Egill Helgason tekur í sama streng á vef sínum.
Það þarf mikinn vilja til þess að snúa svona út úr málinu en hann þarf svo sem ekki að koma á óvart. Hér er um að ræða einhliða ákvörðun um endurgreiðslu á styrk, sem hvorugt félagið gerir kröfu um að fá greidda til baka. Að líkja þessu við endurgreiðslu á láni, t.d. húsnæðisláni, er auðvitað algerlega óréttmætt. Vextir og verðbætur eru til þess að tryggja verðgildi þeirrar fjárhæðar sem er lánuð en þar sem engin fjárhæð var lánuð í þessu tilfelli og engin krafa er gerð um endurgreiðslu er varla um það að ræða að tryggja verðgildi fjárhæðarinnar.
Endurgreiðsla þessara styrkja byggir einfaldlega á því mati að rangt hafi verið að taka við styrkjunum á sínum tíma og til að sýna fram á að þessi ákvörðun hafi verið röng er ákveðið að endurgreiða styrkina. Það er erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að greiða út slíka fjárhæð og slík greiðsla væri líka erfið fyrir aðra flokka en með því er sýnt í verki að menn telja að það hafi verið rangt að taka við þessum fjármunum.
Á sama tíma og fjölmiðlar landsins velta þessu fyrir sér virðist það vekja afar litla athygli að Samfylkingin þáði styrki upp á 25 milljónir króna frá félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2006, 16 milljónir frá félögum tengdum Björgólfsfegðum og 10 milljónir frá Kaupþingi. Það fjölmiðlafár sem varð við sambærilegar fréttir af styrkveitingum til Sjálfstæðisflokksins virkar broslegt við hliðina á þeirri þægindameðferð sem þetta mál fær hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum landsins.
Ég man eftir nokkrum ummælum úr fréttaflutningi frá þeim tíma og væri fróðlegt að vita hvort væru í gildi núna:
- Hvað finnst Gunnari Helga Kristinssyni stjórnmálafræðiprófessor um þetta mál? Þegar málið stóð sem hæst þá var hann daglegur umsagnaraðili í fréttum Rúv og gaf svör um hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið nógu langt með einhverjum tilteknum aðgerðum til að sýna iðrun og betrumbót í málinu
- Telur Svanur Kristjánsson annar stjórnmálafræðiprófessor mikilvægt að fram fari húsleit á skrifstofum Samfylkingarinnar? Hann kom fram á Speglinum á sínum tíma og taldi augljóst að gera ætti húsleit í Valhöll í ljósi málsins
- Finnst Svandísi Svavarsdóttur fréttir af styrkjunum kveikja tengingar um tengsl við REI-málið og vekji spurningar hvort mútugreiðslur hafi farið fram? Vill hún t.d. tengja styrkgreiðslurnar við mikinn og einlægan áhuga núverandi utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra á því að sameining REI og GGE færi fram á sínum tíma og linnulausum árásum hans á þá sem voru andvígir sameiningu félaganna? Svandís steig fram með afar afdráttarlausum hætti í fjölmiðlum á sínum tíma og skaut í allar áttir en maður veltir því fyrir sér hvort það sama eigi ekki við þegar samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eigi í hlut?
Það blasir við að fjölmiðlar taka með afar ólíkum hætti á málum sem eru um margt sambærileg hjá þessum tveimur flokkum. Í öðru tilfellinu voru heilu fréttatímarnir lagðir undir málið og greinilega mikið á sig lagt til að ná í álitsgjafa og fræðimenn sem vildu gagnrýna málið. Í hinu tilfellinu er nánast ekkert um málið fjallað, enginn fræðimaður er dreginn í viðtal til að rifja upp stóru orðin og yfirlýsingarnar heldur er nánast látið nægja að endurbirta kurteisislega fréttatilkynningu og útskýringar Samfylkingarinnar um málið!
Eitt verður þó ekki af Samfylkingunni tekið – þar kunna menn greinilega til verka í almannatengslunum og fjölmiðlarnir dansa með!
13 ummæli:
Það er kannski dæmigert fyrir Sjálfstæðismenn að sjá ekki muninn á þeim styrkjum sem Samfylkingin tók við og "ofurstyrkjunum" sínum.
Æi farðu ekki að grenja....
Deckard74: Styrkir Sjálfstæðisflokksins voru tveir; 25 milljónir og 30 milljónir. Styrkir til Samfylkingarinnar eru 25 milljónir frá Baugi, 16 milljónir frá Björgólfsfegðum. Þetta eru 55 milljónir á móti 41. Er það styrkir vs. ofurstyrkir? Þetta er auðvitað í grunninn sambærilegt þótt upphæðirnar séu misháar.
Sverrir: Þetta er þægileg leið fyrir þig til að afgreiða málið! af hverju tjáir þú þig ekki frekar efnislega um þetta?
Þetta er áhugaverð samantekt hjá þér Árni. Það er svo kannski umhugsunarinnar virði hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að láta nægja að endurgreiða 14 milljónir, þ.e. muninn á 55 milljónunum og þeim 41 milljónum sem Samfylkingin þáði. Svona úr því að sú fjárhæð virðist algjörlega ásættanleg.
Árni, þú segir:
„Endurgreiðsla þessara styrkja byggir einfaldlega á því mati að rangt hafi verið að taka við styrkjunum á sínum tíma og til að sýna fram á að þessi ákvörðun hafi verið röng er ákveðið að endurgreiða styrkina."
Ef það var rangt að taka við styrkjunum þá hlýtur það að hafa verið rangt að nýta þá. Ef svo er og flokkurinn var í raun bara að geyma þessa peninga þá hlýtur hann vilja að skila peningum með sama verðgildi til baka. Er því eitthvað óeðlilegt að velta því upp hvort ekki sé rétt að flokkurinn greiði verðbætur ofan á styrkina þegar hann skilar þeim?
Það sýnir mikinn vilja að þú skulir reyna að verja Sjálfstæðisflokkinn með því að benda á að Samfylkingin sé næstum því jafn slæm og að fjölmiðlar fjalli ekkert um það. Það hefur ekkert að gera með „glæp“ Sjálfstæðisflokksins þó að vissulega mætti Samfylkingin þurfa að svara betur fyrir sínar syndir.
Árni, þú lítur svo á að meðferð Stöðvar 2 á styrkjamálinu; hatrammri ádeilu á Sjálfstæðisflokkinn en mildi í garð Samfylkingar stafi af því að Samfylkingin hafi á að skipa svo góðum almannnatenglum.
Þú ert orðvar og afar kurteis í ályktunum því sannleikurinn er sá að Samfylkingin þarf enga almannatengla þegar Stöð 2 er annars vegar.
Fréttamenn þar eru upp til hópa hallir undir Samfylkinguna og hika ekki við að koma pólitískum sjónarmiðum sínum á framfæri.
Það er í raun dapurlegt eftir allt sem á undan er gengið í samfélaginu, að á fréttastofu
Stöðvar 2 breytist ekkert. Engin siðbót, engin tilraun gerð til þess að bæta ímyndina með hlutlausum og sanngjörnum fréttaflutningi. Áður var það þjónkun við eigandann
og er kannski enn og síðan augljós og opinská varðstaða fyrir Samfylkinguna.
Andri Ólafsson fréttamaður var með nánast skoplega útreikninga á fyrirhuguðum endurgreiðslum Sjálfstæðisflokksins á styrkjunum frá 2006 og með blöndu af hæðni og vandlætingu kom hann meintri spillingu flokksins örugglega til skila.
Ömurleg fréttamennska þegar litið er til þess, að Samfylkingin fékk í sinn hlut ríflega hundrað milljónir í styrk frá bönkum og útrásarvíkingum á árinu 2006 en siglir lygnan sjó og enginn forystumaður í þeim flokki hefur verið tekinn á beinið af fréttamönnum Stöðvar 2.
Varaformaður Samfylkingar gaf út yfirlýsingu um styrkjamálið þar sem fram kom að styrkirnir væru innan eðlilegra marka og samkvæmt viðtekinni venju og jafnframt
að ekki yrði krónu skilað. Þetta er látið gott heita á Stöð 2.
Það sem ég undrast mest er langlundargeð og allt að því geðleysi formanns
Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar í samskiptum við þessa fréttastöð sem markvisst og opinskátt hallar réttu máli og er styrkjamálið ekki eina dæmið.
Orðum þetta svona:
Af hverju er réttara að greiða nafnverð til baka en raunverð?
Sérstaklega í landi þar sem allir vita að nafnverð og raunverð hluta eru á sífelldu skriði frá hvort öðru.
Elías - þú segir: "Ef það var rangt að taka við styrkjunum þá hlýtur það að hafa verið rangt að nýta þá. Ef svo er og flokkurinn var í raun bara að geyma þessa peninga þá hlýtur hann vilja að skila peningum með sama verðgildi til baka."
Flokkurinn var augljóslega ekki að geyma þessa styrki í þennan tíma - þetta fé lá ekki inn á reikning og safnaði vöxtum eins og mér sýnist þú ýja að. Hvorki Stoðir né nýi Landsbankinn gera kröfu á þetta fé. Þar af leiðandi er eðlilegast að greiða sömu fjárhæð til baka.
Aðalatriðið er að það er engin endurkrafa á málið, það er ekki um neitt lán að ræða og það er ekki neitt tap á móti. Þetta er einhliða ákvörðun um að endurgreiða styrk sem var ekki rétt að taka við á sínum tíma. Ég er ekki sammála því að tala um þetta sem glæp. En þetta var ekki rétt ákvörðun og endurgreiðslan er hluti af því að bæta fyrir það.
Ég skil ekki hvernig er hægt að vera ósammála Árna hérna.
Er virkilega einhver á þessu máli: Eitthvað sem ekki er lán ætti að vera greitt til baka með vöxtum og verðbótum þegar viðtakandinn er ekki einu sinni með kröfu um endurgreiðslu,en á sama tíma ætti Samfylkingin ekkert að vera að stressa sig á þessu af því að heildar styrkupphæðin þeirra var aðeins lægri?
Held að slíkar skoðanir byggi frekar á blindu hatri en lógískri hugsun.
og Krilli, af hverju er réttara að greiða raunverð til baka en nafnverð af einhverju sem viðkomandi ber ekki einu sinni skylda að greiða til baka skv. neinum samningum?
Anna: Hvað kemur raunverð og nafnverð greiðsluskyldu við? Sé enga tengingu þarna á milli.
Ég er auðvitað ekki að tala um glæp samkvæmt bókstaf laganna, enda setti ég glæpinn í gæsalappir. Reyndar vantaði ekki nema örfáa daga upp á að ég gæti sleppt þeim.
Aðalatriðið er ekki að „engin endurkrafa“ sé á málið. Aðalatriðið er að í þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá Sjálfstæðisflokknum vegna málsins, og ummælum fulltrúa hans, hefur falist sú afstaða rangt hafi verið að taka við og þ.a.l. hafa not eða ágóða af milljónunum 55.
55 milljónir eru slatti af peningum og ég geri í öllu falli ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi notið einhvers ávinnings af þeim þó þeir hafi ekki legið inni á bankareikningi flokksins í þessi tvö og hálft ár sem liðin eru frá því að þeir fóru þar inn.
Líklegast þykir mér að flokkurinn hafi notað milljónirnar til þess að greiða niður skuldir sínar og þannig sloppið við vaxtakostnað. Í því hlýtur að felast töluverður ágóði.
Ég skil ekki hvers vegna þú leggur svona mikla áherslu á að „engin endurkrafa“ sé á málið og að það hafi verið einhliða ákvörðun Sjálfstæðisflokknum að endurgreiða. Finnst þér ekki sjálfsagt að flokkurinn skili þessum peningum? Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að skila þessum peningum vegna þess að hann vill það, heldur neyðist hann til þess. Þetta mál kemur lögfræði eða „endurkröfu“ af hálfu FL-Group og Landsbankans lítið sem ekkert við. Rifjum upp af hverju Sjálfstæðisflokkurinn ÞARF að skila þessum peningum.
Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís af því að þiggja háar fjárhæðir af fjármálafyrirtækjum(sumir segja vafasömum), fjárhæðir sem voru hundraðfalt(eða u.þ.b.) það hámark sem kveðið var á um í lögum um fjármál stjórnmálaflokka sem fulltrúar flokksins höfðu þá þegar samþykkt og áttu að taka gildi nokkrum dögum síðar. Eftir að þetta komst upp lýsti flokkurinn sig fullan iðrunar, það hafi verið rangt að taka við þessum peningum og þeir yrðu greiddir til baka. Flokkurinn gat fátt annað gert í stöðunni.
Ef flokkurinn er fullur iðrunar og telur það hafa verið rangt að þiggja peningana, hann hefði aldrei átt að taka við þeim, þá getur hann varla talið það rétt að halda eftir þeim ágóða sem hann hafði af því að þiggja þá. Flokkurinn hlýtur því að vilja skila bæði peningunum og þeim ágóða sem hann hafði af því að þiggja þá.
Ég tek það fram að ég er ekki endilega að fara fram á að flokkurinn greiði „styrkina“ til baka með verðbótum (enda myndi það líklega setja hann á hausinn) heldur bara benda á að það sé ekki alveg fráleitt að fólk skuli setja spurningarmerki við þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið, að greiða einungis 55 milljónir, án verðbóta, til baka og það á sjö árum.
Krilli, þú minntist upphaflega á raunverð vs. nafnverð.
Það er samningsatriði. Hér voru ekki gerðir neinir samningar varðandi endurgreiðslu. Þar af leiðandi er ómögulegt að draga ályktun um það hvort er "réttara" að greiða til baka nafnvirði eða raunvirði.
Skrifa ummæli