þriðjudagur, 2. september 2008

Flókið tæknidrasl

Ég keypti mér nýjan síma um daginn eftir að sá gamli hafði endanlega gefið upp öndina, tveir takkar dottnir af og batteríið entist í mesta lagi tíu mínútur á góðum degi.

Sá nýi er með betri rafhlöðu og heilt takkaborð. Hann er hins vegar alveg óþolandi flókinn. Aldrei geta fyrirtæki framleitt svona græjur og haft þetta bara þokkalega einfalt!

Það tók mig til dæmis ca. hálftíma að finna hvar ég gæti skipt út Nokia-hringingunni sem er valin fyrir mann. Á endanum fann ég leiðina. Það er gert með því að fara í Valmynd, svo Verkfæri, svo Stillingar, svo Almennar, svo Sérstillingar, svo Tónar og þá fann ég Hringitónn.

Sem sagt sjö þrepa ferli til að breyta um hringingu. Það væri varla hægt að hafa þetta mikið flóknara.

En svona eru þessar græjur framleiddar. Ég sá í sumar á 60 Minutes innslag um hve miklum vandræðum flókin tæki valda venjulegu fólki. Tækin eru yfirleitt hönnuð og hugsuð af sérfræðingum sem standa í þeirri trú að fólk hafi ekkert skemmtilegra að gera en að dunda sér við að læra á græjurnar sem þeir framleiða.

Í innslaginu var talað við einhvern frústreraðan tækjakaupanda sem hélt því fram að það væri bara fyrir verkfræðiprófessora að skilja svona græjur. Fréttamaðurinn fór þá og heimsótti prófessor í verkfræði í MIT-háskólanum og spurði hann út í hvernig honum gengi að ráða við heimilistækin. Svarið við því var einfalt - prófessorinn sagðist ekkert skilja í svona græjum og hringdi alltaf á viðgerðarmann þegar eitthvað færi úrskeiðis!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Örugglega HTC sími... er með einn 60 þúsund króna HTC síma í skúffunni sem ég keypti fyrir ári - algert drasl með MS stýrikerfi :S