sunnudagur, 27. júlí 2008

Orðskrípið matvælaöryggi

Ég hef aldrei almennilega skilið hugtakið matvælaöryggi sem forysta bændasamtakanna talar sífellt um og forseti Íslands reyndar líka. Matvælaöryggi virðist ganga út á háa tolla og mikinn stuðning við innlenda framleiðslu. Tollar og innlendur stuðningur þýðir hins vegar hærra verð á matvælum og landbúnaðarafurðum hér heima og það má velta því fyrir sér hvernig hátt verð tryggi meira öryggi? Væri það ekki frekar með lágu verði sem slíkt öryggi yrði tryggt? Auðvitað er þetta bara fyrirsláttur hjá þeim sem vilja helst engar breytingar gera.

Svo má spyrja sig að því hvort svona öryggissjónarmið eigi við á fleiri sviðum. Hvað með t.d. samgönguöryggi? Ættum við ekki samkvæmt þessum rökum að framleiða bifreiðar og eldsneyti hér heima til að vera alveg örugg ef eitthvað kæmi upp á? Við erum í dag algerlega háð útlendingum á þessu sviði varðandi innflutning á bílum og eldsneyti. Að vísu eru engar forsendur fyrir því að slík framleiðsla stæði undir sér hér á landi en það hlyti að vera hægt að brúa það bil með tollum og innlendum stuðningi.

Það er löngu orðið tímabært að stokka upp styrkjakerfið í landbúnaði. Ef það næst lending í Doha-viðræðunum, eins og einhverjar vísbendingar eru um núna, þá er það gott mál. Þrátt fyrir að það sé augljóst að gera eigi breytingar á þessu kerfi og mörgum þætti eðlilegast að við Íslendingar gerðum slíkt einhliða, þá er trúlega besta leiðin til að ná sátt um svona breytingar að gera þær á heimsvísu þannig að öll lönd taki á sig ákveðnar byrðar og uppskeri líka á móti í lægra matvælaverði.

3 ummæli:

Jónas Tryggvi sagði...

Já, það væri frábært ef Sjálfstæðisflokkurinn, sem fer núna bæði með tollamál og landbúnaðarmál, myndi andskotast til að lækka tolla á landbúnaðarvörur og reyna að minnka styrki til landbúnaðarins.

Það er amk ljóst að samstarfsflokkurinn mun ekki stöðva það, miðað við hvað hann var að leggja til á síðasta þingi. Núna getið þið ekki skýlt ykkur bakvið Guðna og Framsókn lengur; sýnið okkur að þið séuð ekki bara íhald og breytið þessu kerfi.

Nafnlaus sagði...

Ég sé reyndar ekki betur en að fjárfestingar og stuðningur ríkisins við vetnisverkefni þau sem eru í gangi sé helst rökstuddur með einhverjum hugmyndum um "eldsneytisöryggi" - þar sem markmiðið er að verða síður háður innflutningi. Ekki eru amk mikil efnahagsleg rök fyrir þessum tilraunum...

Nafnlaus sagði...

Skondinn fréttaflutningur verður að segja! Matvælaöryggi....það gleymist í þessari umræðu að til þess að hægt sé að framleiða matvæli(landbúnaðarvöur)hérlendis í þeim mæli sem nú er, þarf aðföng að utan í miklu magni og þá sérstaklega olíu og áburð, fyrir utan allt hitt s.s. innflutt kjarnfóður. Bara í því ljósi er allt tal um matvælaöryggi, tómt lýðsskrum. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur næg um matvæli og einangra okkur frá umheiminum þarf að fækka mannfólkinu hérlendis um svona um 80%. Og fá þeim sem eftir eru reku, rolluhóp og landsskika. Þannig getum við jú víst lifað (hokrað) af landinu líkt og forfeður okkar gerðu. Svona í anda Bjarts í Sumarhúsum.
Hvar er gagnrýnin og upplýst blaðamennska þegar skrumararnir vaða uppi í fjölmiðlum?
kv
Hrollur