Minnihlutastjórnin var mynduð til þess, að eigin sögn, að sinna brýnum málum í þágu heimila og fyrirtækja. Það var skynsamleg markmiðssetning á sínum tíma vegna þess að fyrir lá að stjórnin myndi starfa í stuttan tíma og myndi í þokkabót þurfa að reiða sig á Framsóknarflokkinn til að verja sig vantrausti.
Þess vegna var óvænt að sjá í stjórnarsáttmálanum að settar voru á dagskrá viðamiklar breytingar á kosningalöggjöf og stjórnarskránni. Það var óvænt vegna þess að þetta var ekki í samræmi við yfirlýst hlutverk ríkisstjórnarinnar né þau viðfangsefni sem voru uppi á þessum tíma. Bæði kosningalögin og stjórnarskráin eru grundvallarskjöl í okkar samfélagi sem tengjast ekkert sérstaklega hruni bankanna og efnahagsþrengingunum og það virkaði ekki sannfærandi að ætla sér að gera á þeim viðamiklar breytingar á örfáum vikum.
Það kom líka á daginn. Tillögur stjórnarinnar að þessu leyti voru unnar í flýti og illa undirbúnar. Þær fóru líka gegn öllum þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í þessum málum hingað til. Stjórnarskránni var t.d. breytt 1991, 1995 og 1999 eftir viðamikinn undirbúning og í samstöðu allra flokka. Það var ekki unnt að ná slíkri samstöðu og nægilega vönduðum undirbúningi á svo stuttum tíma á þessu þingi og það kann aldrei góðri lukku að stýra að ætla að keyra yfir minnihlutann í svona málum.
Í stað þess að sætta sig við þessa stöðu og einbeita sér að þeim miklu verkefnum sem efnahagslífið krefst að stjórnmálamenn leysi, hefur ríkisstjórnin ákveðið að þverskallast við í þessu máli. Formenn bæði Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir að það skipti þá engu máli þótt minnihlutinn sé mótfallinn þessari breytingu, hún muni bara samt fara í gegn. Jóhanna Sigurðardóttir hefði nú tæplega tekið slíkum skilaboðum þegjandi og hljóðalaust þegar hún sat í stjórnarandstöðu en það hefur sýnt sig að menn eru fljótir að breytast þegar þeir komast í valdastólana.
Staðan á þinginu þessa dagana er því þannig að stjórnarskrármálið er í ágreiningi og situr í reynd fast. Þetta hefur þær alvarlegu afleiðingar að brýn mál fást ekki rædd á þingi, sem er alvarlegt sökum þess að margir bíða eftir þeim úrræðum sem Alþingi mun samþykkja. Dæmi um slík mál eru samningur um álver í Helguvík og frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
Ríkisstjórnin fer með dagskrárvaldið á Alþingi og ákveður hvaða mál eru sett á dagskrá og hefur ákveðið að setja þessi þýðingarmiklu mál aftar á dagskránna. Þetta er leið ríkisstjórnarinnar til þess að reyna að þvinga stjórnarskrárbreytingarnar í gegn - þ.e. með því að setja brýnni mál fyrir aftan stjórnarskrármálið og reyna svo að halda því fram að minnihlutinn tefji fyrir því að hin brýnni mál séu rædd.
Af þeim sökum eru tillögur Þorgerðar Katrínar í gær og Sigurðar Kára í dag um breytingar á dagskrá þingsins, í þá veru að mikilvæg mál varðandi efnahagslífið og atvinnumálin verði sett í forgang á dagskránni, leið til lausnar. Tillögurnar felast í því að stjórnarskrárumræðunni verði frestað um sinn enda liggi fyrir að ágreiningur séu um það mál og í staðinn afgreiði þingið þau mál sem beðið er eftir.
Viðbrögð talsmanna ríkisstjórnarinnar við þessum tillögum hafa valdið vonbrigðum. Forseti þingsins tók tillögunni sem mógðun við forseta og vantraust á hann og ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar hafa hver á fætur öðrum komið upp og gagnrýnt þessa leið. Tillaga Þorgerðar var felld í gær og fyrstu viðbrögð við tillögu Sigurðar Kára voru neikvæð.
Það er miður vegna þess að þingið þarf að ljúka þeim málum sem beðið er eftir.
þriðjudagur, 7. apríl 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Svo gera Sjálfstæðismenn sitt besta til að tefja alla vinnu og framþróun stjórnarskrá og lýðræðis umbóta. Ef flokkurinn þinn hafði hagsmuni almennings að leiðarljósi hefði verið hægt að loka öllum málum á dagskrá. En nei, Sjálfstæðisflokkurinn er á móti lýðræðisumbótum, nema að þær verði gerðar á hans forsendum. Valdaflokkurinn sínir sitt rétta andlit.
Hvernig ungur maður eins og þú getur lagt nafn þitt við þetta drasl er óskiljanlegt.
dafabet - TRACK BET - ThauberBet
dafabet.com. Website. dafabet dafabet.com. Registration. fun88 soikeotot dafabet.com. Log rb88 In.
Skrifa ummæli