þriðjudagur, 2. september 2008

Ný skoðanakönnun og pólitískt Morgunkorn

Samfylkingin fer fram úr Sjálfstæðisflokknum í nýjustu könnun Capacent með því að bæta við sig fjórum prósentustigum milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn stendur hins vegar í stað milli mánaða með 32%. Þetta eru þó nokkur tíðindi þó munurinn á flokkunum sé vel innan skekkjumarka. Samfylkingin tók fram úr Sjálfstæðisflokknum nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili, síðast í janúar 2005, rétt áður en Ingibjörg felldi Össur af stóli formanns. Þessi könnun er því ábyggilega kærkomin fyrir hana.

Ef maður rýnir í könnunina þá virðist Samfylkingin næla þessum prósentustigum frá VG, sem lækkkar úr 22% í 19% milli mánaða og þar hefur trúlega ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að setja Bakka í umhverfismat áhrif. Það virðist vera talsvert flæði kjósenda milli VG og Samfylkingarinnar sem ræðst af því hvernig umhverfismálin þróast. Stóra spurningin er samt hvar sá hópur endar þegar álver á Bakka og í Helguvík verða komin í gang.

Hitt stóra málið í ágúst voru meirihlutaskiptin í borginni. Þriðju meirihlutaskiptin á tímabilinu sköpuðu eðlilega ákveðinn pirring hjá borgarbúum sem Samfylkingin naut góðs af dagana eftir meirihlutaskiptin.

En könnunin er tekin yfir allan mánuðinn og sýnir að meirihlutinn er að sækja í sig veðrið. Hann nýtur stuðnings 33% borgarbúa skv. könnuninni en í könnun í ágúst naut meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista stuðnings 16% borgarbúa. Stuðningur við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er líka að aukast og segjast nú um 40% borgarbúa vera ánægðir með hennar störf. Það sýnir mikinn styrk eftir atburði síðustu mánaða, þó þetta sé auðvitað alltof lágt fylgi.

Á landsvísu þarf það ekki að koma á óvart að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé lægra en menn eigi að venjast. Það eru erfiðar aðstæður í efnahagslífinu sem kjósendur tengja við flokkinn. Undan því verður ekki skorist. Þegar ástandið batnar mun staða flokksins í könnunum lagast.

Þingið hefst í dag með því að forsætisráðherra flytur þinginu skýrslu um stöðu efnahagsmála. Það var athyglisvert að sjá Morgunkorn Glitnis í dag en þar er gagnrýni stjórnarandstöðunnar og annarra á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar tekin til umfjöllunar. Greining Glitnis telur tal um aðgerðarleysi orðum aukið og segir m.a. að þegar litið sé í baksýnisspegilinn komi á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði þótt ótímabært sé að leggja hendur í skaut.

Hvað sem mönnum finnst um þær aðgerðir sem farið hefur verið út í, þá er varla hægt að tala um aðgerðarleysi þegar litið er yfir listann af því sem gert hefur verið á árinu. Vandinn er vissulega fyrir hendi en stjórnvöld hafa með ýmsu móti auðveldað fyrirtækjum og einstaklingum að sigla í gegnum þetta tímabil.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vafasamt er að bera svona saman skoðanakannanir og tengja við breytingar í stjórnmálunum. Kannanir með mjög mismikilli svörun eru ekki samanburðarhæfar.

Nafnlaus sagði...

Þetta mun eitthvað batna, en því miður er það þannig að fylgið mun ekki fara mikið upp.

Það er "ÁFERÐ" aðgerðaleysis og útúrsnúninga sem verið er að mótmæla. Hægt væri að snúa þessu við með því að tala og skýra mál.

Ég kem úr hópi atvinnurekenda og menn í þeim hópi eru almennt lítið hressir með áferð og aðgerðir. Þannig mætti fjármálaráðherra t.d. hætta útúrsnúningum og byrja að skýra mál sitt.

Það kann að vera rangt mat í þetta sinn að óákveðja fylgið snúist til XD, til þess er stefnan í mörgum málum þmt EB og Evru með þeim hætti að hún vekur litla kátínu fagmanna.

Mikilvægt að þið yngri menn farið að taka af skarið.