Það er óhætt að segja að síðustu vikurnar hafi verið afdrifaríkar. Það eru reyndar svo margir búnir að nota svo sterk lýsingarorð um stöðuna að maður leggur eiginlega ekki inn á það svið – það er búið að þurrausa allar líkingar frá björgunar- og slökkvistörfum, siglingum og róðri og þar fram eftir götunum. Allir eru á sama báti er t.d. kunnuglegur frasi frá síðustu vikum - ég rakst á málshátt um daginn sem segir að þegar stjórnmálamennirnir eru farnir að tala um að það séu allir á sama báti, skulirðu vara þig, því það þýði að þú þurfir að fara að róa! Þannig er stöðunni þó ágætlega lýst því þetta ástand kemur við okkur öll.
Eitt af því sem ég hef fengið á tilfinninguna eftir að bankarnir fóru á hliðina er hve margir hafa lagt sig fram við að kynna hugmyndir og tillögur um framtíðina. Fólk í háskólasamfélaginu, atvinnulífinu og hvaðanæva að hefur lagt höfuðið í bleyti og hugmyndirnar bókstaflega streyma fram. Þjóðin lagðist í hugmyndavinnu sem sýnir að þrátt fyrir mikla reiði og óánægju vill fólk líta fram á veginn og leggja sitt að mörkum til þess að við getum komist á lappirnar aftur.
Peningamálastefnan lykilatriði
Ég er þeirrar skoðunar að nánast allar þær hugmyndir sem lagðar eru fram muni fyrr eða síðar standa frammi fyrir spurningunni um peningamálastefnuna til framtíðar. Hún er eins konar rauður þráður í gegnum þetta allt saman og varðar það umhverfi sem fyrirtæki og atvinnulíf hér á landi eiga að búa við til framtíðar. Enginn deilir um að núverandi fyrirkomulag hefur ekki gengið upp.
Eins og ég skil umræðuna núna eru einkum þrjár hugmyndir á sveimi um fyrirkomulag gjaldmiðlamála:
1) Halda í krónuna. Þessi hugmynd á sér ekki marga stuðningsmenn en þau rök sem standa á bak við þessa leið eru að þegar krónan fer á flot og réttir úr kútnum eftir einhverjar vikur og mánuði, m.a. vegna jákvæðs vöruskiptajöfnuðar og mikils útflutnings (svo ekki sé minnst á ef við finnum olíu) þá muni tiltrú manna á krónuna aukast jafnt og þétt enda risavaxnar skuldir íslensku bankanna ekki lengur að sliga þjóðarbúið.
2) Taka einhliða upp aðra mynt. Það er ekki heldur hægt að segja að margir séu á bak við þessa hugmynd en hún gengur út á að allavega til skamms tíma væri okkur betur borgið með því að skipta hreinlega út krónunni og taka einhliða upp annan gjaldmiðil, t.d. dollar, eins og dæmi eru um. Þetta er tæknilega ekki mjög erfitt og í grein í Fréttablaðinu fyrir nokkru síðan bentu tveir hagfræðingar, þeir Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson, á að þessi leið væri ekki lakari kostur en að setja krónuna á flot og eyða miklum fjármunum í að styrkja hana í kjölfarið.
3) Taka upp evru með inngöngu í ESB. Þetta er sú leið sem flestir horfa til enda yrðum við þá formlega hluti af evrópska myntsamstarfinu og fengjum stöðugan gjaldmiðil sem m.a. myndi auðvelda alla erlenda fjárfestingu hér á landi og gera okkur aðila að peningamálastefnu evrópska seðlabankans. Til þess þyrftum við að ganga í ESB og ná að uppfylla Maastricht-skilyrðin um verðlag, vexti, gengisstöðugleika og fara ekki yfir ákveðin mörk í skuldum ríkissjóðs og halla á fjárlögum. Þar að auki yrði að gera ákveðnar breytingar hér heima fyrir, t.d. með stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild osfrv.
Erlend fjárfesting og möguleikar íslenskra fyrirtækja
Vandamálið við fyrsta möguleikann, að halda íslensku krónunni, er að ofan á þann vanda sem fyrir var vegna smæðar og óstöðugleika krónunnar, sem eins smæsta gjaldmiðils í heimi, hefur hún laskast mjög verulega á atburðum síðustu vikna. Það er allra hagur að vel takist til við að koma henni á flot á næstunni og lykilatriði til að ná niður verðbólgu hér heima. En sé litið lengra fram á veginn er erfitt að sjá fyrir sér hvernig t.d. erlend fjárfesting til landsins getur komið með óbreyttum gjaldmiðli og hversu trúverðugir og aðlaðandi kostir fyrirtæki sem fjármagna sig í íslensku krónunni munu þykja á erlendum vettvangi.
Annar möguleikinn, einhliða upptaka annars gjaldmiðils, er afar óvenjuleg og sjaldgæf leið í myntmálum. Hún hefur þann stóra ókost að við hefðum ekki neina stjórn á gjaldmiðlinum, gætum t.d. ekki prentað peninga ef á þyrfti að halda. Það gerir það að verkum að tiltrú manna á bankakerfið hér heima yrði ekki mikil - íslensk stjórnvöld gætu t.d. ekki sett inn peninga í kerfið ef áhlaup yrði á bankakerfið. Það myndi sjálfkrafa grafa mjög undan trúverðugleika allrar banka- og fjármálastarfsemi hér á landi. Í raun má segja að gallinn við einhliða upptöku sé einfaldlega sá að það er enginn bakhjarl á bak við slíkt kerfi enda þyrftu stjórnvöld að kaupa erlendan gjaldeyri og setja í umferð.
Myntsamstarf ESB - meiri kostir en gallar
Þriðja leiðin - að ganga í ESB og fá þannig evru - er illskást til þess að ná því nauðsynlega markmiði að fá nýjan gjaldmiðil. Það þýðir aftur á móti að við förum inn í mjög stórt myntsvæði þar sem við þurfum að hlýta ákvörðunum um stýrivexti sem ekki taka sérstaklega mið af aðstæðum hér á landi og við gætum hæglega lent í þeirri aðstöðu að vera á skjön við hagsveifluna annars staðar í Evrópu. En aftur á móti er það orðið fullreynt að halda úti eigin stýrivöxtum hér heima - reynsla síðustu ára sýnir að þegar stýrivextir voru hækkaðir til að mæta þenslu innanlands þá laðaði sú hækkun að erlent fjármagn til landsins og í stað þess að draga úr fjármagni í umferð jókst það í reynd. Háir stýrivextir Seðlabankans voru því farnir að vera þensluvaldandi í sjálfu sér. Kostirnir af því að ganga inn í myntsamstarfið í ESB eru því klárlega meiri en gallarnir, þó þeir séu vissulega fyrir hendi.
Þurfum að sjá hvað ESB býður upp á
Til þess að fá inngöngu í þetta myntsamstarf þarf Ísland aftur á móti að ganga í ESB - hugmyndum um tvíhliða myntsamstarf var því miður hafnað af hálfu embættismanna Evrópusambandsins í sumar og haust. Við inngöngu þyrfti Ísland m.a. að gangast undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins og taka fullan þátt í hinum pólitíska samruna sem Evrópusambandið gengur í raun út á. Sömuleiðis yrðum við að afsala okkur umboði til að gera tvíhliða samninga við aðrar þjóðir, t.d. varðandi hlutdeild okkar í flökkustofnum í kringum Ísland og fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir. Allt eru þetta neikvæðar hliðar á inngöngu en þó stendur eftir spurningin hvort þær séu óásættanlegar? Svo þarf ekki að vera og úr því sem komið er væri ráð að sjá hver niðurstaðan úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði. Það er vel þekkt að slíkum samningum getur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef niðurstaðan er ekki þjóðinni að skapi.
Þessar spurningar og vangaveltur verða væntanlega áberandi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúarlok og ekkert nema gott um það að segja. Á landsfundi eiga sæti fulltrúar sem mynda þverskurð úr samfélaginu, frá bæði landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og frá ótal greinum atvinnulífsins, og þar verður farið í gegnum þau sjónarmið sem huga þarf að, bæði kosti og galla. Aðalatriðið við Evrópusambandið og aðild Íslands að því er hvort sú aðild gagnist þjóðinni og á þeim grundvelli þarf að nálgast þá spurningu.
föstudagur, 28. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Gott yfirlit hjá þér með stöðu okkar núna og möguleika í peningamálum. Sjálfur held ég að okkur sé best borgið innan ESB og hugsa að kostirnir séu fleiri en gallarnir. Ég sé bara ekki hvernig fyrstu tveir valkostirnir ættu að geta gengið upp.
Einna helst hefur þó verið rætt um ókosti ESB vegna sjávarútvegsstefnu þeirra. Mæli með þessu hér sem andsvari við því: http://loeve.blog.is/blog/loeve/entry/723385/
Hefur þú sjálfur tekið afstöðu gagnvart ESB?
Hér hefur þú listað upp kostina við það að taka upp evru (sem við þurfum að venja okkur á að heitir EURO) en ekki ókostina við það að ganga í Evrópusambandið.
Eini þátturinn sem þú minnist á að sé neikvæður er samningstaða okkar gagnvart flökkustofnum. Ég er ekki alveg viss um að fólk geri sér grein fyrir hvað flöktustofnar eru, hér er því stuttur listi yfir þá sem ég man eftir í fljótu bragði:
Úthafskarfi
Loðna
Norsk Íslensk Síld
Kolmuni
Makríll
Þorskkvóti í Barentshafi
Án þess að ég hafi reiknað það í smáatriðum þá giska ég á að útflutningsverðmæti afurða úr þessum stofnum sé 30 milljarðar og hefur í gegnum tíðina verið mun meiri. Ef við missum 30% af þessum veiðiheimildum þá er viðskiptajöfnuður síðastliðins október farinn fyrir lítið.
Þetta er einn ókostur við Sambandið og þeir eru margir fleiri. Við tveir eigum þó eftir að rökræða þetta í lok janúar.
Skrifa ummæli