Ég er ekki viss um að stjórnarandstaðan, með Steingrím Joð í broddi fylkingar, hafi innistæðu fyrir því að tala um að það hafi verið stórkostleg mistök að efla ekki gjaldeyrisvaraforðann hraðar eða meira.
Steingrímur og þingflokkur VG fluttu t.d. frumvarp í mars þar sem lagt var til að gjaldeyrisvaraforðinn yrði aukinn um 80 milljarða króna. Á þeim tíma hefði slík aukning þýtt að varaforðinn hefði farið upp í 250 milljarða króna, þ.e. helmingurinn af því sem hann er orðinn nú. Í greinargerð með frumvarpinu skrifuðu þingmenn Vinstri grænna meðal annars að ef öll þessi aukning gjaldeyrisvaraforðans og 40 milljarða kr. innlent skuldafjárútboð að auki yrði nýtt til að auka eigið fé Seðlabankans „væri þar orðið um mjög mynduga aðgerð að ræða sem sýndi einbeittan vilja af hálfu stjórnvalda til að treysta undirstöður fjármálastofnana, gjaldmiðilsins og hagkerfisins í heild með öflugum Seðlabanka sem bakhjarli.“
Eftir tíðindi gærdagsins er varaforðinn kominn upp í rúmlega 500 milljarða króna, tvöfalda þá upphæð sem Steingrímur og félagar töldu vera dæmi um mjög mynduga aðgerð á sínum tíma.
Svo því sé til haga haldið þá áttaði Steingrímur sig greinilega á því fljótlega eftir að frumvarpið var lagt fram að talan væri fulllág og tók það fram í ræðu sinni þegar frumvarpið kom til umræðu.
Í ræðunni á flokksráðsþingi VG í Borgarfirði um helgina ætlaði hann greinilega ekki að láta hanka sig á þessu aftur og talaði um að forðinn yrði að vera orðinn 60-75% af landsframleiðslu. Það jafngildir ca. 900-1200 milljörðum króna og því að hugmyndir VG um nægilegan varaforða hafa hækkað um allt 900 milljarða króna á skömmum tíma.
Það er því ekki mjög sannfærandi þegar stjórnarandstaðan talar um það sem stórkostleg mistök að stjórnvöld hafi ekki lúrað á þúsund milljarða gjaldeyrisvaraforða í mörg ár.
miðvikudagur, 3. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þetta eru nú rök skrattans þegar hann mótmælir biblíunni. Þegar VG lagði þetta til var gengið allt annað en í dag og stærsti hluti aukningarinnar sem þið íhaldsmenn stærið ykkur af eru tilkominn vegna gengisfellingar. Hver er gjaldeyrisvarasjóðurinn í evrum, hver var hann í evrum í byrjun mars og hver væri hann ef hlustað hefði verið á stjórnaranstöðuna?
Haldið svo yfirdrættinum hjá Seðlabönkum norðurlanda fyrir utan þennan reikning, það er enginn í dag nema seðlabankastjóri sem telur yfirdrátt til tekna.
Slappur pistill hjá þér. Þú hlýtur að geta betur. Steingrímur var einfaldlega vakandi á meððan þínir menn sváfu hinum sterka svefni góðærisvímunnar.
Ykkur væri nær að þakka honum fyrir að hafa séð þetta fyrir allt saman og biðja þjóðina síðan afsökunar á ruglinu og seinaganginum.
Skrifa ummæli