Forsíða Fréttablaðsins í morgun er lögð undir það hve mótfallnir sjálfstæðismenn eigi að vera reglum um skráningu á fjárhagslegum tengslum þingmanna. Fyrirsögnin og fréttauppslátturinn gengur út á að sjálfstæðismenn séu sér á báti hvað þetta varðar þar sem þeir vilji einir að reglurnar séu valkvæðar, þ.e. að þingmenn hafi val um það hvort þeir undirgangist þessar reglur og skrái sín tengsl.
Blaðamaðurinn nefnir það aftur á móti ekki í frétt sinni að drögin að reglunum eins og þau liggja fyrir gera ráð fyrir að reglurnar séu valkvæðar. Þannig er málið lagt upp. Það væri raunar ekki einsdæmi, því dæmi eru um slíkt á Norðurlöndunum. En aðalatriðið varðandi þessa frétt og fréttamatið er hvernig hægt er að mála þá mynd að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum þegar flokkurinn studdi þau drög að reglum sem fyrir lágu!
Þannig leggur þessi ágæta vefsíða, Eyjan, út af fréttinni og endursegir frétt Fréttablaðsins með því að orða fyrirsögnina svona: "Reglur um fjárhagslega hagsmuni þingmanna ræddar í dag - sjálfstæðismenn einir á móti"!
Spuninn þróast sem sagt og í fyrstu endursögn er ekki einu sinni verið að deila um valkvæði reglnanna heldur eru sjálfstæðismenn hreinlega á móti þeim í heild sinni.
Það er orðið ansi erfitt að vera með og styðja mál - þegar það að styðja fyrirliggjandi drög gerir það að verkum að menn verða á móti!
*Uppfært: Ég sé að Eyjan hefur breytt fyrirsögn sinni. Þá er það ofsagt hjá mér að Fréttablaðsgreinin haldi því fram að sjálfstæðismenn séu á móti þessum reglum - þar er því aftur á móti haldið fram að þingflokkurinn sé á móti því að skylda sé að skrá eignir. Aðalatriðið er þetta: drögin að reglunum ganga út á valkvæðni og ekki hafa komið fram breytingar í forsætisnefnd þingsins hvað það varðar. Af þeim sökum er það býsna langsótt að saka menn um að vera á móti hinu og þessu - þegar það eina sem fram hefur komið er að þingflokkurinn styðji fyrirliggjandi drög í málinu.
mánudagur, 16. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli