Því er haldið fram að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt um langt árabil. Þetta er ekki rétt. Stjórnarskráin er þannig að þegar samþykktar hafa verið breytingar á henni skal boða til kosninga og staðfesti nýtt þing breytingarnar telst stjórnarskránni hafa verið breytt. Í þessu felst að kosningar verða að fara fram til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá.
Í þremur af síðustu fimm kosningum sem haldnar hafa verið var stjórnarskránni breytt í kjölfarið, þ.e. 1991, 1995 og 1999 en ekki 2003 og 2007. Þeas. í þremur af fimm tilfellum hefur þingið nýtt tækifærið og breytt stjórnarskránni. Þetta kalla menn að hafa ekki breytt stjórnarskránni um langt árabil. Til samanburðar má nefna að stjórnarskránni var síðast breytt í Danmörku árið 1953. Samt hafa Danir það nú ágætt!
Í dag hófust á ný umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnarskránna. Eins og allir gátu séð fyrir spila stjórnarliðarnir út því spili að stjórnarandstaðan sé að beita málþófi. Aðalatriði málsins er hins vegar að ríkisstjórnin kýs að rjúfa friðinn um stjórnarskránna og keyra í gegn breytingar gegn vilja 26 þingmanna af 63. Jóhanna Sigurðardóttir staðfesti það beinlínis í dag á þingi að hún myndi verða fyrsti forsætisráðherrann í 50 ár til þess að standa fyrir breytingum á stjórnarskrá án þess að allir flokkar væru sáttir við þær breytingar.
Alþingi tók nokkuð stífa stjórnarskrárumræðu árið 2007 þegar kynnt var frumvarp um breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrár. Þá voru nokkrir af núverandi ráðherrum í stjórnarandstöðu og beittu sér í málinu. Það er athyglisvert að rifja upp ummæli þeirra úr umræðunni þá þegar þeir halda því nú fram hver af öðrum að krafa um lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni sé ekkert annað en málþóf og tafir.
Rifjum upp ummælin:
Ögmundur Jónasson
„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“
Össur Skarphéðinsson
„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“
Kolbrún Halldórsdóttir
„Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.“
Steingrímur J. Sigfússon
„En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“
Aðrir ráðherrar voru ýmist ekki á þingi árið 2007 (Gylfi, Ragna og Katrín) eða tjáðu sig ekki um málið (Jóhanna, Kristján og Ásta Ragnheiður).
Sinnaskipti ríkisstjórnarinnar frá því sem áður var eru sem sagt alger.
föstudagur, 3. apríl 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Erfitt að komast fram hjá þessu. :) Þeirra eigin orð.
Spurning að þú flettir samt um leið upp ekki mikið eldri ummælum ráðherra D og B um málþófsæfingar stjórnarandstöðunar.
Á móti þessum orðum hljóta þá að hafa fallið einhver orð sjálfstæðismanna um að það væri í himnalagi að breyta stjórnarskránni.
Það er kannski akkúrat útaf þessu sem þjóðin ber svo lítið traust til sjtórnmálamanna og alþingis - þar haga menn sínum málflutning bara eftir því sem þeim hentar. Mikill meirihluti Þessarar sömu þjóðar óskar eftir að fá aukið aðgengi að stjórnárskrárbreytingum í gegnum stjórnlagaþing og þjóðaratkvæði.
Ég get ekki betur séð en að það sé akkúrat það sem núv stjórn er að reyna að koma á móts við með stjórnarskrárbreytingum á sama tíma og sjálfstæðismenn berjast á móti.
Hrafnkell
Hvað akkurat er það sem gerir þá sem kosnir eru á stjórnalagaþing að meiri fulltrúum þjóðarinnar en þá sem kosnir eru í Alþingiskosningum?
Í raun ekki neitt utan að sá hópur væri ekki að fjalla um sitt starfsumhverfi.
Það hefur greinilega flækst fyrir þingmönnum hingað til að breyta sjálfir því valdakerfi sem þeir sitja í. Þeim þeim ekki tekist að gera neinar gagngerar breytingar utan það sem snýr að kosningum, ef mannréttindakaflinn er undanskilinn.
Það er mun heilbrigðara að fólk sem ekki er beintengt umfjöllunarefninu og er ekki að verja eigin völd gangi í það brýna verkefni að endurgera stjórnarskránna. Þjóðin sjálf mun svo eiga lokaorðið með atkvæðagreiðslu.
Rök um að þetta sé of seinlegt og dýrt duga bara ekki - takið saman tímann og kostnaðinn sem hefur farið í stjórnarskrárnefndir á Alþingi án þess að skila nokkrum sköpuðum hlut nema jú samstöðu þingmanna að breyta engu.
Andrés: Já - eflaust er eitthvað slíkt. Ég eftirlæt þér nú kannski vinnuna við að grafa þau ummæli upp...
Aðalatriðið með breytingarnar 2007 er hins vegar að þær urðu ekki að lögum. Menn bökkuðu með það og vildu taka til nánari skoðunar. Þannig á að leysa þetta stjórnarskrármál núna - breytum 79. gr. (þ.e. hvernig stjórnarskránni er breytt) og þá getur þingið haldið áfram með þær breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili.
Hvað sögðu ráðherrarnir árið 2007?
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því herrans ári 2007. Eðlilegt er að kveði við annan tón nú árið 2009. Breyttar aðstæður kalla á breytta nálgun.
Þegar áföll dynja yfir gefst gott tækifæri til breytinga. Þetta tækifæri þarf að nýta! Með töfum, frestunaráráttu og ákvarðanafælni gæti það runnið okkur úr greipum.
Það er alveg rétt Maggi að nú þarf að gera ákveðnar breytingar til þess að koma okkur út úr þessum erfiðleikum. En stjórnarskráin er einmitt það plagg sem við ættum að forðast að breyta eftir því hvernig vindarnir blása.
Staða efnahagsmála er ekki með þeim hætti að skipt hafi um vindátt. Um er að ræða algjört hrun! Endurskoðun og breytingar á stjórnarskrá eru vel við hæfi á slíkum tímum. Ef ekki nú hvenær þá?
Aukinheldur eru þær hugmyndir sem fram koma í frumvarpi til breytinga á stjórnarskrá ekki nýjar af nálinni. Menn hafa til að mynda lengi talað um að binda það í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé þjóðareign.
Í því andrúmslofti sem einkennir samfélag okkar í kjölfar hruns er almennur vilji hjá þjóðinni til róttækra breytinga. Núna er tækifærið! Það er ekki eftir neinu að bíða...
Skrifa ummæli