Það lengist stöðugt á milli fólks í umræðunni um úrræðin. Fréttatímar síðustu daga hafa gengið þannig fyrir sig að fyrst hefur verið viðtal við skuldara sem er alveg aðframkominn af greiðslubyrði og skuldum og hugleiðir eða er byrjaður að stunda eitthvað sem fjölmiðlar leyfa fólki að kalla greiðsluverkfall en heitir auðvitað að hætta að borga af lánunum sínum.
Á móti kemur svo viðskiptaráðherra eða aðrar fulltrúar stjórnvalda og segja að fólk verði bara að kynna sér það sem í boði sé.
Þetta er sem sagt alveg í sitt hvora áttina, annars vegar tala menn um að hætta að borga og hins vegar að fólk geti bara kynnt sér úrræðin.
En hver eru þessi úrræði? Stjórnvöld hafa allt frá því í október verið að títra út alls konar smáaðgerðum. Þegar þetta er allt tekið saman verður til myndarlegt skjal, fullt af bullet-points sem eru svo vinsæll mælikvarði á árangur í stjórnsýslunni. Vandinn er hins vegar að heildarmyndin er orðin flókin og þokukennd fyrir fólkið sem þarf á þessum úrræðum að halda.
Þar að auki er ekkert hlaupið að því að njóta þessara úrræða. Lögin um greiðsluaðlögun samningskrafna, sem tóku gildi 1. apríl og lögin um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sem taka gildi 15. maí, gera t.d. bæði ráð fyrir því að fólk byrji á því að fara niður í héraðsdóm, skila miklu magni af gögnum og upplýsingum og sæki um greiðsluaðlögun sem dómari tekur svo afstöðu til hvort sé samþykkt.
Jafnvel þótt fólk leggi fram umbeðnar upplýsingar er ekki víst að úrræðið fáist því í lögunum eru fleiri skilyrði sett. Til dæmis verður húsnæðið sem fólk býr í og sækir um greiðsluaðlögun út af, að vera "hóflegt", samkvæmt því sem segir í lögunum. Þetta er útskýrt þannig að dómari verði að leggja mat á hvort húsnæði þess sem biður um greiðsluaðlögun teljist hóflegt og horfi þá til "stærðar húsnæðisins, tegundar þess, íbúðarforms og staðsetningar og fyrrgreind atriði metin út frá tekjum skuldara og heimilisaðstæðum hans hverju sinni."
Þá getur dómari hafnað því að samþykkja greiðsluaðlögun skv. lögunum ef "skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað."
Maður spyr á móti: Tóku ekki langflestir Íslendingar fjárhagslega áhættu með því að taka lán sem námu heildarverði fasteignanna? Hvað ætli margir Íslendingar búi í húsi sem var of stórt miðað við kaupgetu þess á sínum tíma? Ætlum við að senda þetta fólk allt saman frekar í greiðslustöðvun og gjaldþrot?
Það er líka athyglisvert að sjá þá aðstoð sem fólki er boðið upp á að nýta sér til að sækja um greiðsluaðlögunina. Lögin krefjast þess að umtalsverðu magni af skjölum og gögnum sé skilað með umsókninni og það eru margir sem þurfa á aðstoð að halda við það. Ráðgjafarstofa heimilanna býður fólki slíka aðstoð en þar er m.a. boðið upp á endurgjaldslausa aðstoð við gerð beiðni um greiðsluaðlögun.
Á vegum lögmannsstofunnar LEX er rekið félagið Greiðsluaðlögun ehf. sem tekur einnig að sér að aðstoða fólk við að sækja um greiðsluaðlögun en sú þjónusta kostar á bilinu 50-180 þús. krónur.
Úrræðin eru því flókin, dreifð og óaðgengileg. Það er ekki eðlilegt að fólk þurfi að leggja út í kostnað til þess að uppfylla skilyrðin laga sem eiga einmitt að hjálpa þeim úr greiðsluvandræðum. Það verður að bjóða upp á eitthvað betra en að eini kosturinn sé sá að senda fólk niður í hérðaðsdóm og útdeila þeim tilsjónarmanni, að því gefnu að fólkið búi í hóflegu húsi og hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu...!
miðvikudagur, 6. maí 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli