föstudagur, 27. febrúar 2009

Svartir svanir

Ég er að lesa merkilega bók sem heitir The Black Swan eftir Nassim Nicholas Taleb og hefur fengið mikla athygli. Taleb hefur unnið í fjármálaheiminum en hefur menntun í bókmenntum og tölfræði og myndi líklegast flokkast sem heimspekingur.

Í stuttu máli lýsir Taleb því í bókinni hvernig þær aðferðir og leiðir sem fólk hefur við að mynda sér skoðun og safna að sér þekkingu séu afar gloppóttar þar sem við gerum nánast aldrei ráð fyrir hinu óþekkta og óvænta, sem komi fyrir vikið alltaf jafnmikið á óvart. Titill bókarinnar skýrir þetta ágætlega og vísar í að flestir trúðu því að allir svanir væru hvítir, alveg þar til að fyrsti svarti svanurinn flaug framhjá og gerbreytti þar með hugmyndum okkar um svani.

Sama telur Taleb að eigi við um marga af þeim stórviðburðum sem orðið hafa undanfarin ár og áratugi, þeir hafa allir komið okkur í fullkomlega opna skjöldu og gerbreytt öllum okkar forsendum og þekkingu. Engu að síður freisti fólk þess aftur og aftur að reyna að útskýra heiminn með alhæfingum og kenningum, búa til orsakasamhengi og skýra og skilja það sem er að gerast þannig að úr verður mikil félagsvísinda- og samfélagskenningasmíð. Það sé allt gott og blessað fyrir utan að hvergi sé gert ráð fyrir hinu óþekkta og menn beinlínis telja sig ekki þurfa að reikna með því.

Skrif hans hafa vakið töluverða athygli enda fer hann gegn miklu af því sem telja má til almennra sanninda og viðtekinnar speki hverju sinni. Hann var meðal þeirra sem spáði fyrir um það fyrir nokkrum árum að hið alþjóðlega fjármálakerfi myndi fara á hliðina.

Þessi skrif eru athyglisverð í tengslum við atburði líðandi stundar. Heimsbyggðin er nú lent í mikilli niðursveiflu og kreppu eftir mörg góð ár á undan, þar sem lánsfé var nægt og markaðsbúskapurinn blómstraði. Þetta uppgangsskeið hefur auðvitað smitað út frá sér og skapað ákveðið andrúmsloft og sannfæringu hjá mörgum um að fundin hefði verið upp einhvers konar eilífðarvél – kerfi sem gæti gengið áfram og áfram og myndi aldrei bila. En þá gerðist hið óvænta og ófyrirséða, þ.e. að vantraust tók að grafa um sig í kerfinu, lánamarkaðir að lokast og alþjóðavætt fjármálakerfi heimsins tók að sogast inn í kreppu.

Eftir á er vitaskuld auðvelt að búa til allskonar skýringar og kenningar um ástæður þess að svo fór sem fór og það merkilega er að nú byggja menn sig upp gagnvart framtíðinni með því að horfa í fortíðina. Þannig eru nú að rísa múrar milli þjóða og eftirlitsapparöt að skjóta upp kollinum til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti tekið stundað áhættusamar fjárfestingar og spilað djarft í sínum rekstri. Allt eru þetta auðvitað eðlileg viðbrögð upp að vissu marki en spurningin er bara sú hvort að þetta sé ekki einskonar leiðrétting aftur á bak, þ.e. settur er upp viðbúnaður og stofnanir sem hefði verið ákaflega gagnlegt að hafa fyrir tveimur til þremur árum áður en allt fór á hliðina en munu kannski bjarga litlu sem engu núna þegar skaðinn er skeður.

Evrópusambandið er ekki undanskilið að þessu leyti og kynnti á dögunum skýrslu nefndar á vegum Jacques Delarosier. Hún gengur í stuttu máli út á að búa til ýmis konar stofnanir og viðbúnað til þess að sporna við því að samskonar ástand myndist og gerðist fyrir nokkrum misserum, þ.e. þar sem saman fór mikil áhættusækni fjármálafyrirtækja og veikt eftirlit. Þannig verður meðal annars sett á laggirnar eitthvað sem nefnist European Systemic Risk Council, sem útleggst á íslensku sem Evrópskt kerfisáhætturáð og á að fylgjast með því og láta þar til greinda aðila vita telji ráðið að áhættan sé farin að verða of mikil.

Angi af þessum hugmyndum teygði sig hingað heim um daginn og inn í íslenska pólitík þar sem viðskiptanefnd Alþingis tók þessa skýrslu til umfjöllunar. Mikið fár varð yfir því að nokkrir nefndarmanna vildu renna nánar yfir þetta plagg, sem ljóst er að mun móta þær reglubreytingar sem framundan eru í Evrópu og var einn nefndarmanna, Höskuldur Þórhallsson úr Framsóknarflokknum, tekinn sérstaklega út fyrir og því slegið upp sem stórmáli að hann hafi viljað taka nokkra daga í að yfirfara efni þessarar skýrslu. Höskuldur sat undir ýmis konar ásökunum og spurningum í einkaviðtali í Kastljósi um kvöldið og þetta virtist valda gríðarlegum titringi á stjórnarheimilinu.

Höskuldur stóð það stormvirði ágætlega af sér en var aftur á móti lentur í þeirri stöðu að verða að réttlæta öll lætin sem höfðu orðið út af þessari skýrslu. Hann virðist hafa litið svo á að þar sem hann hafi tekið á sig pólitískt högg fyrir þá ákvörðun að vilja fara yfir efni skýrslunnar í nokkra daga hafi hann orðið að vinna einhverjar tillögur og hugmyndir upp úr henni. Út úr því kom sú hugmynd hans að peningastefnunefnd Seðlabankans eigi að fá þá skyldu samkvæmt lögunum að tilkynna um það opinberlega ef hún telji að fjármálaleg áhætta sé farin að verða of mikil.

Þessi tillaga, sem var samþykkt á þingi, kemur inn sem fullkominn bútasaumur ofan í Seðlabankafrumvarpið sem hafði þó tekið einum 16 eða 17 breytingum fyrir. Peningastefnunefndin á nú að vera í þeirri stöðu að gefa einhvers konar almennar viðvaranir ef áhættan á mörkuðum er orðin of mikil. Við þetta er margt að athuga og kannski fyrst og fremst það að samkvæmt öllu öðru sem fram kemur í frumvarpinu um hlutverk þessarar nefndar hefur hún enga möguleika eða forsendur til að afla sér nægilegra upplýsinga um stöðuna á fjármálamörkuðum til að geta gefið út svona viðvaranir. Að því ógleymdu hvaða áhrif það hefði ef opinber tilkynning myndi birtast um að of mikil áhætta væri komin í fjármálakerfið – hér færi allt í panikk! Hin hliðin á peningnum er svo að ef svona yfirlýsing kemur ekki frá peningastefnunefndinni má væntanlega álykta sem svo að allt sé í lagi.

Þetta er allt hið furðulegasta mál og ágætis dæmi um hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni. Út í Evrópu er sett í gang nefnd til að móta tillögur um breytingar á reglum. Tillögurnar miða flestar við að setja upp viðbúnað sem hefði verið ákaflega gott að hafa fyrir nokkru síðan en veitir enga sérstaka tryggingu fyrir því að næsta óvænta og ófyrirséða atburðarrás muni ekki valda vandræðum og skaða. Þessar hugmyndir og tillögur evrópsku nefndarinnar smitast svo út um heiminn og enda hér heima þar sem þingmaður lendir í þeirri stöðu að neyðast til að vinna einhverjar tillögur upp úr skýrslunni og bæta inn í á síðustu stundu.

mánudagur, 23. febrúar 2009

Hrun íslenska lýðveldisins?

Íslenska lýðveldið er ekki hrunið. Og það á ekki að tala þannig.

Við eigum vissulega í efnahagslegum erfiðleikum og það eiga margir um sárt að binda í kjölfar hruns bankanna en við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum á nokkrum árum. Trúlega verður staðan á næsta ári strax orðin mun skárri.

Það virðist hins vegar henta ákveðnum aðilum og þeirra málflutningi að tala á þann hátt að íslenska lýðveldið sé hrunið og stjórnarskráin okkar svo meingölluð að hana þurfi að endurskrifa frá grunni.

Lýðveldið, sjálfstæði þjóðarinnar og mannréttindi stjórnarskrárinnar eru einmitt okkar vörn og skjöldur á þessum erfiðu tímum. Þegar sú staða kemur upp að stjórnvöld taka ákvarðanir með miklum hraða og trekk í trekk er vélað um gríðarlega hagsmuni þjóðarinnar á næturfundum á þingi, lagafrumvörp t.d. lögð fram að kvöldi og samþykkt að nóttu osfrv. er plagg eins og stjórnarskráin sérstaklega mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að því verður ekki breytt svo auðveldlega.

Fullyrðingar um að íslensk stjórnskipan og íslenska stjórnarskráin séu ónýt eru notaðar til þess að rökstyðja hugmyndir um stjórnlagaþing. Ég er efins um þá aðferð. Bæði finnst mér ekki tilefni til þess að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni og þær breytingar sem á henni þarf að gera er eðlilegra að Alþingi geri.

Margir þeir sem tala fyrir breytingum á stjórnarskránni nefna að efla þurfi Alþingi og hlutverk þess gagnvart framkvæmdarvaldinu en það væri nokkuð undarleg byrjun við að efla þingið að taka frá því eitt mikilvægasta hlutverk sitt, þ.e. stjórnarskrárvaldið.

Í greinargerð með frumvarpinu um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram segir að Alþingi hafi ekki getað gert þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar hafi verið. Þetta er umdeilanlegt því stjórnarskránni var breytt árið 1991 (breytingar á ákvæðum um Alþingi), 1995 (mannréttindakaflinn endurskoðaður) og 1999 (kjördæmaskipan breytt) - alls þrisvar á síðustu 18 árum. Þetta eru t.d. mun tíðari breytingar en í Danmörku þar sem stjórnarskránni var síðast breytt 1953 (tek fram að það er fullmikil hægagangur fyrir minn smekk!). En það er beinlínis æskilegt að það sé erfitt að breyta stjórnarskránni, það er hluti af tilgangi hennar. Stjórnarskráin er skjalið sem geymir grundvallarreglur þjóðarinnar og á að vera yfir það hafið að taka grundvallarbreytingum eftir því hvernig vindar blása hverju sinni.

Í greinargerðinni með frumvarpi Framsóknarmanna um stjórnlagaþing er talað um að ýmis fordæmi séu fyrir því að endurskrifa stjórnarskrá þjóða frá grunni og er til dæmis vísað í reynslu A-Evrópuþjóða sem endurskrifuðu stjórnarskrár sínar eftir hrun kommúnismans.

Hvernig menn fá það út að aðstæður okkar núna séu sambærilegar við aðstæður þessara þjóða er óskiljanlegt og gerir eiginlega lítið úr þeim hörmunugum sem þær upplifðu. Þjóðir A-Evrópu voru að losna undan áratugalangri kúgun og ofbeldi og þjóðfélagsskipan sem hafði verið neytt upp á þær og í reynd aldrei verið í höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þessara þjóða að móta sína eigin stjórnarskrá. Það höfum við hins vegar gert og þar að auki gert á henni ýmsar breytingar og betrumbætur. Þingið hefur það í hendi sér að gera slíkar breytingar og það væri til þess fallið að veikja þingið og áhrif þess að þetta mikilvægasta hlutverk þess væri frá því tekið.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Byggðastofnun á sterum?

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um lánaviðmið sem sett verði bönkunum nýju. „Ríkisstjórnin mun setja nýju bönkunum útlánamarkmið vegna ársins 2009 til að örva hagkerfið.

Þetta ákvæði hefur ekki vakið mikla athygli, enda lætur það ekki mikið yfir sér. Jóhanna og Steingrímur töluðu um það á þingi á dögunum að þetta yrði kynnt nánar fljótlega og bentu á að þetta væri hluti af því sem væri að gerast annars staðar í heiminum.

Það er rétt hjá þeim. En það er ekki endilega víst að þetta sé þróun sem er öllum að skapi. Víða í Evrópu hefur ríkisvaldið þurft að stíga inn í rekstur banka og veita til þeirra fé til að bjarga frá gjaldþroti. Eigið fé bankanna er því víða í reynd ríkisfé.

Þetta skapar auðvitað ráðríkum stjórnmálamönnum mikil sóknarfæri. Þetta er almannafé og þeir eru fulltrúar almennings. Það þýðir að kröfur eru farnar að koma fram um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, þ.e. þann sem er pólitískt réttur hverju sinni.

The Economist skrifar leiðara um þetta í síðustu viku og bendir á að í Evrópu séu þegar farnar að koma fram kröfur um að bankarnir láni á ákveðinn hátt, t.d. til að tryggja að störfum sé haldið í heimalandinu og að lánað sé til ákveðinna fyrirtækja osfrv. Þetta er komið fram í Þýskalandi og í Frakklandi.

Þetta er auðvitað alger góssentíð fyrir stjórnmálamenn. Þeir geta sem eigendur bankanna birt þeim sínar áherslur og óskir um hvert fjármagnið eigi að fara, í hvaða gæluverkefni sé rétt að lána „björgunarféð sem var sett inn í bankana. Það verður gæfulegt, eða hitt þó heldur, ef menn munu fara með bankana sem pólitíska styrkjasjóði eða ofvaxnar Byggðastofnanir, lánandi vildarvinum í kjördæmunum. Það á að setja nærri 400 milljarða króna inn í þessar stofnanir.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Seðlabankinn og framtíðin

Það er ævintýralegt hvernig púðrinu er eytt í að ræða og rífast um allt annað en það sem skiptir máli. Nú er það Davíð Oddsson og framtíð hans sem allt snýst um. Þetta er fráleitt ástand – persóna eins manns á hvorki að valda því að menn verji óbreytt ástand né sjái brottrekstur hans sem svarið við vanda þjóðarinnar. Og það er auðvitað alveg út í hött að sjá hvernig fjölmiðlarnir magna þetta upp. Fréttamenn Stöðvar 2 eyddu heilum degi í að elta Davíð og bíl hans. Frábært framlag inn í brýna þjóðfélagsumræðu!

Fyrir liggur að gera þarf breytingar á starfsemi Seðlabankans og þær hljóta að snúa að framkvæmd peningamálastefnunnar. Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki bitið á stórum hluta lánamarkaðarins undanfarin ár. Bankinn hefur beitt stýrivöxtunum en aðeins náð til mjög afmarkaðs hluta markaðarins.

Seðlabankastjóri, hvort sem hann er Davíð Oddsson eða einhver annar og hvort sem hann starfar með peningastefnuráði eða bankaráði, mun standa frammi fyrir sömu vandamálunum.

Undanfarin ár myndaðist hér ákveðinn vítahringur sem við náðum illa að brjótast úr. Þensla varð til þess að bankinn hækkaði stýrivexti sem olli því aftur að hið háa vaxtastig varð álitlegur fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta. Erlenda fjármagnið jók á þensluna en bankinn átti erfitt með að breyta um kúrs. Það var illmögulegt fyrir bankanna að lækka vexti í miðri þenslu en að sama skapi voru vaxtahækkanir skammgóður vermir því enn meira fjármagn streymdi inn í landið í kjölfarið.

Þetta var þó ekki orsök þess að bankakerfið hér heima fór á hliðina en þetta olli miklu ójafnvægi í okkar þjóðarbúskap. Aðalorsök bankahrunsins var sú gríðarlega áhætta og lánakeyrða útrás sem bankarnir höfðu tekið sem kom svo á daginn að þeir réðu ekki við þegar lánamarkaðir snöggkólnuðu og lánalínur voru dregnar til baka. Stuðningur Seðlabankans við bankana og hlutverk hans sem lánveitandi til þrautavara er svo önnur saga - þar er bankinn ýmist gagnrýndur fyrir að hafa ekki veitt nægilega aðstoð og jafnframt að sú aðstoð sem þó var veitt í formi lána og neyðarlána hafi tapast í afskriftum.

En svona rifrildi - þ.e. hvort bankinn hafi lánað of lítið eða of mikið, hvenær hefði átt að fara að lækka vexti aftur og hve hár gjaldeyrisvaraforðinn hefði þurft að vera eru allt saman atriði sem lítið státar að rífast um núna. Við göngum í gegnum mestu kreppu í heila öld og niðurstaðan er ljós. Það er engu að síður ekkert nema eðlilegt að gerðar séu breytingar á því kerfi sem var til staðar þegar þessar hamfarir gengu yfir. Þær breytingar verða hins vegar að skapa varanlega undirstöðu en ekki vera eingöngu til þess að friðþægja óánægjuröddum í skamman tíma.

Hvernig tökum við t.d. á því eftir nokkur ár ef hlutabréfaverð fer að hækka, fjármálafyrirtækin að eflast og fasteignaverð að stíga upp á við, svo dæmi sé tekið? Á þá að byggja á sömu bjargráðunum, þ.e stýrivöxtum Seðlabankans og íslensku krónunni en treysta á að einföld mannabreyting í forystunni muni leysa málið?

Ég hef ekki, frekar en aðrir, töfralausnina fyrir peningamálastefnu okkar til framtíðar. Við blasir að núverandi ástand gengur ekki upp. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils eða upptaka evru með inngöngu í ESB eru þeir valkostir sem helst koma til greina. Ný ríkisstjórn virðist ekki hafa áhuga á að kanna þá möguleika nánar; Samfylkingin setti umsókn um ESB-aðild á ís til vors amk. og það virðist helst vera í prívatsamtölum Steingríms Joð og Kristínar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs sem einhliða upptaka annars gjaldmiðils er til umræðu. Aðrir í ríkisstjórninni minnast varla á þetta. Í staðinn fer orkan í eltingarleik við Davíð Oddsson, bréfaskriftir og einhverja leiki í fjölmiðlum.

Þetta er ekki gæfulegt ástand!

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Langreyðastjórnin

Það verður fróðlegt að sjá hvað stendur eftir hjá nýju ríkisstjórninni þegar og ef þeim tekst að ljúka sínu helsta stefnumáli og eiginlegum grundvelli ríkisstjórnarsamstarfsins, þ.e. að reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum.

Öllum er ljóst að framundan eru mikilvæg verkefni og eitt þeirra eru atvinnumálin. Stjórnin virkar einkar ósamstíga þar. Steingrímur J. hefur lýst því yfir að hann ætli að endurskoða reglugerð sjávarútvegsráðherra um veiðar á hrefnu og langreyði í atvinnuskyni en fyrir liggur að ekki er þingmeirihluti til þess. Þingflokkar sjálfstæðismanna, frjálslyndra og framsóknarmanna eru allir fylgjandi þessum veiðum sem er klár meirihluti, allt í allt 36 þingmenn auk Guðbjarts Hannessonar í Samfylkingunni, sem kemur þessi væntanlega upp í 37 þingmenn.

Yfirlýsing umhverfisráðherra um að endurnýja ekki viljayfirlýsingu stjórnvalda um álver á Bakka styðst heldur ekki þingmeirihluta. Hluti Samfylkingarinnar er á móti þessu, þ. á m. iðnaðarráðherrann sjálfur auk þess sem þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins styðja líka framkvæmdir á Bakka. Á það hefur verið bent að þetta mál sé ekki áríðandi á næstu vikum vegna þess að Alcoa sé í vandræðum með fjármögnun verkefnisins og það kann að vera rétt en aftur á móti mun þetta mál koma inn á borð nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum og þá þarf að taka varanlega ákvörðun um hvort framlengja eigi samstarfið við Alcoa. Núgildandi viljayfirlýsing rennur út í haust og fyrir þann tíma þarf að vera búið að taka ákvörðun um þetta.

Undanfarin ár hafa mál eins og álver og hvalveiðar ekki verið ofarlega á dagskrá í umræðunni vegna þess að við höfum ekki verið í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega á fleiri störfum að halda. Þegar atvinnuleysi er 1-2% þá þarf ekki að hafa stórar áhyggjur af því að skapa ný störf. Hagkerfið sér um það sjálft. Þegar yfir 13 þúsund manns eru komin á atvinnuleysisskrá hlýtur myndin að breytast - í það minnsta þannig að atvinnutækifæri eins og hvalveiðar og álver séu ekki slegin sjálfkrafa út af borðinu.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Hvað varð um Evrópuskilyrðin?

Þann 13. desember sagði formaður Samfylkingarinnar í viðtali í Vikulokunum að ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki breyta um stefnu í Evrópumálum væri stjórnarsamstarfi flokkanna sjálfhætt. Samfylkingin vildi m.ö.o ekki tilheyra ríkisstjórn sem myndi ekki setja stefnuna á ESB-aðild.

Í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar segir eftirfarandi um ESB:

"Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Með öðrum orðum: hvað varð um Evrópuskilyrðin?

Tengist þessi augljósa eftirgjöf Samfylkingarinnar eitthvað þeirri staðreynd að ESB-aðild er ekki lengur vinsæl í könnunum?

Pawel Bartoszek skrifar góðan pistil um þennan flótta Samfylkingarinnar á Deiglunni um daginn sem heitir "Listin að fokka upp eigin málstað" og lýsir ágætlega hvernig stundarhagsmunir og taugaveiklun ollu því að Samfylkingin henti því tækifæri út um gluggann að þoka Íslandi inn í Evrópusambandið. Lokaorðin eru svona:

"Á nokkrum dögum í janúar fór Samfylkingin svo á taugum og sleit því samstarfi sem líklegast var til að leiða ESB-umsókn Íslands til lykta. Út frá sjónarhóli Evrópusambandssinna er staðan nú þessi: Í stað þess að hafa ríkisstjórn Samfylkingarinnar og evrópuhneigðs Sjálfstæðisflokks sjáum við fram á stjórn höfuðlausra krata og hins þjóðlega kommaflokks. Það sem meira er, við sjáum fram á kosningar með líklegri framrás hinna ESB-tortryggnu vinstri grænna og Sjálfstæðisflokki sem er mun minna opinn gagnvart ESB en ella hefði verið. Ekkert af þessu er ESB-aðild Íslands til framdráttar."