miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Langreyðastjórnin

Það verður fróðlegt að sjá hvað stendur eftir hjá nýju ríkisstjórninni þegar og ef þeim tekst að ljúka sínu helsta stefnumáli og eiginlegum grundvelli ríkisstjórnarsamstarfsins, þ.e. að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum.

Öllum er ljóst að framundan eru mikilvæg verkefni og eitt þeirra eru atvinnumálin. Stjórnin virkar einkar ósamstíga þar. Steingrímur J. hefur lýst því yfir að hann ætli að endurskoða reglugerð sjávarútvegsráðherra um veiðar á hrefnu og langreyði í atvinnuskyni en fyrir liggur að ekki er þingmeirihluti til þess. Þingflokkar sjálfstæðismanna, frjálslyndra og framsóknarmanna eru allir fylgjandi þessum veiðum sem er klár meirihluti, allt í allt 36 þingmenn auk Guðbjarts Hannessonar í Samfylkingunni, sem kemur þessi væntanlega upp í 37 þingmenn.

Yfirlýsing umhverfisráðherra um að endurnýja ekki viljayfirlýsingu stjórnvalda um álver á Bakka styðst heldur ekki þingmeirihluta. Hluti Samfylkingarinnar er á móti þessu, þ. á m. iðnaðarráðherrann sjálfur auk þess sem þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins styðja líka framkvæmdir á Bakka. Á það hefur verið bent að þetta mál sé ekki áríðandi á næstu vikum vegna þess að Alcoa sé í vandræðum með fjármögnun verkefnisins og það kann að vera rétt en aftur á móti mun þetta mál koma inn á borð nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum og þá þarf að taka varanlega ákvörðun um hvort framlengja eigi samstarfið við Alcoa. Núgildandi viljayfirlýsing rennur út í haust og fyrir þann tíma þarf að vera búið að taka ákvörðun um þetta.

Undanfarin ár hafa mál eins og álver og hvalveiðar ekki verið ofarlega á dagskrá í umræðunni vegna þess að við höfum ekki verið í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega á fleiri störfum að halda. Þegar atvinnuleysi er 1-2% þá þarf ekki að hafa stórar áhyggjur af því að skapa ný störf. Hagkerfið sér um það sjálft. Þegar yfir 13 þúsund manns eru komin á atvinnuleysisskrá hlýtur myndin að breytast - í það minnsta þannig að atvinnutækifæri eins og hvalveiðar og álver séu ekki slegin sjálfkrafa út af borðinu.

Engin ummæli: