mánudagur, 12. júlí 2010

„Magma – góðan dag...“

Sú stórfrétt var sögð í fjölmiðlum í vikunni að á heimilisfangi dótturfélags Magma í Gautaborg í Svíþjóð væri ekki opin skrifstofa fyrir gesti og gangandi. Landsþekktir bloggarar höfðu lagt land undir fót og mætt á staðinn og viti menn – enginn huggulegur kontór með móttöku og sænskum Séð og heyrt blöðum tók á móti þeim. Í ljós kom að fyrirtækið hafði bara aðsetur sitt þarna en enga eiginlega starfsemi eða skrifstofu.

Þetta hefur leitt til þess að umhverfisráðherra hyggst gera enn eina tilraunina af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að Magma geti fjárfest í íslensku atvinnulífi. Það er ekki nóg með að fjárfestirinn hafi þurft að mæta á fundi hjá ráðherrum út af málinu, sæta alls konar tortryggni í fjölmiðlum og að málið hafi verið sent tvívegis í gegnum „nefnd um erlenda fjárfestingu“ svona til þess að athuga hvort það væri ekki eitthvað formskilyrði sem hægt væri að hanka viðkomandi á, heldur á nú að gera enn eina atlöguna. Þannig hefur umhverfisráðherra boðað í tilefni þessara frétta frumvarp á þingi til að koma í veg fyrir að af fjárfestingunni geti orðið.

Magma Energy er kanadískt fyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvarmaorku. Eigandinn, Ross Beaty, hefur líst yfir áhuga á að fjárfesta hér á landi og þar með koma með erlent fjármagn inn í landið með því að kaupa hlut í HS Orku. Erlend fjárfesting er jákvæð fyrir landið, sérstaklega um þessar mundir þegar aðgengi okkar að lánsfjármörkuðum er nánast ekkert. Stefnan varðandi erlenda fjárfestingu hér á landi ætti að vera sú að við reyndum að laða erlenda fjárfesta til landsins og að því gefnu að þeir uppfylltu almenn skilyrði þá ættu slíkar fjárfestingar að ganga hratt í gegn. Þetta ætti að vera stefnan og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meira að segja tekið fram að vinna skuli í þessum anda. Þar segir m.a. í kaflanum um stöðugleika að til þess þurfi að:

• Stuðla að beinum erlendum fjárfestingum.

Ennfremur segir í stjórnarsáttmálanum:

Ríkisstjórnin vill efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði.


Þrátt fyrir þessi fögru orð hefur ríkisstjórnin og þá sérstaklega Vinstri grænir lagt sig fram um að vinna gegn þessum markmiðum. Ísland býr við forneskjulega löggjöf á þessu sviði – lög frá árinu 1991 um erlenda fjárfestingu sem ganga í stuttu máli út á að erlend fjárfesting sé bönnuð á veigamiklum sviðum, t.d. í sjávarútvegi, flugsamgögnum og orkuiðnaði. Til marks um hugsunina í lögunum kemur þar fram að tilkynna þurfi ráðherra um allar erlendar fjárfestingar. Með EES-samningnum neyddist Ísland til að breyta þessum lögum þannig að aðilar af EES-svæðinu mættu fjárfesta hér á landi, t.d. í orkugeiranum. Það þýðir að einstaklingar og lögaðilar í 27 aðildarríkjum ESB auk Noregs og Lichtenstein – alls um 500 milljón manna svæði hafa heimild til að fjárfesta hér á landi.

Í anda hinnar gömlu hugsunar þá eru fjárfestingar annars staðar frá hins vegar enn bannaðar. Við höfum s.s. sett bann við því að aðrir en 330 þúsund Íslendingar fjárfestu í orkugeiranum á Íslandi. Við gerðum undanþágu fyrir um það bil 500 milljón manns eftir að EES-samningurinn gekk í gildi.

Aðrir hlutar heimsins falla hins vegar enn undir þetta gamla bann, þannig að fyrirtæki frá t.d. Bandaríkjunum og Kanada mega ekki fjárfesta á Íslandi. Þar stendur hnífurinn í kúnni í tilfelli Magma. Vegna forneskjulegra reglna sem standast enga heilbrigða skoðun (af hverju ættum við t.d. að banna kanadísku fyrirtæki að fjárfesta en leyfa fyrirtæki frá Rúmeníu að gera það?), er eina leiðin til þess að af fjárfestingunni geti orðið að stofna dótturfélag á EES-svæðinu og Magma ákvað að gera það í Svíþjóð, sem verður nú seint talin vera einhvers konar aflandssvæði þegar kemur að eignarhaldi fyrirtækja. Það þarf vitaskuld að uppfylla ákveðin skilyrði, s.s. um hlutafé, stjórn og svo framvegis en það er ekki skilyrði að hafa opna skrifstofu í Gautaborg, halda úti starfsmanni eða eitthvað í þeim dúr eins og umhverfisráðherra býsnast yfir. Það væri þó sjálfsagt lítið mál ef það breytti einhverju og vel mætti hugsa sér að ráða huggulega miðaldra sænska dömu til að svara í símann fyrir Magma í Svíþjóð, til þess að það væri nú einhver starfsemi í gangi. Flestir sjá þó hve fáránlegt þetta er.

Ráðherrar Vinstri grænna kættust sjálfsagt við þetta þar sem nú væri hægt að tefja málið enn frekar – leggja fram fram frumvarp á þingi um að stoppa þetta og koma í veg fyrir þetta stórvafasama erlenda eignarhald. Að öðru leyti er ríkisstjórnin að sjálfsögðu mjög hrifin af því að fá erlenda fjárfestingu til landsins…

Eitt getur þó umhverfisráðherra huggað sig við. Með þessu áframhaldi fer svona leiðindamálum varðandi erlenda fjárfestingu væntanlega að fækka með tilheyrandi minni álagi fyrir stjórnkerfið í tilraunum sínum til að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Fjárfestarnir hætta einfaldlega að koma.

4 ummæli:

Björn Jónasson sagði...

Tvær rangfærslur eru í þessari færslu.
A) Fjármögnun kaupanna á HS Orku kemur fyrst og fremst innanlands frá í formi lána frá seljendum.
B) Það er ekkert skilyrði í EES samningum að heimila útlendingum, hvort sem er á EES-svæðinu að fjárfesta í orkugeiranum. Fjölmargar Evrópuþjóðir hafa meirihluta í ríkiseign (s.s. Frakkar).

Gagnrýnin á söluna til magma byggist ekki síst á því að verið er að selja á vondum tíma, í vondri stöðu á vondu verði, með vondri fjármögnun.

Það er líka hægt að gera lélega díla við útlendinga. Ástæðulaust að láta hugsjónirnar um erlenda eigendur að auðlindum Íslands byrgja sér sín í viðskiptum.

Árni Helgason sagði...

Björn - EES kveður á um fjórfrelsi fjármagns, vöru, þjónustu og fólks og undir það flokkast fjárfestingar milli aðildarríkja. Varðandi fjármögnun þá sé ég ekki nú ekki rangfærsluna í færslunni en hvað um það... Hvað er vandamálið við að innlendir aðilar láni? Held að aðalmálið sé að þarna er kanadískt fyrirtæki sem hefur áhuga á að koma að og fjárfesta hér á landi.

Ríkisstjórnin og vinnubrögðin sem þú ert að verja í þessu máli munu hins vegar tryggja að það verða fáir sem hafa áhuga á að fjárfesta hér í framtíðinni.

Unknown sagði...

Áttum okkur á einu hérna í þessu sambandi við að einkahlutafélag skuli allt í einu ná að stjórna heilu orkufyrirtæki og þá jafnframt verði á þeirri orku sem og þeir virðast nú ætla að djöflast í að fá eitthvað meira fyrir verðið á en bara orkuskatti því þeir eru núna í þessu augnabliki að pönkast á næstu kjánum í næsta sveitafélagi til þess að fá aðeins meira. Þetta var aldrei spurning um hvort þeir myndu sætta sig við bara orkugreiðslurnar.... því daginn eftir voru þeir farnir að bera víurnar í næstu fossa og næsta stóra fljót. Ef hinn almenni íslendingur sem að ekki er undir mútum kominn áttar sig ekki á þessu .. þá er þessu landi ekki bjargandi.

Björn Jónasson sagði...

Byrgja sér sýn, átti þetta að vera hjá mér.

Jú, Árni, rangfærslan hjá þér felst að mínu mati í því að kalla það erlenda fjárfestingu, sem er fjármögnuð innanlands. Ef um væri að ræða, að útlendingar kæmu með digra sjóði með sér erlendis frá og keyptu hér fyrirtæki, þá kallar maður það erlenda fjárfestingu. En þegar menn "kaupa" á innlendum lánum frá seljenda, þá er það innlend fjárfesting.
Auk þess rennir mann í grun, að það eigi að borga lánið með verðhækkunum, en það er önnur saga. Hvernig þú færð út að ég sé að verja ríkisstjórnina, skil ég hins vegar ekki.