Þetta Eyjublogg verður þriðja stoppið á frekar stuttri bloggævi Ég var fyrst á Blogspot og svo á Moggablogginu en nú er ég kominn hingað.
Stundum hef ég velt því fyrir mér hvað verði um allt þetta flóð af ritmáli sem sett er á Netið. Væntanlega er þetta allt saman til í einhverjum gagnagrunnum og risatölvum en fæstir hugsa um að flokka eða halda upp á eigin skrif. Fólk skiptir um bloggsíður reglulega og margt af því sem skrifað hefur verið hverfur yfir einhvers konar rafræna móðu.
Einstaka menn halda þó nákvæmar skrár yfir það sem þeir hafa sagt á prenti eða vefnum langt aftur. Dagbækur, greinar og ræður Björns Bjarnasonar eru aðgengilegar á vefnum aftur til 1995 og Jónas Kristjánsson, ritstjóri, hefur sett inn allt það sem hann hefur skrifað, þ.e. leiðara, gagnrýni, pistla og fleira, allt aftur til ársins 1973. Jónas bloggar af mikilli elju í dag og lýsti því t.d. yfir um daginn að hann teldi það heilbrigt að skipta um skoðun á nokkurra ára fresti. Því er stundum lýst sem mikilli höfuðsynd hér á landi í umræðum og skrifum að hafa skipt um skoðun. En það gerist auðvitað stundum. Kannski væri réttara að lýsa þessu þannig að með tímanum fái önnur sjónarmið meira vægi, þó gömlu sjónarmiðin séu ekki endilega röng.Ég fann á vefnum hjá Jónasi leiðara sem hann skrifaði í DV um þær mundir sem Ísland var að velta fyrir sér EES-samningnum, í október 1991:
„Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.“
Í desember sama ár skrifar hann:
„Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag. Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.“
Aftur á móti skrifar Jónas fyrir nokkrum dögum, í júlí 2008, að aðild að Evrópusambandinu sé stóri draumurinn.
„Þá verðum við komin með lága vexti, traustan gjaldmiðil og nánast enga verðbólgu.“
Ég er sammála báðum. Þetta eru annars vegar hugmyndir um að við Íslendingar verðum að gæta þess að hverfa ekki inn í evrópska stjórnkerfið og hins vegar krafa um aðgang að stærra myntsvæði. Þetta þarf ekki að útiloka hvort annað. Við gætum farið fram á samstarf við ESB um gjaldmiðilinn, sem gæti t.d. falist í að tengja gengi krónunnar við evruna, ef menn vilja gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi peningamála.
Sumir halda því fram að svona samkomulag gæti aldrei orðið og að engum detti í hug að reyna að byggja á EES-samningnum. Atli Harðarson vísar á bloggsíðu sinni í athyglisverða könnun frá Bretlandi þar sem einmitt hið gagnstæða kemur fram, þ.e. að meirihluti Breta hafi áhuga á Evrópusambandi sem byggðist fyrst og fremst á viðskiptum og samvinnu. Það er einmitt grundvallarhugsunin í EES.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli