því í rúman áratug, allt frá því að blaðið birti árið 1997 mikla úttekt The Economist um þjóðaratkvæðagreiðslu sem lýðræði 21. aldarinnar, að styðjast ætti meira við þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. með þeim rökum að almenningur í dag væri betur upplýstur en áður og hefði að mestu leyti sömu möguleika til þess að fylgjast með og afla sér upplýsinga og kjörnir fulltrúar. Það skýtur því nokkuð skökku við að blaðið stígi fram núna og segi að það stafi einhver hætta af umræðunni í aðdraganda slíkrar atkvæðagreiðslu. Það dæmir sig sjálft að mála skrattann á vegginn eða lofa of miklu og fólki er treystandi til að sjá í gegnum slíkan málflutning í jafnstóru máli og ESB-aðild er.

Engin ummæli: