Hugmyndir Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, um að afnema verðtryggingu hér á landi eru pópúlismi. Gísli ætti að vita að verðtrygging er samningsatriði, þ.e. fólk hefur val um að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán og það sem meira er að rannsóknir hafa sýnt að verðtryggð lánakjör skila neytendum oft betri kjörum.
Allir lánasamningar verða að taka mið af verðbólguþróun. Verðtryggð lán hafa lægri og yfirleitt fasta vexti því verðtryggingin veitir lántakanum tryggingu fyrir verðbólguhækkunum. Óverðtryggð lán hafa aftur á móti hærri og breytilega vexti til þess að koma til móts verðbólguna.
Það sem meira er þá hafa rannsóknir fræðimanna á þessu sviði sýnt að verðtryggð lán bera lægri raunvexti heldur en óverðtryggð lán. Hagur neytenda af því að afnema verðtryggingu, sem væri væntanlega gert með því að banna hana með lögum, er því alls ekki augljós. Þessu þarf Gísli að velta fyrir sér sem hagsmunaaðili neytenda. Hann gæti líka glöggvað sig á málinu með því að lesa greinar sem hafa verið skrifaðar um þessi mál á Deigluna (hér og hér). Svo tók Vefritið sig til fyrir nokkru síðan og birti stórgóðan greinaflokk um verðtryggingu.
Össur gagnrýnir eigin aðferðir
Össur Skarphéðinsson skrifar um stöðu mála í borginni og líkir stöðu Ólafs F. Magnússonar við það þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Hann segir að
á sínum tíma hafi það verið „í andstöðu við lýðræðislega tilfinningu þjóðarinnar þegar Halldór Ásgrímsson var með hrossakaupum leiddur til æðstu valda í ríkisstjórninni. Hann var forystumaður dvínandi flokks, og naut í könnunum ekki nema fylgi örlítils hluta þjóðarinnar.“
Er þetta ekki skrifað af sama manni og var formaður Samfylkingarinnar árið 2003 og bauð Halldóri Ásgrímssyni að gerast forsætisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins að loknum kosningum?
þriðjudagur, 29. júlí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Verðtryggingin er og hefur verið ,,samningsatriði" í lánsviðskiptum frá setningu lagana.
Fyrir ekki svo mörgum árum var bannað að verðtryggja lán til skemmri tíma.
ÞÁ FYRST HÆTTU bankar og lánastofnanir að setja inn ákvæði þar um.
Hvergi í siðmenntuðum heimi er svona nokkuð leyft og ber því að afnema strax, banna með lögum og efla mjög bankaeftirlit. Það er afar óeðlilegt sem gerist á ,,Markaðinum" nú um stundir og nægir að skoða hvernig ÖÐRUM KRÖFUHÖFUM er mismunað gróflega við greiðsluerfiðleika. Sjá Mest.
Nei minn ljúfi Sjálfstæðismaður og Flokksbróðir, þú þarft að læra MIKIÐ til að skilja það sem menn á borð við Einar heitinn Odd, skildu mæta vel, það er, að við búum allir í Mannheuimum, hvar við erum undirseldir Höfuðsyndunum Sjö, hvar Græðgi og Lygi eru nokkuð þekktar.
Græðgi sumra elur af sér Lygina, sem notuð er til að dylja Hrokann og slá ryki í augu manna.
Þeir sem náð hafa þeim þroska, að geta séð framhjá glysi og prjáli, líkt og Einar minn gerði svo auðveldlega vita hið sanna og geta notað þekking sína til að snúa á siðblindingjana.
Vonandi nærð þú þeim þroska sem fyrst en svo mun ekki, ef tekið er eingöngu mið af skrifuð þínum hér að ofan um hvað vaki fyrir þeim sem vilja viðhalda Vertryggingu. Mundu að Lobbýistarnir njóta oft lítils af því sem herrar þeirra fá í mal sinn.
Miðbæjaríhaldið
vill að menn gjöri rétt en þoli ei órétt.
Skrifa ummæli