Írska þjóðin virðist standa í þeirri trú að hún hafi hafnað Lissabon-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði, þar sem 53% sögðu nei og 47% já. Það er eins og Írar átti sig ekki alveg á því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur innan ESB ganga fyrir sig. Þær eiga bara að fara á ákveðinn hátt, eins og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti og forseti ráðherraráðsins næsta hálfa árið, hefur nú boðað. Hann tilkynnti nýlega að írska þjóðin muni kjósa aftur um sáttmálann, enda fór fyrri atkvæðagreiðslan ekki eins og ætlast var til.
Þetta þarf kannski ekki að koma alveg á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið. Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í kosningu árið 2005. ESB-forystan ákvað þá að setja stjórnarskrána í nýjan búning og kalla hana Lissabon-sáttmálann. Írar felldu sáttmálann en það á greinilega að koma honum í gegn sama hvað tautar og raular. Þetta er hið lýðræðislega Evrópusamband.
Það er mikil umræða hér heima um Evrópu og aðild Íslands. Hún byggir þó nánast eingöngu á óskum um breytingar í gjaldmiðlamálum og tengist þeirri stöðu sem er uppi í efnahagsmálunum. Nú nýlega hafa komið fram raunhæfar og skynsamar lausnir um gjaldmiðilinn, sem t.d. Björn Bjarnason, Þórlindur Kjartansson og Stefán Már Stefánsson, prófessor, hafa talað fyrir. Með þeim er bætt við nýjum valkosti ef farið verður út í að gera breytingar á gjaldmiðlamálum hér á landi. Þær ganga út á aukið samstarf við Evrópusambandið með því að tengja gengi krónunnar við gengi evru, með aðild að ERM II-myntkerfinu.
Þessar tillögur hafa víða fengið heldur harkaleg viðbrögð, t.d. hefur verið talað um villuljós og reyksprengjur. Mér sýnist þó að viðbrögðin einkennist af þeim grundvallarmisskilningi að verið sé að tala um einhliða upptöku evru. Það er ekki rétt með farið heldur er verið að tala um tengingu krónunnar við gengi evrunnar. Á þessu er talsverður munur. Tenging við evruna og samningur um stuðning evrópska Seðlabankans felur í sér að við höldum krónunni sem gjaldmiðli. Því er engin einhliða upptaka eða aukaaðild að evrunni í spilunum. Þetta væri markviss lausn. Hún er ólík því að breyta um gjaldmiðil með fullri aðild að ESB. Spurningin um aðild yrði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti vel endað þannig að aðild yrði felld. Þá yrðum við aftur á byrjunarreit nema að nokkur ár væru liðin.
föstudagur, 18. júlí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Þjóðaratkvæðagreiðslur í ESB eru sennilega um margt líkar kosningum á Kúbu fyrir nokkrum áratugum.
Þar var bóndi nokkur sem kaus mótframbjóðanda Kastró, þrátt fyrir að vera eindregið kvattur til að kjósa "Foringjann".
Síðar um daginn sá hann eftir þessu öllu saman og fór aftur á kjörstað og talaði við starfsmann kjörstjórnar:
Fyrirgefið, en ég vil breyta atkvæði mínu frá því fyrr í dag. Ég nefnilega kaus ekki Kastró.
Starfsmaðurinn svaraði um hæl:
Hafðu ekki áhyggjur. Við tókum eftir mistökum þínum og breyttum atkvæðinu fyrir þig. Passaðu bara að þetta komi ekki fyrir aftur.
Kastró og Sarkozy hafa greinilega líkar skoðanir.
Gaman að sjá þig hér Árni!
bestu kveðjur frá Ungverjalandi,
Eggert Eyjólfsson
Það hlýtur að vera sársaukafullt að vera sífellt að berja höfðinu í vegginn. Lissabon samkomulagið er allt öðru vísi en stjórnarskráin og er málamiðlun á milli þeirra sem voru á móti stjórnarskránni og fylgjenda hennar.
Það er ekkert raunhæft í hugmyndum Björns Bjarnasonar nema það að þetta er tæknilega hægt (eins og flest annað). Það er bara ekki pólitískur vilji til staðar hjá ESB. Geir Haarde hefur útskýrt það ágætlega, það væri eitthvað nýtt ef Sjallar eru hættir að trúa formanni sínum í einu og öllu.
Sjálfstæðismenn eru á góðri leið með að draga okkar ágæta land niður í svaðið með þrjósku og afneitun. Það er ekki skemmtileg hugsun...
IG
Það má reyndar færa rök fyrir því að kosningin á Írlandi hafi ekki verið marktæk vegna þess að kosningaþáttaka var svo dræm (langt undir 45% utan höfuðborgarsvæðisins).
Annars skil ég ekki þessa andúð á sambandinu og að allt muni fara til fjandans ef við göngum þar inn. Mér sýnist þeir sem mest gaspri á móti sambandinu séu oft þeir sem minnst um það vita (þá á ég reyndar ekki við höfund þessa bloggs).
Þú þarft væntanlega að byrja á því að sannfæra þinn eigin formann um þetta. Hann virðist allavega vera ósammála því að hægt sé að fara aðra leið.
Eggert:
Góður!
Nafnlaus:
Það hefur verið sýnt fram á með ítarlegum rannsóknum að Lissabon-sáttmálinn sé nánast algerlega eins og Stjórnarskrá Evrópusambandsins og í öllum grunnatriðum. Þetta hafa síðan ófáir forystumenn innan sambandsins viðurkennt.
Og fyrst þú minnist á svað þá værum við fyrst komin í slíkt ef við gengjum í Evrópusambandið. Hefurðu kynnt þér efnahagsástandið sem víðast hvar er við líði þar á bæ? Það er ekki að sjá.
Jón Grétar:
Ef kosningin á Írlandi er ekki marktæk að þínu mati vegna ónógrar kosningaþátttöku má t.d. segja það sama um kosningar til Evrópusambandsþingsins. Þar þykir það gott ef 40% kjósenda hefur fyrir því að greiða atkvæði og þátttaka hefur minnkað jafnt og þétt.
Þannig að þú ert s.s. að segja að fulltrúarnir á Evrópusambandsþinginu hafi ekki umboð til setu þar enda kosnir í ómarktækri kosningu? Athyglisvert. Og svo talarðu um vanþekkingu annarra á Evrópusambandinu...
Skrifa ummæli