föstudagur, 16. apríl 2010

Lærdómur til hægri

Þrátt fyrir að aðeins séu örfáir dagar frá því að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hefur hún nú þegar náð ákveðinni stöðu meðal þjóðarinnar. Hún er einhvers konar lausnarbréf okkar við öllu því vonda sem var í gangi fyrir hrunið. En hvaða lærdóm eiga þeir að draga af hruninu sem flokka sig pólitískt til hægri?

Allt undir

Skýrslan heggur í allar áttir. Sjálfstæðisflokkurinn, ráðherrar hans og embættismenn sem ráðherrarnir réðu, fá skammir og gagnrýni fyrir nánast allt saman, Samfylkingin fær skammir fyrir æði margt en Framsóknarflokkurinn sleppur ekki því einkavæðing bankanna er til skoðunar líka. Fjölmiðlar, forsetinn og fræðasamfélagið fá sinn skerf líka.

Jafnvel við þá sem eitthvað mölduðu í móinn á sínum tíma á Skýrslan skýrt svar - hvers vegna gripu þeir hinir sömu ekki til ráðstafana? Hvers vegna boðuðu þeir ekki fund eða létu vinna skýrslu um málið?

Vanræksla í kerfi sem var þegar hrunið?

Skýrslan er að vísu ekki fullkomin eða hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk. Fyrir utan hve skondið það smáatriði er að nefndin sem gagnrýnir stjórnsýsluna undanfarin ár náði ekki sjálf að virða eigin lagareglur um útgáfudag, þá eru ákveðnar mótsagnir í stóru myndinni sem skýrslan dregur upp.

Fram kemur í skýrslunni að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum frá 2006 en engu að síður eru athafnir eða athafnaleysi ráðherra og embættismanna á nokkurra mánaða tímabili árið 2008 taldar vera svo alvarlegar að þeim megi jafna til vanrækslu. Að sama skapi gerir skýrslan sér á köflum ansi mikinn mat úr smáatriðum, s.s. hverjir hafi verið boðaðir á fundi eða hver átti að sjá um að boða hvern á fund, þótt augljóst megi telja að slíkir þættir skiptu litlu máli í heildarsamhenginu. Það sem kannski vantar er að nefndin hafi sjálf séð fram úr því hvaða leið ríkisstjórn og stjórnkerfið hefðu átt að fara í björgunarleiðangri sínum 2006-8. Sú mynd virðist ekki liggja fyrir og gagnrýni á að vantað hafi ítarlegri fundargerðir, skýrslur og matsgerðir um hitt og þetta er því marki brennd.

Hver er lærdómurinn?

Til að setja málið í stærra samhengi aftur þá er spurningin sem eftir stendur hvað megi læra af þessu öllu?

Með þeim fyrirvara að ég hef ekki sjálfur lesið skýrsluna í gegn, þá sýnist mér af því sem ég hef þó komist yfir að hún - eða ástandið sem hún fjallar um - sýni okkur einkum eitt atriði, þ.e. að frelsi verður að fylgja ábyrgð.

Með því að losa um eignarhald ríkisins á ýmsum fyrirtækjum og eignum á tíunda áratugnum og í byrjun aldarinnar var ekki verið að gefa frjálshyggjunni lausan tauminn og græðgisvæða samfélagið eins og stundum er haldið fram. Þar voru Íslendingar að stíga sambærileg skref og tekin höfðu verið í löndunum allt í kringum okkur og það sem meira er, þá vorum við að losa þessi fyrirtæki undan gamaldags stjórnunarháttum þar sem pólitísk afskipti réðu ferðinni.

Hraður vöxtur

Það sem hins vegar við tók í kjölfarið voru bankar sem færðu sig tiltölulega hratt eftir einkavæðinguna yfir í mikla áhættufjárfestingar og hraðan vöxt. Þar vorum við aftur ekki neitt eyland í heiminum þar sem lágir vextir á heimsvísu ýttu undir fjárfestingar allstaðar.

Efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja belgdust út og ársreikningar sýndu ótrúlegar hagnaðartölur, sem var aftur fagnað af matsfyrirtækjum, mörkuðum og öðrum sem fylgdust með. Menn rifust ekki við úrvalsvísitöluna. Íslensku bankarnir fóru alla leið að þessu leyti og raunar varð til ákveðin kreðsa sjálfskipaðra fjármálamanna, þar sem eina inntökuskilyrðið virtist vera að geta lagt fram smá grunnfé og þá sáu fjármálafyrirtækin um að gera menn að alþjóðlegum stjörnufjárfestum.

Að hrífast með

Það er alltaf gaman að sjá fyrirtæki vaxa. Það er mannlegt að hrífast með - ekki síst fyrir litla fámenna þjóð. Þessi hrifningin tók að dreifast hratt, m.a. inn í stjórnmálin og fjölmiðlana. Um tíma snerist umræðan hér nánast eingöngu um það hvaða lausnir flokkarnir hefðu til að tryggja að bankarnir myndu vilja vera hér á landi áfram.

En ábyrgðin fylgdi ekki og fékk ekki sömu athygli. Eftirlitið með því sem var í gangi innan bankanna og inn í fjármálakerfinu réð aldrei við hraðann á þessum vexti. Fyrir áhugamenn um stjórnsýslurétt er það svo sjálfstætt álitaefni að velta því fyrir sér hvort ríkisstofnanir sem eru bundnar af andmæla-, rannsóknar- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttarins eigi yfirhöfuð mikla möguleika að ná með einhverjum almennilegum hætti utan um risastór alþjóðleg fyrirtæki eins og bankarnir voru orðnir.

Þar að auki fylgdi ríkið frelsisvæðingunni ekki eftir með því að draga úr sinni ábyrgð og tryggingum. Sú tilfinning var alltaf til staðar og svör ráðamanna kynntu þar undir, að ríkisvaldið myndi geta bjargað eða tekið til sín einn, ef ekki tvo, af stóru bönkunum þremur - og aldrei myndu þeir nú fara allir þrír á hausinn, var svo bætt við í huganum!

Ekki nóg með að þetta falska öryggi væri fyrir hendi, heldur voru tryggingar fyrir innistæðum í bönkunum, ekki bara hér á landi, heldur líka innistæðum safnað erlendis, veittar af hálfu ríkisins með lögum frá 1999.

Þessu til viðbótar voru risastór lána- og orkufyrirtæki í opinberri eigu, s.s. Landsvirkjun, Orkuveitan og Íbúðalánasjóður, sem gerðu það að verkum að erfiðleikar í fjármálageiranum smituðust sjálfkrafa út um allt kerfið, t.d. í formi lækkaðs lánshæfismats.

Krakkinn flytur aftur heim

Það voru nánast engar bremsur í kerfinu - ekkert sem myndaði mótvægi við þau gríðarlegu völd og áhrif sem fjármálafyrirtæki á borð við bankana þrjá öðlast óhjákvæmilega við að verða jafnstór og raun bar vitni.

Þessi beina og óbeina ábyrgð ríkisvaldsins á fjármálakerfinu gerði það að verkum að ríkisvaldið var nánast eins og foreldri sem getur ekki séð á eftir barninu sínu að heiman. Það var agalega stolt af árangrinum sem það nær en á sama tíma með alls konar baktryggingar á lofti og útbreiddan faðminn til að taka á móti litla unganum sínum þegar á þyrfti að halda. Vandinn var bara að þegar krakkinn flutti heim aftur var hann ekki krúttlegi unglingurinn sem flutti að heiman, heldur fráskilinn með fjögur börn og áfengisvandamál.

Frelsið var veitt á fjármálamarkaði og það nýttu menn sér til fulls en ábyrgðin fylgdi ekki. Ríkið dró sig ekki með markvissum hætti til baka og sendi þannig skilaboðin um að fjárfestar og innistæðueigendur í bönkunum væru að leggja traust sitt á bankana á sína eigin ábyrgð og yrðu að haga aðhaldi og eftirfylgni í samræmi við það. Ríkið veitti mönnum frelsi til að eiga banka, breyta þeim í stóra fjárfestingarbanka með til heyrandi auðsöfnun og hættu á misnotkun en hafði til að fylgjast með lögbrotunum litla eftirlitsstofnun sem átti afar erfitt um vik að halda í við bankana. Ríkið veitti frelsi á fjármálamarkaði en þegar á reyndi voru stjórntækin til að halda aftur af óæskilegum áhrifum svo máttlítil að þau mögnuðu vandann í stað þess að leysa hann, eins og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans voru dæmi um.

Frelsi með ábyrgð

Þegar menn tala um lærdóm af því sem gerðist, ekki síst hvað varðar þá sem flokka sig hægra megin í tilveruna, þá væri góður upphafspunktur að endurhugsa kerfið með það að leiðarljósi að fyrirtæki og markaðir eigi að vera frjálsir og óháðir miðstýrðu ríkisvaldi hvað varðar daglegar ákvarðanir en á móti verða þeir hinir sömu að bera ábyrgð á því sem gerist. Og ríkisvaldið verður að hafa einhver tæki í höndunum sem virka til að halda utan um gleðskapinn.


1 ummæli:

Stefán Benediktsson sagði...

"Þar voru Íslendingar að stíga sambærileg skref og tekin höfðu verið í löndunum allt í kringum okkur" Það er alls ekki rétt. Við gengum miklu lengra en nágrannar okkar, af því að okkur dreymdi um að verða fjármálamekka heimsins.