þriðjudagur, 7. apríl 2009

Lausnin í þingstörfunum

Minnihlutastjórnin var mynduð til þess, að eigin sögn, að sinna brýnum málum í þágu heimila og fyrirtækja. Það var skynsamleg markmiðssetning á sínum tíma vegna þess að fyrir lá að stjórnin myndi starfa í stuttan tíma og myndi í þokkabót þurfa að reiða sig á Framsóknarflokkinn til að verja sig vantrausti.

Þess vegna var óvænt að sjá í stjórnarsáttmálanum að settar voru á dagskrá viðamiklar breytingar á kosningalöggjöf og stjórnarskránni. Það var óvænt vegna þess að þetta var ekki í samræmi við yfirlýst hlutverk ríkisstjórnarinnar né þau viðfangsefni sem voru uppi á þessum tíma. Bæði kosningalögin og stjórnarskráin eru grundvallarskjöl í okkar samfélagi sem tengjast ekkert sérstaklega hruni bankanna og efnahagsþrengingunum og það virkaði ekki sannfærandi að ætla sér að gera á þeim viðamiklar breytingar á örfáum vikum.

Það kom líka á daginn. Tillögur stjórnarinnar að þessu leyti voru unnar í flýti og illa undirbúnar. Þær fóru líka gegn öllum þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í þessum málum hingað til. Stjórnarskránni var t.d. breytt 1991, 1995 og 1999 eftir viðamikinn undirbúning og í samstöðu allra flokka. Það var ekki unnt að ná slíkri samstöðu og nægilega vönduðum undirbúningi á svo stuttum tíma á þessu þingi og það kann aldrei góðri lukku að stýra að ætla að keyra yfir minnihlutann í svona málum.

Í stað þess að sætta sig við þessa stöðu og einbeita sér að þeim miklu verkefnum sem efnahagslífið krefst að stjórnmálamenn leysi, hefur ríkisstjórnin ákveðið að þverskallast við í þessu máli. Formenn bæði Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir að það skipti þá engu máli þótt minnihlutinn sé mótfallinn þessari breytingu, hún muni bara samt fara í gegn. Jóhanna Sigurðardóttir hefði nú tæplega tekið slíkum skilaboðum þegjandi og hljóðalaust þegar hún sat í stjórnarandstöðu en það hefur sýnt sig að menn eru fljótir að breytast þegar þeir komast í valdastólana.

Staðan á þinginu þessa dagana er því þannig að stjórnarskrármálið er í ágreiningi og situr í reynd fast. Þetta hefur þær alvarlegu afleiðingar að brýn mál fást ekki rædd á þingi, sem er alvarlegt sökum þess að margir bíða eftir þeim úrræðum sem Alþingi mun samþykkja. Dæmi um slík mál eru samningur um álver í Helguvík og frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

Ríkisstjórnin fer með dagskrárvaldið á Alþingi og ákveður hvaða mál eru sett á dagskrá og hefur ákveðið að setja þessi þýðingarmiklu mál aftar á dagskránna. Þetta er leið ríkisstjórnarinnar til þess að reyna að þvinga stjórnarskrárbreytingarnar í gegn - þ.e. með því að setja brýnni mál fyrir aftan stjórnarskrármálið og reyna svo að halda því fram að minnihlutinn tefji fyrir því að hin brýnni mál séu rædd.

Af þeim sökum eru tillögur Þorgerðar Katrínar í gær og Sigurðar Kára í dag um breytingar á dagskrá þingsins, í þá veru að mikilvæg mál varðandi efnahagslífið og atvinnumálin verði sett í forgang á dagskránni, leið til lausnar. Tillögurnar felast í því að stjórnarskrárumræðunni verði frestað um sinn enda liggi fyrir að ágreiningur séu um það mál og í staðinn afgreiði þingið þau mál sem beðið er eftir.

Viðbrögð talsmanna ríkisstjórnarinnar við þessum tillögum hafa valdið vonbrigðum. Forseti þingsins tók tillögunni sem mógðun við forseta og vantraust á hann og ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar hafa hver á fætur öðrum komið upp og gagnrýnt þessa leið. Tillaga Þorgerðar var felld í gær og fyrstu viðbrögð við tillögu Sigurðar Kára voru neikvæð.

Það er miður vegna þess að þingið þarf að ljúka þeim málum sem beðið er eftir.

föstudagur, 3. apríl 2009

Hvað sögðu ráðherrarnir 2007?

Því er haldið fram að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt um langt árabil. Þetta er ekki rétt. Stjórnarskráin er þannig að þegar samþykktar hafa verið breytingar á henni skal boða til kosninga og staðfesti nýtt þing breytingarnar telst stjórnarskránni hafa verið breytt. Í þessu felst að kosningar verða að fara fram til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá.

Í þremur af síðustu fimm kosningum sem haldnar hafa verið var stjórnarskránni breytt í kjölfarið, þ.e. 1991, 1995 og 1999 en ekki 2003 og 2007. Þeas. í þremur af fimm tilfellum hefur þingið nýtt tækifærið og breytt stjórnarskránni. Þetta kalla menn að hafa ekki breytt stjórnarskránni um langt árabil. Til samanburðar má nefna að stjórnarskránni var síðast breytt í Danmörku árið 1953. Samt hafa Danir það nú ágætt!

Í dag hófust á ný umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnarskránna. Eins og allir gátu séð fyrir spila stjórnarliðarnir út því spili að stjórnarandstaðan sé að beita málþófi. Aðalatriði málsins er hins vegar að ríkisstjórnin kýs að rjúfa friðinn um stjórnarskránna og keyra í gegn breytingar gegn vilja 26 þingmanna af 63. Jóhanna Sigurðardóttir staðfesti það beinlínis í dag á þingi að hún myndi verða fyrsti forsætisráðherrann í 50 ár til þess að standa fyrir breytingum á stjórnarskrá án þess að allir flokkar væru sáttir við þær breytingar.

Alþingi tók nokkuð stífa stjórnarskrárumræðu árið 2007 þegar kynnt var frumvarp um breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrár. Þá voru nokkrir af núverandi ráðherrum í stjórnarandstöðu og beittu sér í málinu. Það er athyglisvert að rifja upp ummæli þeirra úr umræðunni þá þegar þeir halda því nú fram hver af öðrum að krafa um lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni sé ekkert annað en málþóf og tafir.

Rifjum upp ummælin:

Ögmundur Jónasson
„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Össur Skarphéðinsson
„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Kolbrún Halldórsdóttir
„Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.“

Steingrímur J. Sigfússon
„En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

Aðrir ráðherrar voru ýmist ekki á þingi árið 2007 (Gylfi, Ragna og Katrín) eða tjáðu sig ekki um málið (Jóhanna, Kristján og Ásta Ragnheiður).

Sinnaskipti ríkisstjórnarinnar frá því sem áður var eru sem sagt alger.