laugardagur, 26. júlí 2008

Samsæriskenningar Merrill Lynch

Allir virðast vera með sín eigin svör og kenningar um hvað eigi að gera til að bjarga atvinnulífinu, efnahagsmálunum og bönkunum. Richard Thomas, talsmaður fjárfestingabankans Merrill Lynch, telur að íslensk stjórnvöld séu að vinna eftir einhvers konar samsærisplani um að bankarnir fari í þrot til þess að unnt verði að þjóðnýta þá - aðeins nokkrum árum eftir að bankarnir voru einkavæddir!

Thomas þessi telur að íslensk stjórnvöld hafi ekkert gert fyrir bankana og dregur þessar vafasömu ályktanir af því. Það er auðvitað ekki rétt að ekkert hafi verið gert, því nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. En talsmenn Merrill Lynch eru að hugsa á allt öðrum nótum og í öðrum stærðum. Í vor lagði þetta fyrirtæki til að ríkið myndi "bjarga" málunum með því að kaupa skuldabréf bankanna á eftirmarkaði næstu þrjú árin, en sú aðgerð var verðlögð á nærri því 3000 milljarða króna.

Aðrir setja eðlilega spurningamerki við þann pilsfaldakapítalisma að ríkið (= íslenskir skattgreiðendur) eigi að bjarga einkafyrirtækjum, sem undanfarin ár hafa tekið áhættu í sínum rekstri og skilað miklum hagnaði.

Enn aðrir telja slík viðhorf aftur á móti vera til marks um öfgahægrikreddur og ofurtrú á markaðinn. Það er vandlifað!

Þrátt fyrir þetta verður ríkisstjórnin að vega og meta hvað er í boði og gera það sem hægt er. Slíkar aðgerðir verður alltaf hægt að gagnrýna fyrir að vera of mikið inngrip eða að ganga of skammt. En það er í öllu falli út í bláinn að halda því fram eins og greinandi Merrill Lynch gerir að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt og sé í þokkabót með einhvers konar plott í gangi um að þjóðnýta bankana.

Á vegum stjórnvalda hefur margt verið gert á stuttum tíma til að styrkja stöðuna. Samningar voru gerðir við norræna seðlabanka um lánalínur upp á um 175 milljarða. Þá kynnti ríkisstjórnin aðgerðir á lána-, gjaldeyris- og fasteignamarkaði í júní sem höfðu meðal annars þann tilgang að tryggja að fasteignamarkaðurinn myndi ekki fara í frost. Nú hefur komið fram af hálfu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að þessar aðgerðir samhliða niðurfellingu stimpilgjalda af lánum út af kaupum á fyrstu íbúð hafi haft jákvæð áhrif og markaðurinn tekið eitthvað við sér. Það má heldur ekki gleyma því að skattar á fyrirtæki hafa lækkað úr 18% í 15%. En auðvitað er róðurinn þungur hér á landi eins og annarrs staðar. Íslenskum fyrirtækjum er þó vel treystandi til að sigla í gegnum þetta tímabil og gera réttar ráðstafanir í sínum rekstri.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Auðvitað eru allir sem ekki tala vel um íslenska efnahagsundrið bara óupplýstir kjánar. Vita þeir ekki að Ísland er best í heimi?

Nafnlaus sagði...

Mig langar í "pilsfaldakapitalisma" handa mér og mínum lánum. Þú getur kallað ástandið það sem þér sýnist en ég held að þú ættir að taka hausinn úr rassgatinu á þér og sjá ástandið sem er að skapast í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

...hann talaði um að það LITI þannig út að ríkið væri keyra bankana í þrot. Smá munur ef hann hefði sagt að þeir VÆRU að sigla þá í þrot.

Enda lítur það þannig út að ríkið sé að kafsigla allt í þrot - verðbólgan í sögulegu hámarki, gengið í rugli og til að kóróna allt eru stýrivextirnir 15,5 %.

Bara sorry - ég held bara að ég sé sammála Ríkharði frá ML! Svo er þetta ekki bara einhver frá þeim heldur er hann hátt skrifaður hjá bankanum

kveðja Brynjar

Nafnlaus sagði...

HMMmm

Árni hvar býrðu ? áttu TV , eða ertú með netið , kanski ertú bara að hlusta á Dabba og Geir að segja allt er í lagi og þarf ekki að gera neit .Þess vegna er Íslenska ríkisstjórn í löngu fríi kanski fram að páska og sjá bara til , þetta reddast bara , þetta er algerlega EKKI GERA EKKI NEIT ríkisstjórn ,og allir eru í góðu skapi njóta sumarfríi og loka alþingi þarf ekki að gera neit...sjáðu bandaríkjamenn eru á neyðarfundi núna um helgina og reyna að bjarga sem er hægt að bjarga og svo sjáðu Geir og hans nýjasta JOKER eru í fríi sama og alþingi ....

Takk fyrir

Nafnlaus sagði...

Það er ekkert skrýtið þó að ML sé að draga þessa ályktun. Þetta er það sem markaðurinn heldur og hefur góða ástæðu til.
IG

Nafnlaus sagði...

Kannski mætti athuga að eigandi þessa bloggs er framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna og auðvitað finnst honum fráleitt að einhver útlendingur sé að gagnrýna íslenska efnahagsundrið sem sjallar bera svo glæsilega efni á.

glöggt er gestsaugað - held að það sé búið að sanna sig...

Brynjar