þriðjudagur, 12. október 2010
Einn skuldari á dag í greiðsluaðlögun að meðaltali
550 manns á 18 mánuðum
Fram kom á dögunum að alls hafi um 550 manns lokið nauðasamningi til greiðsluaðlögunar frá því að farið var að bjóða upp á úrræðið 1. apríl í fyrra. Þetta jafngildir því að einn skuldari á dag að meðaltali hafi fengið nauðasamning frá því að fyrst var boðið upp á þetta úrræði. Með sama áframhaldi verða um 1000 manns búnir að fá aðstoð í byrjun árs 2012.
Öllum er ljóst - ráðherrar, fjármálastofnanir og aðrir andmæla því ekki lengur - að þetta er ekki í samræmi við það sem að var stefnt. En hvers vegna er þessi mikla fyrirstaða í kerfinu og af hverju þessi hægagangur?
Flækjustig í kerfinu
Þar að baki eru nokkrar ástæður sem má í stuttu máli útskýra þannig að greiðsluaðlögunarferlið er flókið og hefur verið alltof seinvirkt. Burtséð frá gagnasöfnun og því að móta tillögu um samning og fá hann afgreiddan er ýmiss konar flækjustig í ferlinu. Til að byrja með þarf að meta hvort sá sem sækir um eigi rétt á úrræðinu. Við það mat kveða lög um greiðsluaðlögun á um að horfa eigi til þess hvort skuldari hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar hann stofnaði til skulda og hvort hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til hennar var stofnað. Ef þessi skilyrði eiga við á viðkomandi ekki rétt á greiðsluaðlögun og er hafnað.
Mikil orka fer í að meta þetta í hverju og einu tilfelli, safna þarf gögnum um greiðslusögu í hverju og einu láni viðkomandi skuldara og meta hvernig mánaðarleg greiðslubyrði þróaðist. Einhverjir "falla" á þessu prófi, en aðrir sleppa í gegn og fá heimild til greiðsluaðlögunar. Aðalatriðið er að þetta tekur mikinn tíma.
Fáliðað framan af
Möguleikar kerfisins á að afgreiða hinn mikla fjölda greiðsluaðlögunarmála hafa verið takmarkaðir. Til að byrja með þurfti að sækja um til héraðsdómstóla en í Reykjavík og á Reykjanesi, fjölmennustu svæðunum, var lengst af aðeins einn aðstoðarmaður dómara með þennan málaflokk á sinni könnu og hafði það verkefni að yfirfara þessi mál. Eðlilega myndaðist löng biðröð og afgreiðslufrestur lengdist. Þegar ný lög um umboðsmann skuldara tóku gildi í ágúst á þessu ári var biðin eftir niðurstöðu héraðsdóms að jafnaði 5-6 mánuðir.
Hafa þarf í huga að engin sérstök réttaráhrif fylgja því að beiðnin er lögð fram heldur er það fyrst þegar úrskurðurinn gengur að fólk kemst í skjól. Einnig má ekki gleyma því að það hefur allajafna tekið fólk þónokkurn tíma að fullklára umsókn áður en hún fór inn til dómstólsins þannig að tíminn frá því að greiðsluerfiðleikar hefjast og þar til niðurstaða fæst er í mörgum tilfellum 9-12 mánuðir. Sem úrræði fyrir þann stóra fjölda sem er í erfiðleikum er augljóslega óásættanlegt að biðtíminn sé svona langur.
Embætti umboðsmanns skuldara hefur nú tekið yfir þetta hlutverk og er þar unnið hörðum höndum að því að stytta biðtímann en listinn er langur. Samkvæmt nýlegri frétt frá embættinu er 8 vikna bið eftir viðtali og mörg hundruð mál bíða hjá embættinu.
Of miklar væntingar
Vandinn sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er sá að trekk í trekk hafa fólki verið gefnar miklar væntingar um að skuldavandinn yrði leystur. Þessar væntingar hafa brugðist, að miklu leyti vegna hægagangs í kerfinu en að sumu leyti vegna þess að þær voru óraunhæfar. Illa hefur t.d. gengið að koma málefnum ábyrgðarmanna skuldara í skjól og hafa dómstólar slegið á putta Alþingis og talið lagaákvæði þess efnis ganga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Eins og staðan er núna eru allar líkur á því að ábyrgðarmenn þurfi að sitja eftir með sárt ennið þar sem skuldari í greiðsluaðlögun getur ekki og má ekki greiða viðkomandi skuld að öllu leyti.
Sú staða dregur úr mörgum að leita úrræða í sínum eigin málum.
Þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að taka skuldavanda heimilanna föstum tökum er ýmsum spurningum ósvarað. Ef þetta á að vera víðtækt og skilvirkt úrræði fyrir stóran fjölda, hvers vegna eru matskennd ákvæði um að hafna þeim sem tóku of mikla áhættu eða höguðu fjármálum sínum með ámælisverðum hætti? Hve hratt er yfirhöfuð hægt að vinna þessi mál og hve lengi er hægt að fresta nauðungarsölum fasteigna? Hve langt má ganga gagnvart eignarrétti fjármálastofnana og hve miklar afskriftir má ætla að fjármálastofnanir þoli að taka á sig? Þetta eru lykilspurningar upp á framhaldið.
*Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 11. október
mánudagur, 12. júlí 2010
„Magma – góðan dag...“
Þetta hefur leitt til þess að umhverfisráðherra hyggst gera enn eina tilraunina af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að Magma geti fjárfest í íslensku atvinnulífi. Það er ekki nóg með að fjárfestirinn hafi þurft að mæta á fundi hjá ráðherrum út af málinu, sæta alls konar tortryggni í fjölmiðlum og að málið hafi verið sent tvívegis í gegnum „nefnd um erlenda fjárfestingu“ svona til þess að athuga hvort það væri ekki eitthvað formskilyrði sem hægt væri að hanka viðkomandi á, heldur á nú að gera enn eina atlöguna. Þannig hefur umhverfisráðherra boðað í tilefni þessara frétta frumvarp á þingi til að koma í veg fyrir að af fjárfestingunni geti orðið.
Magma Energy er kanadískt fyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvarmaorku. Eigandinn, Ross Beaty, hefur líst yfir áhuga á að fjárfesta hér á landi og þar með koma með erlent fjármagn inn í landið með því að kaupa hlut í HS Orku. Erlend fjárfesting er jákvæð fyrir landið, sérstaklega um þessar mundir þegar aðgengi okkar að lánsfjármörkuðum er nánast ekkert. Stefnan varðandi erlenda fjárfestingu hér á landi ætti að vera sú að við reyndum að laða erlenda fjárfesta til landsins og að því gefnu að þeir uppfylltu almenn skilyrði þá ættu slíkar fjárfestingar að ganga hratt í gegn. Þetta ætti að vera stefnan og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meira að segja tekið fram að vinna skuli í þessum anda. Þar segir m.a. í kaflanum um stöðugleika að til þess þurfi að:
• Stuðla að beinum erlendum fjárfestingum.
Ennfremur segir í stjórnarsáttmálanum:
Ríkisstjórnin vill efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði.
Þrátt fyrir þessi fögru orð hefur ríkisstjórnin og þá sérstaklega Vinstri grænir lagt sig fram um að vinna gegn þessum markmiðum. Ísland býr við forneskjulega löggjöf á þessu sviði – lög frá árinu 1991 um erlenda fjárfestingu sem ganga í stuttu máli út á að erlend fjárfesting sé bönnuð á veigamiklum sviðum, t.d. í sjávarútvegi, flugsamgögnum og orkuiðnaði. Til marks um hugsunina í lögunum kemur þar fram að tilkynna þurfi ráðherra um allar erlendar fjárfestingar. Með EES-samningnum neyddist Ísland til að breyta þessum lögum þannig að aðilar af EES-svæðinu mættu fjárfesta hér á landi, t.d. í orkugeiranum. Það þýðir að einstaklingar og lögaðilar í 27 aðildarríkjum ESB auk Noregs og Lichtenstein – alls um 500 milljón manna svæði hafa heimild til að fjárfesta hér á landi.
Í anda hinnar gömlu hugsunar þá eru fjárfestingar annars staðar frá hins vegar enn bannaðar. Við höfum s.s. sett bann við því að aðrir en 330 þúsund Íslendingar fjárfestu í orkugeiranum á Íslandi. Við gerðum undanþágu fyrir um það bil 500 milljón manns eftir að EES-samningurinn gekk í gildi.
Aðrir hlutar heimsins falla hins vegar enn undir þetta gamla bann, þannig að fyrirtæki frá t.d. Bandaríkjunum og Kanada mega ekki fjárfesta á Íslandi. Þar stendur hnífurinn í kúnni í tilfelli Magma. Vegna forneskjulegra reglna sem standast enga heilbrigða skoðun (af hverju ættum við t.d. að banna kanadísku fyrirtæki að fjárfesta en leyfa fyrirtæki frá Rúmeníu að gera það?), er eina leiðin til þess að af fjárfestingunni geti orðið að stofna dótturfélag á EES-svæðinu og Magma ákvað að gera það í Svíþjóð, sem verður nú seint talin vera einhvers konar aflandssvæði þegar kemur að eignarhaldi fyrirtækja. Það þarf vitaskuld að uppfylla ákveðin skilyrði, s.s. um hlutafé, stjórn og svo framvegis en það er ekki skilyrði að hafa opna skrifstofu í Gautaborg, halda úti starfsmanni eða eitthvað í þeim dúr eins og umhverfisráðherra býsnast yfir. Það væri þó sjálfsagt lítið mál ef það breytti einhverju og vel mætti hugsa sér að ráða huggulega miðaldra sænska dömu til að svara í símann fyrir Magma í Svíþjóð, til þess að það væri nú einhver starfsemi í gangi. Flestir sjá þó hve fáránlegt þetta er.
Ráðherrar Vinstri grænna kættust sjálfsagt við þetta þar sem nú væri hægt að tefja málið enn frekar – leggja fram fram frumvarp á þingi um að stoppa þetta og koma í veg fyrir þetta stórvafasama erlenda eignarhald. Að öðru leyti er ríkisstjórnin að sjálfsögðu mjög hrifin af því að fá erlenda fjárfestingu til landsins…
Eitt getur þó umhverfisráðherra huggað sig við. Með þessu áframhaldi fer svona leiðindamálum varðandi erlenda fjárfestingu væntanlega að fækka með tilheyrandi minni álagi fyrir stjórnkerfið í tilraunum sínum til að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Fjárfestarnir hætta einfaldlega að koma.
þriðjudagur, 22. júní 2010
Langsóttar leiðréttingar
Á þingi er því haldið að reikna eigi verðtryggingu á lánin en ljóst er að sú skoðun er fyrst og fremst pólitísk en ekki lögfræðileg.
Því hefur hins vegar einnig verið haldið fram að fyrirtækin geti reiknað sér óverðtryggða vexti í stað hinnar ólögmætu gengistengingar og að horfa megi til ákvæðis 18. gr. vaxtalaganna í því samhengi. Ég sá að haft er eftir hæstaréttarlögmanni í Morgunblaðinu um helgina að það væri alveg klárt að þetta ákvæði ætti við þar sem gengistryggingin hefði verið dæmd ólögmæt.
Þetta er hæpið. Í 18. gr. vaxtalaganna segir að ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógildur og hafi endurgjald verið greitt beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.
Vaxtalög frá 1987
Ef horft er í forsögu ákvæðisins og lögskýringargögn kemur í ljós að ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að tryggja stöðu skuldara en ekki lánveitenda. Gildandi vaxtalög voru sett árið 2001 og í athugasemdum með 18. gr. frumvarpsins segir að ákvæðið sé samhljóða 28. gr. eldri vaxtalaga. Einnig kemur fram sú útskýring að ef skilyrði ákvæðisins eigi við beri „kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft“. Ákvæðinu er því greinilega ætlað að standa vörð um hagsmuni skuldarans og tryggja honum endurkröfu á peninga sem kröfuhafi hefur ranglega af honum haft.
Þar sem vísað er til eldri vaxtalaga frá 1987 er ekki úr vegi að skoða þau. Í 28. gr. þeirra laga var sambærilegt ákvæði við 18. gr. í núgildandi lögum. Þar sagði í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum segir um þetta ákvæði:
„Endurgreiðsluákvæði 19. gr. frumvarpsins svarar til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 58/1960 að breyttu breytanda. Hugmyndin að baki þessu ákvæði er svipuð og í 17. gr. að öðru leyti en því, að hér er um endurgreiðslu oftekinna vaxta að ræða en ekki refsiábyrgð.“
Þarna var m.ö.o. tekið skýrt fram að ákvæðinu væri ætlað að taka á þeim atvikum þegar vextir hefðu verið ofteknir. Þetta tekur þar af leiðandi til stöðu skuldara, en ekki kröfuhafa.
Okurlögin frá 1960
Og sé litið enn lengra aftur í tímann til laga nr. 58/1960, sem þarna er vísað til, má enn finna sambærilegt ákvæði. Þau lög eru um bann við okri, dráttarvexti o.fl. og í 6. gr. laganna sagði:
„Ef samið er um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti fram yfir það sem leyfilegt er samkvæmt lögum þessum, eru þeir samningar ógildir, og hafi slíkt verið greitt, ber skuldareiganda að endurgreiða skuldara þá fjárhæð, sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.“
Orðalag ákvæðanna í lögunum frá 1960 og frá 2001 er nánast eins þótt 41 ár hafa liðið á milli. Lögin frá 1960 voru um bann við okri og ljóst að bakgrunnur þessara ákvæða er sá að vernda stöðu skuldara en ekki lánveitenda.
Eðlilegast er því að miða við að samningarnir standi að öðru leyti en því að eitt ákvæði þeirra var talið ólögmætt og reikna þá aftur út frá því.
föstudagur, 16. apríl 2010
Lærdómur til hægri
Þrátt fyrir að aðeins séu örfáir dagar frá því að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hefur hún nú þegar náð ákveðinni stöðu meðal þjóðarinnar. Hún er einhvers konar lausnarbréf okkar við öllu því vonda sem var í gangi fyrir hrunið. En hvaða lærdóm eiga þeir að draga af hruninu sem flokka sig pólitískt til hægri?
Allt undir
Skýrslan heggur í allar áttir. Sjálfstæðisflokkurinn, ráðherrar hans og embættismenn sem ráðherrarnir réðu, fá skammir og gagnrýni fyrir nánast allt saman, Samfylkingin fær skammir fyrir æði margt en Framsóknarflokkurinn sleppur ekki því einkavæðing bankanna er til skoðunar líka. Fjölmiðlar, forsetinn og fræðasamfélagið fá sinn skerf líka.
Jafnvel við þá sem eitthvað mölduðu í móinn á sínum tíma á Skýrslan skýrt svar - hvers vegna gripu þeir hinir sömu ekki til ráðstafana? Hvers vegna boðuðu þeir ekki fund eða létu vinna skýrslu um málið?
Vanræksla í kerfi sem var þegar hrunið?
Skýrslan er að vísu ekki fullkomin eða hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk. Fyrir utan hve skondið það smáatriði er að nefndin sem gagnrýnir stjórnsýsluna undanfarin ár náði ekki sjálf að virða eigin lagareglur um útgáfudag, þá eru ákveðnar mótsagnir í stóru myndinni sem skýrslan dregur upp.
Fram kemur í skýrslunni að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum frá 2006 en engu að síður eru athafnir eða athafnaleysi ráðherra og embættismanna á nokkurra mánaða tímabili árið 2008 taldar vera svo alvarlegar að þeim megi jafna til vanrækslu. Að sama skapi gerir skýrslan sér á köflum ansi mikinn mat úr smáatriðum, s.s. hverjir hafi verið boðaðir á fundi eða hver átti að sjá um að boða hvern á fund, þótt augljóst megi telja að slíkir þættir skiptu litlu máli í heildarsamhenginu. Það sem kannski vantar er að nefndin hafi sjálf séð fram úr því hvaða leið ríkisstjórn og stjórnkerfið hefðu átt að fara í björgunarleiðangri sínum 2006-8. Sú mynd virðist ekki liggja fyrir og gagnrýni á að vantað hafi ítarlegri fundargerðir, skýrslur og matsgerðir um hitt og þetta er því marki brennd.
Hver er lærdómurinn?
Til að setja málið í stærra samhengi aftur þá er spurningin sem eftir stendur hvað megi læra af þessu öllu?
Með þeim fyrirvara að ég hef ekki sjálfur lesið skýrsluna í gegn, þá sýnist mér af því sem ég hef þó komist yfir að hún - eða ástandið sem hún fjallar um - sýni okkur einkum eitt atriði, þ.e. að frelsi verður að fylgja ábyrgð.
Með því að losa um eignarhald ríkisins á ýmsum fyrirtækjum og eignum á tíunda áratugnum og í byrjun aldarinnar var ekki verið að gefa frjálshyggjunni lausan tauminn og græðgisvæða samfélagið eins og stundum er haldið fram. Þar voru Íslendingar að stíga sambærileg skref og tekin höfðu verið í löndunum allt í kringum okkur og það sem meira er, þá vorum við að losa þessi fyrirtæki undan gamaldags stjórnunarháttum þar sem pólitísk afskipti réðu ferðinni.
Hraður vöxtur
Það sem hins vegar við tók í kjölfarið voru bankar sem færðu sig tiltölulega hratt eftir einkavæðinguna yfir í mikla áhættufjárfestingar og hraðan vöxt. Þar vorum við aftur ekki neitt eyland í heiminum þar sem lágir vextir á heimsvísu ýttu undir fjárfestingar allstaðar.
Efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja belgdust út og ársreikningar sýndu ótrúlegar hagnaðartölur, sem var aftur fagnað af matsfyrirtækjum, mörkuðum og öðrum sem fylgdust með. Menn rifust ekki við úrvalsvísitöluna. Íslensku bankarnir fóru alla leið að þessu leyti og raunar varð til ákveðin kreðsa sjálfskipaðra fjármálamanna, þar sem eina inntökuskilyrðið virtist vera að geta lagt fram smá grunnfé og þá sáu fjármálafyrirtækin um að gera menn að alþjóðlegum stjörnufjárfestum.
Að hrífast með
Það er alltaf gaman að sjá fyrirtæki vaxa. Það er mannlegt að hrífast með - ekki síst fyrir litla fámenna þjóð. Þessi hrifningin tók að dreifast hratt, m.a. inn í stjórnmálin og fjölmiðlana. Um tíma snerist umræðan hér nánast eingöngu um það hvaða lausnir flokkarnir hefðu til að tryggja að bankarnir myndu vilja vera hér á landi áfram.
En ábyrgðin fylgdi ekki og fékk ekki sömu athygli. Eftirlitið með því sem var í gangi innan bankanna og inn í fjármálakerfinu réð aldrei við hraðann á þessum vexti. Fyrir áhugamenn um stjórnsýslurétt er það svo sjálfstætt álitaefni að velta því fyrir sér hvort ríkisstofnanir sem eru bundnar af andmæla-, rannsóknar- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttarins eigi yfirhöfuð mikla möguleika að ná með einhverjum almennilegum hætti utan um risastór alþjóðleg fyrirtæki eins og bankarnir voru orðnir.
Þar að auki fylgdi ríkið frelsisvæðingunni ekki eftir með því að draga úr sinni ábyrgð og tryggingum. Sú tilfinning var alltaf til staðar og svör ráðamanna kynntu þar undir, að ríkisvaldið myndi geta bjargað eða tekið til sín einn, ef ekki tvo, af stóru bönkunum þremur - og aldrei myndu þeir nú fara allir þrír á hausinn, var svo bætt við í huganum!
Ekki nóg með að þetta falska öryggi væri fyrir hendi, heldur voru tryggingar fyrir innistæðum í bönkunum, ekki bara hér á landi, heldur líka innistæðum safnað erlendis, veittar af hálfu ríkisins með lögum frá 1999.
Þessu til viðbótar voru risastór lána- og orkufyrirtæki í opinberri eigu, s.s. Landsvirkjun, Orkuveitan og Íbúðalánasjóður, sem gerðu það að verkum að erfiðleikar í fjármálageiranum smituðust sjálfkrafa út um allt kerfið, t.d. í formi lækkaðs lánshæfismats.
Krakkinn flytur aftur heim
Það voru nánast engar bremsur í kerfinu - ekkert sem myndaði mótvægi við þau gríðarlegu völd og áhrif sem fjármálafyrirtæki á borð við bankana þrjá öðlast óhjákvæmilega við að verða jafnstór og raun bar vitni.
Þessi beina og óbeina ábyrgð ríkisvaldsins á fjármálakerfinu gerði það að verkum að ríkisvaldið var nánast eins og foreldri sem getur ekki séð á eftir barninu sínu að heiman. Það var agalega stolt af árangrinum sem það nær en á sama tíma með alls konar baktryggingar á lofti og útbreiddan faðminn til að taka á móti litla unganum sínum þegar á þyrfti að halda. Vandinn var bara að þegar krakkinn flutti heim aftur var hann ekki krúttlegi unglingurinn sem flutti að heiman, heldur fráskilinn með fjögur börn og áfengisvandamál.
Frelsið var veitt á fjármálamarkaði og það nýttu menn sér til fulls en ábyrgðin fylgdi ekki. Ríkið dró sig ekki með markvissum hætti til baka og sendi þannig skilaboðin um að fjárfestar og innistæðueigendur í bönkunum væru að leggja traust sitt á bankana á sína eigin ábyrgð og yrðu að haga aðhaldi og eftirfylgni í samræmi við það. Ríkið veitti mönnum frelsi til að eiga banka, breyta þeim í stóra fjárfestingarbanka með til heyrandi auðsöfnun og hættu á misnotkun en hafði til að fylgjast með lögbrotunum litla eftirlitsstofnun sem átti afar erfitt um vik að halda í við bankana. Ríkið veitti frelsi á fjármálamarkaði en þegar á reyndi voru stjórntækin til að halda aftur af óæskilegum áhrifum svo máttlítil að þau mögnuðu vandann í stað þess að leysa hann, eins og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans voru dæmi um.
Frelsi með ábyrgð
Þegar menn tala um lærdóm af því sem gerðist, ekki síst hvað varðar þá sem flokka sig hægra megin í tilveruna, þá væri góður upphafspunktur að endurhugsa kerfið með það að leiðarljósi að fyrirtæki og markaðir eigi að vera frjálsir og óháðir miðstýrðu ríkisvaldi hvað varðar daglegar ákvarðanir en á móti verða þeir hinir sömu að bera ábyrgð á því sem gerist. Og ríkisvaldið verður að hafa einhver tæki í höndunum sem virka til að halda utan um gleðskapinn.
þriðjudagur, 30. mars 2010
Faðmlag fjölmiðla og stjórnmála þéttist
Þessi staðreynd virkar hálfundarleg í dag en er engu að síður sönn. Sú eðlilega krafa að ótengdir aðilar sæju annars vegar um rannsókn og hins vegar um dómsuppkvaðningu máls fékkst ekki endanlega í gegn fyrr en árið 1992.
Aðskilnaðurinn á milli stjórnmála og fjölmiðla hér á landi minnir að sumu leyti á þetta gamla kerfi. Þarna á milli er ótrúlega lífseigt faðmlag sem lýsir sér með ýmsum hætti; íslenskir stjórnmálamenn byrja margir hverjir í fjölmiðlum og snúa jafnvel þangað aftur í ábyrgðarstöður eftir að pólitíska lífinu lýkur, ásamt því að þeir eru áberandi í eignarhaldi fjölmiðla.
Furðulöggjöf um fjölmiðla
Það sem er enn merkilegra er að á sama tíma og þingið reynir að bögglast áfram með furðulöggjöf um fjölmiðla þá er nánast allri fjölmiðlaflórunni hér á landi stýrt af pólitískum fulltrúum.
Með kaupum frambjóðandans Lilju Skaftadóttur úr Borgarahreyfingunni á DV nú um helgina má spyrja hvort tími gömlu flokksblaðanna sé endanlega genginn í garð á ný. Lilja þessi er reyndar ekki óvön pólitískum fjölmiðlarekstri þar sem hún hefur verið einn eiganda Smugunnar, sem er fjölmiðill í eigu áhrifafólks úr VG.
Pólitísk tengsl víða
Smugan er ekkert einsdæmi hvað varðar pólitísk tengsl fjölmiðla. Pressunni er ritstýrt af Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, Morgunblaðið lýtur ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmanns eins af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, en sá hinn sami átti áður Viðskiptablaðið, sem er nú undir ritstjórn Björgvins Guðmundssonar, fyrrverandi formanns Heimdallar.
Fréttablaðið er rekið af 365 sem lýtur stjórn Ara Edwald, fyrrverandi aðstoðarmanns ráðherra Sjálfstæðisflokksins og ritstjórnar Ólafs Þ. Stephensen, annars fyrrverandi formanns Heimdallar. Þorsteinn Pálsson ritstýrði áður Fréttablaðinu og Styrmir Gunnarsson Morgunblaðinu. Það þarf ekki að velkjast í vafa um hvar þessir menn eru í sveit settir í pólitík.
Eyjan var upphaflega stofnuð af góðum hópi manna - þar á meðal Pétri Gunnarssyni sem vann um tíma fyrir Framsóknarflokkinn og Andrési Jónssyni, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum innan Samfylkingarinnar og var lengi vel formaður ungliðahreyfingar flokksins. Guðmundur Magnússon núverandi ritstjóri er fyrrverandi starfsmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ráðherra.
Herðubreið er haldið úti af Karli Th. Birgissyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Sú stétt hefur komið sér víðar fyrir í fjölmiðlaflórunni því Heimir Már Pétursson er einn af fréttastjórum Stöðvar 2 en gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Róbert Marshall og Sigmundur Ernir fóru hina leiðina, voru fyrst fjölmiðlamenn en fóru svo á þing fyrir Samfylkinguna.
Jafnvel léttum og skemmtilegum menningarvef á borð við Miðjan.is er stýrt af varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bryndísi Ísfold.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um amx.is.
Ríkisútvarpið undir pólitískri stjórn
Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar eru pólitísk öfl með puttana í ritstjórn og/eða eignarhaldi og rekstri fjölmiðla. Hjá Ríkisútvarpinu er svo beinlínis gert ráð fyrir því að pólitíkin sé með afskipti af starfseminni enda um opinbert fyrirtæki að ræða.
Hvernig stendur á þessu rótgróna samkrulli stjórnmála og fjölmiðla? Ástæðuna má ef til vill rekja aftur til flokksblaðanna en það er ekki mjög langt síðan þau liðu undir lok. Sú flóra samanstóð lengst af af Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og Tímanum. Þetta fyrirkomulag hafði þau áhrif að fjölmiðlar hafa verið hugsaðir sem tól til að ná tökum á umræðunni og koma tilteknum sjónarmiðum á framfæri. Til að passa upp á jafnvægið hafa flokkarnir elt hvern annan á þessari braut.
Í anda þess að fjölmiðlar hafa verið hugsaðir sem áróðurstæki af eigendum sínum hefur menntun blaðamanna verið lítil. Aðeins eru nokkur ár síðan Háskóli Íslands byrjaði með sérstakt meistaranám í fréttamennsku og fæstir þeirra sem eru í fararbroddi í fjölmiðlum í dag hafa menntað sig sérstaklega í faginu heldur hafa lært þetta með reynslunni. Menntun og fagkröfur leysa ekki öll heimsins vandamál en þetta segir vitaskuld sína sögu.
Blaðamenn ársins beint í pólitíkina
Blaðamannafélagið er einn leikmaðurinn á þessu taflborði. Félagið, sem á að beita sér í þágu félagsmanna sinna, hefur að undanförnu sótt í sig veðrið í hinum pólitíska leik samhliða því að ný forysta tók við. Blaðamenn ársins 2008 og 2009 voru t.a.m. ekki fyrr búnir að veita verðlaununum viðtöku fyrr en þeir voru búnir að sækja um vinnu á vegum pólitískra afla. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, blaðamaður ársins 2008 sem raunar bætti um betur og gerðist formaður Blaðamannafélagsins í fyrra, tók að sér ritstjórn Smugunnar.
Þegar Jóhann Hauksson fékk þessa nafnbót fyrir skömmu hafði hann nýlokið við að leggja inn umsókn til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að gerast upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.
Blaðamaður ársins á sér þann draum heitastan að verða upplýsingafulltrúi fjármálaráðherra. Hvernig hefði það hljómað ef Woodward og Bernstein hefðu á meðan þeir voru að grafast fyrir um Watergate sótt um að verða upplýsingafulltrúar Nixons?
Ég tek fram að þessi pistill er ekki hugsaður sem gagnrýni á þá aðila sem eru taldir hér upp, enda hafa margir þeirra gert frábæra hluti í sínum störfum. Margir þeirra blaða- og fréttamanna sem starfa á íslenskum fjölmiðlum eru toppfagfólk. En fylgnin á milli stjórnmála og reksturs fjölmiðla hér á landi er óneitanlega athyglisverð. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að fólk með pólitíska reynslu vinni fyrir sér sem blaðamenn, enda hafa þau myndað þekkingu á stjórnmálum sem getur nýst á fjölmiðli. En spurningin er hvort það sé eðlilegt að stjórnmálin eigi og ritstýri fjölmiðlunum?
Að lokum stendur eftir ein spurning...
Hvað mun Fjölmiðlastofa gera í þessu öllu?
fimmtudagur, 7. janúar 2010
Sundurlyndi á ögurstundu
Helstu persónur og leikendur í íslenskum stjórnmálum hafa á undanförnu ári sýnt það ítrekað í verki að á ögurstundu eru samvinna og samstaða því miður aftar í röðinni en persónulegir hagsmunir.
Í alla þá 15 mánuði sem liðnir eru frá því að bankarnir hrundu og allt árið 2008 í aðdraganda bankahrunsins hefur barátta íslensku þjóðarinnar einkennst af liðahugsun og spuna á kostnað eindrægni og baráttu.
Atburðarás dagsins var lýsandi dæmi um þetta. Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hafði baðað sig í sviðsljósi umhugsunarfrests í nokkra daga og fengið nánast alla erlenda fjölmiðla til landsins í óvissu ákvað forsetinn að vísa Icesave-ríkisábyrgðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hafði ekki látið ríkisstjórnina vita af því áður heldur sent henni tilkynninguna skömmu áður en blaðamannafundurinn byrjaði. Ríkisstjórnin frétti af ákvörðuninni á sama tíma og allir aðrir.
Fyrstu viðbrögðin voru þar af leiðandi ekki burðug. Haldinn var blaðamannafundur strax í kjölfarið þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar voru greinilega enn að jafna sig á fréttunum og höfðu allt á hornum sér. Í stað sterkra og skýrra skilaboða eyddi forsætisráðherra löngu máli í að býsnast yfir því að nú væri allt í óvissu, endurreisnaráætlunin í uppnámi og allt óvíst með framhaldið. Það vantaði bara að forsætisráðherra spyrði blaðamennina hvað þeim fyndist að hún ætti að gera.
Beðið og svo farið af stað
Þótt ríkisstjórnin eigi einhverja samúð skilda fyrir að fá þessa ákvörðun beint í andlitið án fyrirvara þá stendur eftir sú spurning hvers vegna ekki var búið að undirbúa viðbrögð við annars vegar synjun og hins vegar staðfestingu. Á vegum ráðuneytanna starfa jú nokkur hundruð manns! Varaformenn stjórnarflokkanna komust óafvitandi nálægt því að útskýra ástæður þessa í Kastljósviðtali í kvöld með þeim orðum að enn á ný hefði stjórnin þurft að taka til eftir einhverja aðra. Stjórnin ákvað sem sagt að bíða eftir "klúðrinu" og byrja þá að taka til - líklega með miklum mæðusvip.
Á meðan ríkisstjórnin var að átta sig söfnuðust upp neikvæðar og rangar fréttir í heimspressunni um að ákvörðunin jafngilti því að við ætluðum ekki að borga og værum að hlaupast frá okkar skuldum. Ítrekaðar kröfur héðan heima um að ráðin verði almannatengslafyrirtæki og fagmenn til að sjá um að koma réttum upplýsingum á framfæri strax virðast litlu hafa skilað. Þótt eitt slíkt fyrirtæki hafi verið ráðið ef marka má fréttir, þá var greinilega enginn skýr talsmaður sem leitað var til fyrir Íslands hönd. Áþreifanlegasta dæmið um þetta er sú staðreynd að liðsmenn Indefence stóðu sveittir við símann í dag og svöruðu fyrir Íslands hönd. Þar á meðal eru menn sem voru að skjótast úr vinnunni í hádegishléinu.
Við gátum vitaskuld sagt okkur að fréttirnar yrðu ekki jákvæðar ef málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu - en það er ekki hægt að líða að þær séu rangar um lykilatriði málsins og fái að standa þannig. T.a.m. er fyrirsögnin á vef Sky eftirfarandi: "Iceland Refuses To Repay Britain £2.3bn".
Það má líka velta öðru upp: Ef það að vísa máli til þjóðaratkvæðagreiðslu leiddi til tuga frétta erlendis um að við værum að hafna greiðslum alfarið - hvað mun synjun í þjóðaratkvæðagreiðslu þýða? Hvernig mun heimspressan túlka þann atburð? Nánast það eina sem öruggt er í þeim efnum er að íslensk stjórnvöld munu ekki hafa undirbúið sig fyrir þá niðurstöðu, að minnsta kosti ef marka má fortíðina. Við höfum misst af nánast öllum tækifærum til þess að halda rétt á málum þegar aðstæður sem þessar hafa komið upp.
Rétt ákvörðun?
Var ákvörðun forseta Íslands rétt? Í grunninn var hún það ekki. Að einn maður meti það eftir fullkomlega óljósum forsendum hvort þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, jafnvel í málum sem henda illa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað ekki eðlilegt. En sem einhvers konar neyðarvörn gagnvart ríkisábyrgð gagnvart Icesave-samkomulaginu, eftir að fyrirvarar Alþingis frá því í sumar höfðu að mestu verið teknir úr sambandi, þá var það orðinn okkar eini kostur í stöðunni. Athyglisvert er þó að þverpólitísk samstaða virðist nú vera að myndast um að breyta þurfi fyrirkomulaginu varðandi málsskotsrétt forseta. Það þurftu s.s. báðir vængirnir í íslenskum stjórnmálum að verða fyrir barðinu á þessu furðufyrirbæri sem 26. greinin er til þess að breytingar verði á.
Til þessarar undarlegu stöðu að forsetinn hefði málið í hendi sér hefði ekki þurft að koma. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms mat málið upphaflega þannig að lausn Icesave-deilunnar myndi ekki krefjast gríðarlegs átaks heldur væri þetta mál sem unnt yrði að leysa hratt og örugglega. Samninganefndin var ráðin í skyndi og lögð áhersla á að ná þyrfti samkomulagi um málið sem þyrfti einungis að vera betra en það sem var á borðinu í október 2008. Pólitíska strategían var svo sú að fyrrum valdhöfum yrði kennt um málið og þar af leiðandi myndi samningurinn sjálfur ekki fá mikla athygli. Þetta plan gekk ekki upp.
Eftir því sem menn lásu samningana betur og betur yfir og gerðu sér grein fyrir t.d. vaxtakostnaði og uppgjörsskilmálunum kom í ljós að við höfðum fengið nánast verstu mögulegu niðurstöðu málsins og þegar skrifað upp á hana! Til að bæta gráu ofan á svart þá talaði formaður samninganefndarinnar um samkomulagið í sigurtón og grínaðist með að hann hefði ekki nennt að hafa þetta hangandi yfir sér lengur. Þetta mæltist illa fyrir og snögglega var skipt um takt - talað um að Ísland yrði Kúba norðursins, enginn hefði áhuga á að stunda við okkur viðskipti og við gætum gleymt endurreisninni á meðan þetta mál væri óafgreitt. Þessi undarlegi málflutningur, annars vegar að þetta væri snilldardíll en á hinn bóginn að við yrðum að samþykkja þetta, gerði að verkum að menn fóru að velta því fyrir sér hvort ítrustu hagsmuna þjóðarinnar hefði verið gætt. Inn í það spilaði að annar stjórnarflokkurinn virtist vera tilbúinn að til að gera nánast hvað sem er til þess að koma umsókn Íslendinga til ESB af stað og hinn stjórnarflokkurinn var umhugað að veita þjóðinni siðferðislega áminningu fyrir neyslufylleríið, hrifninguna og stuðninginn við fjármálafurstana.
Misvísandi skilaboð og ósýnilegur forsætisráðherra
Auðvitað var það ekki svo að t.d. fjármálaráðherra hafi talið þetta mál léttvægt eða auðvelt. Aftur á móti hafa misvísandi yfirlýsingar og undirbúningur málsins gert það að verkum að stjórninni hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina um að fulltrúar hennar berji í borðið á samningafundum erlendis og gefi sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Forsætisráðherra hefur verið lítt sýnilegur og algerlega vanrækt það hlutverk sitt að tala upp stemninguna, tala kjark í þjóðina og útskýra fyrir henni hvað sé að gerast. Samfylkingin virðist hafa ætlað að komast ódýrt frá málinu og láta VG taka á sig óvinsældirnar. Fjórir til fimm þingmenn VG hafa ítrekað lýst því yfir að ríkisábyrgðin sé þeim ekki að skapi. Nánast eini maðurinn í stjórnarliðinu sem virðist virkilega sannfærður um að samninginn verði að staðfesta var fjármálaráðherra en einn maður megnar ekki að koma svona risamáli í gegn. Smám saman varð ljóst að berja þyrfti saman liðið til að koma málinu í gegnum í þingið sem rétt hafðist að lokum.
Allt hafði þetta þau áhrif að tiltrúin meðal almennings minnkaði og reiðin jókst. Orkan á stjórnarheimilinu virðist hafa farið í halda liðinu saman og slökkva elda en kynning út á við, t.d. með fundarherferðum, blaðaskrifum og kynningarstarfi datt upp fyrir. Forsetinn sá sér leik á borði í þessari stöðu, sogaði til sín athyglina og mómentið og skaut málinu í þjóðaratkvæði. Við þessa ólánlegu stöðu erum við nú að kljást.
Lærdómurinn frá því sem hefur verið að gerast er einfaldur: Komum upp úr skotgröfunum, eyðum minni orku í blame-geimið og meiri orku í að berjast fyrir hönd þjóðarinnar.
miðvikudagur, 2. september 2009
Frelsishugsjónin á erindi við ungt fólk í dag
Skoðanakannanir hafa bent til þess undanfarið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst traust hjá hluta yngstu kjósenda sinna í kjölfar þeirra efnahagslegu hamfara sem gengið hafa yfir þjóðina. Þessa stöðu þarf að taka alvarlega og flokkurinn verður að gera sig að skýrum valkosti fyrir ungt fólk.
Heimdallur á að láta í sér heyra þegar flokkurinn er kominn út af sporinu og halda gildum ungra sjálfstæðismanna hátt á lofti.
Nú þegar stór hluti atvinnulífsins er fallinn í hendur ríkisins og aðstæður eru almennt erfiðar er nauðsynlegt að rödd frelsis og frjáls framtaks heyrist með skýrum hætti. Það er mikið á sig leggjandi til að ríkjandi ástand festi sig ekki í sessi til frambúðar.
Samstaða ungs fólks
Sjálfstæðismenn geta auðvitað ekki hlaupist undan ábyrgð af störfum sínum í ríkisstjórn um langa hríð. En við stöndum enn fyrir það markmið og þá meginhugsjón að frelsið eigi að vera leiðarljósið í samfélaginu. Nú sem aldrei fyrr er ástæða til að hampa sköpunarkraftinum sem býr í hverjum einasta manni og þeim dugnaði og krafti sem drífur samfélagið áfram. Það er með samheldni sem við komumst á lappirnar og með því að ungt fólk sameinist um að leysa kraft og frumkvæði einstaklingsins úr læðingi.
Kröftugt aðhald og eftirfylgni
Verkefni Heimdallar á komandi vetri er að standa vörð um þessi gildi. Það gerum við með því að veita ríkjandi öflum í þjóðfélaginu aðhald. Það býst enginn við að stjórnmálamenn muni leysa þann vanda sem steðjar að Íslandi, en þeir verða að búa hverjum og einum umhverfi til að leggja sitt af mörkum og því verður Heimdallur að fylgja eftir.
Því miður hefur skort á að sitjandi ríkisstjórn bjóði upp á þær lausnir og von sem beðið er eftir. Það er meðal annars vegna þess að flokkarnir sem standa að stjórninni aðhyllast lausnir sem byggja á því að stjórnvöld hafi svörin frekar en einstaklingarnir. Gegn slíkri hugusn verðum við að berjast með ráðum og dáð.
Sterkur hópur
Ég býð mig fram til að gegna starfi formanns Heimdallar á næsta starfsári. Með mér er öflugur hópur sem gefur kost á sér í stjórn og hefur víðtæka reynslu af félagsstörfum. Við erum staðráðin í því að gera starf félagsins öflugt og gera flokkinn að álitlegum kosti á þeim kosningavetri sem nú fer í hönd.
Kosið verður í Valhöll milli klukkan 20 og 22 í kvöld og ég hvet alla félagsmenn til að mæta og taka þátt í kosningunni og veita nýrri stjórn og forystu skýrt umboð.