Gjaldeyrislögin sem Alþingi setti á fimmtudaginn síðasta hafa gert það að verkum að nú sem aldrei fyrr þarf að skoða hvaða gjaldmiðil við ætlum að hafa hér til framtíðar.
Þetta mál var meðal annars til umræðu í Vikulokunum síðasta laugardag þar sem ég var meðal gesta, ásamt þeim Skúla Helgasyni, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, þingmanni Framsóknar og Láru Hönnu Einarsdóttur, bloggara.
Það sem hefur gerst er að við erum smám saman byrjuð að fleyta krónunni á ný en það má kannski lýsa stöðu hennar þannig að ef hún fengi að fljóta alveg frjálst núna þá myndi hún sökkva til botns. Þess vegna fær hún kút og froskalappir og sundlaugargestum er bannað að busla í lauginni. Krónan er þannig sett á flot með miklum vörnum til þess að koma í veg fyrir frekara gengishrun.
Margir hafa bent á að þessi lög færi okkur marga áratugi aftur í tímann - það er að mörgu leyti rétt. Sett eru höft á færslu gjaldeyris úr landi og það skaðar okkur óhjákvæmilega út á við. Seðlabankanum eru færð mikil völd og áhrif með þessum lögum og það er mikilvægt að gegnsæi ríki varðandi ákvarðanir bankans og annarra stjórnvalda tengt þessum lögum og reglum, sérstaklega varðandi þær undanþágur sem verða veitar frá reglunum.
Mér heyrist á flestum þeim þingmönnum og öðrum sem hafa tjáð sig um þessi lög að það séu fæstir hrifnir af lagasetningunni en aftur á móti var hinn kosturinn, að láta krónuna fljóta afskiptalaust og að öllum líkindum falla mjög hratt næstu vikurnar, verri. Það hefði þýtt verulega aukningu í verðbólgu ofan á það sem fyrir er. Undirliggjandi er svo að á næstu mánuðum munum við flytja meira út en við flytjum inn þannig að krónan á að geta styrkst og höftin vonandi aðeins gilt í stuttan tíma.
Enn á ný erum við engu að síður að lenda í vandræðum vegna krónunnar og þurfum að grípa til örþrifaráða til þess að aðlaga umhverfið að krónunni. Grunntilgangurinn með peningum og gjaldmiðlum er að þeir greiði fyrir viðskiptum en það gerir krónan því miður ekki, hún gerir viðskipti hér á landi flóknari og veldur atvinnulífinu vandræðum.
Annars er þetta frábært framtak hjá Hvöt, sjálfstæðiskonum í Reykjavík, að bjóða upp á ókeypis ráðgjöf og þjónustu á næsta föstudag og laugardag.
þriðjudagur, 2. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli