miðvikudagur, 25. mars 2009

Jóhanna er með svarið

Vinnubrögð og aðdragandi frumvarps ríkisstjórnarinnar um persónukjör hefur fengið á sig mikla gagnrýni að undanförnu. Ég nefni helstu atriðin í gagnrýninni:
  • Ríkisstjórnin var mynduð til að vinna að brýnum og nauðsynlegum málum í þágu heimila og fyrirtækja, ekki tilraunastarfsemi með kosningalögin
  • Töluvert af þingmönnum innan stjórnarflokkanna höfðu miklar efasemdir um þetta frumvarp og tímasetningu þess, m.a. þar sem menn höfðu eytt miklu púðri í prófkjörsbaráttu
  • Undirbúningur að vinnslu frumvarpsins hófst í febrúarbyrjun, þegar innan við þrír mánuðir voru til kosninga
  • Útlit var fyrir að frumvarpið hefði verið samþykkt sem lög 3-4 vikum fyrir kjördaginn sjálfan þegar flokkarnir voru allir búnir með sín prófkjör
  • Í tilmælum og viðmiðunum ÖSE og Evrópuráðsins um framkvæmd kosninga og eðlileg vinnubrögð í aðdraganda þeirra eru breytingar á kosningalögum eitt af því sem varað er stórlega við
  • Evrópuráðið talar raunar um að góð viðmiðunarregla sé að hreyfa ekki við kosningalögum ári fyrir kjördag
  • Þessar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að krukka í leikreglunum rétt fyrir kosningar eru ein af ástæðum þess að ÖSE (sem er venjulega að fylgjast með framkvæmd kosninga í löndum sem þverbrjóta allar reglur lýðræðisins) hefur ákveðið að senda hóp eftirlitsmanna til að fylgjast með kosningunum hérna heima og framkvæmd þeirra

Engin af þessum ástæðum virtist hins vegar vega neitt sérstaklega þungt í huga forsætisráðherra þegar hún flutti þau tíðindi í gær að frumvarpið yrði ekki að lögum.

Hver var þá ástæðan?

Jú, Sjálfstæðisflokkurinn - hann eyðilagði þetta mál!

laugardagur, 21. mars 2009

Það sem vantaði hjá Steingrími

Setningarræða Steingríms J. Sigfússonar á landsfundi VG í gær var fyrst og fremst mikið afturlit til fortíðar. Fyrir þá sem voru búnir að gleyma því þá rifjaði Steingrímur það upp og minnstist á Sjálfstæðisflokkinn alls 22 sinnum upp í ræðu sinni.

Í ræðuna vantaði aftur á móti svörin við þeim spurningum sem brenna á um þessar mundir og þarf að svara. Á dögunum skaut Steingrímur sér undan því í þinginu að svara hvernig ríkisstjórnin ætlaði að mæta kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í ríkisfjármálum og hann bauð ekki upp á nein slík svör í ræðu sinni á flokksþinginu. Hvaða leiðir ætlar hann sem fjármálaráðherra og einn harðasti gagnrýnandi niðurskurðar í ríkisfjármálunum að fara til að ná þeim niðurskurði sem vitað er að er framundan næstu árin? Ríkissjóður verður ekki hallalaus af sjálfu sér - framundan eru erfiðar ákvarðanir um niðurskurð og það er varla nema sanngjarnt að kjósendur fái einhverja innsýn í það hvernig verðandi fjármálaráðherra ætlar að gera það.

Ríkisfjármálin voru ekki það eina sem vantaði. Eftir að hafa hlustað á ræðuna er maður engu nær um hvaða framtíðarsýn á gjaldmiðil og peningamálastefnu Steingrímur hefur. Steingrímur hefur reyndar talað fyrir ákveðinni lausn í þeim efnum, upptöku norsku krónunnar en nú virðist sem sú hugmynd hafi verið slegin út af borðinu í bili og því væri fróðlegt að heyra framhaldið að hans mati. Og hvernig ætlar Steingrímur og VG að skapa þau störf sem þarf svo nauðsynlega á að halda?

Þeir kaflar ræðunnar sem sneru að framtíðinni voru raunar áberandi innantómir. Þar var talað um hvers kyns nýsköpun þar sem hugvitið er virkjað, þar sem innlendur virðisauki er hafður í öndvegi, þar sem vatn, loft, víðerni, mannvit og hugkvæmni eru undirstaðan, það á að vera okkar boðskapur og að það þyrfti að fara með stækkunarglerið á alla möguleika.

Það skal að vísu ekki tekið frá Steingrími að inn á milli voru útfærðar og nákvæmar tillögur, eins og sú að bændur auki kornrækt, að við förum aftur að framleiða okkar eigin áburð, að við förum aftur að þjónusta og helst smíða okkar fiskiskip og flota.

Aðalatriði ræðunnar var að þar var stillt upp valkostum - VG eða Sjálfstæðisflokkurinn. Sá síðarnefndi þarf ekki að kvíða þeirri uppstillingu. Innan Sjálfstæðisflokksins er sú skoðun uppi að leiðin út úr kreppunni sé í gegnum einstaklingana og framtak þeirra og með því að vinda ofan af ríkisrekstrinum og ríkisvæðingunni sem fyrst og það er sú lausn verður ofan á endanum.

þriðjudagur, 17. mars 2009

Fjármálareglur og fjölmiðlar

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í gær reglur um að þingmenn skuli skrá fjárhagslega hagsmuni sína. Allir flokkar stóðu að því að samþykkja þessar reglur.

Þetta er ákveðið skref sem þingið stígur. Reglur sem þessar hafa ekki verið í gildi hér á landi áður og með þeim auk laganna frá 2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda hafa mjög róttækar breytingar verið gerðar hvað varðar regluverk um fjármál og stjórnmál. Við höfum í raun farið úr þeirri stöðu að hafa sama og engar reglur yfir í að hafa nokkuð strangar reglur um þessi mál, samanborið við önnur lönd.

Gegnsæi skiptir meira máli en upphæðir
Svona reglur eru ekki óumdeildar og það er alltaf ákveðin hætta á að þær skapi falskt öryggi auk þess alltaf má finna leiðir til þess að fara í kringum svona reglur, ef menn eru á annað borð á þeim buxunum. Engu að síður er eðlilegt að svona reglur séu til staðar því leynd og ógagnsæi varðandi fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna býður upp á hættu á spillingu. Lykilatriði í þessu eru að upplýsingar liggi fyrir en aftur á móti finnst mér ekki ástæða til þess að setja í reglur hve mikið megi styrkja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn að því gefnu að unnt sé að upplýsa um slík framlög. Ef einhver vill styrkja stjórnmálaflokk eða mann um milljón krónur þá er það ekki rangt í sjálfu sér, en það er eðlileg krafa að upplýsingar liggi fyrir um slík framlög, sérstaklega framlög frá fyrirtækjum og félögum.

Villandi umfjöllun fjölmiðla
Umfjöllun fjölmiðla um aðdraganda þessarar reglusetningar forsætisnefndar hefur verið býsna villandi. Reglurnar hafa verið unnar í góðri samvinnu allra flokka og sátt var um að hafa þetta sem reglur frá forsætisnefnd en ekki sérstök lög. Á þessu er sá munur að reglurnar binda ekki þingmenn eins og lög. Það er eðlileg nálgun og þekkist á öðrum Norðurlöndunum. Um er að ræða viðkvæmar og persónulegar upplýsingar og ekki óeðlilegt að kerfið sé opið, þ.e. að þingmenn geti skráð þar upplýsingar en séu ekki skyldaðir til þess eða hafi gerst brotlegir við lög ef þeir gera það ekki.

Reglurnar voru eins og áður sagði samþykktar í þessari mynd í gær. Engu að síður sló Fréttablaðið því upp á forsíðu sinni í gærmorgun sem sérstakri stórfrétt að sjálfstæðismenn væru á móti skylduskráningu. Staðreyndin er aftur á móti sú að sjálfstæðismenn, eins og aðrar flokkar á þingi, höfðu unnið að því að móta og setja þessar reglur á vegum nefndarinnar, eins og þær voru samþykktar í gær og varla hægt að tala um að afstaða sjálfstæðismanna hafi verið öðruvísi en annarra flokka. Vefmiðillinn Pressan bætti aftur á móti um betur í gær þegar hann endursagði frétt Fréttablaðsins frá því um morguninn þannig að sjálfstæðismenn væru á móti reglunum í heild sinni. Ekki var nú sannleiksgildi þeirrar fréttar meira en svo að á svipuðum tíma og fréttin birtist þá var forsætisnefnd að samþykkja reglurnar, eins og Pressan reyndar greindi frá í frétt stuttu síðar.

Þannig stóðu í gær og standa raunar enn þessar tvær fréttir, þ.e. annars vegar um að sjálfstæðismenn séu á móti reglunum og hins vegar að allir flokkar í forsætisnefnd hafi samþykkt þær. Ekki ýkja vönduð blaðamennska þar.

Sambærilegar reglur fyrir önnur svið þjóðfélagsins?
Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins gerir þessar reglur að umfjöllunarefni í leiðara dagsins og gagnrýnir að ekki séu sett lög um þetta efni. Það er ekki útilokað að sú leið verði farin en á móti kemur að nú hefur þetta fyrsta skref verið stigið og ágætt að fá ákveðna reynslu á þær áður en lengra er haldið.

Þegar ég las leiðara Jóns, velti ég því samt fyrir mér hvort krafan um gagnsæi eigi að vera bundin við pólitíkina. Ættu þeir sem eru í forsvari fyrir önnur mikilvæg svið þjóðfélagsins, t.d. fjölmiðla, ekki að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja öll spil á borðið? Upplýsa um eignir, hlutabréf, skuldir, gjafir og þar fram eftir götunum? Það væri amk. í ágætu samræmi við þann málflutning sem Jón Kaldal viðhefur í leiðaranum.

mánudagur, 16. mars 2009

Villandi fyrirsagnir og fréttamat

Forsíða Fréttablaðsins í morgun er lögð undir það hve mótfallnir sjálfstæðismenn eigi að vera reglum um skráningu á fjárhagslegum tengslum þingmanna. Fyrirsögnin og fréttauppslátturinn gengur út á að sjálfstæðismenn séu sér á báti hvað þetta varðar þar sem þeir vilji einir að reglurnar séu valkvæðar, þ.e. að þingmenn hafi val um það hvort þeir undirgangist þessar reglur og skrái sín tengsl.

Blaðamaðurinn nefnir það aftur á móti ekki í frétt sinni að drögin að reglunum eins og þau liggja fyrir gera ráð fyrir að reglurnar séu valkvæðar. Þannig er málið lagt upp. Það væri raunar ekki einsdæmi, því dæmi eru um slíkt á Norðurlöndunum. En aðalatriðið varðandi þessa frétt og fréttamatið er hvernig hægt er að mála þá mynd að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum þegar flokkurinn studdi þau drög að reglum sem fyrir lágu!

Þannig leggur þessi ágæta vefsíða, Eyjan, út af fréttinni og endursegir frétt Fréttablaðsins með því að orða fyrirsögnina svona: "Reglur um fjárhagslega hagsmuni þingmanna ræddar í dag - sjálfstæðismenn einir á móti"!

Spuninn þróast sem sagt og í fyrstu endursögn er ekki einu sinni verið að deila um valkvæði reglnanna heldur eru sjálfstæðismenn hreinlega á móti þeim í heild sinni.

Það er orðið ansi erfitt að vera með og styðja mál - þegar það að styðja fyrirliggjandi drög gerir það að verkum að menn verða á móti!

*Uppfært: Ég sé að Eyjan hefur breytt fyrirsögn sinni. Þá er það ofsagt hjá mér að Fréttablaðsgreinin haldi því fram að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum - þar er því aftur á móti haldið fram að þingflokkurinn sé á móti því að skylda sé að skrá eignir. Aðalatriðið er þetta: drögin að reglunum ganga út á valkvæðni og ekki hafa komið fram breytingar í forsætisnefnd þingsins hvað það varðar. Af þeim sökum er það býsna langsótt að saka menn um að vera á móti hinu og þessu - þegar það eina sem fram hefur komið er að þingflokkurinn styðji fyrirliggjandi drög í málinu.

föstudagur, 13. mars 2009

Orðalag Valgerðar

Valgerður Bjarnadóttir lét vinna skoðanakönnun um afstöðu fólks til stjórnlagaþings og hefur kynnt niðurstöðurnar fyrir fjölmiðlum. Í fréttum hefur komið fram að mikill stuðningur sé við að halda stjórnlagaþingið - þrír fjórðu taka vel í þessa hugmynd. Orðalag spurningarinnar er hins vegar áhugavert - þar er ekki bara spurt um stjórnlagaþing eitt og sér heldur er spurningin orðuð á eftirfarandi hátt:

„Ert þú fylgjandi stjórnlagaþingi til þess að þjóðin geti sett sér nýja stjórnarskrá?

Athyglisvert hvernig seinni hluti spurningarinnar er orðaður, þ.e. hvort fólk vilji að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá. Í þessu felst að þeir sem svöruðu spurningunni tóku ekki einasta afstöðu til stjórnlagaþingsins heldur líka þess hvort þjóðin eigi að setja sér stjórnarskrá.

Svona orðalag er villandi og til þess að knýja fram ákveðna niðurstöðu. Miklu eðlilegra hefði verið að spyrja um afstöðu fólks til stjórnlagaþings án frekari aukaskýringa eða meininga.

Þetta er ekki ósvipað og hugmyndir LÍÚ um hvernig eigi að framkvæma skoðanakannanir um Evrópusambandsaðild meðal Íslendinga. Að þeirra mati á spurningin að vera orðuð þannig að Íslendingar séu spurðir um hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið og þar með missa forræði yfir auðlindum sínum. Þá heyrist reyndar venjulega hljóð úr horni...

fimmtudagur, 12. mars 2009

Bandaríska stjórnarskráin

Bandaríska stjórnarskráin er eitt merkilegasta plagg stjórnmálasögunnar. Það var ritað af miklum stjórnspekingum á sínum tíma og hefur að mestu leytið staðist tímans tönn og verið grundvöllur að sterkri og rótgróinni lýðræðishefð í Bandaríkjunum.

Eitt af því sem höfundar stjórnarskrárinnar lögðu áherslu á var að unnt væri að breyta henni til þess að hún myndi þróast í takt við tímann. Að sama skapi lögðu þeir áherslu á að það mætti ekki vera of auðvelt að breyta henni, breytingar krefðust aukins meirihluta á þingi auk þess sem þær þyrfti að staðfesta af fylkjunum sjálfum.

Hægt er að breyta stjórnarskránni á tvo vegu; annars vegar með því að tveir þriðju þingmanna í báðum deildum bandaríska þingsins samþykki breytingar, hins vegar með því að tveir þriðju af þingum fylkjanna í Bandaríkjunum kalli saman eins konar stjórnlagaráðstefnu til að ræða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni en þessi heimild hefur hins vegar aldrei verið nýtt.

Breytingar á stjórnarskránni sem samþykktur eru verður svo að staðfesta á löggjafarþingum fylkjanna og þurfa þrír fjórðu fylkjanna að staðfesta breytingarnar til þess að þær geti tekið fullt gildi.

Hérna heima eru grundvallarbreytingar á stjórnarskránni aftur á móti drifnar í gegn á nokkrum vikum af knöppum meirihluta á þingi!

miðvikudagur, 11. mars 2009

Staksteinar dagsins

Hún er frekar sérkennileg röksemdafærslan í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Þar segir annars vegar að ríkisstjórnin vanvirði þingið með því að moka inn í það of mörgum, stórum og flóknum málum, sem útilokað sé að geti fengið almennilega þinglega meðferð. Og hins vegar að stjórnarandstaðan geri sig að fíflum með því að halda uppi málþófi. Staksteinahöfundur Moggans er því að gagnrýna viðbrögðin við því sem honum finnst sjálfum gagnrýnivert!

Nú eru þessi stóru flóknu mál sem stjórnarandstaðan „mokar inn“ ekki nein hefðbundin lagafrumvörp heldur snúast þau um stjórnarskránna og býsna róttækar breytingar á þeim grundvallarreglum sem stjórnarskráin hefur að geyma.

Það getur ekki talist eðlilegt að þannig breyting sé unnin í hraði og á handahlaupum og fái ekki þinglega meðferð. Ríkisstjórnin fór gegn þeirri hefð sem myndast hefur við stjórnarskrárbreytingar undanfarin ár (þær hafa verið þónokkrar, andstætt því sem margir halda fram) að leita eftir samráði allra flokka við undirbúning og mótun tillagna um breytingar. Reynt hefur verið að vinna málin saman og í sátt. Nú kveður við nýjan tón og það eru stjórnarflokkarnir sem vinna tillögurnar án atbeina stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eru 26 talsins, fá að sjá þessar breytingar þegar þær eru fullmótaðar og eru þannig látnir standa frammi fyrir orðnum hlut í þinginu.

Og þá er spurning hvað stjórnarandstaðan á að gera. Miðað við upplegg Morgunblaðsins ætti stjórnarandstaðan helst ekkert að gera, þar sem allir tilburðir til mótmæla gætu fengið þann stimpil á sig að teljast vera málþóf. Þetta er ekki eðlileg og rétt leið sem ríkisstjórnin fer og það er ekkert skrýtið að menn bregðist við þessu með einhverjum hætti, mótmæli og láti það ekki yfir sig ganga að svona grundvallarmál sé keyrt í gegnum þingið á nokkrum dögum, rétt eins og um væri að ræða smávægilega reglugerðarbreytingu sem engu máli skipti.

Í slíkri stöðu hefur stjórnarandstaðan ekki mörg tromp á hendi, önnur en þau að nýta rétt sinn til að ræða mál ítarlega í þinginu og reyna að vekja þannig athygli á hroðvirknislegum vinnubrögðum.

mánudagur, 9. mars 2009

413 vs. 135

Merkilegt að sjá hvernig hinir flokkarnir á þingi brugðust við tilboði Þorgerðar Katrínar um að láta mál sem varða fjölskyldur og atvinnulíf fá forgang á dagskrá þingsins í dag. Hver stjórnarliðinn á fætur öðrum steig í pontu til þess að snúa út úr þessu og halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri með málþóf sem er orðin algengasta afsökunin á stjórnarheimilinu til að breiða yfir vandræðaganginn hjá ríkisstjórn sem telur það tvö af brýnustu málunum um þessar mundir vera að breyta kosningalögum og verja einum og hálfum milljarði í stjórnlagaþing.

Annars var ræðan hjá Siv Friðleifsdóttur athyglisverðust. Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn eins og VG í stjórnarandstöðu. Til fróðleiks má benda á að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa á þessum þingvetri talað í samanlagt færri mínútur en þingmenn VG. Þingflokkurinn sjálfstæðismanna telur aftur á móti 26 þingmenn (25 reyndar lengst af) en í þingflokki VG eru níu þingmenn. 

Ef þetta er reiknað yfir í meðalmínútufjölda á þingmann þá hafa þingmenn VG talað að meðaltali í 413 mínútur á meðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað að meðaltali í 135 mínútur!

laugardagur, 7. mars 2009

Ný störf og nýir skattar

Það er gott mál að ríkisstjórnin sé farin að spá í atvinnumálum og aðhaldi í ríkisrekstri og hefur vonandi sett tilraunastarfsemi sína með kosningalöggjöf og fleira til hliðar í bili.

Vel gert hjá Steingrími að lækka dagpeninga opinberra starfsmanna í ferðalögum og alveg spurning hvort það megi ekki ganga lengra í því.

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðarpakka sem á að tryggja 4000 ársverk. Það hljómar vel og ýmsir punktarnir þarna eru góðir, t.d. aukin störf fyrir iðnaðarmenn við að sinna ýmsum viðhaldsverkefnum. Það er eðlilegt að gera þegar atvinnuleysi er mikið. Þá er það líka góð hugmynd að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna framleiðslu kvikmynda hér á landi úr 14% í 20% til þess að laða hingað til lands erlenda kvikmyndaframleiðslu, sem mun vonandi skapa störf.

Annað í þessu er þynnra og lítur frekar út fyrir að hafa verið bætt við á blaðið til þess að koma störfunum yfir fjögur þúsund. T.d. er reiknað með 1000 ársverkum í kjölfar þess að skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja verði bætt og annað á þessum lista felur ekki beint í sér mikla atvinnusköpun, eins og að fjölga listamannamönnum á ríkislaunum. Það mun skapa 33 ársverk! Að skikka fyrirtæki til að vinna fjórðungs alls afla heima við orkar tvímælis, fyrirtækin hljóta að geta metið það hvernig þessu verði best hagað.

Svo sá ég að Steinunn Valdís Óskarsdóttir er að tala fyrir því að tekið verði upp margþrepa skattkerfi. Hún tók þó fram að það eigi alls ekki að vera eins og gamli hátekjuskatturinn því hann hafi verið farinn að leggjast á fólk með millitekjur og í frétt Morgunblaðsins um þetta kemur fram að Steinunn hafi vísað til fólks sem hafi unnið mjög mikið og haft þokkalegar tekjur á meðan það var að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Þessar fullyrðingar stangast á, því margþrepa skattkerfi mun einmitt bitna á þannig fólki. Því hærri sem launin eru því mun hærri verður skattprósentan. Það dregur úr hvata til vinnu og býr alls konar óheppilega þröskulda, t.d. að það verði hagstæðara að vera með 399 þúsund krónur í laun en 401 þúsund ef skattprósentan hækkar við 400 þúsund króna markið. Skattkerfið í dag er alls ekki fullkomið en einn þessi helsti kostur er að það er einfalt og laust við óþarfa flækjustig og það er þess virði að halda því þannig.

miðvikudagur, 4. mars 2009

Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu

Tveir af foringjum ríkisstjórnarinnar, þeir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, tjá sig varla þessa dagana öðruvísi en að með fylgi heillangur pistill um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu mála á þeim bænum. Þetta gera þeir auðvitað fyrst og fremst til þess að draga athyglina frá vandræðunum á stjórnarheimilinu, þar sem flokkarnir ná ekki saman um þýðingarmikil mál og Framsóknarmenn eru á einungis fjórum vikum orðnir dauðþreyttir á þvermóðskunni í VG og klækjunum í Samfylkingunni.

Liðsmenn stjórnarinnar á þingi virðast aftur á móti hafa talið sér trú um að vandræðin megi öll útskýra með því að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo ákaflega ómálefnalegur í stjórnarandstöðu. Það hefur verið nánast hægt að treysta á það undanfarnar daga og vikur að um leið og eitthvert ágreiningsmálið kemur upp á stjórnarheimilinu fara stjórnarliðar að tjá sig um Sjálfstæðisflokkinn.

Þar eru einkum talin til þrjú mál; kosning forseta Alþingis, framlagning frumvarpa um séreignasparnað og greiðsluaðlögun og loks Seðlabankafrumvarpið. Ekkert þessara mála stenst skoðun sem einhvers konar dæmi um ómálefnalegheit af hálfu sjálfstæðismanna.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu í alls heilar 14 mínútur þegar kosning forseta alþingis fór fram en kjör nýs forseta þingsins taldi ný ríkisstjórn vera sitt mesta forgangsmál á þingi. Frumvarpið um breytingar á Seðlabankanum tók alls 17 breytingum í meðförum þingsins, en var þó ekki nema 12 greinar að lengd og forsætisráðherra kynnti málið þannig í upphafi að það væri afar faglega unnið og vandað. Stjórnin samþykkti það svo í gerbreyttri mynd. Þingið varði alls rúmum þremur vikum í að fara yfir málið sem er nú orðið að lögum með miklum breytingum. Og hvað varðar það sem Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa kallað deilur um höfundarrétt á frumvörpum þá má spyrja á móti hvort eitthvað sé óeðlilegt við það að menn sem eru með fullunnin hagsmunamál fyrir fjölskyldurnar í landinu í höndunum leggi þau fram á þingi? Ríkisstjórnin tók sér fjórar vikur í kjölfarið í að lúra á þessum málum þótt þau lægju fyrir í þinginu, klár til afgreiðslu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar að sjálfsögðu greitt fyrir þeim málum sem tengjast efnahagsuppbyggingu og atvinnumálum.

Á sama tíma og þessi þula hljómar frá talsmönnum stjórnarinnar eru ágætis hlutir að gerast innan Sjálfstæðisflokksins. Endurreisnarnefndin undir forystu Vilhjálms Egilssonar hefur vakið athygli fyrir að gera opinskátt upp við fortíðina. Flokkurinn mun nýta tímann fram að landsfundi í lok mars til þess að fara í naflaskoðun, gera upp við fortíðina og móta tillögur til framtíðar. Það á hann líka að gera. Sjálfstæðisflokkurinn verður auðvitað að horfast í augu við að hann ber ábyrgð á því sem hér gerðist þótt honum sé fráleitt einum um að kenna, íslenskt fjármálalíf bjó við regluverk sem var alþjóðlegt og ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að bankarnir sjálfir höfðu tekið gríðarlega áhættu í sínum rekstri, komu sér í viðkvæma stöðu og fóru þannig nánast berskjaldaðir inn í hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu.

Minnihlutastjórnin mun ekki geta lifað á því til lengdar að benda bara á Sjálfstæðisflokkinn til að fela vandræðaganginn í sínum röðum. Stjórnin þarf að svara fyrir það hvers vegna Evrópumálin (og þar með talin leiðin að nýjum gjaldmiðli) þokast ekkert áfram (ekki einu sinni hænuskrefið sem Árni Páll Árnason boðaði að yrði tekið með því að heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá hefur litið dagsins ljós). Sömuleiðis þarf að móta einhverja sýn á það hvernig eigi að takast á við atvinnuleysið þegar 16 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá en ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst verið í því hlutverki að skjóta niður hugmyndir og lausnir í atvinnumálum fram til þessa.

Það skýtur því skökku við að heyra Steingrím og Össur og félaga, sem eiga samtals mörg þúsund ræðutíma að baki í þinginu sem stjórnarandstæðingar, og lögðust þar gegn hinu ýmsu málum ásaka núverandi stjórnarandstöðu um að vera að standa í vegi fyrir brýnum málum.

mánudagur, 2. mars 2009

Persónukjör og peningar

Birti þessa grein á Deiglunni í dag og læt hana flakka hingað líka:

---

Eitt þeirra mála sem ný ríkisstjórn hyggst leggja áherslu á er að breyta kosningalögum til þess að innleiða reglur um persónukjör.

Því hefur verið lýst ágætlega af hálfu bæði stjórnmálamanna og fræðimanna út á hvað slík breyting myndi ganga, þ.e. að stjórnmálaflokkar hefðu kost á að bjóða fram það sem kallast óraðaður listi frambjóðenda. Kjósendur þeirra flokka sem bjóða fram slíkan lista hefðu því í hendi sér að ráða uppröðun á listanum í kjörklefanum og hin hefðbundnu prófkjör flokkanna færu þá fram inn í kjörklefanum en væru ekki haldin sérstaklega af hálfu viðkomandi flokks áður en kosningarnar sjálfar fara fram.

Krukkað í reglunum í miðjum klíðum
Við þessa hugmynd er ýmislegt að athuga. Hún er fyrir það fyrsta afar seint fram komin en kosið verður til Alþingis 25. apríl nk. og því væri verið að breyta reglunum í miðjum leik. Það er raunar meðal einkenna ólýðræðislegra kosninga og stjórnarfars að breyta kosningareglum eftir að blásið hefur verið til kosninga. Eðlilegra væri að gefa svona breytingum lengri tíma og undirbúa þær þá betur. Reyndar hafa fjórir af fimm flokkum nú þegar gefið út að þeir hyggjast halda prófkjör, forval eða uppstillingu (Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn) og því má velta fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að leggja ofurkapp á að koma slíku ákvæði inn núna.

Fjármál frambjóðenda
Annar flötur á hugmyndinni um persónukjör eru lög frá 2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Í þessum lögum er kveðið á um reglur varðandi styrki til stjórnmálaflokka og frambjóðendur, upplýsingaskyldu, bókhaldsskyldu og hámarkskostnað fyrir þá sem taka þátt í prófkjörum innan flokkanna. Með setningu laganna, sem allir flokkar stóðu að á sínum tíma, voru í fyrsta sinn settar reglur um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, en fram að þeim tíma höfðu nánast engar reglur gilt um þetta efni hér á landi. Lögin hafa verið gagnrýnd nokkuð harkalega hér á Deiglunni, þótt ekki verði farið nákvæmlega út í þá sálma að sinni.

Reglurnar setja frambjóðendum í prófkjörum talsverðar hömlur miðað við það sem áður var, hámarkskostnaður við prófkjör er til að mynda um það bil 8 milljónir í Reykjavík (hámarkskostnaður er reiknaður þannig að ákveðin krónutala er fyrir hvern íbúa á svokölluðu „kjörsvæði“ að viðbættri einni milljón króna) og líkt og stjórnmálaflokkarnir mega frambjóðendur ekki þiggja meira en 300 þúsund krónur í einstök framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Með þessu eru töluverðar hömlur settar á kostnað við prófkjörin en að sama skapi er unnt að verja í þau þónokkru fé enda gegna prófkjörin mikilvægu hlutverki innan flokkanna varðandi nýliðun og breytingar.

Hvað mætti eyða miklu í persónukjör?
Hugmyndir um persónukjör passa ekki vel inn í lögin um fjármál flokkanna enda var ekki gert ráð fyrir þeim möguleika þegar lögin voru samin. Engu að síður mætti ætla að frambjóðendur á óröðuðum lista hefðu áhuga á að koma sér og sínum stefnumálum, áherslum og fyrri afrekum á framfæri við kjósendur með einhverjum hætti enda væri það hluti af eðlilegri nýliðun og endurnýjun innan flokkanna.

Þá vakna upp spurningar um hvernig fara ætti með kostnað sem farið yrði út í af hálfu frambjóðenda á óröðuðum lista til að kynna sig. Hvaða reglur gilda um slíkt? Ætli ríkisstjórnin með stuðningi Framsóknarflokksins að gera frumvarp um breytingar á kosningalögunum að lögum fyrir þinglok þyrfti í leiðinni að velta upp breytingum á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Miðað við ummæli og yfirlýsingar stjórnarliða og fræðimanna fram til þessa hefur þetta atriði þó ekki fengið mikla athygli og ólíklegt verður að teljast að frumvarp þess efnis sé í undirbúningi.

Framlag til flokksins sjálfs?
Vilji menn aftur á móti ekki gera sérstaka breytingu á lögunum um fjármál stjórnmálaflokka væri hugsanlega hægt að fella persónukjörið undir lögin með því að líta svo á að það fé sem frambjóðendur á óröðuðum lista verja til að kynna sjálfan sig jafngildi framlagi til viðkomandi flokks og kosningabaráttu hans og megi þar af leiðandi ekki vera yfir 300 þúsund krónum. Þetta gæti stuðst við d-lið 2. gr. laganna þar sem framlög eru m.a. skilgreind sem „framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru“. Þannig yrði einfaldlega litið á þann kostnað sem hver frambjóðandi legði út fyrir sem stuðning við viðkomandi flokk og slíkt flokkað sem framlag til flokksins.

Margar milljónir í prófkjör, 300 þúsund í persónukjör
Þessi niðurstaða býður aftur á móti upp á ákveðið misræmi milli þeirra sem fara í prófkjör annars vegar og frambjóðenda í persónukjöri hins vegar. Frambjóðendur í prófkjörum gætu auglýst sjálfa sig fyrir allt að 8 milljónir í stærstu prófkjörunum, en þeir sem eru á óröðuðum lista flokka gætu aðeins varið 300 þúsund krónum til að koma sér á framfæri. Þetta hefði áhrif á nýliðun innan flokka sem yrði gerð torveldari á þennan hátt því nýir og síður þekktir frambjóðendur hefðu minni möguleika á að vekja athygli á sér þar sem hámarkskostnaðurinn til að kynna sig er 300 þúsund krónur. Þeir sem fyrir eru á fleti, t.d. sitjandi þingmenn, ættu væntanlega meiri möguleika á að halda sinni stöðu, enda í flestum tilfellum þekktari og betur kynntir.

Niðurstaðan er því sú að með góðum vilja má koma persónukjörinu undir ákvæðin um lögin um flokkana og prófkjörin en þau voru ekki hugsuð út frá þessum kosti og myndu í þokkabót búa til ýmis konar misræmi og ósamræmi.

Annar möguleiki við að koma persónukjörinu undir lögin um fjármál flokkanna án þess að gera sérstaka breytingu væri að ætla sér að lögjafna ákvæðum um kostnað við prófkjörsbaráttu yfir á persónukjörið. Á það ber hins vegar að líta að þetta er afar ólík barátta, þ.e. persónukjör annars vegar og prófkjör hins vegar og býsna langt seilst að heimfæra þau ákvæði upp á persónukjörið.

Betri undirbúningur
Að þessu öllu sögðu er ljóst að nokkur vafi leikur á því hvernig sé rétt að fara með persónukjörið gagnvart þeim kostnaði sem lagt verður út í af hálfu frambjóðenda. Svörin við því eru ekki alveg augljós, þótt eflaust mætti heimfæra ákvæði laganna upp á persónukjörið. Eðlilegra væri aftur á móti að aðlaga lögin um fjármál flokkana að hinu nýja frumvarpi. Þá vaknar aftur á móti upp sú spurning hvort tíminn sé nægur til að vinna í slíkum breytingum á síðustu stundu í þinginu, hvort mikilvægari mál ættu ekki að fá forgang og hvort það liggi yfirhöfuð mikið á að keyra svona breytingar í gegn í ljósi þess að allar líkur séu á að það væri lítið sem ekkert notað.