laugardagur, 31. janúar 2009

Ákvarðanirnar bíða

Nýja minnihlutastjórnin hefur tekið sér meira en viku til að koma sér saman um stjórnarsáttmála til þriggja mánaða.

Þetta þýðir að í rúmlega viku hefur orka pólitíkusanna og athygli fjölmiðlannna beinst að hráskinnaleik stjórnmálanna. Hver færi hvaða ráðuneyti, hvað stjórnlagaþing kosti, hver verður rekinn, hvort verður kosið í lok apríl eða byrjun maí osfrv.

Ekkert af þessu skiptir neinu máli varðandi það sem er framundan né hjálpar til við að koma okkur sem fyrst út úr þeim vandræðum og kreppu sem við erum í.

Viðfangsefnunum má skipta niður í nokkra flokka.

Gengið, verðbólgan og vextir

Í fyrsta lagi er gengi krónunnar, verðbólga og háir stýrivextir. Öll þessi atriði stuðla að því að ástandið í efnahagsmálum núna er og hefur verið algerlega óviðunandi. Hins vegar eru jákvæð merki í spilunum hvað þetta varðar; vöruskiptahallinn er orðinn hagstæður og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast, (þótt það sé hæfilega mikið að marka á meðan gjaldeyrishöftin eru til staðar). Að öllum líkindum mun verðbólgan fyrir febrúar verða mun lægri og stýrivextir lækka svo í kjölfarið. Þessi mál munu því þróast til betri vegar á næstu mánuðum og það mun létta töluvert á afborgunum verðtryggðra lána fyrir einstaklinga og fjölskyldur og vaxtalækkunin í kjölfarið verður mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Bankakerfið í gang á ný

Í öðru lagi þarf að koma bankakerfinu á lappirnar á ný. Matsfyrirtækið Oliver Wyman er að yfirfara eignasafn bankanna áður en eigið fé verður sett inn í bankanna. Til stóð að þeirri vinnu yrði lokið í febrúar en samkvæmt nýjum fréttum mun því ekki ljúka fyrr en í apríl. Það eru slæmar fréttar því núverandi ástand bankanna er engan veginn nógu góð. Samofið því verkefni að koma bönkunum á lappirnar og stofna efnahagreikning þeirra er svo að marka stefnu til framtíðar um rekstrarform bankanna, þ.e. hvort koma eigi þeim í einkaeigu og hvort sameina eigi amk. tvo af bönkunum. Inn í þetta spilar svo hvernig aðkoma erlendu kröfuhafanna verður að eignarhaldi bankanna.

Gjaldmiðill og peningamálastefna

Þriðja stóra atriðið sem þarf að leysa til lengri tíma litið er framtíðarskipan gjaldmiðlamála og peningamálastefnu. Þar kemur einkum tvennt til greina; aðild að ESB eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils, líklegast dollars sökum þess hve pólitískt viðkvæm einhliða upptöku evru væri. Báðar þessar leiðir hafa aftur á móti innbyggðan vanda. Það er alls óvíst að einhliða upptaka dollars þætti trúverðug af okkar hálfu núna – við skulum ekki vanmeta hve lítil tiltrúin á „íslenskum efnahagslausnum“ er. Þar að auki stæðist slík lausn tæplega sem varanleg framtíð í gjaldmiðlamálum. ESB-aðild hefur aftur á móti þann praktíska ágalla, fyrir utan hve pólitískt umdeild aðild er, að ferlið við að taka upp evru er afar tímafrekt – sennilega fjögur til sex ár, allt eftir því hvernig okkur gengur að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Af þessu eiga stjórnmálaflokkarnir og stjórnvöld að hafa áhyggjur og leggja höfuðið í bleyti. Kjördagur, stjórnlagaþing og ofsóknaræði í garð bankamanna er ekki það sem mestu skiptir í dag.
Minn óskalisti lítur svona út:
  • Höldum okkur við IMF-prógrammið, því það er besti möguleikinn til að styrkja krónuna, lækka verðbólgu og ná niður vöxtum næstu misserin
  • Komum bönkunum í einkaeigu því ákvarðanatökufælni gengur ekki sem framtíðarástand í íslensku hagkerfi – svo þarf að meta hvort það verði ekki hagstæðara að sameina allavega tvo af nýju bönkunum þremur
  • Sækjum um aðild að Evrópusambandinu og förum í aðildarviðræður og kanna kosti þess að taka einhliða upp dollar
Lágir stýrivextir og fúnkerandi bankakerfi mun gera það að verkum að atvinnulífið hefur forsendur til að fara að rétta úr kútnum á ný og atvinnuleysi gæti farið að ganga niður. Nýr gjaldmiðill verður svo ávísun á aukinn stöðugleika hér á landi.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Stjórnlaust FME

Krafan um afhausanir og uppsagnir í FME og Seðlabankanum hefur verið þung síðustu vikurnar og mánuðina. Björgvin Sigurðsson ákvað að verða við þessum kröfum gagnvart forstjóra Fjármálaeftirlitsins og stjórn stofnunarinnar áður en hann sagði af sér sjálfur.

Þetta leit vel út í sjónvarpinu - loksins var einhver að axla ábyrgð og í sjálfu sér var það jákvætt. En útfærslan á þessu er fráleit - FME er nánast lamað næstu vikurnar þar sem engin stjórn er til staðar í stofnuninn. Samkvæmt lögum FME skal bera meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Það er ábyrgðarhluti að ganga ekki betur frá málum gagnvart þessari stofnun, sem færa má rök fyrir að sé sú mikilvægasta í landinu núna, en svo að hún sé skilin eftir stjórnlaus.

En þetta lúkkar auðvitað vel...

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Þingvallarstjórnin komin í sögubækurnar

Ríkisstjórnarsamstarfinu er lokið og minnihlutastjórn VG og Samfylkingar er í smíðum.

Það hefur margt breyst frá því dagana og vikurnar eftir kosningarnar í maí 2007 þegar stjórnin var mynduð. Hún fór af stað með gríðarlegan meðbyr, í fyrstu könnunum naut hún stuðnings 83% aðspurðra sem var langtum meiri stuðningur en samanlagt fylgi flokkanna sagði til um.

Bjartar vonir
Þessi stuðningur kom ekki á óvart í fyrstu. Þreyta var komin í samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir tólf ár og margir vonuðu að hin nýja stjórn myndi boða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum og setja á dagskrá mál sem ekki hafði verið áhugi á að hreyfa við, s.s. að gera breytingar í landbúnaðarkerfinu, leyfa einkaframtakinu að njóta sín í opinbera geiranum og fá þannig betri þjónustu og nýtingu almannafjár auk þess sem báðir flokkar eru markaðssinnaðir og styðja frjáls viðskipia. Stjórninni fylgdu því bjartar vonir og háar væntingar. Ég var á meðal þeirra sem trúði því að þessi ríkisstjórn ætti mikla framtíð fyrir sér.

Því miður náði hún ekki að rísa undir þessum miklu væntingum. Framan af kláruðust ýmis jákvæð mál en eftir á að hyggja er ekki ýkja margt komið svo langt á veg að það standi eftir sem grundvallarbreyting. Helst kannski að kerfisbreytingar hafi orðið í heilbrigðiskerfinu.

Hinn mikli þingmeirihluti að baki stjórninni gerði það að verkum að þingmenn beggja flokka upplifðu ekki jafnmikla skuldbindingu gagnvart stjórnarsamstarfinu og áður. Það var í sjálfu sér saklaust en olli því að ákveðið los tók að myndast á samstarfið. Sögulega voru flokkarnir andstæðingar og í ofanálag bættist að Samfylkingin forðaðist það eins og heitan eldinn að fá „Framsóknarveikina", þ.e. lagði mikla áherslu á að aðgreina sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Bakki og hvalur
Afgreiðsla ýmissa mála var því ekki nógu sannfærandi, umhverfisráðherra kynnti t.d. í sumar að framkvæmdir við Bakka yrðu settar í sameiginlegt umhverfismat með þeim afleiðingum að undirbúningurinn tæki mun lengri tíma en ella, sem var samstarfsflokknum alls ekki að skapi. Á móti kynnti sjávarútvegsráðherra að gefinn hefði verið út kvóti til hvalveiða án þess að samhljómur væri fyrir því meðal Samfylkingarinnar sem gaf frá sér yfirlýsingu um að flokkurinn styddi ekki málið. Hvorugt þessara mála skipti neinu höfuðmáli en á móti kom að út á við tók heildarsvipurinn á ríkisstjórninni að versna, sem leit út eins og samkoma 12 ráðherra.

Hún naut samt sem áður nokkuð afgerandi stuðnings meðal þjóðarinnar. Stór ástæða fyrir því held ég að hafi verið að þjóðin skynjaði að traust samband var milli forystumanna stjórnarinnar, Geirs og Ingibjargar, og fólk fann að vilji þeirra beggja stóð til þess að halda samstarfinu gangandi og leysa þau mál sem upp kæmu.

Lánsfjárkreppan gerir vart við sig
Frá og með haustinu 2007 tók hin alþjóðlega lánsfjárkreppa að gera vart við sig. Til að byrja með var þetta tiltölulega fjarlægt vandamál en smám saman tókum við að finna fyrir því hér heima fyrir og fljótlega varð þetta helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Frá upphafi ársins 2008 var aðalviðfangsefni stjórnvalda að reyna að byggja upp varnir við lausafjárskorti fjármálafyrirtækja en eftir því sem að leið á árið og fram á haustið kom í ljós að sú viðleitni var í reynd til lítils – stærð og umfang íslenska bankakerfisins var slíkt að möguleikar stjórnvalda á að verja það ef á reyndi voru nánast vonlausir. Mistökin höfðu fyrir löngu orðið – bankarnir höfðu stækkað og stækkað meðan þjóðin var í góðærisvímu og taldi vöxtinn allan af hinu góða.

Í október rúlluðu bankarnir svo hver á fætur öðrum og eftir stóðu stjórnvöld með það verkefni í höndunum að hefja endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins á nýjan leik. Eðli stjórnarsamstarfsins hafði því breyst og snerist um uppbyggingu í kjölfar kerfishruns. Stjórnarsáttmálinn frá maí 2007 var í reynd orðinn marklaus og hugsa þurfti hlutina upp á nýtt.

ESB-krafa rann út í sandinn
Strax fór að bera á ólíkum áherslum flokkanna – Samfylkingin vildi setja Evrópusambandsaðild Íslands á dagskrá með afgerandi hætti og í desember kvað formaður flokksins upp úr með það að ef Sjálfstæðisflokkurinn breytti ekki um stefnu í þessum málaflokki væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt, enda væru þá við stjórnvölinn tveir flokkar með gerólíkar skoðanir á því hver framtíðin í peningastjórn landsins ætti að vera. Innan Sjálfstæðisflokks voru aðrar áherslur en formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað samt sem áður að flýta landsfundi flokksins fram í janúar til þess að unnt væri að útkljá Evrópumálin innan flokksins.

Þróunin yfir jól og áramót var þannig að stemningin fyrir Evrópusambandsumræðunni minnkaði verulega og framan af í janúar var heldur rólegt um að litast í pólitíkinni – fókusinn hafði færst annað í bili. Deilt var um Ísrael og Gaza og hvort stjórnvöld ættu að álykta um ástandið.

Of þungbær dvöl á stjórnarheimilinu
Þetta reyndist aftur á móti vera lognið á undan storminum. Á þriðjudaginn byrjuðu mótmæli fyrir utan þinghúsið sem stóðu fram eftir kvöldi og nánast sleitulaust alla vikuna. Það má segja margt um þessi mótmæli og ótrúlegt framferði ákveðinna einstaklinga þar inn á milli en eitthvað var við aðgerðirnar sem gerði það að verkum að mikils óróa tók að gæta í pólitíkinni. Ofan á þetta bættist að Samfylkingin fékk tvær slæmar kannanir í röð, þar sem flokkurinn var með 17-19% fylgi og fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík ályktaði um stjórnarslit með þingmenn og varaformann flokksins í hópi stuðningsmanna tillögunnar. Það lá orðið í loftinu að það var lítið eftir af þessu samstarfi og bara spurningin hvernig því myndi ljúka. Það var orðið Samfylkingunni einfaldlega of pólitískt þungbært að halda þetta út.

Vakt í frystihúsi?
Lokaútspilið var reyndar nokkuð óvænt – að fá bara nýjan forsætisráðherra yfir ríkisstjórninni. Þetta kallar Samfylkingin reyndar núna „verkstjóra ríkisstjórnarinnar", rétt eins og ríkisstjórnin sé hópur fólks í vaktavinnu í frystihúsi. Verkleysi – en ekki ESB-aðild eða breytingar í Seðlabankanum – var skyndilega orðið helsta áhyggjuefnið varðandi ríkisstjórnina og þá virtist engu skipta að í desember lágu fyrir tillögur milli flokkanna um breytingar á ríkisstjórn, Seðlabankanum og ýmsu fleiru. Frá þessu var hins vegar fallið, m.a. vegna fjarveru formanns Samfylkingarinnar. Auðvitað hefði margt mátt gerast hraðar – það er alveg rétt. En allir sem hafa fylgst með aðdraganda stjórnarslitanna sjá að þetta var engin raunveruleg úrslitaástæða. Samstarfið var einfaldlega fyrir nokkru síðan komið á síðustu bensíndropana og það var spurningin um hvernig því lyki. Samfylkingin vildi leita á nýjar slóðir og ekki vera í óvinsælli ríkisstjórn. Er ekki bara allt í lagi fyrir hana að viðurkenna það?

Vinstristjórn fær að spreyta sig
Framundan hjá Sjálfstæðisflokknum er því að fara í stjórnarandstöðu, fram að kosningum hið minnsta. Það gefur flokknum tækifæri til að fara yfir sínar málefnaáherslur fram að kosningum og landsmenn fá að sama skapi að sjá hvernig vinstristjórn tekur á málum.

Miðað við fyrstu fréttir verður það fróðlegt samstarf - kyrrsetning eigna auðmanna er ein helsta krafa Vinstrigrænna ásamt því að semja upp á nýtt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

laugardagur, 24. janúar 2009

Kosningar í vor

Kosningarnar í vor eru tækifæri til að gera miklar breytingar. Þá á ég ekki sérstaklega við á flokkunum - það verða án efa heilmiklar breytingar á þeim og stuðningi við þá - heldur hljóta í þessum kosningum að koma fram nýjar hugmyndir og ný sýn á samfélagið. Hrun bankanna og upplausnin sem orðið hefur í kjölfarið hlýtur að skapa þær aðstæður að settar verði fram stórar hugmyndir.

Við eigum að taka stjórnskipun landsins til endurskoðunar. Lítið land eins og Ísland þarf á sjálfstæðum stofnunum að halda. Alþingi er mikilvægasta stofnun þjóðarinnar og þrátt fyrir að vera formlegur handhafi löggjafarvalds er þingið í reynd aðeins viðtakandi löggjafar, sem er öll samin í ráðuneytunum og flutt af ráðherrum. Þingið getur svo komið ákveðnum athugasemdum og breytingum að. Formlega er þetta ekki svona en í raun virkar löggjafarferlið þannig, það er vel þekkt og tölur sýna vel að yfir 90% löggjafar er frá ráðuneytunum komin.

Þetta þarf alls ekki að vera svona og sennilega átti þetta aldrei að verða svona. Ákveðinn kúltúr hafði hins vegar skapast og á meðan allt lék í lyndi var engin ástæða til þess að brjóta hann upp. Nú er aftur á móti kjörið tækifæri til að gera þessar breytingar. Þær þyrftu að ganga út á að gera þingið öflugra.

Við ættum því að setja það í stjórnarskránna að ráðherrar segi af sér þingmennsku. Að sama skapi ætti að gera þingnefndirnar færri og öflugri þannig að formenn þingnefnda fái meira vægi. Það er til að mynda sérkennilegt að formaður og varaformaður fjárlaganefndar sjái varla fjárlagafrumvarpið, stærsta einstaka þingmálið, fyrr en í októberbyrjun þegar það er fullunnið og öll pólitíkin komin inn. Nefndin fær svo aðallega að snurfusa og laga samlagningarvillur!

Það á að hugsa þetta upp á nýtt og endurheimta löggjafarvaldið frá framkvæmdarvaldinu.

laugardagur, 10. janúar 2009

Tveir slúðurmolar eða ein óspennandi frétt?

Vefmiðillinn AMX hefur skrifað um málefnastarfið í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda landsfundar og spurði um daginn í liðnum Fuglahvísl hvort sjálfstæðismenn væru of uppteknir við Evrópuvinnu til að móta stefnu.

Tveimur dögur síðar birtist nýtt Fuglahvísl um að sjálfstæðismenn væru farnir að ranka við sér því auglýstir hefðu verið opnir fundir á vegum málefnanefnda flokksins í næstu gviku og ýjað að því að menn væru að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að henda upp þessum fundum.

Það hefði nú ekki þurft mikið effort af hálfu AMX, sem titlar sig fremsta fréttaskýringarvef landsins til að komast að þessir fundir voru á döfinni. Eitt símtal, eða einn tölvupóstur, hefði sennilega dugað til að fá upplýsingar um að þessir fundir voru í undirbúningi, eins og vaninn er fyrir landsfund.

Ályktanir málefnanefnda hafa verið í vinnslu á vettvangi nefndanna undanfarnar vikur og mánuði, þær verða ræddar í nefndum á landsfundinum og svo endanlega afgreiddar af landsfundinum öllum, eins og vaninn er í aðdraganda landsfundar. Þá er rétt að halda því til haga að landsfundinum var flýtt um níu mánuði einmitt til þess að skerpa línurnar í því uppbyggingarstarfi sem er framundan.

Svona símtal eða tölvupóstur frá AMX hefði að vísu haft þann galla að þá hefði ekki verið hægt að birta tvær slúðurfréttir, aðra um að það væri ekkert málefnastarf og hina um að menn væru greinilega að ranka við sér. Í staðinn hefði í mesta lagi verið hægt að birta eina frétt um að framundan væru opnir fundir í málefnanefndum flokksins, sem hefði auðvitað ekki verið jafnkrassandi. Ef út í það er farið er hægt að birta svona slúður um flest alla viðburði - fyrst með því að gefa í skyn að eitthvað sé ekki að fara að gerast en þegar það gerist þá sé viðkomandi að rumska eða sjá að sér.

Svona vinnubrögð virðast reyndar vera orðin viðurkennd á fjölmiðlum. T.d. heldur Eyjan úti dálki sem heitir Orðið á götunni og birtir nafnlausar fréttir og slúður um hitt og þetta og bæði DV og dv.is birta Sandkorn í gríð og erg. Mannlíf hefur úti dálk sem heitir Orðrómurinn.

Það þarf engan snilling til að átta sig á hverjir uppfæra þessa dálka - það gera vitaskuld starfsmenn viðkomandi síðu. Eini munurinn þarna á virðist vera sá að þegar nafnlausu fréttirnar eru skrifaðar geta menn fríað sig ábyrgð og beitt allt öðrum vinnubrögðum en annars og birt dylgjur og slúður án þess að það sé í nafni neins eða þurfa að kanna grundvöll þess sérstaklega mikið.

Einkunnarorð þessara dálka gæti verið - Let them deny it!

mánudagur, 5. janúar 2009

ESB, kosningar og þjóðaratkvæði

Ég er ekki viss um að þetta sé rétt mat hjá Agli og Guðmundi Magnússyni, að ESB-umræðan núna sé eingöngu til að dreifa umræðunni á dreif og beina henni frá öðrum vandamálum. Það hlýtur að vera hægt að gera bæði, að fara í umræður um Evrópusambandið og halda fókus á þeim vandamálum sem eru í gangi hérna heima fyrir.

ESB-umsókn og hugsanleg ESB-aðild eru stór mál. Þetta væri stærsta einstaka ákvörðun sem íslenska þjóðin hefur tekið. Við værum að ganga að fullu inn í alþjóðlegt stjórnkerfi þar sem yrðum til næstu áratuga og jafnvel alda. Það er stór ákvörðun fyrir þjóð sem varði nánast allri 19. öldinni og helmingnum af þeirri 20. í að berjast fyrir og tryggja sjálfstæði sitt frá erlendu valdi en til þess standa sterk rök núna að við amk. sjáum hvað ESB-aðild myndi nákvæmlega þýða.

Í ljósi þess hve stórt og þýðingarmikið þetta mál er, þarf að hugsa um málsmeðferðina líka. Ríkisstjórnin þyrfti að hafa skýrt umboð til þess að sækja um aðild og fara í viðræður. Það umboð kom ekki úr kosningunum vorið 2007 heldur kom einmitt hið gagnstæða út úr þeim kosningum og stjórnarsáttmálanum – að við yrðum áfram utan ESB.

Ríkisstjórnin gæti auðvitað líka sótt umboð sitt í almennar kosningar, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur talað um og það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta fari saman, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild og almennar þingkosningar.

Vandinn við þá hugmynd er hins vegar sá að breyta þarf stjórnarskránni til þess að við gætum orðið aðilar að Evrópusambandinu og aðferðarfræðin við að breyta stjórnarskránni hérna á Íslandi er sú að eftir að stjórnarskrárbreyting er samþykkt á þingi er það rofið, boðað til kosninga og svo þarf nýkjörið þing að samþykkja breytinguna aftur til þess að hún öðlist gildi.

Að loknum viðræðum við ESB þyrfti því að boða til kosninga til þess að við hefðum heimild skv. stjórnarskrá til þess að fullgilda samninginn og aðildina. Viðræðurnar við ESB myndu líklega ekki taka meira en eitt ár, miðað við t.d. það sem Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hefur sagt og byggir á reynslu af viðræðum sambandsins við aðrar þjóðir. Líklegast liði því ekki meira en eitt til eitt og hálft ár milli kosninga, samkvæmt þessari hugmynd. Egill Helgason heldur því fram að þessar viðræður myndu taka „allnokkur ár“ en það væri þá einsdæmi og engin ástæða til að ætla að þjóð sem hefur nú þegar tekið upp mikið af regluverkinu í gegnum EES-samninginn þyrfti að standa í viðræðum í mörg ár til þess að komast að niðurstöðu um aðildarsamning.

Þingkosningar í vor og þingkosningar aftur að ári myndi þýða að sú ríkisstjórn sem tæki við sæti í um það bil eitt ár og svo færu fram kosningar aftur. Þetta væri ekki til þess fallið að skapa stöðugleikann sem við þarf núna.

Ingibjörg Sólrún virðist hafa áttað sig á þessu og kastar fram annarri hugmynd í Fréttablaðinu í morgun, þ.e. að breyta stjórnarskránni bara í vor til þess að það þyrfti ekki að kjósa aftur að ári.

Í þessu myndi felast að viðamiklar breytingar á stjórnarskrá landsins yrðu unnar nokkurn veginn frá grunni á um þremur mánuðum – á sama tíma og stjórnkerfið og stjórnsýslan er á fullu við að vinna úr efnahagsvandnaum. Ekki nóg með það, þá myndi þessi vinna koma inn í kosningabaráttu flokkanna sem þyrfti að há núna með vorinu ef hugmynd Ingibjargar um kosningar í vor gengur eftir (vorið 2007 var þing t.d. rofið um miðjan mars og kosningabaráttan var á fullu í um tvo mánuði eftir það).

Stjórnarskrárbreytingar hafa allajafna verði unnar í samvinnu allra flokka og svo þyrfti líka að vera með svona stóra breytingu á stjórnarskrá. Það er held ég borin von að ná þessu í gegn á svona stuttum tíma svo einhver bragur og sómi sé að.

Sú leið að fara í tvöfalda atkvæðagreiðslu hefði aftur á móti þann kost að nóg væri að setja sérstök lög um að slík atkvæðagreiðsla færi fram og það ætti að vera unnt að undirbúa slíka atkvæðagreiðslu ágætlega nú á vorþingi – hún gæti t.d. farið fram í maí og ef umsóknin yrði samþykkt gætu menn tekið sumarið og fram á haust í að undirbúa samninganefnd fyrir okkar hönd, setja niður helstu markmið og fara svo í viðræður með haustinu. Ef hún yrði aftur á móti felld, væri málið úr sögunni.

Umræðan um að setja umsóknina í þjóðaratkvæði er nokkuð sérstök. Morgunblaðið sagði t.d. í leiðara um daginn að hætta væri „á að stuðningsmenn aðildar fari þá að lofa of miklu og andstæðingarnir að mála skrattann á vegginn.“ Það kann að vera en er þessi hætta ekki fyrir hendi alltaf þegar gengið er til kosninga?

Morgunblaðið hefur barist fyrir því í rúman áratug, allt frá því að blaðið birti árið 1997 mikla úttekt The Economist um þjóðaratkvæðagreiðslu sem lýðræði 21. aldarinnar, að styðjast ætti meira við þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. með þeim rökum að almenningur í dag væri betur upplýstur en áður og hefði að mestu leyti sömu möguleika til þess að fylgjast með og afla sér upplýsinga og kjörnir fulltrúar. Það skýtur því nokkuð skökku við að blaðið stígi fram núna og segi að það stafi einhver hætta af umræðunni í aðdraganda slíkrar atkvæðagreiðslu. Það dæmir sig sjálft að mála skrattann á vegginn eða lofa of miklu og fólki er treystandi til að sjá í gegnum slíkan málflutning í jafnstóru máli og ESB-aðild er.