Eftir að myntkörfudómar Hæstaréttar féllu í síðustu viku þar sem verðtrygging með gengi erlendra gjaldmiðla var talin ólögmæt hefur athyglin m.a. beinst að því hvort lánveitendur geti reiknað sér einhvers konar skaðabætur aftur í tímann.
Á þingi er því haldið að reikna eigi verðtryggingu á lánin en ljóst er að sú skoðun er fyrst og fremst pólitísk en ekki lögfræðileg.
Því hefur hins vegar einnig verið haldið fram að fyrirtækin geti reiknað sér óverðtryggða vexti í stað hinnar ólögmætu gengistengingar og að horfa megi til ákvæðis 18. gr. vaxtalaganna í því samhengi. Ég sá að haft er eftir hæstaréttarlögmanni í Morgunblaðinu um helgina að það væri alveg klárt að þetta ákvæði ætti við þar sem gengistryggingin hefði verið dæmd ólögmæt.
Þetta er hæpið. Í 18. gr. vaxtalaganna segir að ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógildur og hafi endurgjald verið greitt beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.
Vaxtalög frá 1987
Ef horft er í forsögu ákvæðisins og lögskýringargögn kemur í ljós að ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að tryggja stöðu skuldara en ekki lánveitenda. Gildandi vaxtalög voru sett árið 2001 og í athugasemdum með 18. gr. frumvarpsins segir að ákvæðið sé samhljóða 28. gr. eldri vaxtalaga. Einnig kemur fram sú útskýring að ef skilyrði ákvæðisins eigi við beri „kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft“. Ákvæðinu er því greinilega ætlað að standa vörð um hagsmuni skuldarans og tryggja honum endurkröfu á peninga sem kröfuhafi hefur ranglega af honum haft.
Þar sem vísað er til eldri vaxtalaga frá 1987 er ekki úr vegi að skoða þau. Í 28. gr. þeirra laga var sambærilegt ákvæði við 18. gr. í núgildandi lögum. Þar sagði í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum segir um þetta ákvæði:
„Endurgreiðsluákvæði 19. gr. frumvarpsins svarar til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 58/1960 að breyttu breytanda. Hugmyndin að baki þessu ákvæði er svipuð og í 17. gr. að öðru leyti en því, að hér er um endurgreiðslu oftekinna vaxta að ræða en ekki refsiábyrgð.“
Þarna var m.ö.o. tekið skýrt fram að ákvæðinu væri ætlað að taka á þeim atvikum þegar vextir hefðu verið ofteknir. Þetta tekur þar af leiðandi til stöðu skuldara, en ekki kröfuhafa.
Okurlögin frá 1960
Og sé litið enn lengra aftur í tímann til laga nr. 58/1960, sem þarna er vísað til, má enn finna sambærilegt ákvæði. Þau lög eru um bann við okri, dráttarvexti o.fl. og í 6. gr. laganna sagði:
„Ef samið er um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti fram yfir það sem leyfilegt er samkvæmt lögum þessum, eru þeir samningar ógildir, og hafi slíkt verið greitt, ber skuldareiganda að endurgreiða skuldara þá fjárhæð, sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.“
Orðalag ákvæðanna í lögunum frá 1960 og frá 2001 er nánast eins þótt 41 ár hafa liðið á milli. Lögin frá 1960 voru um bann við okri og ljóst að bakgrunnur þessara ákvæða er sá að vernda stöðu skuldara en ekki lánveitenda.
Eðlilegast er því að miða við að samningarnir standi að öðru leyti en því að eitt ákvæði þeirra var talið ólögmætt og reikna þá aftur út frá því.
þriðjudagur, 22. júní 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli