Vinstri grænir láta beygja sig í duftið í ESB-málinu, hver á fætur öðrum og flokksforystan virðist beita þingmenn þrýstingi ef þeir ætla ekki að dansa með línu forystunnar í málinu en svo skemmtilega vill til að flokkslínan og forystulínan eru ekki þær sömu. Flokkslínan er sú að berjast eigi gegn ESB en forystulínan er að það sé bannað að halda á lofti flokkslínunni í bili.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, hefur sagt frá því í fjölmiðlum og á þingi dag að hann hafi gjarnan viljað fá tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og hefði helst viljað vera á slíku máli sem flutningsmaður. Honum hafi hins vegar verið stillt upp við vegg í málinu og sagt við hann að ef hann færi á slíka tillögu jafngilti það stjórnarslitum!
Hann hafi því ákveðið að vera ekki á málinu og er raunar farinn í heyskap og mun ekki taka frekari þátt í umræðum á þingi um málið í bili.
Þetta eru falleg skilaboð flokksforystunnar til ungs fólks í stjórnmálum: Þið megið gjarnan koma í flokksstarfið og berjast með okkur í þeim hugsjónamálum sem við eigum sameiginleg… en þið verðið bara að vera klár á því að við munum þurfa að gefa allt slíkt eftir þegar við komumst til valda og þá verður mjög illa séð ef menn ætla að berjast fyrir sinni sannfæringu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði fyrir einu og hálfu ári á þingi í umræðum á þingi:
„Því skulum við ekki heldur gleyma, hv. þingmenn, að við erum ekki hér sjálfra okkar vegna, í okkar eigin umboði. Við erum fulltrúar kjósenda okkar og verkfæri þeirra á þessum stað. Þaðan sprettur valdið. Það kemur ekki innan úr brjóstum okkar sjálfra, ekki innan úr brjóstum ríkisstjórnar og ráðherra, ekki innan úr brjóstum forseta Alþingis eða meiri hlutans hverju sinni, heldur frá þjóðinni.“
Þessu fögru orð virðast hafa misst gildi sitt í dag og kominn er á agi í herbúðunum, það jafnvel þótt Vinstri grænir hafi sérstaklega samið um það að fá að vera á móti Evrópusambandsaðild í stjórnarsáttmálanum!
Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur að sama skapi þurft að snúa frá sannfæringu sinni í málinu. Um síðustu áramót skrifaði hann t.d. í athugasemd á þessari bloggsíðu eftirfarandi setningar:
„Það er bjargföst skoðun mín að Í RAUN hafi enginn stjórnmálaflokkur óskorað umboð til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið, þótt færa megi rök fyrir því að einfaldur meirihluti á Alþingi geti tekið slíka ákvörðun. Hún væri væntanlega lögleg en meiri spurning hvort það væri siðlegt. Þess vegna er það líka mín skoðun að það færi vel á því að spyrja þjóðina þeirrar almennu grundvallarspurningar hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki (þá yrði alltaf sá fyrirvari að viðunandi samningar næðust). Svari þjóðin þeirri grundvallarspurningu neitandi þarf ekki að eyða tíma og fjármunum í frekari viðræður eða athuganir á því máli, en svari þjóðin þeirri spurningu játandi, myndi íslensk stjórnvöld hefja viðræður við ESB um aðild og láta reyna á íslenska hagsmuni þannig. Síðan yrði samningsniðurstaða borin að nýju undir þjóðina og þá gæti hún sagt sitt álit. Með þessum hætti á þjóðin ekki bara síðasta orðið, hún ræður því líka hvort fyrsta skrefið verður tekið. Sumum finnst þetta óþarflega flókið og tímafrekt, en eigum við ekki alltaf að hafa tíma fyrir lýðræði? Myndi svona fyrirkomulag ekki bara styrkja lýðræðið? Ég tel svo vera.“
Í dag mælti Árni Þór fyrir áliti utanríkismálanefndar og sagði að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla væri óþörf þar sem meirihluti þjóðarinnar vildi fara í aðildarviðræður samkvæmt skoðanakönnun. Hann hefur því breytt um skoðun í málinu eftir að hann komst til valda, eitthvað sem er farin að verða ansi algengur merkimiði á þingmönnum Vinstri grænna um þessar mundir.
Og séu menn að horfa til skoðanakannanna hefur komið fram í nýlegri könnun að 76% þjóðarinnar vill að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég vek annars athygli á Deiglupistli sem ég birti í dag um þetta mál.
föstudagur, 10. júlí 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli