Í stuttu máli lýsir Taleb því í bókinni hvernig þær aðferðir og leiðir sem fólk hefur við að mynda sér skoðun og safna að sér þekkingu séu afar gloppóttar þar sem við gerum nánast aldrei ráð fyrir hinu óþekkta og óvænta, sem komi fyrir vikið alltaf jafnmikið á óvart. Titill bókarinnar skýrir þetta ágætlega og vísar í að flestir trúðu því að allir svanir væru hvítir, alveg þar til að fyrsti svarti svanurinn flaug framhjá og gerbreytti þar með hugmyndum okkar um svani.
Sama telur Taleb að eigi við um marga af þeim stórviðburðum sem orðið hafa undanfarin ár og áratugi, þeir hafa allir komið okkur í fullkomlega opna skjöldu og gerbreytt öllum okkar forsendum og þekkingu. Engu að síður freisti fólk þess aftur og aftur að reyna að útskýra heiminn með alhæfingum og kenningum, búa til orsakasamhengi og skýra og skilja það sem er að gerast þannig að úr verður mikil félagsvísinda- og samfélagskenningasmíð. Það sé allt gott og blessað fyrir utan að hvergi sé gert ráð fyrir hinu óþekkta og menn beinlínis telja sig ekki þurfa að reikna með því.
Skrif hans hafa vakið töluverða athygli enda fer hann gegn miklu af því sem telja má til almennra sanninda og viðtekinnar speki hverju sinni. Hann var meðal þeirra sem spáði fyrir um það fyrir nokkrum árum að hið alþjóðlega fjármálakerfi myndi fara á hliðina.
Þessi skrif eru athyglisverð í tengslum við atburði líðandi stundar. Heimsbyggðin er nú lent í mikilli niðursveiflu og kreppu eftir mörg góð ár á undan, þar sem lánsfé var nægt og markaðsbúskapurinn blómstraði. Þetta uppgangsskeið hefur auðvitað smitað út frá sér og skapað ákveðið andrúmsloft og sannfæringu hjá mörgum um að fundin hefði verið upp einhvers konar eilífðarvél – kerfi sem gæti gengið áfram og áfram og myndi aldrei bila. En þá gerðist hið óvænta og ófyrirséða, þ.e. að vantraust tók að grafa um sig í kerfinu, lánamarkaðir að lokast og alþjóðavætt fjármálakerfi heimsins tók að sogast inn í kreppu.
Eftir á er vitaskuld auðvelt að búa til allskonar skýringar og kenningar um ástæður þess að svo fór sem fór og það merkilega er að nú byggja menn sig upp gagnvart framtíðinni með því að horfa í fortíðina. Þannig eru nú að rísa múrar milli þjóða og eftirlitsapparöt að skjóta upp kollinum til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti tekið stundað áhættusamar fjárfestingar og spilað djarft í sínum rekstri. Allt eru þetta auðvitað eðlileg viðbrögð upp að vissu marki en spurningin er bara sú hvort að þetta sé ekki einskonar leiðrétting aftur á bak, þ.e. settur er upp viðbúnaður og stofnanir sem hefði verið ákaflega gagnlegt að hafa fyrir tveimur til þremur árum áður en allt fór á hliðina en munu kannski bjarga litlu sem engu núna þegar skaðinn er skeður.
Evrópusambandið er ekki undanskilið að þessu leyti og kynnti á dögunum skýrslu nefndar á vegum Jacques Delarosier. Hún gengur í stuttu máli út á að búa til ýmis konar stofnanir og viðbúnað til þess að sporna við því að samskonar ástand myndist og gerðist fyrir nokkrum misserum, þ.e. þar sem saman fór mikil áhættusækni fjármálafyrirtækja og veikt eftirlit. Þannig verður meðal annars sett á laggirnar eitthvað sem nefnist European Systemic Risk Council, sem útleggst á íslensku sem Evrópskt kerfisáhætturáð og á að fylgjast með því og láta þar til greinda aðila vita telji ráðið að áhættan sé farin að verða of mikil.
Angi af þessum hugmyndum teygði sig hingað heim um daginn og inn í íslenska pólitík þar sem viðskiptanefnd Alþingis tók þessa skýrslu til umfjöllunar. Mikið fár varð yfir því að nokkrir nefndarmanna vildu renna nánar yfir þetta plagg, sem ljóst er að mun móta þær reglubreytingar sem framundan eru í Evrópu og var einn nefndarmanna, Höskuldur Þórhallsson úr Framsóknarflokknum, tekinn sérstaklega út fyrir og því slegið upp sem stórmáli að hann hafi viljað taka nokkra daga í að yfirfara efni þessarar skýrslu. Höskuldur sat undir ýmis konar ásökunum og spurningum í einkaviðtali í Kastljósi um kvöldið og þetta virtist valda gríðarlegum titringi á stjórnarheimilinu.
Höskuldur stóð það stormvirði ágætlega af sér en var aftur á móti lentur í þeirri stöðu að verða að réttlæta öll lætin sem höfðu orðið út af þessari skýrslu. Hann virðist hafa litið svo á að þar sem hann hafi tekið á sig pólitískt högg fyrir þá ákvörðun að vilja fara yfir efni skýrslunnar í nokkra daga hafi hann orðið að vinna einhverjar tillögur og hugmyndir upp úr henni. Út úr því kom sú hugmynd hans að peningastefnunefnd Seðlabankans eigi að fá þá skyldu samkvæmt lögunum að tilkynna um það opinberlega ef hún telji að fjármálaleg áhætta sé farin að verða of mikil.
Þessi tillaga, sem var samþykkt á þingi, kemur inn sem fullkominn bútasaumur ofan í Seðlabankafrumvarpið sem hafði þó tekið einum 16 eða 17 breytingum fyrir. Peningastefnunefndin á nú að vera í þeirri stöðu að gefa einhvers konar almennar viðvaranir ef áhættan á mörkuðum er orðin of mikil. Við þetta er margt að athuga og kannski fyrst og fremst það að samkvæmt öllu öðru sem fram kemur í frumvarpinu um hlutverk þessarar nefndar hefur hún enga möguleika eða forsendur til að afla sér nægilegra upplýsinga um stöðuna á fjármálamörkuðum til að geta gefið út svona viðvaranir. Að því ógleymdu hvaða áhrif það hefði ef opinber tilkynning myndi birtast um að of mikil áhætta væri komin í fjármálakerfið – hér færi allt í panikk! Hin hliðin á peningnum er svo að ef svona yfirlýsing kemur ekki frá peningastefnunefndinni má væntanlega álykta sem svo að allt sé í lagi.
Þetta er allt hið furðulegasta mál og ágætis dæmi um hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni. Út í Evrópu er sett í gang nefnd til að móta tillögur um breytingar á reglum. Tillögurnar miða flestar við að setja upp viðbúnað sem hefði verið ákaflega gott að hafa fyrir nokkru síðan en veitir enga sérstaka tryggingu fyrir því að næsta óvænta og ófyrirséða atburðarrás muni ekki valda vandræðum og skaða. Þessar hugmyndir og tillögur evrópsku nefndarinnar smitast svo út um heiminn og enda hér heima þar sem þingmaður lendir í þeirri stöðu að neyðast til að vinna einhverjar tillögur upp úr skýrslunni og bæta inn í á síðustu stundu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli