Tveir af foringjum ríkisstjórnarinnar, þeir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, tjá sig varla þessa dagana öðruvísi en að með fylgi heillangur pistill um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu mála á þeim bænum. Þetta gera þeir auðvitað fyrst og fremst til þess að draga athyglina frá vandræðunum á stjórnarheimilinu, þar sem flokkarnir ná ekki saman um þýðingarmikil mál og Framsóknarmenn eru á einungis fjórum vikum orðnir dauðþreyttir á þvermóðskunni í VG og klækjunum í Samfylkingunni.
Liðsmenn stjórnarinnar á þingi virðast aftur á móti hafa talið sér trú um að vandræðin megi öll útskýra með því að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo ákaflega ómálefnalegur í stjórnarandstöðu. Það hefur verið nánast hægt að treysta á það undanfarnar daga og vikur að um leið og eitthvert ágreiningsmálið kemur upp á stjórnarheimilinu fara stjórnarliðar að tjá sig um Sjálfstæðisflokkinn.
Þar eru einkum talin til þrjú mál; kosning forseta Alþingis, framlagning frumvarpa um séreignasparnað og greiðsluaðlögun og loks Seðlabankafrumvarpið. Ekkert þessara mála stenst skoðun sem einhvers konar dæmi um ómálefnalegheit af hálfu sjálfstæðismanna.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu í alls heilar 14 mínútur þegar kosning forseta alþingis fór fram en kjör nýs forseta þingsins taldi ný ríkisstjórn vera sitt mesta forgangsmál á þingi. Frumvarpið um breytingar á Seðlabankanum tók alls 17 breytingum í meðförum þingsins, en var þó ekki nema 12 greinar að lengd og forsætisráðherra kynnti málið þannig í upphafi að það væri afar faglega unnið og vandað. Stjórnin samþykkti það svo í gerbreyttri mynd. Þingið varði alls rúmum þremur vikum í að fara yfir málið sem er nú orðið að lögum með miklum breytingum. Og hvað varðar það sem Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa kallað deilur um höfundarrétt á frumvörpum þá má spyrja á móti hvort eitthvað sé óeðlilegt við það að menn sem eru með fullunnin hagsmunamál fyrir fjölskyldurnar í landinu í höndunum leggi þau fram á þingi? Ríkisstjórnin tók sér fjórar vikur í kjölfarið í að lúra á þessum málum þótt þau lægju fyrir í þinginu, klár til afgreiðslu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar að sjálfsögðu greitt fyrir þeim málum sem tengjast efnahagsuppbyggingu og atvinnumálum.
Á sama tíma og þessi þula hljómar frá talsmönnum stjórnarinnar eru ágætis hlutir að gerast innan Sjálfstæðisflokksins. Endurreisnarnefndin undir forystu Vilhjálms Egilssonar hefur vakið athygli fyrir að gera opinskátt upp við fortíðina. Flokkurinn mun nýta tímann fram að landsfundi í lok mars til þess að fara í naflaskoðun, gera upp við fortíðina og móta tillögur til framtíðar. Það á hann líka að gera. Sjálfstæðisflokkurinn verður auðvitað að horfast í augu við að hann ber ábyrgð á því sem hér gerðist þótt honum sé fráleitt einum um að kenna, íslenskt fjármálalíf bjó við regluverk sem var alþjóðlegt og ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að bankarnir sjálfir höfðu tekið gríðarlega áhættu í sínum rekstri, komu sér í viðkvæma stöðu og fóru þannig nánast berskjaldaðir inn í hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu.
Minnihlutastjórnin mun ekki geta lifað á því til lengdar að benda bara á Sjálfstæðisflokkinn til að fela vandræðaganginn í sínum röðum. Stjórnin þarf að svara fyrir það hvers vegna Evrópumálin (og þar með talin leiðin að nýjum gjaldmiðli) þokast ekkert áfram (ekki einu sinni hænuskrefið sem Árni Páll Árnason boðaði að yrði tekið með því að heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá hefur litið dagsins ljós). Sömuleiðis þarf að móta einhverja sýn á það hvernig eigi að takast á við atvinnuleysið þegar 16 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá en ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst verið í því hlutverki að skjóta niður hugmyndir og lausnir í atvinnumálum fram til þessa.
Það skýtur því skökku við að heyra Steingrím og Össur og félaga, sem eiga samtals mörg þúsund ræðutíma að baki í þinginu sem stjórnarandstæðingar, og lögðust þar gegn hinu ýmsu málum ásaka núverandi stjórnarandstöðu um að vera að standa í vegi fyrir brýnum málum.
miðvikudagur, 4. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli