Ekki svo að skilja að þessi texti hefði ekki gott af því að vera endurskrifaður. Fyrsta setningin er til að mynda athyglisverð:
„Tillaga um aðildarumsókn til ESB er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir.“
Við sem sagt sækjum ekki um aðild að ESB af neinni sérstakri ástæðu annarri? Ekki af því að aðild myndi færa okkur eitthvað sem við viljum?
Neðar segir svo:
„Stjórnvöld áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.“
Hvað þýðir þetta?
Munu ráðherrar og ríkisstjórnin þá skrifa undir samninginn út í Brussel en koma svo heim og berjast gegn honum? Verður skrifað undir aðildarsamning með þeim fyrirvara að þeim sem skrifi undir kunni að finnast samningurinn alveg glataður?
Þetta er nú ekki beint sannfærandi og ég efast um að kommisarnir í Brussel hafi mikið umburðarlyndi fyrir því að viðsemjendurnir muni eftir 18 mánaða samningaferli fara heim og tala gegn samningnum. Fjölmiðlar hljóta að spyrja ESB-sérfræðinga þjóðarinnar út í þetta atriði.
Í greinargerðinni eru svo talin upp einhvers konar drög að samningsmarkmiðum. Þar segir m.a.:
- Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
- Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis
Þetta er allt saman í hálfgerðu skötulíki og umboðið sem þingið er að veita er rýrt í roðinu. Miklu sterkara væri að leita til þjóðarinnar með þetta mál og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að ESB eða ekki. Umboð frá þjóðinni er sterkara heldur en umboð sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar skrifa sjálfir og gæta þess vitaskuld þar af leiðandi að hafa umboðið nógu opið og teygjanlegt til að það segi ekki neitt í raun. Þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram í lok sumars, t.d. í ágúst og ef þjóðin veitir þetta umboð þá væri hægt að hefja viðræður í september. Sumarþingið gæti þá farið í að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna og septemberþinginu gæti verið varið í að undirbúa viðræðurnar, markmið og annað í þeim dúr.
Þetta væri lýðræðisleg og opin leið, gegnsærri og skýrari en trúnaðarfundir um moðsuðutexta sem er opinn í alla enda og enginn skilur almennilega.
Einhverjir halda því eflaust fram að tvöföld atkvæðagreiðsla sé til að tefja fyrir málinu. Svo er þó ekki, þar sem atkvæðagreiðslan gæti farið fram í lok sumars. Því er ennfremur haldið fram að slík atkvæðagreiðsla myndi ekki snúast um neitt en hvernig er hægt að halda því fram? Þetta snýst um mjög stóra grundvallarspurningu, þ.e. hvort við viljum sækja um aðild. Það er mikill misskilningur þegar ríkisstjórnin setur málið þannig fram að umsókn sé góður kostur til þess eins að fá málið út úr heiminum. Umsókn þjóðar að ESB er umsókn, vilji til þess að fara í viðræður með það í huga að ganga inn.
Loks verður því örugglega haldið fram líka að þessi leið „fríi“ þingmenn frá því að taka afstöðu í málinu. Það er ekki rétt. Þingmenn munu beita sér í atkvæðagreiðslunni og hafa til þess nóg svigrúm og fjölmiðlar munu eflaust sækja svör frá þeim sem halda sig til hlés. Munurinn er bara sá að þjóðin getur beitt sér líka.
Spurningin liggur skýrt fyrir og allir hafa möguleika á að taka þátt og beita sér, ekki bara formenn flokkanna á lokuðum trúnaðarfundum.
3 ummæli:
En hvað finnst þér sjálfum? Heiðarlegt svar?
Viltu fara í aðildarviðræður?
Andrés, ég hélt að þú sem einn minn dyggasti lesandi, myndir muna eftir því sem ég skrifaði um ESB í vetur, t.d. hér: http://arnihelga.eyjan.is/2009_01_01_archive.html
Það stendur allt saman enn þá.
Má ég þá spyrja þig til baka hvernig þér lítist á að spyrja þjóðina um aðildarumsókn?
Skrifa ummæli