þriðjudagur, 17. mars 2009

Fjármálareglur og fjölmiðlar

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í gær reglur um að þingmenn skuli skrá fjárhagslega hagsmuni sína. Allir flokkar stóðu að því að samþykkja þessar reglur.

Þetta er ákveðið skref sem þingið stígur. Reglur sem þessar hafa ekki verið í gildi hér á landi áður og með þeim auk laganna frá 2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda hafa mjög róttækar breytingar verið gerðar hvað varðar regluverk um fjármál og stjórnmál. Við höfum í raun farið úr þeirri stöðu að hafa sama og engar reglur yfir í að hafa nokkuð strangar reglur um þessi mál, samanborið við önnur lönd.

Gegnsæi skiptir meira máli en upphæðir
Svona reglur eru ekki óumdeildar og það er alltaf ákveðin hætta á að þær skapi falskt öryggi auk þess alltaf má finna leiðir til þess að fara í kringum svona reglur, ef menn eru á annað borð á þeim buxunum. Engu að síður er eðlilegt að svona reglur séu til staðar því leynd og ógagnsæi varðandi fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna býður upp á hættu á spillingu. Lykilatriði í þessu eru að upplýsingar liggi fyrir en aftur á móti finnst mér ekki ástæða til þess að setja í reglur hve mikið megi styrkja stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn að því gefnu að unnt sé að upplýsa um slík framlög. Ef einhver vill styrkja stjórnmálaflokk eða mann um milljón krónur þá er það ekki rangt í sjálfu sér, en það er eðlileg krafa að upplýsingar liggi fyrir um slík framlög, sérstaklega framlög frá fyrirtækjum og félögum.

Villandi umfjöllun fjölmiðla
Umfjöllun fjölmiðla um aðdraganda þessarar reglusetningar forsætisnefndar hefur verið býsna villandi. Reglurnar hafa verið unnar í góðri samvinnu allra flokka og sátt var um að hafa þetta sem reglur frá forsætisnefnd en ekki sérstök lög. Á þessu er sá munur að reglurnar binda ekki þingmenn eins og lög. Það er eðlileg nálgun og þekkist á öðrum Norðurlöndunum. Um er að ræða viðkvæmar og persónulegar upplýsingar og ekki óeðlilegt að kerfið sé opið, þ.e. að þingmenn geti skráð þar upplýsingar en séu ekki skyldaðir til þess eða hafi gerst brotlegir við lög ef þeir gera það ekki.

Reglurnar voru eins og áður sagði samþykktar í þessari mynd í gær. Engu að síður sló Fréttablaðið því upp á forsíðu sinni í gærmorgun sem sérstakri stórfrétt að sjálfstæðismenn væru á móti skylduskráningu. Staðreyndin er aftur á móti sú að sjálfstæðismenn, eins og aðrar flokkar á þingi, höfðu unnið að því að móta og setja þessar reglur á vegum nefndarinnar, eins og þær voru samþykktar í gær og varla hægt að tala um að afstaða sjálfstæðismanna hafi verið öðruvísi en annarra flokka. Vefmiðillinn Pressan bætti aftur á móti um betur í gær þegar hann endursagði frétt Fréttablaðsins frá því um morguninn þannig að sjálfstæðismenn væru á móti reglunum í heild sinni. Ekki var nú sannleiksgildi þeirrar fréttar meira en svo að á svipuðum tíma og fréttin birtist þá var forsætisnefnd að samþykkja reglurnar, eins og Pressan reyndar greindi frá í frétt stuttu síðar.

Þannig stóðu í gær og standa raunar enn þessar tvær fréttir, þ.e. annars vegar um að sjálfstæðismenn séu á móti reglunum og hins vegar að allir flokkar í forsætisnefnd hafi samþykkt þær. Ekki ýkja vönduð blaðamennska þar.

Sambærilegar reglur fyrir önnur svið þjóðfélagsins?
Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins gerir þessar reglur að umfjöllunarefni í leiðara dagsins og gagnrýnir að ekki séu sett lög um þetta efni. Það er ekki útilokað að sú leið verði farin en á móti kemur að nú hefur þetta fyrsta skref verið stigið og ágætt að fá ákveðna reynslu á þær áður en lengra er haldið.

Þegar ég las leiðara Jóns, velti ég því samt fyrir mér hvort krafan um gagnsæi eigi að vera bundin við pólitíkina. Ættu þeir sem eru í forsvari fyrir önnur mikilvæg svið þjóðfélagsins, t.d. fjölmiðla, ekki að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja öll spil á borðið? Upplýsa um eignir, hlutabréf, skuldir, gjafir og þar fram eftir götunum? Það væri amk. í ágætu samræmi við þann málflutning sem Jón Kaldal viðhefur í leiðaranum.

1 ummæli:

Thorleifur Örn Arnarsson sagði...

Sammala ter, en mikilvaegarat finnst mer to ad framkvaemdarstjorar tingflokkanna birti allar upplysingar um sin mal opinberlega!