laugardagur, 21. mars 2009

Það sem vantaði hjá Steingrími

Setningarræða Steingríms J. Sigfússonar á landsfundi VG í gær var fyrst og fremst mikið afturlit til fortíðar. Fyrir þá sem voru búnir að gleyma því þá rifjaði Steingrímur það upp og minnstist á Sjálfstæðisflokkinn alls 22 sinnum upp í ræðu sinni.

Í ræðuna vantaði aftur á móti svörin við þeim spurningum sem brenna á um þessar mundir og þarf að svara. Á dögunum skaut Steingrímur sér undan því í þinginu að svara hvernig ríkisstjórnin ætlaði að mæta kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í ríkisfjármálum og hann bauð ekki upp á nein slík svör í ræðu sinni á flokksþinginu. Hvaða leiðir ætlar hann sem fjármálaráðherra og einn harðasti gagnrýnandi niðurskurðar í ríkisfjármálunum að fara til að ná þeim niðurskurði sem vitað er að er framundan næstu árin? Ríkissjóður verður ekki hallalaus af sjálfu sér - framundan eru erfiðar ákvarðanir um niðurskurð og það er varla nema sanngjarnt að kjósendur fái einhverja innsýn í það hvernig verðandi fjármálaráðherra ætlar að gera það.

Ríkisfjármálin voru ekki það eina sem vantaði. Eftir að hafa hlustað á ræðuna er maður engu nær um hvaða framtíðarsýn á gjaldmiðil og peningamálastefnu Steingrímur hefur. Steingrímur hefur reyndar talað fyrir ákveðinni lausn í þeim efnum, upptöku norsku krónunnar en nú virðist sem sú hugmynd hafi verið slegin út af borðinu í bili og því væri fróðlegt að heyra framhaldið að hans mati. Og hvernig ætlar Steingrímur og VG að skapa þau störf sem þarf svo nauðsynlega á að halda?

Þeir kaflar ræðunnar sem sneru að framtíðinni voru raunar áberandi innantómir. Þar var talað um hvers kyns nýsköpun þar sem hugvitið er virkjað, þar sem innlendur virðisauki er hafður í öndvegi, þar sem vatn, loft, víðerni, mannvit og hugkvæmni eru undirstaðan, það á að vera okkar boðskapur og að það þyrfti að fara með stækkunarglerið á alla möguleika.

Það skal að vísu ekki tekið frá Steingrími að inn á milli voru útfærðar og nákvæmar tillögur, eins og sú að bændur auki kornrækt, að við förum aftur að framleiða okkar eigin áburð, að við förum aftur að þjónusta og helst smíða okkar fiskiskip og flota.

Aðalatriði ræðunnar var að þar var stillt upp valkostum - VG eða Sjálfstæðisflokkurinn. Sá síðarnefndi þarf ekki að kvíða þeirri uppstillingu. Innan Sjálfstæðisflokksins er sú skoðun uppi að leiðin út úr kreppunni sé í gegnum einstaklingana og framtak þeirra og með því að vinda ofan af ríkisrekstrinum og ríkisvæðingunni sem fyrst og það er sú lausn verður ofan á endanum.

Engin ummæli: