þriðjudagur, 1. september 2009

Fleygt út af Facebook

"Account Disabled

Your account has been disabled. If you have any questions or concerns, you can visit our FAQ page here."

Þessi skilaboð birtust seint í gærkvöldi þegar ég ætlaði að skrá mig inn á Facebook.

Aðgangurinn minn þar hefur greinilega verið eyðilagður, ég kemst ekki með neinu móti inn á síðuna mína og þegar vinir mínir slá mér upp þá kemur engin síða. Á síðunni hjá kærustunni minni er hún ekki lengur skráð í sambandi við mig osfrv. Það er eins og ég hafi gufað upp af Facebook!

Áður en þetta gerist fæ ég engar viðvaranir eða skilaboð um að slíkt kunni að vera í vændum, heldur er aðgangurinn minn einfaldlega eyðilagður.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig á þessu stendur. Mér skilst þó að það þurfi ekki meira til en að einhverjir örfáir taki sig til og smelli á hnapp á viðkomandi síðu sem heitir "report" til þess að manni sé hent út og síðunni eytt. Það er ekkert útskýrt hvaða reglur maður á að hafa brotið eða hver hafi metið það sem svo að slíkt brot hafi átt sér stað, heldur er manni einfaldlega sparkað út. Ég hef heyrt um nokkur svipuð dæmi hjá fólki þar sem aðganginum var skyndilega eytt og það eina sem var í boði var að senda tölvupóst á staðlað netfang hjá Facebook sem er svarað seint og síðar meir.

Maður hefur vanið sig á að nota Facebook mikið, þarna fara fram samskipti við vini og kunningja sem maður hefur safnað yfir langan tíma, þarna er yfirlit um viðburði sem eru framundan, þarna eru allskonar myndir og minningar og þarna skiptist maður á skilaboðum og athugasemdum við fólk. Í ofanálag þá er ég sjálfur í miðri kosningabaráttu þessa dagana og nota síðuna því töluvert mikið núna þannig að það er með ólíkindum að lenda í þessu á nákvæmlega á þessum tímapunkti.

Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, þetta ósanngjarna og óréttláta kerfi hjá Facebook, þar sem notendum er hent út án nokkurs fyrirvara og aðganginum eytt, eða að einhverjir nýti sér þennan galla í kerfinu og geri sér það að leik að senda inn kærur til þess að láta henda fólki út. Ég tek fram að ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta hefur gerst eða hver hafi staðið á bak við það en ég ætla þó að reyna að komast að því.

Ég verð því lítt sýnilegur á Facebook næstu dagana - enda svo sem í nógu að snúast í kosningabaráttunni fyrir Heimdall!

3 ummæli:

Sverrir sagði...

þið íhaldsmenn eruð ykkur sjálfum verstir! Þú átt samt alla mína samúð vegna þessa leiðindamáls, þetta er örugglega fremur óþægileg tilfinning.

Unknown sagði...

Það er kannski ágætt að það komi fram í þessari umræðu að Facebook aðgangi Davíðs Þorlákssonar var einnig lokað.

bestu kveðjur,
Ólafur Örn Nielsen

Unknown sagði...

Kannski varstu að reyna að "adda" of mörgum vinum í einu út af framboðinu? Þetta má ekki. Það er limit á "friend requests" og ef það er farið yfir það þá fer fésbókin í fýlu.