mánudagur, 13. júlí 2009

Sænski fundarstjórinn tekur völdin

Það er skemmtileg tilviljun að á þessu fallega sunnudagskvöldi virðist vel valinn hópur Evrópusinnaðra álitsgjafa hafa ákveðið að skrifa í einum kór að nú megi ekkert út af bregða á síðustu metrunum í Evrópuslagnum og það megi alls ekki fallast á tillögur um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

En af hverju liggur svona mikið á núna?

Rök ríkisstjórnarinnar í málinu eru einföld: Umsókn um aðild VERÐUR AÐ HAFA BORIST fyrir 14. júlí og það má ekkert standa í vegi fyrir því!

Ef það gengur ekki, er nefnilega ekki hægt að taka umsóknina fyrir á fundi utanríkisráðherra ESB síðar í mánuðinum.

Og af hverju er þetta svona mikilvægt?

Jú, svo að Svíar, sem leiða starf ESB um þessar mundir, geti unnið í okkar málum.

Sömu Svíarnir og krefjast þess að við staðfestum Icesave-samkomulagið í óbreyttri mynd.

Engu að síður er lagt ofurkapp á að umsókn Íslands verði í höndum Svía.

Það má eiginlega segja að þessi sænski fundarstjóri hafi tekið öll völd í íslensku samfélagi í dag.

Nauðhyggjan er vörn ríkisstjórnarinnar í flestum málum núna.

Það verður að staðfesta ESB-umsókn núna strax. Annars verður engin endurreisn.

Við verðum að samþykkja Icesave í óbreyttri mynd. Annars verður Ísland Kúba norðursins.

Þetta er auðvitað ekkert annað en ákveðin stjórnunarlist, að stilla þeim sem hafa aðrar hugmyndir upp við vegg og segja að ef ykkar leið verður ofan á þá fer allt í bál og brand.

Annars má rifja upp orð sem féllu í janúar um ESB-aðild og þó ýmislegt hafi breyst í landslagi stjórnmálamanna þá eiga þau ágætlega við í dag:

"Það ríkir neyðarástand í fjármálum Íslands. Evrópusambandið hefur enga skyndilausn á þessu. Það tekur okkur mörg ár að uppfylla skilyrði um upptöku evrunnar. Að manni læðist jafnvel sá grunur að Evrópusambandið sé jafnvel notað til að leiða umræðuna á Íslandi frá einhverju öðru. Að viss öfl kjósi að beina athyglinni að ESB til að fólkið fari ekki að hugsa um eitthvað sem er hættulegra fyrir ríkjandi valdhafa í stjórnmálum og fjármálalífi. Þetta finnst mér ég greina hjá stjórnmálaflokkum, í sumum fjölmiðlum og hjá áhrifamönnum í viðskiptalífinu."

Það er alveg ljóst að aðalgulrótin í hugum fólks varðandi Evrópusambandið er ennþá evran og vonin um að geta skipt út krónunni sem fyrst. Við erum hins vegar svo langt frá því að uppfylla Maastricht-skilyrðin að við ættum frekar að vera að tala um áratugi en ár þar til að við fáum evruna. Evrópusambandið mun ekkert gefa eftir hvað þetta varðar, enda verður það sama yfir okkur að ganga og aðrar þjóðir Evrópusambandsins. Lettar hafa t.d. verið látnir hanga í þessum skilyrðum í mörg ár, allt frá inngöngu 2004 og Seðlabanki Lettlands telur raunhæft að árið 2013 nái þjóðin að uppfylla skilyrðin fyrir því að fá evru.

Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að Evrópusambandið fer ekkert þótt sænski fundarstjórinn taki ekki fyrir umsókn Íslands í lok mánaðarins.

2 ummæli:

Unknown sagði...

ES fer ekki neitt, það er rétt hjá þér. Það hefur verið þarna ansi lengi og Ísland utan þess allt of lengi. Kannski að þessi stormur ESB sinnaðra bloggara komi upp núna vegna þess að þeir eygja í lok langrar baráttu.

Loksins lítur út fyrir að Alþingi ákveði að fara í aðildarviðræður við ESB. Sérstakt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki drifkrafturinn í þessu, en miðað við söguna þá kom hann víða við þegar Ísland fór inn í viðskiptabandalög sem og önnur.

Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra þegar Ísland gekk í EFTA, Davíð Oddson þegar Ísland gekk í EES og Ólafur Thors þegar Ísland gekk í NATO.

Furðulegt að flokkurinn ætli að verða eftirbátur í þetta sinn og þykjast vera á móti ESB aðild. Er einhver pæling í því?

EFTA var góð hugmynd, EES var góð hugmynd, NATO var góð hugmynd og ESB er góð hugmynd.

En enginn Sjálfstæðisflokkur.

Það liggur kannski ekki gríðarlega á, ef litið er á heildarmyndina á mjög pragmatískan hátt, en eins og ketill sem kominn er að suðupunkti þá vill þetta bresta á núna. Beðið var of lengi, hikað of lengi.

Núna er tíminn. Enda lifum við bara núna, ekki í gær og ekki á morgun.

Sigurlaug Anna sagði...

Fróðleiksmolar:

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins bls. 1 frá 1991, stendur m.a." Íslendingar eiga ekki fremur en aðrar Evrópuþjóðir að útiloka fyrirfram að til aðildar geti komið að Evrópubandalaginu."

Í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fra 1990: Arvet från Thingvellir er tilvitnun í Davíð Oddsson sem þá var borgarstjóri á bls. 69: "Enligt min mening blir emellertid var största politiska utmaning under de kommande åren hur vi bevakar våra egna intressen i en foränderlig värld; vi måsta anpassa oss till det faktum att merparten av vår handel sker på länderna i EG; jag har offentligen forespråkat att vi skall ansoka om medlemskap. Vårt mål måste vara en sund och växande ekonomi, en stabil valuta och en vital privat sektor."
Er þetta ekki bara málið ;-)