Þann 13. desember sagði formaður Samfylkingarinnar í viðtali í Vikulokunum að ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki breyta um stefnu í Evrópumálum væri stjórnarsamstarfi flokkanna sjálfhætt. Samfylkingin vildi m.ö.o ekki tilheyra ríkisstjórn sem myndi ekki setja stefnuna á ESB-aðild.
Í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar segir eftirfarandi um ESB:
"Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Með öðrum orðum: hvað varð um Evrópuskilyrðin?
Tengist þessi augljósa eftirgjöf Samfylkingarinnar eitthvað þeirri staðreynd að ESB-aðild er ekki lengur vinsæl í könnunum?
Pawel Bartoszek skrifar góðan pistil um þennan flótta Samfylkingarinnar á Deiglunni um daginn sem heitir "Listin að fokka upp eigin málstað" og lýsir ágætlega hvernig stundarhagsmunir og taugaveiklun ollu því að Samfylkingin henti því tækifæri út um gluggann að þoka Íslandi inn í Evrópusambandið. Lokaorðin eru svona:
"Á nokkrum dögum í janúar fór Samfylkingin svo á taugum og sleit því samstarfi sem líklegast var til að leiða ESB-umsókn Íslands til lykta. Út frá sjónarhóli Evrópusambandssinna er staðan nú þessi: Í stað þess að hafa ríkisstjórn Samfylkingarinnar og evrópuhneigðs Sjálfstæðisflokks sjáum við fram á stjórn höfuðlausra krata og hins þjóðlega kommaflokks. Það sem meira er, við sjáum fram á kosningar með líklegri framrás hinna ESB-tortryggnu vinstri grænna og Sjálfstæðisflokki sem er mun minna opinn gagnvart ESB en ella hefði verið. Ekkert af þessu er ESB-aðild Íslands til framdráttar."
mánudagur, 2. febrúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Er það þá þannig að Sjálfstæðismenn geti eingöngu hugsað sér að taka upp ESB-jákvæða stefnu til þess að friða samstarfsflokk í ríkisstjórn? Er ESB-umræðan í flokknum sjálfdauð núna þegar hann er í stjórnarandstöðu?
Evrópusambandsmálið verður tekið fyrir á landsfundi flokksins í lok mars og ég geri ráð fyrir að menn muni gera upp hug sinn óháð því komi sér vel í skoðanakönnunum og vinsældapólitíkinni.
Skrifa ummæli