fimmtudagur, 12. mars 2009

Bandaríska stjórnarskráin

Bandaríska stjórnarskráin er eitt merkilegasta plagg stjórnmálasögunnar. Það var ritað af miklum stjórnspekingum á sínum tíma og hefur að mestu leytið staðist tímans tönn og verið grundvöllur að sterkri og rótgróinni lýðræðishefð í Bandaríkjunum.

Eitt af því sem höfundar stjórnarskrárinnar lögðu áherslu á var að unnt væri að breyta henni til þess að hún myndi þróast í takt við tímann. Að sama skapi lögðu þeir áherslu á að það mætti ekki vera of auðvelt að breyta henni, breytingar krefðust aukins meirihluta á þingi auk þess sem þær þyrfti að staðfesta af fylkjunum sjálfum.

Hægt er að breyta stjórnarskránni á tvo vegu; annars vegar með því að tveir þriðju þingmanna í báðum deildum bandaríska þingsins samþykki breytingar, hins vegar með því að tveir þriðju af þingum fylkjanna í Bandaríkjunum kalli saman eins konar stjórnlagaráðstefnu til að ræða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni en þessi heimild hefur hins vegar aldrei verið nýtt.

Breytingar á stjórnarskránni sem samþykktur eru verður svo að staðfesta á löggjafarþingum fylkjanna og þurfa þrír fjórðu fylkjanna að staðfesta breytingarnar til þess að þær geti tekið fullt gildi.

Hérna heima eru grundvallarbreytingar á stjórnarskránni aftur á móti drifnar í gegn á nokkrum vikum af knöppum meirihluta á þingi!

1 ummæli:

Emil sagði...

Stjórnarskrá ríkjanna bandarísku er komin á þriðjuöld. Henni hefur ekki oft verið breytt og þess vegna má stundum efast um lýðræðið sem þú telur að ríki þar. Einfaldast að minnast á forsetakosningar þar sem talsverður minnihluti getur ráðið vali. Einmenningskjördæmi þar sem minnihluti hefur þar af leiðandi engan fulltrúa jafnvel þótt minnihlutinn geti verið 49,9% kjósenda. Reyndar heyrir það til tíðinda ef fleiri en helmingur kjósenda mætir á kjörstað, sagt vegna þessa kerfis. Minnir aðeins á VR á Íslandi.
Nú, nú þetta var ekki efnið. Fyrir okkur sem þarna búum þá teljum við okkur búa í Bandaríkjunum, þetta er samband 50 nokkuð sjálfstæðra ríkja eins og oft er sagt og því voru einingarnar kallaðar ríki af íslenskum málsnillingum fyrir langa löngu. Í öllum bænum mundu að það eru ríkisþingin sem geta tekið þátt í breytingum á stjórnarskrár. Fylkisþing eru í Kanada. Ríkjaheildin er kölluð Bandaríki Norður Ameríku ekki Bandafylki.
Emil