Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um lánaviðmið sem sett verði bönkunum nýju. „Ríkisstjórnin mun setja nýju bönkunum útlánamarkmið vegna ársins 2009 til að örva hagkerfið.“
Þetta ákvæði hefur ekki vakið mikla athygli, enda lætur það ekki mikið yfir sér. Jóhanna og Steingrímur töluðu um það á þingi á dögunum að þetta yrði kynnt nánar fljótlega og bentu á að þetta væri hluti af því sem væri að gerast annars staðar í heiminum.
Það er rétt hjá þeim. En það er ekki endilega víst að þetta sé þróun sem er öllum að skapi. Víða í Evrópu hefur ríkisvaldið þurft að stíga inn í rekstur banka og veita til þeirra fé til að bjarga frá gjaldþroti. Eigið fé bankanna er því víða í reynd ríkisfé.
Þetta skapar auðvitað ráðríkum stjórnmálamönnum mikil sóknarfæri. Þetta er almannafé og þeir eru fulltrúar almennings. Það þýðir að kröfur eru farnar að koma fram um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, þ.e. þann sem er pólitískt réttur hverju sinni.
The Economist skrifar leiðara um þetta í síðustu viku og bendir á að í Evrópu séu þegar farnar að koma fram kröfur um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, t.d. til að tryggja að störfum sé haldið í heimalandinu og að lánað sé til ákveðinna fyrirtækja osfrv. Þetta er komið fram í Þýskalandi og í Frakklandi.
Þetta er auðvitað alger góssentíð fyrir stjórnmálamenn. Þeir geta sem eigendur bankanna birt þeim sínar áherslur og óskir um hvert fjármagnið eigi að fara, í hvaða gæluverkefni sé rétt að lána „björgunarféð“ sem var sett inn í bankana. Það verður gæfulegt, eða hitt þó heldur, ef menn munu fara með bankana sem pólitíska styrkjasjóði eða ofvaxnar Byggðastofnanir, lánandi vildarvinum í kjördæmunum. Það á að setja nærri 400 milljarða króna inn í þessar stofnanir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli