þriðjudagur, 30. mars 2010

Faðmlag fjölmiðla og stjórnmála þéttist

Allt til ársins 1992 var dómsvald og framkvæmdarvald á landsbyggðinni á sömu hendi hér á landi. Það þýddi að ein og sama stofnunin, jafnvel einn og sami starfsmaðurinn sá um að handtaka hinn grunaða, rannsaka málið og kveða upp dóm í því.

Þessi staðreynd virkar hálfundarleg í dag en er engu að síður sönn. Sú eðlilega krafa að ótengdir aðilar sæju annars vegar um rannsókn og hins vegar um dómsuppkvaðningu máls fékkst ekki endanlega í gegn fyrr en árið 1992.

Aðskilnaðurinn á milli stjórnmála og fjölmiðla hér á landi minnir að sumu leyti á þetta gamla kerfi. Þarna á milli er ótrúlega lífseigt faðmlag sem lýsir sér með ýmsum hætti; íslenskir stjórnmálamenn byrja margir hverjir í fjölmiðlum og snúa jafnvel þangað aftur í ábyrgðarstöður eftir að pólitíska lífinu lýkur, ásamt því að þeir eru áberandi í eignarhaldi fjölmiðla.

Furðulöggjöf um fjölmiðla
Það sem er enn merkilegra er að á sama tíma og þingið reynir að bögglast áfram með furðulöggjöf um fjölmiðla þá er nánast allri fjölmiðlaflórunni hér á landi stýrt af pólitískum fulltrúum.

Með kaupum frambjóðandans Lilju Skaftadóttur úr Borgarahreyfingunni á DV nú um helgina má spyrja hvort tími gömlu flokksblaðanna sé endanlega genginn í garð á ný. Lilja þessi er reyndar ekki óvön pólitískum fjölmiðlarekstri þar sem hún hefur verið einn eiganda Smugunnar, sem er fjölmiðill í eigu áhrifafólks úr VG.

Pólitísk tengsl víða
Smugan er ekkert einsdæmi hvað varðar pólitísk tengsl fjölmiðla. Pressunni er ritstýrt af Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, Morgunblaðið lýtur ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmanns eins af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, en sá hinn sami átti áður Viðskiptablaðið, sem er nú undir ritstjórn Björgvins Guðmundssonar, fyrrverandi formanns Heimdallar.

Fréttablaðið er rekið af 365 sem lýtur stjórn Ara Edwald, fyrrverandi aðstoðarmanns ráðherra Sjálfstæðisflokksins og ritstjórnar Ólafs Þ. Stephensen, annars fyrrverandi formanns Heimdallar. Þorsteinn Pálsson ritstýrði áður Fréttablaðinu og Styrmir Gunnarsson Morgunblaðinu. Það þarf ekki að velkjast í vafa um hvar þessir menn eru í sveit settir í pólitík.

Eyjan var upphaflega stofnuð af góðum hópi manna - þar á meðal Pétri Gunnarssyni sem vann um tíma fyrir Framsóknarflokkinn og Andrési Jónssyni, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum innan Samfylkingarinnar og var lengi vel formaður ungliðahreyfingar flokksins. Guðmundur Magnússon núverandi ritstjóri er fyrrverandi starfsmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ráðherra.

Herðubreið er haldið úti af Karli Th. Birgissyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Sú stétt hefur komið sér víðar fyrir í fjölmiðlaflórunni því Heimir Már Pétursson er einn af fréttastjórum Stöðvar 2 en gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Róbert Marshall og Sigmundur Ernir fóru hina leiðina, voru fyrst fjölmiðlamenn en fóru svo á þing fyrir Samfylkinguna.

Jafnvel léttum og skemmtilegum menningarvef á borð við Miðjan.is er stýrt af varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bryndísi Ísfold.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um amx.is.

Ríkisútvarpið undir pólitískri stjórn
Það er nánast sama hvert litið er, alls staðar eru pólitísk öfl með puttana í ritstjórn og/eða eignarhaldi og rekstri fjölmiðla. Hjá Ríkisútvarpinu er svo beinlínis gert ráð fyrir því að pólitíkin sé með afskipti af starfseminni enda um opinbert fyrirtæki að ræða.

Hvernig stendur á þessu rótgróna samkrulli stjórnmála og fjölmiðla? Ástæðuna má ef til vill rekja aftur til flokksblaðanna en það er ekki mjög langt síðan þau liðu undir lok. Sú flóra samanstóð lengst af af Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Alþýðublaðinu og Tímanum. Þetta fyrirkomulag hafði þau áhrif að fjölmiðlar hafa verið hugsaðir sem tól til að ná tökum á umræðunni og koma tilteknum sjónarmiðum á framfæri. Til að passa upp á jafnvægið hafa flokkarnir elt hvern annan á þessari braut.

Í anda þess að fjölmiðlar hafa verið hugsaðir sem áróðurstæki af eigendum sínum hefur menntun blaðamanna verið lítil. Aðeins eru nokkur ár síðan Háskóli Íslands byrjaði með sérstakt meistaranám í fréttamennsku og fæstir þeirra sem eru í fararbroddi í fjölmiðlum í dag hafa menntað sig sérstaklega í faginu heldur hafa lært þetta með reynslunni. Menntun og fagkröfur leysa ekki öll heimsins vandamál en þetta segir vitaskuld sína sögu.

Blaðamenn ársins beint í pólitíkina
Blaðamannafélagið er einn leikmaðurinn á þessu taflborði. Félagið, sem á að beita sér í þágu félagsmanna sinna, hefur að undanförnu sótt í sig veðrið í hinum pólitíska leik samhliða því að ný forysta tók við. Blaðamenn ársins 2008 og 2009 voru t.a.m. ekki fyrr búnir að veita verðlaununum viðtöku fyrr en þeir voru búnir að sækja um vinnu á vegum pólitískra afla. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, blaðamaður ársins 2008 sem raunar bætti um betur og gerðist formaður Blaðamannafélagsins í fyrra, tók að sér ritstjórn Smugunnar.

Þegar Jóhann Hauksson fékk þessa nafnbót fyrir skömmu hafði hann nýlokið við að leggja inn umsókn til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að gerast upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Blaðamaður ársins á sér þann draum heitastan að verða upplýsingafulltrúi fjármálaráðherra. Hvernig hefði það hljómað ef Woodward og Bernstein hefðu á meðan þeir voru að grafast fyrir um Watergate sótt um að verða upplýsingafulltrúar Nixons?

Ég tek fram að þessi pistill er ekki hugsaður sem gagnrýni á þá aðila sem eru taldir hér upp, enda hafa margir þeirra gert frábæra hluti í sínum störfum. Margir þeirra blaða- og fréttamanna sem starfa á íslenskum fjölmiðlum eru toppfagfólk. En fylgnin á milli stjórnmála og reksturs fjölmiðla hér á landi er óneitanlega athyglisverð. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að fólk með pólitíska reynslu vinni fyrir sér sem blaðamenn, enda hafa þau myndað þekkingu á stjórnmálum sem getur nýst á fjölmiðli. En spurningin er hvort það sé eðlilegt að stjórnmálin eigi og ritstýri fjölmiðlunum?

Að lokum stendur eftir ein spurning...

Hvað mun Fjölmiðlastofa gera í þessu öllu?

Engin ummæli: