laugardagur, 16. ágúst 2008

Nýr meirihluti og atburðir síðustu daga og mánaða

Nýi meirihlutinn í borginni hefur eðlilega verið mál málanna síðustu daga. Staðan í borginni þetta síðasta ár hefur verið erfið og kjósendur eru fyrir löngu orðnir langþreyttir og pirraðir á þessu brölti. Það er ekki einasta tíð meirihlutaskipti sem standa upp úr heldur líka hitt að sífelld upphlaup hafa einkennt borgarstjórnina og það hefur verið sjaldgæft að sjá borgarstjórnina koma sameinaða fram um ákveðin mál.

REI-málið var upphafið að þessari atburðarrás. Þar voru gerð mistök með ónægum undirbúningi og ónægri sátt um jafnstórt og umdeilt mál. Við tók fjögurra flokka meirihluti undir forystu Dags B. Eggertssonar. Það er ekki auðvelt að sameina fjórar mismunandi skoðanir og sá meirihluti einkenndist af því. Flokkarnir fjórir gerðu ekki málefnasamning í þá 100 daga sem þau störfuðu saman og í sjálfu sér kom ekki mikið frá þeim á þessum tíma.

Í janúar sl. tók svo við meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks. Sá meirihluti galt fyrir það frá byrjun hve skammur aðdragandi var að myndun hans. Tilkoma hans hafði ekki legið í loftinu eða verið það sem fólk átti von á. Borgarfulltrúi með lítið fylgi í síðustu kosningum og enn minna í nýlegum könnunum fékk stól borgarstjóra og það var ljóst frá byrjun að það var á brattann að sækja. Atburðirnir í febrúar, þegar þáverandi oddviti sjálfstæðismanna fékk á sig mikla gagnrýni fyrir ummæli sín um ráðgjöf borgarlögmanns auðvelduðu ekki róðurinn. Ennfremur kom fljótlega á daginn að stjórnunarstíll borgarstjóra var með þeim hætti að erfitt var að ná málamiðlunum eða leiða tiltölulega einföld mál til lykta. Í könnun eftir könnun á þessum 7 mánuðum sem meirihlutinn starfaði var stuðningur við borgarstjóra og framboð hans á bilinu 1-3%, sem er auðvitað langt frá því að vera nægilegt fyrir leiðtoga borgarinnar. Þessi staða var auðvitað líka farin að hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Þetta gerði það ekki síst að verkum að kastljós og fókus fjölmiðla beindist fyrst og fremst að persónum og leikendum en ekki þeim mörgu ágætu málum sem unnið hafði verið að, s.s. 16 milljarða afgangi í rekstri borgarinnar og uppbyggingu í öldrunar- og leikskólamálum svo eitthvað sé nefnt.

Eftir að Hanna Birna tók við sem oddviti í borgarstjórnarflokknum má því segja að hún hafi staðið frammi fyrir tveimur erfiðum kostum. Annars vegar að halda áfram í erfiðu samstarfi eða þá að mynda nýjan meirihluta í enn eitt skiptið á kjörtímabilinu. Það verður einnig að taka með inn í myndina að aðrir samstarfskostir í borginni virðast ekki hafa verið í boði, fyrir utan þann kost að Tjarnarkvartettinn kynni að taka saman aftur þótt fulltrúi Framsóknarflokksins hafi ekki haft hug á því þegar á hólminn var komið.

Það er því hvorki blekking né fyrirsláttur þegar talað er um að þessi kostur í samstarfinu hafi verið sá eini sem kom til greina. Við bætist að fyrstu 16 mánuði kjörtímabilsins hafði samstarf þessara tveggja flokka verið farsælt og svo ætti að geta orðið á ný það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Borgin þarf á stöðugleika og festu að halda út kjörtímabilið og Hanna Birna er vel til þess fallin að tryggja það.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bullið og vitleysan verða ekkert minni þó þú búir þessu fallegan búning í lærðri grein.

"Borgin þarf á stöðugleika og festu að halda út kjörtímabilið..." segir þú. Bíddu þurfti borgin ekki á stöðugleika og festu að halda í janúar þegar þið í óhóflegri valdagræðgi sem á varla sinn líka sprengduð meirihlutann?

Það er alveg sama hvernig þú fegrar þetta valdagræðgi ykkar sjálfstæðismanna er lýðnum ljós og engum öðrum er að kenna um hvernig staðan er í borginni. Þið gátuð ekki sætt ykkur við að fyrsti meirihlutinn sprakk og beittuð því ógeðfelldum aðferðum til að komast aftur til valda - og því fór sem fór.

Nafnlaus sagði...

Óskar er ekkert með meira fylgi en Ólafur - af hverju er það nægjanlegt til að hann hljóti eitt áhrifamesta embætti borgarinnar?

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðismenn skrifuðu upp á málefnasamning við Ólaf F sem þeir voru svo ekki tilbúnir að fylgja. Svo einfalt er það. Þetta bréfsnifsi sem þeir kölluðu málefnasamning var því einskis vert plagg.

Nafnlaus sagði...

'Klækjastjórnmál' eru kjánalegt orð. Öll alvöru stjórnmál eru 'intelligent'. Lykilorðið er orðið: Traust.

Nafnlaus sagði...

Sæll aftur Árni

Nú ertu að koma til, bæði málefnalegri og hlutlægari í mati þínu á atburðarrásinni í RVk.

Ef Þú heldur áfram að reyna að taka af þér PR gleraugu fyrir X-D í hvert skipti sem þú bloggar hér á Eyjunni þá ertu þú kominn til að vera LESINN og á þig hlustað, annars ekki.

Gott mál.

Gangi þér vel.

Nafnlaus sagði...

Bíddu, á Árni að þurfa að bera þyngri byrðar hér á Eyjunni en aðrir bloggarar, bara afþví hann er sjálfstæðismaður?

Fær hann ekki að segja sína skoðun hreina og tæra eins og aðrir?

Hvað með Andrés Jónsson, Guðrúnu Birnu, Oddnýju Sturludóttur, Össur Skarphéðinsson, svo einhverjir séu nefndir.

Nema þetta fólk hafi fengið sömu leiðbeiningar.

Egill Helgason segir skoðun sína umbúðalaust.

Skoðun er ekki PR. Sannfæring er ekki PR. Góð og sterk rök eru ekki PR.

Hitt er svo annað mál að skynsemin velur XD.

Ég hef t.d. mjög einfaldan smekk. Ég vel aðeins það besta: XD.

;)