þriðjudagur, 9. júní 2009
Spámenn Alþingis
Merkilegt nokk þá var slík atburðarrás rædd við setningu laganna og raunar voru ýmsar hugmyndir settar fram um hver hámarksábyrgð sjóðsins ætti að vera.
Guðmundur Árni Stefánsson þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar spurði t.d. hvernig yrði tekið á því „ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.“
Þáverandi viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson varð til svara og segir m.a. í svari sínu: „...ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.“
Stundum gerist það sem enginn á von á.
Fleiri tjáðu sig um málið. Jóhanna Sigurðardóttir – þá óbreyttur þingmaður, nú forsætisráðherra – tók til máls í umræðum og sagði m.a.:
„Það er auðvitað margt núna í bankakerfinu sem veldur ákveðnum áhyggjum og sem kallar á það að við höfum hér öflugan tryggingarsjóð sem getur staðið undir því að mæta skakkaföllum í bankakerfinu. Að vísu er það svo ef hér verður eitthvað mikið bankahrun líkt og varð í Noregi fyrir um tíu árum þegar norski ríkissjóðurinn þurfti að koma til móts við það mikla bankahrun sem þar varð með 50 milljörðum kr., þá er þetta hvergi nærri nóg sem við erum hér að leggja til. Auðvitað vonar maður að svo fari ekki hér.“
Jóhanna, ásamt Ögmundi Jónassyni og Margréti Frímannsdóttur mælti raunar fyrir ákveðinni breytingartillögu við frumvarpið.
Hún gekk út á að þetta hámark – 20 þús. evrur, sem þá var reiknað sem 1,7 milljón krónur – myndi ekki eiga við um einstaklinga og innistæður þeirra heldur yrðu þær bættar að fullu. Kröfur lögaðila og kröfur einstaklinga vegna tryggðra verðbréfa myndu hins væru hins vegar tryggðar að fullu upp að 20 þús. evrum en umfram það bættar hlutfallslega.
Eða eins og Jóhanna orðaði það sjálf:
„Hér er sem sagt lagt til að full tryggingavernd sé hjá þeim sem eiga innstæður sínar í innlánsstofnunum og bönkum, þannig að þeir geti verið rólegir hvað sem á dynur, hvaða skakkaföll sem verða í bankakerfinu, þá munu þeir að fullu og öllu fá sínar innstæður greiddar.“
Ef þessi breytingartillaga hefði verið samþykkt hefðum við legið laglega í því með ekkert hámark á innistæðum. Þá hefði íslenska ríkið varla getað staðið á því að takmarka endurgreiðslurnar við 20 þúsund evrur, þar sem við hefðum ekki haft neitt slíkt hámark í lögunum sjálf.
Þetta gat auðvitað enginn séð fyrir á sínum tíma og flutningsmönnum tillögunnar gekk það auðvitað ekki til að auðvelda útrásarfyrirtækjum að laða að fjármagn sem íslenska þjóðin þyrfti svo að bæta með himinháum greiðslum. En svona verða lagaákvæði oft til og ýmis konar réttindi eru veitt sem síðar geta snúist upp í andhverfu sína.
fimmtudagur, 4. júní 2009
Styrkur og séra Styrkur
Egill Helgason tekur í sama streng á vef sínum.
Það þarf mikinn vilja til þess að snúa svona út úr málinu en hann þarf svo sem ekki að koma á óvart. Hér er um að ræða einhliða ákvörðun um endurgreiðslu á styrk, sem hvorugt félagið gerir kröfu um að fá greidda til baka. Að líkja þessu við endurgreiðslu á láni, t.d. húsnæðisláni, er auðvitað algerlega óréttmætt. Vextir og verðbætur eru til þess að tryggja verðgildi þeirrar fjárhæðar sem er lánuð en þar sem engin fjárhæð var lánuð í þessu tilfelli og engin krafa er gerð um endurgreiðslu er varla um það að ræða að tryggja verðgildi fjárhæðarinnar.
Endurgreiðsla þessara styrkja byggir einfaldlega á því mati að rangt hafi verið að taka við styrkjunum á sínum tíma og til að sýna fram á að þessi ákvörðun hafi verið röng er ákveðið að endurgreiða styrkina. Það er erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að greiða út slíka fjárhæð og slík greiðsla væri líka erfið fyrir aðra flokka en með því er sýnt í verki að menn telja að það hafi verið rangt að taka við þessum fjármunum.
Á sama tíma og fjölmiðlar landsins velta þessu fyrir sér virðist það vekja afar litla athygli að Samfylkingin þáði styrki upp á 25 milljónir króna frá félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2006, 16 milljónir frá félögum tengdum Björgólfsfegðum og 10 milljónir frá Kaupþingi. Það fjölmiðlafár sem varð við sambærilegar fréttir af styrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins virkar broslegt við hliðina á þeirri þægindameðferð sem þetta mál fær hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum landsins.
Ég man eftir nokkrum ummælum úr fréttaflutningi frá þeim tíma og væri fróðlegt að vita hvort væru í gildi núna:
- Hvað finnst Gunnari Helga Kristinssyni stjórnmálafræðiprófessor um þetta mál? Þegar málið stóð sem hæst þá var hann daglegur umsagnaraðili í fréttum Rúv og gaf svör um hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið nógu langt með einhverjum tilteknum aðgerðum til að sýna iðrun og betrumbót í málinu
- Telur Svanur Kristjánsson annar stjórnmálafræðiprófessor mikilvægt að fram fari húsleit á skrifstofum Samfylkingarinnar? Hann kom fram á Speglinum á sínum tíma og taldi augljóst að gera ætti húsleit í Valhöll í ljósi málsins
- Finnst Svandísi Svavarsdóttur fréttir af styrkjunum kveikja tengingar um tengsl við REI-málið og vekji spurningar hvort mútugreiðslur hafi farið fram? Vill hún t.d. tengja styrkgreiðslurnar við mikinn og einlægan áhuga núverandi utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra á því að sameining REI og GGE færi fram á sínum tíma og linnulausum árásum hans á þá sem voru andvígir sameiningu félaganna? Svandís steig fram með afar afdráttarlausum hætti í fjölmiðlum á sínum tíma og skaut í allar áttir en maður veltir því fyrir sér hvort það sama eigi ekki við þegar samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eigi í hlut?
Það blasir við að fjölmiðlar taka með afar ólíkum hætti á málum sem eru um margt sambærileg hjá þessum tveimur flokkum. Í öðru tilfellinu voru heilu fréttatímarnir lagðir undir málið og greinilega mikið á sig lagt til að ná í álitsgjafa og fræðimenn sem vildu gagnrýna málið. Í hinu tilfellinu er nánast ekkert um málið fjallað, enginn fræðimaður er dreginn í viðtal til að rifja upp stóru orðin og yfirlýsingarnar heldur er nánast látið nægja að endurbirta kurteisislega fréttatilkynningu og útskýringar Samfylkingarinnar um málið!
Eitt verður þó ekki af Samfylkingunni tekið – þar kunna menn greinilega til verka í almannatengslunum og fjölmiðlarnir dansa með!